Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Þann 14. apríl 2010 hófst eldgos í Eyjafjallajökli. Gosinu fylgir öskufall sem getur reynst skepnum hættulegt, eins og lesa má í svari við spurningunni Hvaða áhrif hafa eldgos á dýr? Sérstaklega þarf að huga að flúori sem getur reynst verulega skaðlegt.
Flúor er lofttegund, gulgræn að lit, efnafræðilega skyld klóri og joði. Flúor er óstöðugt efni og finnst því tæpast nema í efnasamböndum það er sem flúoríð. Það er eitrað í auðleystum efnasamböndum. Vitað er að flúor í ösku veldur eitrunum í dýrum, ef það fer upp fyrir ákveðin mörk í fóðri eða vatni, svonefnd þolmörk. Sjúklegar breytingar greinast snemma á glerungi tanna, sem voru að spretta úr holdi, þegar flúor óx í umhverfinu. Þegar frá líður sést misjafn vöxtur á tönnum, einkum jöxlum, og skepnurnar fá svokallaðan gadd.
Svo virðist sem flúor í mjög litlu magni sé nauðsynlegt efni fyrir líkamann. Flúor finnst í litlum mæli í umhverfinu, gróðri, vatni, í hafinu og í fóðri sem skepnurnar fá, þótt ekki sé eitraðri ösku til að dreifa. Miklu meira getur verið af flúor í steinefnablöndum, ennfremur í fiskmjöli. Líkaminn losar sig jafnóðum við hluta flúors með saur, svita og þvagi, en eftir því sem líður á ævina safnast jafnt og þétt fyrir í líkamanum hluti þess sem upp er tekinn, einkum í tönnum og beinum.
Flúor í gosösku getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir búfénað, en þessar kindur þurfa ekkert að óttast.
Eitranir af völdum flúors verða bráðar, ef mikið af flúor berst í líkamann á stuttum tíma, en langvinnar, ef magn umfram það sem skepnan losar sig við berst stöðugt til líkamans á löngum tíma. Hætta á flúoreitrun er mismikil eftir aldri og dýrategund, ástandi dýranna, steinefnum í fóðri, flúormagni í öskunni, tíma sem áhrifin vara, hvort skepnurnar bera fóstur eða ekki, burðartíma og nyt. Flúorþol er auk þess álitið vera einstaklingsbundið. Talið er að nautgripir og sauðfé séu viðkvæm fyrir eituráhrifum flúors en hross þoli nokkru meira.
Fóður, sem inniheldur stöðugt 250 ppm (það er milligrömm af flúor í kílói af ösku (mg/kg = ppm) mun geta valdið bráðri eitrun eftir skammvinna neyslu. Sé innihaldið 40-60 ppm tekur 2-3 ár að framkalla langvinna eitrun og veikindi hjá nautgripum. Þolmörk í fóðri nautgripa eru oft sett við 25-30 ppm og sauðfjár við 70-100 ppm. Meira magn en 20 ppm í fóðri um skeið er þó jafnvel talið draga úr nyt mjólkurkúa. Sumir telja að miklu minna þurfi til þess að valda eitrun, ef álagið varir langan tíma.
Vægar fætlur (beinhnútar) sáust á kjúkubeinum og leggjarbeinum 2ja kinda 8 og 9 vetra, sem fengið höfðu hitaveituvatn með 1-2 ppm af flúor að vetrinum (hálft árið) alla sína ævi. Ekki hafði borið á helti eða eymslum. Tilraunir með sauðfé hafa sýnt, hve mikið er af flúor í blóði við yfirvofandi flúoreitrun. Dæmi eru um það hér á landi að nautgripir, sem fengu drykkjarvatn í fjósið úr volgri laug með 10-11 ppm af flúor hafi orðið haltir og heilsutæpir eftir fáa mánuði. Þeim batnaði, þegar þeir fengu á ný vatn ómengað af flúor.
Einkenni langvinnrar eitrunar eru beinaskemmdir, vanþrif og lamanir. Flúor bindur kalk, það nýtist þá verr til mjólkurmyndunar. Þetta skýrir hvers vegna nytin dettur úr mjólkandi peningi við slíkar aðstæður. Flúormagn í kjálkum á nautgripum getur farið upp í 4500-5000 ppm áður en beinhnjóskar fara að myndast en 2-3000 í sauðfé. Mesta magn sem mælst hefur úr sauðarkjálka er um 21.000 ppm. Á honum voru miklir beinhnjóskar vegna langvinnrar flúoreitrunar. Úr beinunum hverfur flúor aðeins að takmörkuðu leyti, þótt dragi úr flúormagni í fóðri og fari niður fyrir þolmörk. Mæling á flúor í þvagi gefur til kynna flúorálagið. Í þvagi sauðfjár er að öllu eðlilegu oft um 5-10 ppm (erl.) en hefur mælst yfir 40 ppm í flúorveiku fé hér á landi. Langvinn flúoráhrif eru mæld í beinum, oftast í kjálka.
Mynd:
Þetta svar er hluti af lengri grein um áhrif eldgosa á dýr sem lesa má í heild sinni á vef Matvælastofnunar og birt hér með góðfúslegu leyfi. Í lok greinarinnar má er að finna heimildaskrá og jafnframt viðbragðsáætlun yfirdýralæknis vegna eldgosa.
Sigurður Sigurðarson. „Hvaða áhrif hefur flúor í gosösku á búfé?“ Vísindavefurinn, 20. apríl 2010, sótt 14. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=56007.
Sigurður Sigurðarson. (2010, 20. apríl). Hvaða áhrif hefur flúor í gosösku á búfé? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=56007
Sigurður Sigurðarson. „Hvaða áhrif hefur flúor í gosösku á búfé?“ Vísindavefurinn. 20. apr. 2010. Vefsíða. 14. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=56007>.