Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Vísindavefurinn hefur fengið fjölmargar spurningar um fuglaflensu. Þeirra á meðal eru:
Geta hundar fengið fuglaflensu?
Ef fuglaflensan berst hingað til Íslands með farfuglum, er þá líklegt að kötturinn minn sýkist?
Hvernig er með smit úr farfuglum yfir í kýr, hesta og önnur dýr? Geta þau smitast ef þau éta gras þar sem smitaðir fuglar hafa legið?
Mun grunnvatn (neysluvatn) mengast ef farfuglar dauðir af völdum fuglaflensu liggja víða um landið í grennd við vatnsból?
Smitast fuglaflensa við neyslu kjöts af smituðum dýrum og er hægt að skima það til dæmis eins og gert er vegna salmonellu?
Er hættulegt að borða fugla sem smitaðir eru af fuglaflensu?
Hvað lifir veira fuglaflensunnar lengi í driti fugla?
Hvað lifir fuglaflensuveiran lengi í dauðum fuglum?
Getur fuglaflensa borist í fólk þegar ekið er á fugla, heimiliskettir veiða fugla eða fuglar baða sig í vatnsbólum?
Aðrir spyrjendur eru: Dagur Rafn, Guðrún Svavarsdóttir, Anna Sigurðardóttir, Snæbjörn Halldórsson, Bóas Valdórsson, Sigríður Einarsdóttir, Hjördís Ólafsdóttir og Sigríður Gísladóttir.
Fuglaflensa er veirusjúkdómur í fuglum og berst á milli þeirra. Í einstaka tilfellum smitast hún yfir í menn. Einungis þeir sem eru í náinni snertingu við sýkta fugla eða saur og aðra líkamsvessa (til dæmis blóð eða slím) þeirra geta átt á hættu á að smitast af fuglaflensu. Ekkert bendir til þess að fuglaflensa smitist manna á milli.
Ekki er vitað til þess að smit hafi borist frá villtum fuglum yfir í menn og eru líkur á því að það gerist taldar hverfandi. Veiran magnast ört í alifuglabúum þar sem margir fuglar eru saman í húsum, en minna er hins vegar um veiruna í villtum fuglum úti í náttúrunni og er því hættan á smiti fyrst og fremst frá sýktum alifuglum.
Fuglaflensusmit getur borist í menn frá sýktum alifuglum.
Mest af fuglaflensuveiru finnst í saur sýktra fugla en magn í kjöti er lítið, jafnvel verulega undir sýkingarskammti. Hér á landi er sjúkum alifuglum eða dýrum aldrei slátrað til manneldis. Inflúensuveirur drepast auk þess við upphitun þannig að með venjulegum eldunaraðferðum er ekki hætta á að fólk smitist af fuglaflensu. Fræðilega er hægt að skima kjöt fyrir fuglaflensusmiti, en það er ekki raunhæft eftirlit því smithætta telst óveruleg.
Fuglaflensusmit úr villtum fuglum (til dæmis fuglum sem drepist hafa úr flensunni eða smituðum fuglum sem kettir veiða) getur borist í gæludýr eins og hunda og ketti, en gæludýrin veikjast sjaldnast. Ástæðan er sú að rándýr eins og hundar og kettir hafa mjög sterkt varnarkerfi í meltingarfærum sínum og sterkar magasýrur þeirra drepa því fuglaflensuveirur. Þegar þetta er skrifað (mars 2006) hefur frést af smiti í köttum en sérfræðingar eru sammála um að ekki hafi átt sér stað smit úr kattardýrum í menn. Smit úr köttum í menn er í skoðun hjá WHO (Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni) og hjá ECDC (Evrópsku smitvarnarstöðinni) en á þessari stundu er ekki talin hætta á að gæludýr geti smitað menn af fuglaflensu.
Hvað grasbíta varðar þá geta kýr smitast af inflúensuveirum, en hins vegar veikjast þær ekki af sýkingunni. Hestar geta smitast af sérstakri hestainflúensuveiru sem er ólík fuglaflensuveirunni, en ekki er vitað hvort þeir geti smitast af hinni síðarnefndu. Hestainflúensu hefur ekki orðið vart á Íslandi en lesa má um hana á vef embættis yfirdýralæknis.
Í lifandi fuglum er fuglaflensa greind með stroksýni úr koki eða endaþarmi, eða með saursýni.
Fuglaflensuveiran getur lifað talsverðan tíma í dauðum fuglum og fugladriti, en líftíminn er háður hitastigi og er lengri eftir því sem kaldara er. Veiran getur lifað í allt að 35 daga við 4°C en einungis í 5 daga við 37°C. Veiran þolir frost en breytingar á hitastigi valda því að hún drepst fyrr en ella (sjá nánar á vef embættis yfirdýralæknis).
Ekki er taldar miklar líkur á að grunnvatn geti mengast af fuglaflensuveirum. Óvarin vatnsból geta hins vegar mengast, einkum með fugladriti sem ef til vill skolast í vatnsbólið með yfirborðsvatni. Þetta getur skipt máli fyrir smit á milli fugla, en ólíklegt er að þetta hafi áhrif á menn. Ef smitmagn í drykkjarvatni verður nægjanlegt til að smita fólk verður það ekki lengur ásættanlegt til drykkjar. Til þess að draga úr líkum á að smit berist í drykkjarvatn er mikilvægt að láta heilbrigðiseftirlit eða héraðsdýralækni vita af óeðlilegum dauða villtra fugla og eins að tryggja að vatnsból séu ávallt varin gegn yfirborðsvatni eða umhverfismengun.
Upplýsingarnar í þessu svari eru að litlum hluta af vef Landlæknisembættisins og birtar með góðfúslegu leyfi þess. Á vef embættisins er að finna samantekt upplýsinga um fuglaflensu (og inflúensu) sem áhugasömum er bent á að skoða. Einnig má benda á vefi embættis yfirdýralæknis, Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) og Alþjóðadýraheilbrigðismálastofnunarinnar (OIE).
Önnur svör á Vísindavefnum:
Jarle Reiersen. „Getur fuglaflensuveiran borist úr fugli í gæludýr og þaðan í menn?“ Vísindavefurinn, 21. mars 2006, sótt 15. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5722.
Jarle Reiersen. (2006, 21. mars). Getur fuglaflensuveiran borist úr fugli í gæludýr og þaðan í menn? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5722
Jarle Reiersen. „Getur fuglaflensuveiran borist úr fugli í gæludýr og þaðan í menn?“ Vísindavefurinn. 21. mar. 2006. Vefsíða. 15. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5722>.