Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Hversu mikil áhrif hafa hreindýrin á Íslandi á gróðurfar á hálendinu?

Skarphéðinn Þórisson (1954-2023)

Nú eru liðin 239 ár síðan fyrstu hreindýrin stigu á land á Íslandi. Eins og þekkt er gengu þau á suðvesturhorninu, Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslum og Múlasýslum fram á síðustu öld. Hreindýrunum fjölgaði hratt eftir landnám þeirra og dýrin dreifðust víða. Samhliða fjölguninni bárust kvartanir til yfirvalda um að þau spilltu högum og ætu upp fjallagrös. Það leiddi til þess að árið 1849 var sett í lög að hreina mætti elta og drepa hvar og hvenær sem væri.

Ljóst er að eftir því sem dýrunum fjölgaði gengu þau meir og meir á fléttur og hafa þá verið í beinni samkeppni við bændur og búalið um fjallagrös. Fyrrum treystu sauðfjárbændur mjög á vetrarbeit og er líklegt að hreindýrin hafi leitað í sömu hagana, einkum í hörðum vetrum. Því er líklegt að vetrarbeit hreindýra ofan á sauðfjárbeitina hafi getað valdið staðbundinni ofbeit þegar dýrin urðu flest um miðja 19. öldina. Þegar leið á þá öld fækkaði þeim mjög og haustið 1939 var talið að aðeins um 100 hreindýr væru eftir á Íslandi og héldu einkum til í Kringilsárrana (Helgi Valtýsson 1945).

Frá 1940 hefur dýrunum fjölgað mjög og dreifst um allt Austurland. Nær árlega hefur verið veitt úr stofninum eins og sjá má á mynd sem birtist ef smellt er hér. Tilgangur veiðanna er meðal annars að tryggja hæfilegan fjölda dýra svo þau gangi ekki of nærri landi.

Fæða hreindýra var könnuð norðan Vatnajökuls árin 1980-1981 (Kristbjörn Egilsson 1983). Um helmingur sumarfæðu hreindýranna voru grös og starir (einkímblöðungar), einkum stinnastör, en rúmur þriðjungur var grávíðir og grasvíðir (runnar) (1. mynd).



1. mynd. Fæðuflokkar í sumarbeit hreindýra á Snæfellsöræfum (Kristbjörn Egilsson 1983).

Vetrarbeitin mótast að einhverju leyti af því hversu mikið er af fléttum. Á Fljótsdalsheiði þar sem hreindýrin höfðu gengið nærri fléttum voru einkímblöðungarnir vallarsveifgras, stinnastör og túnvingull og runnarnir sauðamergur, krækilyng og holtasóley um 80% af fæðunni en fléttur aðeins 3%.



2. mynd. Samanburður á fæðuflokkum í vetrarbeit hreindýra á Fljótsdals- og Jökuldalsheiði (Kristbjörn Egilsson 1983).

Á Jökuldalsheiði var gnægð fléttna og þar voru þær um helmingur af vetrarfæðunni, þar af voru fjallagrös 38%, en einkímblöðungarnir vallarsveifgras, túnvingull og stinnastör tæpur þriðjungur (2. mynd).

Hin síðari ár hefur hreindýrastofninum verið skipt upp í hjarðir og undirhjarðir. Langstærsta hjörðin er kennd við Snæfell með rúm 2000 dýr að vetri og innan hennar Héraðshjörð með um 1600 dýr. Á Austfjörðunum er Álftafjarðarhjörð stærst með um 700 dýr að vetri (1. tafla).

1. tafla. Skipting í hjarðir og þéttleiki hreindýra 2010-2011 eftir veiðisvæðum að vetri miðað við heildarflatarmál lands.

Veiði-
svæði
HjörðVetrarstofn
2010-2011
km2Þéttleiki hreinn/km2
1Norðurheiðahjörð60057600,1
2Héraðshjörð160033300,5
1&2Snæfellshjörð220090900,2
3Víknahjörð3009800,3
4aSeyðisfjarðarhjörð1005900,2
4bMjóafjarðarhjörð50700,7
4Fjarðahjörð1506500,2
5aSandvíkurhjörð2003600,6
5bReyðarfjarðarhjörð2003100,6
5Fjarðabyggðahjörð4006700,6
6Axarhjörð30012000,3
7Álftafjarðarhjörð70010900,6
8Lónshjörð50010300,5
9Mýrahjörð1505000,3
  ∑ 4700∑ 15210meðaltal 0,3

Fjöldi hreindýra sem landsvæði ber stjórnast af mörgum breytilegum þáttum. Burðarþol hreindýrahaga er ekki þekkt hér á landi. Það er ekki fasti heldur síbreytileg stærð á milli ára og árstíða.

Beitarrannsóknir og gróðurkortlagningar ættu að segja til um burðarþol hreindýrahaga en meðan það er takmarkað er farið varlega í sakirnar og náttúrulegum vexti stofnsins haldið í skefjum með veiðum.

Grófir útreikningar á þéttleika hreindýra benda til þess að þéttleiki sé alls staðar vel innan ásættanlegra marka (1. tafla) eða alls staðar undir 1 dýr/km2. Þegar Sandvíkurhjörðin var talin of stór á 9. áratug síðustu aldar var þéttleikinn um 1,7 dýr/km2.

Hreindýrin á vesturströnd Grænlands eiga sér fáa eða enga náttúrulega óvini eins og dýrin á Íslandi. Athugun í mars 2005 sýndi þéttleika í högum upp á 3-4 hreindýr/km2. Talið var að það myndi leiða til ofbeitar og stofnhruns og lagt til að hann færi undir 1,2 dýr/km2 (Cuyler o.fl. 2005). Talið er að þéttleiki yfir 2 dýr/km2 í flétturíkum vetrarhögum í Skandinavíu geti leitt til stofnhruns vegna ofbeitar (Helle o.fl. 1990).

Erfitt er að segja til um þéttleika hreindýra á 19. öldinni en á þeirri 20. eru örfá dæmi um hnignun gróðurs á einstaka svæðum vegna vetrarbeitar í erfiðu árferði. Þeim hefur í kjölfarið verið fækkað og sú reynsla yfirfærð á önnur svæði. Þó er það þannig að einstaka fimbulvetur getur lagst hart á gróður og hreindýr óháð fjölda þeirra.

Dæmi um offjölgun hreindýra og skemmdir á gróðri og landi í kjölfarið er til frá Norðfirði og víkum þar suður af á áttunda og níunda áratug síðustu aldar. Árið 1975 voru þau talin vera um 300 en fjöldinn tvöfaldaðist á næstu 10 árum (Hálfdán Haraldsson 1987). Margir töldu að dýrin hefðu á sama tíma líka orðið of mörg í Loðmundarfirði og víkunum þar norður af og þá gengið of nærri landi. Á þessum árum var vöktun stofnsins afar takmörkuð sem skýrir þessa staðbundnu offjölgun. Með stofnun umhverfisráðuneytisins 1990 var Veiðistjóraembættinu falin vöktun hreindýrastofnsins og eitt af fyrstu verkefnum þess var að fækka hreindýrum markvisst þar sem talið var að þau væru of mörg. Frá og með 2000 hefur Náttúrustofa Austurlands vaktað hreindýrin.

Fullyrða má að með ítarlegri vöktun stofnsins og veiðikvóta sem tryggir að þéttleiki þeirra sé undir einu dýri á km2 að vetri sé að mestu komið í veg fyrir að þau gangi of nærri gróðri. Þó er viðbúið að á ákveðnum svæðum geti fléttum fækkað og séð á landi vegna beitar ef vetur verða mjög erfiðir dýrunum.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Heimildir:

  • Cuyler Christine, Michael Rosing, Johannes Egede, Rink Heinrich & Hans Mølgaard 2005. Status of two Greenland Caribou populations 2005. 1) Akia-Maniitsoq 2) Kangerlussuaq-Sisimiut. Technical Report No. 61, 2005. Greenland Institute of Natural Resources.
  • Hálfdán Haraldsson 1987. Hreindýr. Í: Villt spendýr og fuglar, árekstrar við hagsmuni mannsins. Ráðstefna Náttúruverndarráðs 7.-8. október 1984. Fjölrit Náttúruvernarráðs nr. 16: 104-109.
  • Helgi Valtýsson 1945. Á hreindýraslóðum. Bókaútgáfan Norðri h.f., Akureyri. 228 bls.
  • Helle T., S.-S. Kilpelä og P. Aikio 1990. Lichen ranges, animal densities and production in finnish reindeer management. Rangifer, Special Issue No. 3, 115-121.
  • Kristbjörn Egilsson 1983. Fæða og beitilönd íslensku hreindýranna. OS-83073/VOD-07. 235 bls.

Hér er einnig svarað spurningunni:
Geta hreindýr á Íslandi valdið spjöllum á gróðri með beit sinni? Hver eru þolmörk náttúrunnar?

Höfundur

Skarphéðinn Þórisson (1954-2023)

líffræðingur, sérfræðingur hjá Náttúrustofu Austurlands

Útgáfudagur

3.1.2011

Spyrjandi

Hermann Jens Ingjaldsson, Olga Sigþórsdóttir

Tilvísun

Skarphéðinn Þórisson (1954-2023). „Hversu mikil áhrif hafa hreindýrin á Íslandi á gróðurfar á hálendinu? “ Vísindavefurinn, 3. janúar 2011. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=54782.

Skarphéðinn Þórisson (1954-2023). (2011, 3. janúar). Hversu mikil áhrif hafa hreindýrin á Íslandi á gróðurfar á hálendinu? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=54782

Skarphéðinn Þórisson (1954-2023). „Hversu mikil áhrif hafa hreindýrin á Íslandi á gróðurfar á hálendinu? “ Vísindavefurinn. 3. jan. 2011. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=54782>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hversu mikil áhrif hafa hreindýrin á Íslandi á gróðurfar á hálendinu?
Nú eru liðin 239 ár síðan fyrstu hreindýrin stigu á land á Íslandi. Eins og þekkt er gengu þau á suðvesturhorninu, Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslum og Múlasýslum fram á síðustu öld. Hreindýrunum fjölgaði hratt eftir landnám þeirra og dýrin dreifðust víða. Samhliða fjölguninni bárust kvartanir til yfirvalda um að þau spilltu högum og ætu upp fjallagrös. Það leiddi til þess að árið 1849 var sett í lög að hreina mætti elta og drepa hvar og hvenær sem væri.

Ljóst er að eftir því sem dýrunum fjölgaði gengu þau meir og meir á fléttur og hafa þá verið í beinni samkeppni við bændur og búalið um fjallagrös. Fyrrum treystu sauðfjárbændur mjög á vetrarbeit og er líklegt að hreindýrin hafi leitað í sömu hagana, einkum í hörðum vetrum. Því er líklegt að vetrarbeit hreindýra ofan á sauðfjárbeitina hafi getað valdið staðbundinni ofbeit þegar dýrin urðu flest um miðja 19. öldina. Þegar leið á þá öld fækkaði þeim mjög og haustið 1939 var talið að aðeins um 100 hreindýr væru eftir á Íslandi og héldu einkum til í Kringilsárrana (Helgi Valtýsson 1945).

Frá 1940 hefur dýrunum fjölgað mjög og dreifst um allt Austurland. Nær árlega hefur verið veitt úr stofninum eins og sjá má á mynd sem birtist ef smellt er hér. Tilgangur veiðanna er meðal annars að tryggja hæfilegan fjölda dýra svo þau gangi ekki of nærri landi.

Fæða hreindýra var könnuð norðan Vatnajökuls árin 1980-1981 (Kristbjörn Egilsson 1983). Um helmingur sumarfæðu hreindýranna voru grös og starir (einkímblöðungar), einkum stinnastör, en rúmur þriðjungur var grávíðir og grasvíðir (runnar) (1. mynd).



1. mynd. Fæðuflokkar í sumarbeit hreindýra á Snæfellsöræfum (Kristbjörn Egilsson 1983).

Vetrarbeitin mótast að einhverju leyti af því hversu mikið er af fléttum. Á Fljótsdalsheiði þar sem hreindýrin höfðu gengið nærri fléttum voru einkímblöðungarnir vallarsveifgras, stinnastör og túnvingull og runnarnir sauðamergur, krækilyng og holtasóley um 80% af fæðunni en fléttur aðeins 3%.



2. mynd. Samanburður á fæðuflokkum í vetrarbeit hreindýra á Fljótsdals- og Jökuldalsheiði (Kristbjörn Egilsson 1983).

Á Jökuldalsheiði var gnægð fléttna og þar voru þær um helmingur af vetrarfæðunni, þar af voru fjallagrös 38%, en einkímblöðungarnir vallarsveifgras, túnvingull og stinnastör tæpur þriðjungur (2. mynd).

Hin síðari ár hefur hreindýrastofninum verið skipt upp í hjarðir og undirhjarðir. Langstærsta hjörðin er kennd við Snæfell með rúm 2000 dýr að vetri og innan hennar Héraðshjörð með um 1600 dýr. Á Austfjörðunum er Álftafjarðarhjörð stærst með um 700 dýr að vetri (1. tafla).

1. tafla. Skipting í hjarðir og þéttleiki hreindýra 2010-2011 eftir veiðisvæðum að vetri miðað við heildarflatarmál lands.

Veiði-
svæði
HjörðVetrarstofn
2010-2011
km2Þéttleiki hreinn/km2
1Norðurheiðahjörð60057600,1
2Héraðshjörð160033300,5
1&2Snæfellshjörð220090900,2
3Víknahjörð3009800,3
4aSeyðisfjarðarhjörð1005900,2
4bMjóafjarðarhjörð50700,7
4Fjarðahjörð1506500,2
5aSandvíkurhjörð2003600,6
5bReyðarfjarðarhjörð2003100,6
5Fjarðabyggðahjörð4006700,6
6Axarhjörð30012000,3
7Álftafjarðarhjörð70010900,6
8Lónshjörð50010300,5
9Mýrahjörð1505000,3
  ∑ 4700∑ 15210meðaltal 0,3

Fjöldi hreindýra sem landsvæði ber stjórnast af mörgum breytilegum þáttum. Burðarþol hreindýrahaga er ekki þekkt hér á landi. Það er ekki fasti heldur síbreytileg stærð á milli ára og árstíða.

Beitarrannsóknir og gróðurkortlagningar ættu að segja til um burðarþol hreindýrahaga en meðan það er takmarkað er farið varlega í sakirnar og náttúrulegum vexti stofnsins haldið í skefjum með veiðum.

Grófir útreikningar á þéttleika hreindýra benda til þess að þéttleiki sé alls staðar vel innan ásættanlegra marka (1. tafla) eða alls staðar undir 1 dýr/km2. Þegar Sandvíkurhjörðin var talin of stór á 9. áratug síðustu aldar var þéttleikinn um 1,7 dýr/km2.

Hreindýrin á vesturströnd Grænlands eiga sér fáa eða enga náttúrulega óvini eins og dýrin á Íslandi. Athugun í mars 2005 sýndi þéttleika í högum upp á 3-4 hreindýr/km2. Talið var að það myndi leiða til ofbeitar og stofnhruns og lagt til að hann færi undir 1,2 dýr/km2 (Cuyler o.fl. 2005). Talið er að þéttleiki yfir 2 dýr/km2 í flétturíkum vetrarhögum í Skandinavíu geti leitt til stofnhruns vegna ofbeitar (Helle o.fl. 1990).

Erfitt er að segja til um þéttleika hreindýra á 19. öldinni en á þeirri 20. eru örfá dæmi um hnignun gróðurs á einstaka svæðum vegna vetrarbeitar í erfiðu árferði. Þeim hefur í kjölfarið verið fækkað og sú reynsla yfirfærð á önnur svæði. Þó er það þannig að einstaka fimbulvetur getur lagst hart á gróður og hreindýr óháð fjölda þeirra.

Dæmi um offjölgun hreindýra og skemmdir á gróðri og landi í kjölfarið er til frá Norðfirði og víkum þar suður af á áttunda og níunda áratug síðustu aldar. Árið 1975 voru þau talin vera um 300 en fjöldinn tvöfaldaðist á næstu 10 árum (Hálfdán Haraldsson 1987). Margir töldu að dýrin hefðu á sama tíma líka orðið of mörg í Loðmundarfirði og víkunum þar norður af og þá gengið of nærri landi. Á þessum árum var vöktun stofnsins afar takmörkuð sem skýrir þessa staðbundnu offjölgun. Með stofnun umhverfisráðuneytisins 1990 var Veiðistjóraembættinu falin vöktun hreindýrastofnsins og eitt af fyrstu verkefnum þess var að fækka hreindýrum markvisst þar sem talið var að þau væru of mörg. Frá og með 2000 hefur Náttúrustofa Austurlands vaktað hreindýrin.

Fullyrða má að með ítarlegri vöktun stofnsins og veiðikvóta sem tryggir að þéttleiki þeirra sé undir einu dýri á km2 að vetri sé að mestu komið í veg fyrir að þau gangi of nærri gróðri. Þó er viðbúið að á ákveðnum svæðum geti fléttum fækkað og séð á landi vegna beitar ef vetur verða mjög erfiðir dýrunum.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Heimildir:

  • Cuyler Christine, Michael Rosing, Johannes Egede, Rink Heinrich & Hans Mølgaard 2005. Status of two Greenland Caribou populations 2005. 1) Akia-Maniitsoq 2) Kangerlussuaq-Sisimiut. Technical Report No. 61, 2005. Greenland Institute of Natural Resources.
  • Hálfdán Haraldsson 1987. Hreindýr. Í: Villt spendýr og fuglar, árekstrar við hagsmuni mannsins. Ráðstefna Náttúruverndarráðs 7.-8. október 1984. Fjölrit Náttúruvernarráðs nr. 16: 104-109.
  • Helgi Valtýsson 1945. Á hreindýraslóðum. Bókaútgáfan Norðri h.f., Akureyri. 228 bls.
  • Helle T., S.-S. Kilpelä og P. Aikio 1990. Lichen ranges, animal densities and production in finnish reindeer management. Rangifer, Special Issue No. 3, 115-121.
  • Kristbjörn Egilsson 1983. Fæða og beitilönd íslensku hreindýranna. OS-83073/VOD-07. 235 bls.

Hér er einnig svarað spurningunni:
Geta hreindýr á Íslandi valdið spjöllum á gróðri með beit sinni? Hver eru þolmörk náttúrunnar?
...