Sólin Sólin Rís 06:46 • sest 19:59 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:31 • Síðdegis: 14:27 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:45 • Síðdegis: 21:08 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 06:46 • sest 19:59 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:31 • Síðdegis: 14:27 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:45 • Síðdegis: 21:08 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað er módernismi?

Njörður Sigurjónsson

Módernismi vísar til nútímans og þess sem er nútímalegt og gæti útlagst á íslensku sem "nútímahyggja". Hefð hefur þó skapast fyrir notkun hins alþjóðlega heitis. Með módernisma er oft átt við stefnu eða tímabil í listum sem nær frá seinni hluta nítjándu aldar til miðbiks eða seinnihluta þeirrar tuttugustu. Módernismi var einnig áhrifamikill á tuttugustu öld á öðrum sviðum vestrænnar menningar, svo sem í stjórnmálum, hugvísindum og hönnun. Eins er módernismi notaður til þess að lýsa ákveðnu menningarástandi, tíðaranda og afstöðu manna til tíma og framþróunar.

Í umræðu um póst-módernisma eða "síð-módernisma" hefur módernismi fengið á sig eins konar andstæða eða neikvæða merkingu og er þá stundum skilinn sem flest það sem póst-módernismi er ekki. Slík beiting andstæðna og einföldunar við útskýringu á framþróun er í eðli sínu mjög í anda módernisma en hún einfaldar þó um of hina flóknu og oft ólíku strauma sem felast í módernismanum. Módernismi er margbrotið hugtak og alls ekki einfalt að skilgreina en þó má segja að módernismi sé fyrst og fremst viðbragð við nútímanum og tilraun til þess að skilja og útskýra nútímann á forsendum hans sjálfs.

Sem stefna í listum þá er módernismi samheiti yfir breytingar og margþætta þróun í listsköpun, til dæmis í myndlist, tónlist, byggingarlist, leiklist og bókmenntum, sem átti sér stað á tímabilinu frá um 1860 til 1970. Í Evrópu voru árin eftir fyrri heimsstyrjöldina sérlega frjósöm og á Íslandi varð módernismi áberandi í ljóðagerð um 1950. Í byggingarlist einkenndist módernismi af tilraunum til að losna undan kreddum fortíðar og vísunum til byggingarsögunnar. Beinar línur, einfaldir fletir og flöt þök urðu áberandi og blokkaþyrpingar og háhýsi úr gleri og stáli eru stundum sögð einkenna þetta tímabil. Fjöldaframleiddar vörur og sjálfvirkar vélar eru mikilvægar í fagurfæði módernismans og í hönnun er mikil áhersla lögð á einfaldleika, notagildi og hagkvæmni.


Módernískur byggingarstíll.

Módernisminn lýsir sér í ákveðnu uppgjöri við form og hefðir fortíðarinnar og tilrauna til að höndla hinn margræða og brotakennda nútíma með nýjum aðferðum og hugmyndum. Þannig býr módernismi að arfleifð endurreisnarinnar og upplýsingastefnunnar með trú á mátt skynseminnar til þess að leysa vandamál mannkyns. Margt í heimsmynd módernismans felur í sér trú á útópíur eða fyrirmyndarríki þar sem öllu verður svo haganlega fyrir komið að enginn þarf að líða skort. Eins eru vonir bundnar við vélar, vélvirkni og framleiðni og myndhverfingin um samfélag sem vél er ríkjandi stef í módernisma.

Á sama tíma er módernisminn viðbragð við upplausn samfélagsins, eins og hún blasir við í tengslaleysi nútímafólks í iðnaðar- og stórborgum. Mannvonska og heimsstríð, háð með sömu vélunum og áttu að frelsa fólk undan oki hungurs og áþjánar, leiða til brostinna vona um framtíðina. Skipbrot fyrirmyndarríkja orsaka einnig vantrú á getu mannsins til þess að leysa nokkurn tíma sín stærstu vandamál. Þannig er í módernismanum nokkur spenna því á sama tíma og hann er breytiafl til þess að losna undan oki sögunnar stendur hann líka fyrir vonleysi gagnvart framtíðinni. Út úr þessari spennu verða til nýir frásagnarhættir, ný framsetning á myndlist og nýjar leiðir í tónsköpun, sem eiga við nútímann.

Mynd: Randomwire.com: Life on the edge of the digital extreme.

Höfundur

doktorsnemi í listrekstrarfræði

Útgáfudagur

27.4.2006

Spyrjandi

Sólborg Valdimarsdóttir

Tilvísun

Njörður Sigurjónsson. „Hvað er módernismi?“ Vísindavefurinn, 27. apríl 2006, sótt 13. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5844.

Njörður Sigurjónsson. (2006, 27. apríl). Hvað er módernismi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5844

Njörður Sigurjónsson. „Hvað er módernismi?“ Vísindavefurinn. 27. apr. 2006. Vefsíða. 13. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5844>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað er módernismi?
Módernismi vísar til nútímans og þess sem er nútímalegt og gæti útlagst á íslensku sem "nútímahyggja". Hefð hefur þó skapast fyrir notkun hins alþjóðlega heitis. Með módernisma er oft átt við stefnu eða tímabil í listum sem nær frá seinni hluta nítjándu aldar til miðbiks eða seinnihluta þeirrar tuttugustu. Módernismi var einnig áhrifamikill á tuttugustu öld á öðrum sviðum vestrænnar menningar, svo sem í stjórnmálum, hugvísindum og hönnun. Eins er módernismi notaður til þess að lýsa ákveðnu menningarástandi, tíðaranda og afstöðu manna til tíma og framþróunar.

Í umræðu um póst-módernisma eða "síð-módernisma" hefur módernismi fengið á sig eins konar andstæða eða neikvæða merkingu og er þá stundum skilinn sem flest það sem póst-módernismi er ekki. Slík beiting andstæðna og einföldunar við útskýringu á framþróun er í eðli sínu mjög í anda módernisma en hún einfaldar þó um of hina flóknu og oft ólíku strauma sem felast í módernismanum. Módernismi er margbrotið hugtak og alls ekki einfalt að skilgreina en þó má segja að módernismi sé fyrst og fremst viðbragð við nútímanum og tilraun til þess að skilja og útskýra nútímann á forsendum hans sjálfs.

Sem stefna í listum þá er módernismi samheiti yfir breytingar og margþætta þróun í listsköpun, til dæmis í myndlist, tónlist, byggingarlist, leiklist og bókmenntum, sem átti sér stað á tímabilinu frá um 1860 til 1970. Í Evrópu voru árin eftir fyrri heimsstyrjöldina sérlega frjósöm og á Íslandi varð módernismi áberandi í ljóðagerð um 1950. Í byggingarlist einkenndist módernismi af tilraunum til að losna undan kreddum fortíðar og vísunum til byggingarsögunnar. Beinar línur, einfaldir fletir og flöt þök urðu áberandi og blokkaþyrpingar og háhýsi úr gleri og stáli eru stundum sögð einkenna þetta tímabil. Fjöldaframleiddar vörur og sjálfvirkar vélar eru mikilvægar í fagurfæði módernismans og í hönnun er mikil áhersla lögð á einfaldleika, notagildi og hagkvæmni.


Módernískur byggingarstíll.

Módernisminn lýsir sér í ákveðnu uppgjöri við form og hefðir fortíðarinnar og tilrauna til að höndla hinn margræða og brotakennda nútíma með nýjum aðferðum og hugmyndum. Þannig býr módernismi að arfleifð endurreisnarinnar og upplýsingastefnunnar með trú á mátt skynseminnar til þess að leysa vandamál mannkyns. Margt í heimsmynd módernismans felur í sér trú á útópíur eða fyrirmyndarríki þar sem öllu verður svo haganlega fyrir komið að enginn þarf að líða skort. Eins eru vonir bundnar við vélar, vélvirkni og framleiðni og myndhverfingin um samfélag sem vél er ríkjandi stef í módernisma.

Á sama tíma er módernisminn viðbragð við upplausn samfélagsins, eins og hún blasir við í tengslaleysi nútímafólks í iðnaðar- og stórborgum. Mannvonska og heimsstríð, háð með sömu vélunum og áttu að frelsa fólk undan oki hungurs og áþjánar, leiða til brostinna vona um framtíðina. Skipbrot fyrirmyndarríkja orsaka einnig vantrú á getu mannsins til þess að leysa nokkurn tíma sín stærstu vandamál. Þannig er í módernismanum nokkur spenna því á sama tíma og hann er breytiafl til þess að losna undan oki sögunnar stendur hann líka fyrir vonleysi gagnvart framtíðinni. Út úr þessari spennu verða til nýir frásagnarhættir, ný framsetning á myndlist og nýjar leiðir í tónsköpun, sem eiga við nútímann.

Mynd: Randomwire.com: Life on the edge of the digital extreme....