Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Uppreist æru felur í stuttu máli í sér að fá að njóta aftur réttinda sem glatast við það að fá fangelsisdóm. Sem dæmi má nefna kjörgengi til Alþingis eins og fram kemur í 4. og 5. grein laga um kosningar til Alþingis. Þar segir:
Kjörgengur við kosningar til Alþingis er hver sá sem kosningarrétt á skv. 1. gr. og hefur óflekkað mannorð. Hæstaréttardómarar og umboðsmaður Alþingis eru þó ekki kjörgengir.
Enginn telst hafa óflekkað mannorð sem er sekur eftir dómi um verk sem er svívirðilegt að almenningsáliti nema hann hafi fengið uppreist æru sinnar.
Auk kjörgengisskilyrða er í reglum um ýmis lögvernduð starfsheiti gerð krafa um óflekkað mannorð. Til dæmis kemur fram í lögum um lögmenn að óflekkað mannorð er meðal þeirra skilyrða sem þarf til að fá héraðsdómslögmannsréttindi og í lögum um endurskoðendur er sama skilyrði sett fyrir því að fá réttindi sem löggiltur endurskoðandi.
Réttarreglur um uppreist æru eru í hegningarlögunum. Meginreglan kemur fram í annarri og þriðju málsgrein 85. grein laganna en þar segir:
Forseti getur og veitt manni uppreist æru, þegar að minnsta kosti 5 ár eru liðin frá því að refsing hans er að fullu úttekin, fyrnd eða gefin upp, enda færi umsækjandi sönnur, sem gildar séu metnar, á það, að hegðun hans hafi verið góð umræddan tíma.
Þegar sérstaklega stendur á, má veita uppreist æru, þó að refsitími sé svo langur sem í 2. mgr. segir, enda þótt ekki sé liðinn lengri tími en til er skilinn í 1. mgr.
Skilyrðin fyrir því að fá uppreist æru eru sem sagt:
Fimm ár liðin frá því að refsing sé að fullu úttekin
Umsækjandi færir gildar sönnur á að hegðun hafi verið góð á umræddum tíma
Þótt talað sé um að forseti veiti uppreist æru, fer dómsmálaráðuneytið í raun með slík mál. Er það í samræmi við almennar reglur um að forseti láti ráðherra framkvæma vald sitt.
Í 84. grein hegningarlaga er einnig fjallað um uppreist æru. Þar segir:
Nú hefur maður hlotið í fyrsta sinn refsidóm fyrir brot, sem hefur skerðing borgararéttinda í för með sér, og refsing fer ekki fram úr 1 árs fangelsi, þá nýtur hann að liðnum 5 árum frá því að refsing er að fullu úttekin, fyrnd eða uppgefin, allra réttinda, sem fást með uppreist á æru, enda hafi hann ekki sætt ákæru á þeim tíma fyrir brot, sem þyngri hegning liggur við en sektir.
Í þessu felst að þótt formlega hafi ekki verið veitt uppreist æru, þá geta þeir sem voru í fangelsi í minna en eitt ár, notið þeirra réttinda sem uppreist æru felur í sér, að fimm árum loknum.
Einnig má nefna 1. mgr. 85. grein hegningarlaga:
Þegar liðin eru 2 ár af fresti þeim, sem í síðari málsgrein 84. gr. getur, og að fullnægðum öðrum skilyrðum, sem þar eru sett, getur forseti, ef dómfelldi hefur hegðað sér vel á þessu tímabili, veitt honum uppreist æru.
Hér er því mælt fyrir um að tveimur árum megi veita uppreist æru ef sá sem dóminn fékk hefur hegðað sér vel.
Þetta kann að vera nokkuð tyrfið þegar reglurnar eru lesnar í heild, en í stuttu máli felur uppreist æru í sér það ferli að veita þeim sem hafa fengið dóm og setið inni, full réttindi aftur. Hugsunin að baki þessu er sú að þeir sem sýnt hafa góða hegðun að lokinni afplánun eigi rétt á að hafa óflekkað mannorð, í lagalegum skilningi.
Árni Helgason. „Hvað er að hljóta uppreist æru í lagalegum skilningi?“ Vísindavefurinn, 8. nóvember 2005, sótt 14. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5388.
Árni Helgason. (2005, 8. nóvember). Hvað er að hljóta uppreist æru í lagalegum skilningi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5388
Árni Helgason. „Hvað er að hljóta uppreist æru í lagalegum skilningi?“ Vísindavefurinn. 8. nóv. 2005. Vefsíða. 14. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5388>.