Sólin Sólin Rís 05:15 • sest 21:38 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:18 • Sest 04:30 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:36 • Síðdegis: 19:53 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:39 • Síðdegis: 13:42 í Reykjavík

Viltu segja mér allt um merði?

Jón Már Halldórsson

Merðir eða marðardýr (Mustelidae) er stærsta ættin innan ættbálks rándýra. Núlifandi marðardýrum er skipt í fimm undirættir; otra (Lutrinae), greifingja (Melinae), hunangsgreifingja (Mellivorinae), merði (Mustelinae) og sléttugreifingja (Taxidiinae). Þessar undirættir skiptast síðan í 24 ættkvíslir og 56 tegundir. Flokkun marðardýra er hins vegar sífellt að taka breytingum eftir því sem nýjar uppgötvanir eru gerðar á erfðafræðilegum skyldleika dýranna. Eftirfarandi tafla lýsir flokkuninni eins og hún er í dag.

Marðarætt
(Mustelidae)
Otrar (Lutrinae)

5 ættkvíslir
13 tegundir
Greifingjar (Melinae)6 ættkvíslir
8 tegundir
Hunangsgreifingjar (Mellivorinae)

1 ættkvísl
1 tegund
Merðir (Mustelinae)11 ættkvíslir
33 tegundir
Sléttugreifingjar (Taxidiinae)1 ættkvísl
1 tegund

Nú á tímum finnast marðardýr í öllum heimsálfum að Suðurskautslandinu undanskildu. Þau eru ekki hluti af fánu nokkurra stórra eyja eins og Grænlands og Madagaskar og finnast heldur ekki á ótal smáeyjum á Kyrrahafi, í Vestur-Indíum og öðrum afskekktum svæðum.



Jarfi (Gulo gulo) minnir um margt á lítið bjarndýr.

Marðardýr hafa víða verið flutt inn á svæði þar sem þau lifðu ekki áður, til dæmis voru víslur, frettur og hreysikettir flutt til Nýja-Sjálands. Nærtækasta dæmið um innflutning marðardýra er þó minkurinn á Íslandi, en um landnám hans og útbreiðslu hér á landi er fjallað í svari Karls Skírnissonar og Emilíu Dagnýjar Sveinbjörnsdóttur við spurningunni: Hvenær var minkur fluttur til Íslands? Einnig má benda á svar Róberts Arnars Stefánssonar við spurningunni: Hvenær barst minkur til Evrópu?

Marðardýr hafa mikla aðlögunarhæfni og eru vistkerfi þeirra afar margbreytileg eins og hin mikla útbreiðsla þeirra gefur til kynna. Sem dæmi um hversu ólíkum vistkerfum þau lifa í má nefna að víslan (Mustela nivalis) heldur til á sléttum, jarfinn (Gulo gulo) er aðlagaður að snævi þöktum barrskógum norðurhjarans og otrar (til dæmis Lutra lutra) svamla í sjó og kafa eftir samlokum og fleiri sjávardýrum. Sum marðardýr eru dagdýr en önnur eru virkust á nóttunni.

Marðardýr nútímans eru flest smávaxin en þó þekkjast nokkrar meðalstórar tegundir innan ættarinnar. Minnstu dýrin eru rúmlega 11 cm á lengd og rúm 50 g að þyngd, en þau stærstu geta verið allt að metri á lengd og 45 kg að þyngd. Flest dýrin eru grannvaxin, lipur og rennileg en þó þekkjast kraftaleg dýr með stutt skott.



Flóðvíslan (Mustela sibirica) lifir á stórum svæðum í barrskógum Rússlands.

Eitt helsta sameiginlega einkenni marðardýra er hversu lágfætt þau eru, jafnvel svo að þegar þau læðast um dregst kviðurinn eftir jörðinni. Marðardýr eru með fimm tær á hverjum fæti og geta ekki dregið inn klærnar eins og kattardýr gera. Ólíkt köttum sem eru táfetar (ganga á tánum), eru marðardýr oftast ilfetar (ganga á iljunum en ekki hælunum eða tánum), en það kemur í veg fyrir að klærnar slitni þegar þau ganga. Þó að flestir merðir séu ilfetar þekkjast einnig hælgenglar, það er dýr sem ganga á allri ilinni (stíga líka í hælinn) en slíkt form er mjög sjaldgæft meðal rándýra.

Trýni marðardýra er stutt en oddhvasst, hauskúpan er breið og flöt að ofan þannig að hausinn er sérkennilega þríkantaður. Tanngerðin ber öll merki kjötáts, vígtennur eru á sínum stað, beittar framtennur og jaxlar vel þróaðir. Aftasti framjaxl í efri gómi og fremsti afturjaxl í neðri gómi mynda saman oddhvöss "skæri" sem dýrið notar til að klippa húð, sinar og kjöt í sundur, en þetta er mjög sterkt einkenni á kjötætum meðal spendýra.

Flest marðardýr hafa afar vel þroskaða endaþarmskirtla sem gefa frá sér lyktarefni. Þessi efni gegna mikilvægu hlutverki í samskiptum dýranna, svo sem í samskiptum kynjanna og til að merkja landsvæði. Hjá einstaka tegundum gegnir endaþarmskirtillinn hlutverki varnartækis með því að gefa frá sér svo ógeðfellda lykt að rándýr gera allt til að forðast hana.

Meðal marðardýra gætir seinkunar á fósturþroska eins og þekkist meðal margra annarra spendýra. Það felur í sér að frjóvgað egg getur legið lengi í leginu, jafnvel mánuðum saman, áður en frumuskipting hefst og fóstrið tekur að vaxa. Þessi tími nefnist á ensku "pre-gestation" sem mætti þýða for-meðganga. Það getur því liðið jafnvel ár milli getnaða og gots, en hinn raunverulegi meðgöngutími marðardýra er aðeins 40 til 65 dagar.



Oturinn (Lutra lutra) hefur mjög þykkan feld sem heldur vel hita í vatni.

Marðardýr hafa þéttasta hárfeld sem þekkist meðal núlifandi spendýra eins og fjallað er um í svari sama höfundar við spurningunni: Hvert er loðnasta dýr í heimi? Feldurinn er í tveimur lögum, innst eru lókennd ullarhár en hið ytra eru stífari vindhár. Feldurinn er afar hlýr og fallegur enda hafa marðardýr öldum saman verið mjög eftirsótt af veiðimönnum. Nú er svo komið að 38% tegunda marðardýra eru á lista alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna International Union for the Conservation of Nature and Natural Resources (IUCN) yfir dýr í útrýmingarhættu. Þetta er mun hærra hlutfall en almennt gerist meðal ætta spendýra, en þar er meðaltalið nú um 15% tegunda. Ekki er eingöngu hægt að kenna ofveiði um slæmt ástand heldur skiptir umfangsmikil búsvæðaröskun víða um heim ekki síður máli.

Þess má að lokum geta að marðardýr hafa töluvert verið ræktuð vegna feldar síns og hefur það dregið verulega úr veiðiálagi á þeim. Ýmsir hópar dýraverndunarsinna hafa þó haft horn í síðu slíkrar ræktunar.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir og myndir:

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

21.2.2006

Spyrjandi

Rósa Jórunn, f. 1995

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Viltu segja mér allt um merði?“ Vísindavefurinn, 21. febrúar 2006. Sótt 26. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=5658.

Jón Már Halldórsson. (2006, 21. febrúar). Viltu segja mér allt um merði? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=5658

Jón Már Halldórsson. „Viltu segja mér allt um merði?“ Vísindavefurinn. 21. feb. 2006. Vefsíða. 26. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=5658>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Viltu segja mér allt um merði?
Merðir eða marðardýr (Mustelidae) er stærsta ættin innan ættbálks rándýra. Núlifandi marðardýrum er skipt í fimm undirættir; otra (Lutrinae), greifingja (Melinae), hunangsgreifingja (Mellivorinae), merði (Mustelinae) og sléttugreifingja (Taxidiinae). Þessar undirættir skiptast síðan í 24 ættkvíslir og 56 tegundir. Flokkun marðardýra er hins vegar sífellt að taka breytingum eftir því sem nýjar uppgötvanir eru gerðar á erfðafræðilegum skyldleika dýranna. Eftirfarandi tafla lýsir flokkuninni eins og hún er í dag.

Marðarætt
(Mustelidae)
Otrar (Lutrinae)

5 ættkvíslir
13 tegundir
Greifingjar (Melinae)6 ættkvíslir
8 tegundir
Hunangsgreifingjar (Mellivorinae)

1 ættkvísl
1 tegund
Merðir (Mustelinae)11 ættkvíslir
33 tegundir
Sléttugreifingjar (Taxidiinae)1 ættkvísl
1 tegund

Nú á tímum finnast marðardýr í öllum heimsálfum að Suðurskautslandinu undanskildu. Þau eru ekki hluti af fánu nokkurra stórra eyja eins og Grænlands og Madagaskar og finnast heldur ekki á ótal smáeyjum á Kyrrahafi, í Vestur-Indíum og öðrum afskekktum svæðum.



Jarfi (Gulo gulo) minnir um margt á lítið bjarndýr.

Marðardýr hafa víða verið flutt inn á svæði þar sem þau lifðu ekki áður, til dæmis voru víslur, frettur og hreysikettir flutt til Nýja-Sjálands. Nærtækasta dæmið um innflutning marðardýra er þó minkurinn á Íslandi, en um landnám hans og útbreiðslu hér á landi er fjallað í svari Karls Skírnissonar og Emilíu Dagnýjar Sveinbjörnsdóttur við spurningunni: Hvenær var minkur fluttur til Íslands? Einnig má benda á svar Róberts Arnars Stefánssonar við spurningunni: Hvenær barst minkur til Evrópu?

Marðardýr hafa mikla aðlögunarhæfni og eru vistkerfi þeirra afar margbreytileg eins og hin mikla útbreiðsla þeirra gefur til kynna. Sem dæmi um hversu ólíkum vistkerfum þau lifa í má nefna að víslan (Mustela nivalis) heldur til á sléttum, jarfinn (Gulo gulo) er aðlagaður að snævi þöktum barrskógum norðurhjarans og otrar (til dæmis Lutra lutra) svamla í sjó og kafa eftir samlokum og fleiri sjávardýrum. Sum marðardýr eru dagdýr en önnur eru virkust á nóttunni.

Marðardýr nútímans eru flest smávaxin en þó þekkjast nokkrar meðalstórar tegundir innan ættarinnar. Minnstu dýrin eru rúmlega 11 cm á lengd og rúm 50 g að þyngd, en þau stærstu geta verið allt að metri á lengd og 45 kg að þyngd. Flest dýrin eru grannvaxin, lipur og rennileg en þó þekkjast kraftaleg dýr með stutt skott.



Flóðvíslan (Mustela sibirica) lifir á stórum svæðum í barrskógum Rússlands.

Eitt helsta sameiginlega einkenni marðardýra er hversu lágfætt þau eru, jafnvel svo að þegar þau læðast um dregst kviðurinn eftir jörðinni. Marðardýr eru með fimm tær á hverjum fæti og geta ekki dregið inn klærnar eins og kattardýr gera. Ólíkt köttum sem eru táfetar (ganga á tánum), eru marðardýr oftast ilfetar (ganga á iljunum en ekki hælunum eða tánum), en það kemur í veg fyrir að klærnar slitni þegar þau ganga. Þó að flestir merðir séu ilfetar þekkjast einnig hælgenglar, það er dýr sem ganga á allri ilinni (stíga líka í hælinn) en slíkt form er mjög sjaldgæft meðal rándýra.

Trýni marðardýra er stutt en oddhvasst, hauskúpan er breið og flöt að ofan þannig að hausinn er sérkennilega þríkantaður. Tanngerðin ber öll merki kjötáts, vígtennur eru á sínum stað, beittar framtennur og jaxlar vel þróaðir. Aftasti framjaxl í efri gómi og fremsti afturjaxl í neðri gómi mynda saman oddhvöss "skæri" sem dýrið notar til að klippa húð, sinar og kjöt í sundur, en þetta er mjög sterkt einkenni á kjötætum meðal spendýra.

Flest marðardýr hafa afar vel þroskaða endaþarmskirtla sem gefa frá sér lyktarefni. Þessi efni gegna mikilvægu hlutverki í samskiptum dýranna, svo sem í samskiptum kynjanna og til að merkja landsvæði. Hjá einstaka tegundum gegnir endaþarmskirtillinn hlutverki varnartækis með því að gefa frá sér svo ógeðfellda lykt að rándýr gera allt til að forðast hana.

Meðal marðardýra gætir seinkunar á fósturþroska eins og þekkist meðal margra annarra spendýra. Það felur í sér að frjóvgað egg getur legið lengi í leginu, jafnvel mánuðum saman, áður en frumuskipting hefst og fóstrið tekur að vaxa. Þessi tími nefnist á ensku "pre-gestation" sem mætti þýða for-meðganga. Það getur því liðið jafnvel ár milli getnaða og gots, en hinn raunverulegi meðgöngutími marðardýra er aðeins 40 til 65 dagar.



Oturinn (Lutra lutra) hefur mjög þykkan feld sem heldur vel hita í vatni.

Marðardýr hafa þéttasta hárfeld sem þekkist meðal núlifandi spendýra eins og fjallað er um í svari sama höfundar við spurningunni: Hvert er loðnasta dýr í heimi? Feldurinn er í tveimur lögum, innst eru lókennd ullarhár en hið ytra eru stífari vindhár. Feldurinn er afar hlýr og fallegur enda hafa marðardýr öldum saman verið mjög eftirsótt af veiðimönnum. Nú er svo komið að 38% tegunda marðardýra eru á lista alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna International Union for the Conservation of Nature and Natural Resources (IUCN) yfir dýr í útrýmingarhættu. Þetta er mun hærra hlutfall en almennt gerist meðal ætta spendýra, en þar er meðaltalið nú um 15% tegunda. Ekki er eingöngu hægt að kenna ofveiði um slæmt ástand heldur skiptir umfangsmikil búsvæðaröskun víða um heim ekki síður máli.

Þess má að lokum geta að marðardýr hafa töluvert verið ræktuð vegna feldar síns og hefur það dregið verulega úr veiðiálagi á þeim. Ýmsir hópar dýraverndunarsinna hafa þó haft horn í síðu slíkrar ræktunar.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir og myndir:...