Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Búa pokadýr aðeins í Ástralíu?

Fjöldi og fjölbreytileiki pokadýra er langmestur í Ástralíu þar sem þessi undirflokkur spendýra hefur blómstrað. Í dag finnast pokadýr einnig í Nýju-Gíneu, Suður-Ameríku, Norður-Ameríku og Nýja-Sjálandi.

Suður- og Norður-Ameríka

Eftir aðskilnað í 200 milljón ár tengdust Norður- og Suður-Ameríka á ný fyrir um 3 milljónum ára. Við það dreifðust margar tegundir legkökuspendýra Norður-Ameríku yfir landbrúna og margar pokadýrategundir í Suður-Ameríku urðu undir í samkeppninni. Þó lifa þar enn 92 tegundir góðu lífi. Einhverjar pokadýrategundir Suður-Ameríku fóru yfir landbrúna til Norður-Ameríku en einungis ein tegund virðist hafa lifað af flutninginn. Núlifandi afkomandi þessa forvera er virginíuposan (Didelphis virginiana), sem finnst nú um nær alla Mið- og Norður-Ameríku.Virginíuposan (Didelphis virginiana) í vetrarbúningi.

Nýja-Gínea og nálægar eyjar

Fyrir um 15 milljónum ára, á miðju míósen-tímabilinu, hófust miklar loftslagsbreytingar í Ástralíu. Gróðursælir hitabeltisskógar hörfuðu til strandsvæða og grassléttur með strjálum trjágróðri náðu yfirhöndinni inn til landsins. Þessar breytingar urðu til þess að það varð tegundasprenging hjá grasbítum eins og kengúrum. Á sama tíma byrjuðu flekar Ástralíu og suðaustur Asíu að rekast saman og mynduðu fjallgarða sem seinna urðu að hálendi Nýju-Gíneu. Þessir fjallgarðar sköpuðu heppilegt hitabeltisloftslag fyrir trjábýlar tegundir sem annars hefðu líklega ekki lifað loftslagsbreytingarnar af.

Ástralía og Nýja-Gínea byrjuðu að aðskiljast fyrir um 8-10 þúsund árum. Á Nýju-Gíneu er því að finna tegundir sem eru mjög skyldar áströlskum pokadýrum. Pokakettir (Quoll – Dasyurus), trjákengúrur (Tree kangaroo - Dendrolagus) og kuskus (Cuscus – Phalangerid) finnast meðal annars á báðum stöðum. Öfugt við Ástralíu þar sem einungis 20% pokadýra lifa í trjám, þá lifa 60% pokadýra Nýju-Gíneu í trjám.

Nýja-Sjáland

Tólf ástralskar pokadýrategundir voru fluttar til Nýja-Sjálands milli 1850 og 1870 en um helmingur þeirra náði ekki fótfestu. Sex vallabíutegundir hafa fundist villtar á Nýja-Sjálandi en engin þeirra er mjög ágeng. Ein þeirra (Macropus parma) var talin útdauð í Ástralíu þegar lítill hópur uppgötvaðist á Nýja-Sjálandi.

Ein posutegund (Brushtail Possum, Trichosurus vulpecula) var flutt til Nýja-Sjálands vegna loðdýraræktunar en dýrin sluppu út, fjölgaði óheft og eru nú um 70 milljón talsins. Þessar jurtaætur bókstaflega éta sig í gegnum skóginn og valda gífurlegu tjóni. Þetta er eina dæmið um pokadýr í heiminum sem verður ágeng innflutt tegund fjarri heimkynnum sínum.Posutegundin Trichosurus vulpecula hefur reynst skaðvaldur á Nýja-Sjálandi.

Hægt er að lesa meira um heimkynni pokadýra, hvernig þau dreifðust um meginlöndin og hvar þau náðu fótfestu í svari við spurningunni: Hver er skyldleiki kengúra við aðrar tegundir og hvernig þróuðust þær?

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Heimildir og myndir:

Útgáfudagur

4.2.2010

Spyrjandi

Laufey Soffía Þórsdóttir, f. 1994

Höfundur

Tilvísun

Rannveig Magnúsdóttir. „Búa pokadýr aðeins í Ástralíu?“ Vísindavefurinn, 4. febrúar 2010. Sótt 18. ágúst 2019. http://visindavefur.is/svar.php?id=55234.

Rannveig Magnúsdóttir. (2010, 4. febrúar). Búa pokadýr aðeins í Ástralíu? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=55234

Rannveig Magnúsdóttir. „Búa pokadýr aðeins í Ástralíu?“ Vísindavefurinn. 4. feb. 2010. Vefsíða. 18. ágú. 2019. <http://visindavefur.is/svar.php?id=55234>.

Chicago | APA | MLA

Sendu inn spurningu
eða

Vísindadagatalið

Ásta Heiðrún Pétursdóttir

1984

Ásta Heiðrún Elísabet Pétursdóttir er doktor í efnagreiningum og vinnur sem sérfræðingur hjá Matís. Rannsóknir Ástu snúa að snefilefnum, sér í lagi að formgreiningu arsens. Ásta hefur unnið að aðferðaþróun til að mæla eitruð efnaform arsens auk þess að rannsaka flókin efnasambönd arsens á borð við arsenlípíð.