Sólin Sólin Rís 11:04 • sest 15:36 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:26 • Sest 25:18 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:34 • Síðdegis: 24:14 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:07 • Síðdegis: 18:03 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 11:04 • sest 15:36 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:26 • Sest 25:18 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:34 • Síðdegis: 24:14 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:07 • Síðdegis: 18:03 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Gætir þú sagt mér eitthvað um tasmaníudjöfulinn?

Jón Már Halldórsson

Tasmaníudjöfull (Sarcophilus harrisi, e. Tasmanian devil) er pokadýr sem eingöngu lifir á eyjunni Tasmaníu suður af Ástralíu. Hann sker sig nokkuð frá öðrum núlifandi pokadýrum þar sem hann minnir um margt á lítið bjarndýr. Tasmaníudjöfullinn er eini núlifandi fulltrúi meðalstórra ránpokadýra eftir að tasmaníutígurinn (Thylacinus cynocephalus) varð aldauða á fyrri hluta síðustu aldar.

Áður fyrr lifði Tasmaníudjöfullinn einnig í Ástralíu, en fræðimenn telja að hann hafi dáið út þar fyrir um 600 árum, eða fyrir tíma fyrstu evrópsku landnemanna. Ekki er ljóst hvers vegna hann dó út á meginlandinu, en talið er að dingó-villihundar hafi leikið þar stórt hlutverk.

Tasmaníudjöflinum hefur hins vegar farnast ágætlega í Tasmaníu þótt hann sé misalgengur eftir svæðum eins og gefur að skilja, þar sem lífskjör eru mismunandi á eyjunni. Hann er nokkuð algengur nyrst þar sem talsverð sauðfjárrækt er stunduð. Þar á hann greiðan aðgang að hræjum sem hann reiðir sig mjög á og hefur því farnast nokkuð vel þar eftir að sauðfjárrækt hófst að krafti í Tasmaníu fyrir um öld síðan. Tasmaníudjöfullinn er einnig talsvert algengur í Narawntapu, Mt. Williams og Cradle Mountain þjóðgörðunum, sem eru meginverndarsvæði villts dýralífs á eyjunni. Á þessum stöðum er auðvelt að koma auga á hann þegar keyrt er hægt að næturlægi.



Tasmaníudjöfull (Sarcophilus harrisi).

Æxlun hjá tasmaníudjöflinum fer venjulega fram í mars. Ungarnir fæðast í apríl eftir 21 dags meðgöngu, en meðganga pokadýra er afar stutt og fæðast ungarnir mjög vanþroska. Ungar tasmaníudjöfulsins halda sig við spena móður sinnar í nær fjóra mánuði. Að þeim tíma liðnum hætta þeir sér smám saman úr pokanum og fara að kanna sitt nánasta umhverfi, en halda þess á milli til í greninu sem oftast er í holum trjábol. Fimm til sex mánaða hætta þeir á spena og yfirgefa síðan móður sína skömmu seinna. Kynþroski er við tveggja ára aldur en rannsóknir hafa sýnt að tasmaníudjöflar geti vart vænst þess að ná meira en átta ára aldri. Fullorðin dýr eru um 50-80 cm á lengd og vega á bilinu 4-12 kg, karldýrin eru nokkuð þyngri, 5,5-12 kg, en kvendýrin á bilinu 4-8 kg.

Tasmaníudjöfullinn er kjötæta og þá aðallega hrææta. Hann drepur sér þó einnig til matar dýr eins og vallabíur, fuglsunga, froskdýr og skriðdýr. Tasmaníudjöfullinn er nytsemdardýr á landbúnaðarsvæðum þar sem hann er duglegur við að hreinsa upp hræ og kemur þar með í veg fyrir maðkaflugufaraldur.

Tasmaníudjöfullinn er fyrst og fremst næturdýr og flakkar víða um í fæðuleit. Hann virðist vera klunnalegur og hægfara en getur tekið sprettinn ef hann þarf að ná bráð eða ef hætta steðjar að honum. Yngri dýr eru mun léttari á sér og geta klifrað fimlega upp í tré ef því er að skipta. Á daginn heldur tasmaníudjöfullinn sig hins vegar til í fylgsninu og lætur fara hægt um sig, hvílist og safnar orku fyrir átök næturinnar.

Það er ekki árennilegt að reyna að handsama tasmaníudjöful. Hann hvæsir hátt og berar tennurnar, auk þess sem hann gefur frá sér óskemmtilega lykt undir álagi. Sennilega er nafngift hans dregin af þessu háttalagi, en hegðun hans stafar þó líklega frekar af hræðslu en grimmd, því ef hann er handsamaður getur hann verið sauðmeinlaus auk þess sem hann er tiltölulega þægilegur viðureignar í dýragörðum.



Þrátt fyrir nafnið geta tasmaníudjöflar verið sauðmeinlausir.

Þegar nokkrir djöflar koma saman og rífast um hræ gefa þeir frá sér margvísleg undarleg reiðihljóð og hnerra jafnvel hver að öðrum. Þetta er þeirra leið til að leysa úr ágreiningsmálum sínum. Dugi það ekki til berjast dýrin, en slíkt reyna rándýr þó oft að forðast.

Tasmaníudjöflar eiga sér ekki marga óvini í dag en sennilega drápu tasmaníutígrar þá og átu meðan þeir voru enn á ferli. Stórir ernir og uglur eru taldar veiða þá að einhverju leyti ásamt risapokamerðinum (Dasyurus maculatus) sem étur unga djöfla.

Áður fyrr var tasmaníudjöfullinn talinn vera meindýr og ógnun við kvikfénað rétt eins og tasmaníutígurinn. Því var gengið nokkuð hart fram við eyðingu hans fram eftir 20. öldinni og verðlaun greidd fyrir felld dýr. Honum fækkaði verulega og var orðin sjaldgæf sjón á 4. áratug síðustu aldar. Árið 1941 var hann hins vegar alfriðaður og hefur tegundin rétt verulega úr kútnum síðan. Tasmaníudjöfullinn er nú orðinn algengur að nýju en því miður varð tasmaníutígrinum ekki bjargað.

Á hverju ári heyrast þær raddir að tasmaníudjöflinum hafi fjölgað of mikið og hann sé plága á haustin. Það er þó aðeins um 40% þeirra unga sem fæðast á hverju ári sem lifa fyrsta veturinn af þar sem samkeppnin um fæðuna er hörð.

Frekara lesefni á Vísindavefnum eftir sama höfund:

Heimildir og myndir:

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

27.2.2006

Spyrjandi

Hrafn Þórisson. f. 1990

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Gætir þú sagt mér eitthvað um tasmaníudjöfulinn?“ Vísindavefurinn, 27. febrúar 2006, sótt 8. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5672.

Jón Már Halldórsson. (2006, 27. febrúar). Gætir þú sagt mér eitthvað um tasmaníudjöfulinn? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5672

Jón Már Halldórsson. „Gætir þú sagt mér eitthvað um tasmaníudjöfulinn?“ Vísindavefurinn. 27. feb. 2006. Vefsíða. 8. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5672>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Gætir þú sagt mér eitthvað um tasmaníudjöfulinn?
Tasmaníudjöfull (Sarcophilus harrisi, e. Tasmanian devil) er pokadýr sem eingöngu lifir á eyjunni Tasmaníu suður af Ástralíu. Hann sker sig nokkuð frá öðrum núlifandi pokadýrum þar sem hann minnir um margt á lítið bjarndýr. Tasmaníudjöfullinn er eini núlifandi fulltrúi meðalstórra ránpokadýra eftir að tasmaníutígurinn (Thylacinus cynocephalus) varð aldauða á fyrri hluta síðustu aldar.

Áður fyrr lifði Tasmaníudjöfullinn einnig í Ástralíu, en fræðimenn telja að hann hafi dáið út þar fyrir um 600 árum, eða fyrir tíma fyrstu evrópsku landnemanna. Ekki er ljóst hvers vegna hann dó út á meginlandinu, en talið er að dingó-villihundar hafi leikið þar stórt hlutverk.

Tasmaníudjöflinum hefur hins vegar farnast ágætlega í Tasmaníu þótt hann sé misalgengur eftir svæðum eins og gefur að skilja, þar sem lífskjör eru mismunandi á eyjunni. Hann er nokkuð algengur nyrst þar sem talsverð sauðfjárrækt er stunduð. Þar á hann greiðan aðgang að hræjum sem hann reiðir sig mjög á og hefur því farnast nokkuð vel þar eftir að sauðfjárrækt hófst að krafti í Tasmaníu fyrir um öld síðan. Tasmaníudjöfullinn er einnig talsvert algengur í Narawntapu, Mt. Williams og Cradle Mountain þjóðgörðunum, sem eru meginverndarsvæði villts dýralífs á eyjunni. Á þessum stöðum er auðvelt að koma auga á hann þegar keyrt er hægt að næturlægi.



Tasmaníudjöfull (Sarcophilus harrisi).

Æxlun hjá tasmaníudjöflinum fer venjulega fram í mars. Ungarnir fæðast í apríl eftir 21 dags meðgöngu, en meðganga pokadýra er afar stutt og fæðast ungarnir mjög vanþroska. Ungar tasmaníudjöfulsins halda sig við spena móður sinnar í nær fjóra mánuði. Að þeim tíma liðnum hætta þeir sér smám saman úr pokanum og fara að kanna sitt nánasta umhverfi, en halda þess á milli til í greninu sem oftast er í holum trjábol. Fimm til sex mánaða hætta þeir á spena og yfirgefa síðan móður sína skömmu seinna. Kynþroski er við tveggja ára aldur en rannsóknir hafa sýnt að tasmaníudjöflar geti vart vænst þess að ná meira en átta ára aldri. Fullorðin dýr eru um 50-80 cm á lengd og vega á bilinu 4-12 kg, karldýrin eru nokkuð þyngri, 5,5-12 kg, en kvendýrin á bilinu 4-8 kg.

Tasmaníudjöfullinn er kjötæta og þá aðallega hrææta. Hann drepur sér þó einnig til matar dýr eins og vallabíur, fuglsunga, froskdýr og skriðdýr. Tasmaníudjöfullinn er nytsemdardýr á landbúnaðarsvæðum þar sem hann er duglegur við að hreinsa upp hræ og kemur þar með í veg fyrir maðkaflugufaraldur.

Tasmaníudjöfullinn er fyrst og fremst næturdýr og flakkar víða um í fæðuleit. Hann virðist vera klunnalegur og hægfara en getur tekið sprettinn ef hann þarf að ná bráð eða ef hætta steðjar að honum. Yngri dýr eru mun léttari á sér og geta klifrað fimlega upp í tré ef því er að skipta. Á daginn heldur tasmaníudjöfullinn sig hins vegar til í fylgsninu og lætur fara hægt um sig, hvílist og safnar orku fyrir átök næturinnar.

Það er ekki árennilegt að reyna að handsama tasmaníudjöful. Hann hvæsir hátt og berar tennurnar, auk þess sem hann gefur frá sér óskemmtilega lykt undir álagi. Sennilega er nafngift hans dregin af þessu háttalagi, en hegðun hans stafar þó líklega frekar af hræðslu en grimmd, því ef hann er handsamaður getur hann verið sauðmeinlaus auk þess sem hann er tiltölulega þægilegur viðureignar í dýragörðum.



Þrátt fyrir nafnið geta tasmaníudjöflar verið sauðmeinlausir.

Þegar nokkrir djöflar koma saman og rífast um hræ gefa þeir frá sér margvísleg undarleg reiðihljóð og hnerra jafnvel hver að öðrum. Þetta er þeirra leið til að leysa úr ágreiningsmálum sínum. Dugi það ekki til berjast dýrin, en slíkt reyna rándýr þó oft að forðast.

Tasmaníudjöflar eiga sér ekki marga óvini í dag en sennilega drápu tasmaníutígrar þá og átu meðan þeir voru enn á ferli. Stórir ernir og uglur eru taldar veiða þá að einhverju leyti ásamt risapokamerðinum (Dasyurus maculatus) sem étur unga djöfla.

Áður fyrr var tasmaníudjöfullinn talinn vera meindýr og ógnun við kvikfénað rétt eins og tasmaníutígurinn. Því var gengið nokkuð hart fram við eyðingu hans fram eftir 20. öldinni og verðlaun greidd fyrir felld dýr. Honum fækkaði verulega og var orðin sjaldgæf sjón á 4. áratug síðustu aldar. Árið 1941 var hann hins vegar alfriðaður og hefur tegundin rétt verulega úr kútnum síðan. Tasmaníudjöfullinn er nú orðinn algengur að nýju en því miður varð tasmaníutígrinum ekki bjargað.

Á hverju ári heyrast þær raddir að tasmaníudjöflinum hafi fjölgað of mikið og hann sé plága á haustin. Það er þó aðeins um 40% þeirra unga sem fæðast á hverju ári sem lifa fyrsta veturinn af þar sem samkeppnin um fæðuna er hörð.

Frekara lesefni á Vísindavefnum eftir sama höfund:

Heimildir og myndir: ...