
Auðnutittlingar og snjótittlingar eru fræætur og best er að gefa þeim fræ, svo sem gára- eða finkufræ. Í áraraðir hefur verið hægt að kaupa sérstakt fuglafóður í verslunum hér á landi. Fóðrið er sérstaklega ætlað snjótittlingum og í því er annað hvort kurlaður maís eða ómalað hveitikorn. Auðnutittlingar eru ekki hrifnir af maísnum en þeir eru sólgnir í hveitið. Í miklum kuldum er oft gott að blanda matarolíu eða smjörlíki við fóðrið til þess að gera það orkumeira. Eftirsóknarverð fæða hjá auðnutittlingum er gára- og/eða finkufræ. Hirsi- og kornstönglar, sem ætlaðir eru búrfuglum, eru einnig vinsælir hjá þeim. Hrafnar eru mest fyrir kjötmeti en leggja sér engu að síður ýmislegt annað til munns í harðindum. Til að laða hrafna í fæði er best að gefa þeim á opnu svæði. Hrafnar eru stórir fuglar og þurfa mikið rými auk þess að vera afar tortryggnir gagnvart mönnum. Fjölmargar aðrar fuglategundir sækja í fóður á veturna, meðal annars flækingsfuglar eins og silkitoppur (Bombycilla garrulus), gráþröstur (Turdus pilaris) og garðöngvari (Sylvia borin). Seint á veturna og snemma á vorin eru mávar komnir til landsins og sækja þá í ýmsa matarafganga. Hettumávur (Larus ridibundus) og sílamávar (Larus fuscus) teljast vart til vinsælustu fugla á Íslandi. Meðal annars finnst mörgum bæjarbúum vera ónæði af þeim þar sem þeir eru snemma á ferð á morgnanna og láta hátt. Á þessum árstíma sækja þeir í matarafganga sem bæjarbúar hafa lagt út fyrir aðrar tegundir. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvaða tegund smáfugla er algengust í garðinum mínum á veturna? eftir Jôn Má Halldórsson
- Hvernig stendur á því að spörfuglar fljúga ekki svo neinu nemi í aftakaveðrum? eftir Þorstein Vilhjálmsson
- Hvar hafa spörfuglar á Suðurlandi náttstað? eftir Jóhann Óla Hilmarsson
- Fuglavernd. Skoðað 5. 1. 2010.
- Aves.is. © Copyright Jakob Sigurðsson. Sótt 7.1.2010.