Sólin Sólin Rís 02:55 • sest 24:04 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 20:03 • Sest 01:31 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:37 • Síðdegis: 16:15 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:53 • Síðdegis: 22:30 í Reykjavík

Sýna hitamælar í bílum rétt hitastig?

Trausti Jónsson

Bílar eru ekki kjörstaðir til lofthitamælinga en engu að síður má hafa bæði gagn og gaman af hitamælingum í akstri. Upphaflega hugmyndin með mælingum á lofthita í akstri var sú að gagnlegt er að sjá af mæli hvort frost eða frosthætta er við vegyfirborð. Mælarnir eru að þessu leyti hugsaðir sem öryggistæki og hafa það ekki endilega að markmiði að mæla hita sem er samanburðarhæfur við mæla í stöðluðum mælaskýlum Veðurstofunnar.

En veðuráhugamenn hafa mikinn áhuga á lofthitanum og breytileika hans, þennan breytileika geta bílamælar numið - en þó verður að hafa fáeina fyrirvara og vankanta í huga við túlkun mælinganna.Það getur verið ágætis afþreying að fylgjast með hitamælinum í bílnum í löngum bílferðum.

Algengt er að bílhitamælar séu ekki alveg rétt kvarðaðir. Kvörðunarvandamál eru tvenns konar, annars vegar getur kvarðinn verið hliðraður þannig að hann sýni ætíð of lágt eða of hátt, en hann getur einnig verið teygður, þannig að mælirinn er ef til vill réttur á einhverju hitabili, en annars of lágur eða of hár. Samanburður á mælingum stöðva Veðurstofunnar eða Vegagerðarinnar og bílmælisins ætti að leiða slík vandamál í ljós séu þau stórfelld.

Stærst annarra vandamála tengist geislunarvarma sem borist getur að mælinum. Bein sólgeislun er þar efst á blaði sé mælir óvarinn. Einnig getur hiti í yfirborði bílastæðis verið mjög frábrugðinn lofthitanum og algengt er að geislunin frá stæðinu yfirgnæfi mælinguna á lofthitanum. Þessa gætir sérstaklega að deginum, mest í sólskini, en einnig í sólarlitlu veðri. Þá er mjög algengt að mælir á bíl í stæði sýni mörgum stigum hærri hita en er í lofti (oftast er það lofthitinn sem við höfum áhuga á).

Samkvæmt reynslu þess sem hér skrifar munar gjarnan 3-5°C á lofthitamæli og bílhitamæli þegar bíll hefur staðið í stæði að degi til. Geislun frá húsveggjum er einnig algengt vandamál við bílhitamælingar. Að morgni dags er oft hrím á öllum rúðum nema þeim sem snúa að vegg (um ástæðuna fyrir því má lesa í svari við spurningunni Hvers vegna héla ekki rúður í bílum á þeirri hlið sem snýr að húsi?) Lofthitamælingar verða því að jafnaði ekki marktækar fyrr en eftir nokkurra mínútna greiðan akstur. Samanburður við aðrar mælingar er því áreiðanlegastur þegar ekið er úti á þjóðvegi.Á sólríkum og heitum dögum geta hitamælar í bílum sem staðið hafa í stæði sýnt hærri hita en er í lofti.

Útgeislunarvandi frá mælinum er oftast lítill sé honum komið fyrir undir eða í framstuðara en getur orðið talsverður ef skynjara er komið fyrir við hliðarspegla, eins og oft er gert. Hiti á mæli getur þá orðið lægri en lofthitinn, oft má til dæmis sjá hrím á þunnu blikki á ytra borði bíla eða á rúðum þó lofthiti sé yfir frostmarki.

Bleyta eða bráðnandi snjór nærri skynjara getur valdið því að hiti mælist eftir atvikum lægri eða hærri en lofthitinn. Í kuldum má búast við að varmaleiðni frá vélum og núningsflötum geti haft áhrif á mælingu í akstri og lausagöngu. Varma getur einnig leitt frá vél bílsins í sumum tilvikum - einkum eftir staðsetningu mælisins.

Alloft er talsverð tregða í skynjurum mælanna þannig að þeir eru nokkurn tíma að ná lofthitanum breytist hann hratt (eins og til dæmis þegar ekið er um Hvalfjarðargöngin). Mælar á hliðarspeglum eða undir þeim eru gjarnan mjög vakrir og sýna vel hve hiti getur verið ótrúlega misjafn í landslagi. Að jafnaði er skemmtilegra að fylgjast með slíkum mælum heldur en þeim sem eru seinni og ef til vill „betur“ staðsettir. Þeir áhugasömustu eru auðvitað með fleiri en einn mæli í bílnum og er þeim komið fyrir á mismunandi stöðum.

Mælar sem sýna aukastafi í hita eru áhugaverðari en hinir og jafnvel þó aukastafurinn sé út af fyrir sig merkingarlítill eru breytingar örari og meira gaman að fylgjast með. En við skulum hafa í huga að í akstri má varla reikna með meira en 1°C nákvæmni bílamælingar og að í kyrrstöðu er óvissan mun meiri. En bílhitamælingar geta verið mikill ánægjuauki, svo lengi sem áhuginn truflar ekki aksturinn.

Þegar reynsla er fengin getur það stytt stundir í löngum bílferðum að reyna að spá fyrir um hita á leiðinni, eftir því sem áfram miðar. Hversu kalt er á Öxnadalsheiði þegar hitinn mælist 16 stig við Varmahlíð? Hversu hlýtt er þá á Akureyri - er hafgolan komin þangað? Finnum við mikla kuldapolla á leiðinni austur um Suðurlandsundirlendið, getur verið að hiti í dældunum sé 4 eða 6 stigum lægri en á ásunum? Skyldum við hitta á hnjúkaþeyinn í Öræfunum - hvort er hlýrra við Kvísker eða í Skaftafelli? Við sitjum á Laugarvatni í 22 stiga hita upp úr hádeginu, klukkan hvað mætum við svalri hafgolunni á leið í bæinn - hversu mikið kólnar, verður þá kaldara á Hellisheiði en í Hveragerði? Hversu mikið hlýrra er í Hvalfjarðargöngunum í dag heldur en við Grundartanga? Getur verið að þar sé kaldara? Og síðan koma aðrar spurningar, til dæmis hvers vegna er hiti svona jafn í dag? Í gær kólnaði þegar ég fór yfir Holtavörðuheiði, en ekki í dag, hvers vegna?

Myndir:


Þetta svar birtist áður á vef Veðurstofu Íslands og er birt hér með góðufúslegu leyfi.

Höfundur

Trausti Jónsson

veðurfræðingur

Útgáfudagur

11.2.2010

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Trausti Jónsson. „Sýna hitamælar í bílum rétt hitastig?“ Vísindavefurinn, 11. febrúar 2010. Sótt 18. júní 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=55333.

Trausti Jónsson. (2010, 11. febrúar). Sýna hitamælar í bílum rétt hitastig? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=55333

Trausti Jónsson. „Sýna hitamælar í bílum rétt hitastig?“ Vísindavefurinn. 11. feb. 2010. Vefsíða. 18. jún. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=55333>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Sýna hitamælar í bílum rétt hitastig?
Bílar eru ekki kjörstaðir til lofthitamælinga en engu að síður má hafa bæði gagn og gaman af hitamælingum í akstri. Upphaflega hugmyndin með mælingum á lofthita í akstri var sú að gagnlegt er að sjá af mæli hvort frost eða frosthætta er við vegyfirborð. Mælarnir eru að þessu leyti hugsaðir sem öryggistæki og hafa það ekki endilega að markmiði að mæla hita sem er samanburðarhæfur við mæla í stöðluðum mælaskýlum Veðurstofunnar.

En veðuráhugamenn hafa mikinn áhuga á lofthitanum og breytileika hans, þennan breytileika geta bílamælar numið - en þó verður að hafa fáeina fyrirvara og vankanta í huga við túlkun mælinganna.Það getur verið ágætis afþreying að fylgjast með hitamælinum í bílnum í löngum bílferðum.

Algengt er að bílhitamælar séu ekki alveg rétt kvarðaðir. Kvörðunarvandamál eru tvenns konar, annars vegar getur kvarðinn verið hliðraður þannig að hann sýni ætíð of lágt eða of hátt, en hann getur einnig verið teygður, þannig að mælirinn er ef til vill réttur á einhverju hitabili, en annars of lágur eða of hár. Samanburður á mælingum stöðva Veðurstofunnar eða Vegagerðarinnar og bílmælisins ætti að leiða slík vandamál í ljós séu þau stórfelld.

Stærst annarra vandamála tengist geislunarvarma sem borist getur að mælinum. Bein sólgeislun er þar efst á blaði sé mælir óvarinn. Einnig getur hiti í yfirborði bílastæðis verið mjög frábrugðinn lofthitanum og algengt er að geislunin frá stæðinu yfirgnæfi mælinguna á lofthitanum. Þessa gætir sérstaklega að deginum, mest í sólskini, en einnig í sólarlitlu veðri. Þá er mjög algengt að mælir á bíl í stæði sýni mörgum stigum hærri hita en er í lofti (oftast er það lofthitinn sem við höfum áhuga á).

Samkvæmt reynslu þess sem hér skrifar munar gjarnan 3-5°C á lofthitamæli og bílhitamæli þegar bíll hefur staðið í stæði að degi til. Geislun frá húsveggjum er einnig algengt vandamál við bílhitamælingar. Að morgni dags er oft hrím á öllum rúðum nema þeim sem snúa að vegg (um ástæðuna fyrir því má lesa í svari við spurningunni Hvers vegna héla ekki rúður í bílum á þeirri hlið sem snýr að húsi?) Lofthitamælingar verða því að jafnaði ekki marktækar fyrr en eftir nokkurra mínútna greiðan akstur. Samanburður við aðrar mælingar er því áreiðanlegastur þegar ekið er úti á þjóðvegi.Á sólríkum og heitum dögum geta hitamælar í bílum sem staðið hafa í stæði sýnt hærri hita en er í lofti.

Útgeislunarvandi frá mælinum er oftast lítill sé honum komið fyrir undir eða í framstuðara en getur orðið talsverður ef skynjara er komið fyrir við hliðarspegla, eins og oft er gert. Hiti á mæli getur þá orðið lægri en lofthitinn, oft má til dæmis sjá hrím á þunnu blikki á ytra borði bíla eða á rúðum þó lofthiti sé yfir frostmarki.

Bleyta eða bráðnandi snjór nærri skynjara getur valdið því að hiti mælist eftir atvikum lægri eða hærri en lofthitinn. Í kuldum má búast við að varmaleiðni frá vélum og núningsflötum geti haft áhrif á mælingu í akstri og lausagöngu. Varma getur einnig leitt frá vél bílsins í sumum tilvikum - einkum eftir staðsetningu mælisins.

Alloft er talsverð tregða í skynjurum mælanna þannig að þeir eru nokkurn tíma að ná lofthitanum breytist hann hratt (eins og til dæmis þegar ekið er um Hvalfjarðargöngin). Mælar á hliðarspeglum eða undir þeim eru gjarnan mjög vakrir og sýna vel hve hiti getur verið ótrúlega misjafn í landslagi. Að jafnaði er skemmtilegra að fylgjast með slíkum mælum heldur en þeim sem eru seinni og ef til vill „betur“ staðsettir. Þeir áhugasömustu eru auðvitað með fleiri en einn mæli í bílnum og er þeim komið fyrir á mismunandi stöðum.

Mælar sem sýna aukastafi í hita eru áhugaverðari en hinir og jafnvel þó aukastafurinn sé út af fyrir sig merkingarlítill eru breytingar örari og meira gaman að fylgjast með. En við skulum hafa í huga að í akstri má varla reikna með meira en 1°C nákvæmni bílamælingar og að í kyrrstöðu er óvissan mun meiri. En bílhitamælingar geta verið mikill ánægjuauki, svo lengi sem áhuginn truflar ekki aksturinn.

Þegar reynsla er fengin getur það stytt stundir í löngum bílferðum að reyna að spá fyrir um hita á leiðinni, eftir því sem áfram miðar. Hversu kalt er á Öxnadalsheiði þegar hitinn mælist 16 stig við Varmahlíð? Hversu hlýtt er þá á Akureyri - er hafgolan komin þangað? Finnum við mikla kuldapolla á leiðinni austur um Suðurlandsundirlendið, getur verið að hiti í dældunum sé 4 eða 6 stigum lægri en á ásunum? Skyldum við hitta á hnjúkaþeyinn í Öræfunum - hvort er hlýrra við Kvísker eða í Skaftafelli? Við sitjum á Laugarvatni í 22 stiga hita upp úr hádeginu, klukkan hvað mætum við svalri hafgolunni á leið í bæinn - hversu mikið kólnar, verður þá kaldara á Hellisheiði en í Hveragerði? Hversu mikið hlýrra er í Hvalfjarðargöngunum í dag heldur en við Grundartanga? Getur verið að þar sé kaldara? Og síðan koma aðrar spurningar, til dæmis hvers vegna er hiti svona jafn í dag? Í gær kólnaði þegar ég fór yfir Holtavörðuheiði, en ekki í dag, hvers vegna?

Myndir:


Þetta svar birtist áður á vef Veðurstofu Íslands og er birt hér með góðufúslegu leyfi....