Sólin Sólin Rís 02:55 • sest 24:03 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 18:12 • Sest 01:42 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:44 • Síðdegis: 15:27 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:04 • Síðdegis: 21:42 í Reykjavík

Hvers konar dýr er trektkönguló og er hún hættuleg?

Jón Már Halldórsson

Til svonefndra trektköngulóa teljast nokkrar tegundir innan ættkvíslarinnar Hydronyche og ein innan ættkvíslarinnar Atrax (A. Robust), alls 42 tegundir. Ástæðan fyrir nafngiftinni er gerð köngulóarvefsins sem er trektlaga og frábrugðinn hefðbundnum flatlaga vefjum flestra köngulóategunda.

Trektköngulær eru svartar og hafa fallegan gljáa á fram- og afturbol. Þær eru yfirleitt meðalstórar en geta orðið mjög stórar, búklengdin er frá 1,5 til 5 sm og fer eftir tegundum. Kynjamunur er á köngulóm þessara tegunda, meðal annars hafa kvendýrin hlutfallslega styttri fótleggi og talsvert gildari afturbol en karldýrin.

Kunnust þessara tegunda er Atrax robust sem á íslensku er einfaldlega nefnd trektkönguló en á ensku Sydney funnel web spider. Umfjöllunin hér á eftir einskorðast við þá tegund.


Trektkönguló (Atrax robust) er banvæn könguló.

Trektköngulóin er algengust í Nýju-Suður-Wales í suðausturhluta Ástralíu. Hún sækir meðal annars í þéttbýli því þar eru heppilegir staðir fyrir hana í ýmsum mannvirkjum. Hún er meðal annars talsvert algeng í Sydney. Trektköngulær eru langlífar skepnur. Þær geta orðið allt að 20 ára gamlar og verða kynþroska við 3 ára aldur. Kvendýrin halda að mestu til alla sína tilveru í trektlaga köngulóarvefnum en karldýrin fara stundum á flakk. Það getur stafað verulega hætta af þessum köngulóm þar sem þær eru nokkuð árásargjarnar ef þeim er ógnað. Eitrið í þeim er lífshættulegt mönnum.

Trektköngulær laðast að dimmum og rökum stöðum og þær sækja einnig í vatn. Stundum kemur fyrir að þær falla ofan í sundlaugar. Þar liggja þær eins og dauðar, sérstaklega ef þær eru búnar að vera lengi í vatninu. Það getur reynst hættulegt að veiða köngulærnar upp, því reynslan sýnir að þær geta haldið sér á lífi í vatninu í meira en sólarhring. Ef þær komast síðan á þurrt geta þær ráðist á viðkomandi með miklu offorsi.

Bit trektköngulóa er afar sársaukamikið því þær hafa stór klóskæri. Auk þess er eitur þeirra mjög súrt (hefur lágt pH-gildi) og það er eitt kröftugasta eiturefnasamband sem finnst í köngulóm. Trektköngulóin stendur þó brasilísku flökkuköngulónni (Phoneutria nigriventer) nokkuð að baki hvað styrk eitursins varðar, en aðeins 0,006 mg af eitri þeirrar brasilísku þarf til að drepa mús. Gildið er mun hærra fyrir trektköngulær, en þær og önnur tegund af trektkönguláo, af ættkvíslinni Hydronyche, hafa valdið manntjóni. Alls eru 27 köngulóartegundir þekktar sem hafa orðið mönnum að bana.

Eitur trektköngulóarinnar er afar fljótvirkt og það gerir þessa tegund mjög hættulega. Dæmi eru um að börn hafi látið lífið á aðeins 15 mínútum eftir að þau voru bitin. Í eitri trektköngulóarinnar eru nokkur eitruð efnasambönd sem flokkast í hóp sem nefnist artracótoxín (ACTX) og eru prímatar afar móttækilegir fyrir því. Fólki er þess vegna alls ekki ráðlagt að koma nálægt trektköngulóm. Mótefni er til við eitrinu og það kom á markað árið 1981, síðan þá hefur ekkert manntjón af biti trektköngulóa þótt oft hafi litlu munað. Eituráhrifin sem menn finna fyrir eru meðal annars mikil ógleði, uppköst og svitakóf. Stundum froðufellir fólk og munnvatnsframleiðsla eykst. Önnur áhrif eru öndunarörðugleikar auk þess sem fólk getur orðið verulega ruglað eftir bitið.

Þess má geta að oft hangir köngulóin með læst klóskærin í fórnarlambinu og þá þarf að losa hana af sér. Slíkt getur verið mönnum um megn því oftar en ekki er fólk í losti eftir árásina og eituráhrifin.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir:
  • Isbister G, Gray M (2004). Bites by Australian mygalomorph spiders (Araneae, Mygalomorphae), including funnel-web spiders (Atracinae) and mouse spiders (Actinopodidae: Missulena spp). Toxicon 43 (2): 133–40.
  • Fisher M, Raftos J, McGuinness R, Dicks I, Wong J, Burgess K, og Sutherland S. (1981). Funnel-web spider (Atrax robustus) antivenom. 2. Early clinical experience. Med. J. Aust. 2 (10): 525–6.

Mynd:

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

16.2.2010

Spyrjandi

Aðalbjörn Steingrímsson

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Hvers konar dýr er trektkönguló og er hún hættuleg?“ Vísindavefurinn, 16. febrúar 2010. Sótt 17. júní 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=55100.

Jón Már Halldórsson. (2010, 16. febrúar). Hvers konar dýr er trektkönguló og er hún hættuleg? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=55100

Jón Már Halldórsson. „Hvers konar dýr er trektkönguló og er hún hættuleg?“ Vísindavefurinn. 16. feb. 2010. Vefsíða. 17. jún. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=55100>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvers konar dýr er trektkönguló og er hún hættuleg?
Til svonefndra trektköngulóa teljast nokkrar tegundir innan ættkvíslarinnar Hydronyche og ein innan ættkvíslarinnar Atrax (A. Robust), alls 42 tegundir. Ástæðan fyrir nafngiftinni er gerð köngulóarvefsins sem er trektlaga og frábrugðinn hefðbundnum flatlaga vefjum flestra köngulóategunda.

Trektköngulær eru svartar og hafa fallegan gljáa á fram- og afturbol. Þær eru yfirleitt meðalstórar en geta orðið mjög stórar, búklengdin er frá 1,5 til 5 sm og fer eftir tegundum. Kynjamunur er á köngulóm þessara tegunda, meðal annars hafa kvendýrin hlutfallslega styttri fótleggi og talsvert gildari afturbol en karldýrin.

Kunnust þessara tegunda er Atrax robust sem á íslensku er einfaldlega nefnd trektkönguló en á ensku Sydney funnel web spider. Umfjöllunin hér á eftir einskorðast við þá tegund.


Trektkönguló (Atrax robust) er banvæn könguló.

Trektköngulóin er algengust í Nýju-Suður-Wales í suðausturhluta Ástralíu. Hún sækir meðal annars í þéttbýli því þar eru heppilegir staðir fyrir hana í ýmsum mannvirkjum. Hún er meðal annars talsvert algeng í Sydney. Trektköngulær eru langlífar skepnur. Þær geta orðið allt að 20 ára gamlar og verða kynþroska við 3 ára aldur. Kvendýrin halda að mestu til alla sína tilveru í trektlaga köngulóarvefnum en karldýrin fara stundum á flakk. Það getur stafað verulega hætta af þessum köngulóm þar sem þær eru nokkuð árásargjarnar ef þeim er ógnað. Eitrið í þeim er lífshættulegt mönnum.

Trektköngulær laðast að dimmum og rökum stöðum og þær sækja einnig í vatn. Stundum kemur fyrir að þær falla ofan í sundlaugar. Þar liggja þær eins og dauðar, sérstaklega ef þær eru búnar að vera lengi í vatninu. Það getur reynst hættulegt að veiða köngulærnar upp, því reynslan sýnir að þær geta haldið sér á lífi í vatninu í meira en sólarhring. Ef þær komast síðan á þurrt geta þær ráðist á viðkomandi með miklu offorsi.

Bit trektköngulóa er afar sársaukamikið því þær hafa stór klóskæri. Auk þess er eitur þeirra mjög súrt (hefur lágt pH-gildi) og það er eitt kröftugasta eiturefnasamband sem finnst í köngulóm. Trektköngulóin stendur þó brasilísku flökkuköngulónni (Phoneutria nigriventer) nokkuð að baki hvað styrk eitursins varðar, en aðeins 0,006 mg af eitri þeirrar brasilísku þarf til að drepa mús. Gildið er mun hærra fyrir trektköngulær, en þær og önnur tegund af trektkönguláo, af ættkvíslinni Hydronyche, hafa valdið manntjóni. Alls eru 27 köngulóartegundir þekktar sem hafa orðið mönnum að bana.

Eitur trektköngulóarinnar er afar fljótvirkt og það gerir þessa tegund mjög hættulega. Dæmi eru um að börn hafi látið lífið á aðeins 15 mínútum eftir að þau voru bitin. Í eitri trektköngulóarinnar eru nokkur eitruð efnasambönd sem flokkast í hóp sem nefnist artracótoxín (ACTX) og eru prímatar afar móttækilegir fyrir því. Fólki er þess vegna alls ekki ráðlagt að koma nálægt trektköngulóm. Mótefni er til við eitrinu og það kom á markað árið 1981, síðan þá hefur ekkert manntjón af biti trektköngulóa þótt oft hafi litlu munað. Eituráhrifin sem menn finna fyrir eru meðal annars mikil ógleði, uppköst og svitakóf. Stundum froðufellir fólk og munnvatnsframleiðsla eykst. Önnur áhrif eru öndunarörðugleikar auk þess sem fólk getur orðið verulega ruglað eftir bitið.

Þess má geta að oft hangir köngulóin með læst klóskærin í fórnarlambinu og þá þarf að losa hana af sér. Slíkt getur verið mönnum um megn því oftar en ekki er fólk í losti eftir árásina og eituráhrifin.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir:
  • Isbister G, Gray M (2004). Bites by Australian mygalomorph spiders (Araneae, Mygalomorphae), including funnel-web spiders (Atracinae) and mouse spiders (Actinopodidae: Missulena spp). Toxicon 43 (2): 133–40.
  • Fisher M, Raftos J, McGuinness R, Dicks I, Wong J, Burgess K, og Sutherland S. (1981). Funnel-web spider (Atrax robustus) antivenom. 2. Early clinical experience. Med. J. Aust. 2 (10): 525–6.

Mynd:...