Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Árnastofnun - mynd í *Árnarstofnun

Hvort er réttara að skrifa I liður eða I. liður?

Rita skal I. liður = fyrsti liður. Þetta er sama regla og gildir almennt um raðtölur: 1. liður = fyrsti liður. Væri ritað I liður eða 1 liður ætti að lesa úr því: „einn liður“.

Í Ritreglum, sem prentaðar eru í Stafsetningarorðabókinni (2006), segir í 97. grein að punktur sé settur á eftir raðtölustaf og gefin þessi dæmi:
Guðrún er í 2. bekk.

Á 16. blaðsíðu hefst 3. kafli.

Á XVI. blaðsíðu hefst III. kafli.

Hann fæddist 19. febrúar.

Hann verður fjarverandi 6., 7., 8. og 9. mánuð ársins.

Ætli Kristján X. og Hinrik VIII. hafi verið skyldir

Eins og dæmin bera með sér skal nota punkt á eftir raðtölum hvort heldur raðtölurnar eru ritaðar með arabískum eða rómverskum tölustöfum. Sumir hafa tamið sér þá reglu að sleppa punkti á eftir raðtölum sem ritaðar eru með rómverskum stöfum þótt þeir haldi sig við að rita punkta á eftir raðtölum með arabískum stöfum (það er rita til dæmis „í 6. frásögn í IV kafla“ í stað: í 6. frásögn í IV. kafla). Þetta ósamræmi endurspeglar skandinavíska venju en er í raun órökrétt.

Því má bæta við í þessu sambandi að stundum eru rómverskar tölur ritaðar með lágstöfum (i, ii, iii, iv, v og svo framvegis) og vitaskuld gildir almenna reglan um punkt á eftir raðtölum þar einnig. Því ber að rita sem raðtölur i., ii., iii., iv., v. og svo framvegis á sama hátt og raðtölurnar I., II., III., IV., V. og svo framvegis.

Nokkuð ber á því að raðtölupunktar verði út undan í ritun. Sem algengt dæmi má nefna þegar punkti er sleppt í dagsetningu, til dæmis „7 febrúar“ (í stað 7. febrúar). Einnig má oft sjá ritaðar dagsetningar á borð við „7.2 2010“ (í stað 7.2. 2010) þar sem raðtölupunkti er samviskusamlega til skila haldið á eftir raðtölu dagsins en hann gleymist á eftir raðtölu mánaðarins.

Þegar raðtölupunktar gleymast er það ekki aðeins til lýta vegna ósamræmisins sem því fylgir heldur getur það verið beinlínis villandi í textanum.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd:

Útgáfudagur

20.1.2010

Spyrjandi

N.N.

Höfundur

Ari Páll Kristinsson

rannsóknarprófessor hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

Tilvísun

Ari Páll Kristinsson. „Hvort er réttara að skrifa I liður eða I. liður? “ Vísindavefurinn, 20. janúar 2010. Sótt 27. júní 2019. http://visindavefur.is/svar.php?id=55075.

Ari Páll Kristinsson. (2010, 20. janúar). Hvort er réttara að skrifa I liður eða I. liður? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=55075

Ari Páll Kristinsson. „Hvort er réttara að skrifa I liður eða I. liður? “ Vísindavefurinn. 20. jan. 2010. Vefsíða. 27. jún. 2019. <http://visindavefur.is/svar.php?id=55075>.

Chicago | APA | MLA

Sendu inn spurningu
eða

Vísindadagatalið

Snædís H. Björnsdóttir

1973

Snædís H. Björnsdóttir er lektor við Líf- og umhverfisvísindadeild HÍ. Hún stundar rannsóknir á sviði örverufræði og sameindalíffræði og hafa þær einkum beinst að örverum frá íslenskum jarðhitasvæðum.