Sólin Sólin Rís 11:04 • sest 15:36 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:26 • Sest 25:18 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:34 • Síðdegis: 24:14 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:07 • Síðdegis: 18:03 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 11:04 • sest 15:36 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:26 • Sest 25:18 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:34 • Síðdegis: 24:14 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:07 • Síðdegis: 18:03 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað eru póstmódernískar bókmenntir?

Ásta Kristín Benediktsdóttir

Hugtakið póstmódernískar bókmenntir hefur verið notað til að lýsa textum sem bregðast við síðnútímanum og hinu póstmóderna ástandi; í þeim er heildræn merking og leitin að henni gefin upp á bátinn eða tekin sérstaklega til umfjöllunar. Póstmódernísk verk birta samkvæmt slíkum viðmiðum ekki bara brotakenndan heim, eins og þau módernísku, heldur ringulreið. Þau fjalla oft um tungumálið sjálft, skáldskapinn og túlkun hans, óáreiðanlegir sögumenn birtast þar gjarnan og ýmiss konar sjálfsmeðvitund - athygli er beint að því að verkið sem um ræðir er skáldskapur og kannski ekki til nema í huga lesandans. Verkin eru gjarnan pólitísk og fela í sér andóf gegn ríkjandi valdi en líka gáskafull og írónísk. Í íróníu felst einmitt tvöfeldni þar sem hún þýðir eitt en um leið annað veigamikill hluti af því að efast og gagnrýna viðfangsefni er að gera grín að því og draga fram þversagnir.

Í póstmódernisma felst meðvitund um að enginn texti er nýr eða frumlegur í rauninni, heldur samsettur úr orðum sem hafa verið sögð áður og bera með sér „leifar“ fortíðar merkingu og samhengi. Þess vegna vísa póstmódernísk bókmenntaverk oft í aðra texta og listgreinar og eru jafnvel eins konar endurblöndun. Hermann Stefánsson lýsti því eitt sinn þegar hann fékk í hendurnar bók sem hann hélt að væri skáldsagan Íslenski draumurinn (1991) eftir Guðmund Andra Thorsson (f. 1957) en eftir því sem lestrinum vatt fram varð hún að unglingabók eftir Þorgrím Þráinsson (f. 1959). Í ljós kom að brot úr báðum verkum voru fyrir mistök prentuð sem hluti af sömu bók og úr varð gallað eintak - en um leið draumur allra póstmódernista að sögn Hermanns. Íslenski draumurinn í réttri útgáfu er þó raunar einnig gott dæmi um póstmódernískt verk en þar úir og grúir af vísunum í íslenskar bókmenntir, ekki síst ljóð rómantísku skáldanna. Frásögnin, sem er á tveimur tímaplönum, fjallar um feðga og sögumaðurinn minnir lesandann reglulega á að saga þeirra sé ekki „sönn“ heldur verði til í höfðinu á honum sjálfum.

Í póstmódernisma felst meðvitund um að enginn texti er nýr eða frumlegur í rauninni, heldur samsettur úr orðum sem hafa verið sögð áður og bera með sér „leifar“ fortíðar merkingu og samhengi.

Annað gott, og meðvitað, dæmi um póstmódernisma er fyrsta ljóðið í ljóðabók Einars Más Guðmundssonar, Sendisveinninn er einmana (1980) sem ber titilinn „flassbakk um framtíðina“ og hefst á eftirfarandi orðum: „Shantih shantih shantih / shake it up shake it up // t.s. eliot/david bowie“. Jón Yngvi Jóhannsson (1999) bendir á að þetta sé póstmódernismi í hnotskurn:[1] Teflt er saman vísunum í eitt merkasta verk hámódernismans, Eyðilandið eftir T. S. Eliot, og poppmenningu samtímans. Í titlinum er öskrandi þversögn og skilin milli há- og lágmenningar eru þurrkuð út með því að leggja Eliot og Bowie að jöfnu og setja slanguryrði í titilinn. Einnig má nefna hina vinsælu myndabók Skilaboðaskjóðuna (1986) eftir Þorvald Þorsteinsson (1960-2013) og leikgerð hennar. Þar segir frá Putta litla sem týnist í Ævintýraskóginum og hittir persónur úr ýmsum ævintýrum og heimsbókmenntum, svo sem íslenskt nátttröll, Bangsímon, einfættan tindáta, úlf, norn og dverga. Jón Yngvi telur söguna vera líkt og uppskrift að póstmódernisma: að nýta hefð og eldri texta sem hráefni í nýtt verk á írónískan og leikglaðan máta.[2]

Að lokum má spyrja hver munurinn sé á módernisma og póstmódernisma. Við því er ekkert einfalt svar. Mörg af framangreindum einkennum eiga líka við um verk sem kennd hafa verið við módernisma og því má velta fyrir sér hvort það sé yfirhöfuð hægt að greina þarna á milli.

Ástráður Eysteinsson hefur til dæmis sagt að líta megi á módernisma sem „jaðarhreyfing[u] til langs tíma“ og á póstmódernisma sem síðari tíma módernisma, því bæði hugtökin lýsa viðbrögðum við nútíma og andófi gegn staðnaðri hugsun.[3] Einnig veltir Ástráður vöngum yfir því hvort póstmódernismi sé lesháttur eða túlkunarmáti frekar en einkenni á textum.[4] Fjölmarga bókmenntatexta má lesa sem móderníska, póstmóderníska og jafnvel raunsæja, allt eftir því hvaða sjónarhorni og nálgun er beitt, og þetta er einmitt póstmódernísk hugsun í hnotskurn: Öll merking er breytingum undirorpin og flest, ef ekki allt, er mögulegt.

Tilvísanir:
  1. ^ Jón Yngvi Jóhannsson, „Upphaf íslensk póstmódernisma: Um fyrstu ljóðabækur Einars Más Guðmundssonar,“ Kynlegir kvistir tíndir til heiðurs Dagnýju Kristjánsdóttur fimmtugri, Soffía Auður Birgisdóttir (ritstj.) Reykjavík 1999, 125-42.
  2. ^ Jón Yngvi Jóhannsson, „Barnabókmenntir og íslensk bókmenntasaga - þrjú dæmi,“ Tímarit Máls og menningar 81.2 (2020) 53-58.
  3. ^ Ástráður Eysteinsson, „Frásagnarkreppur módernismans: Tilraun um bókmenntir og fuglaskoðendur,“ Ritið 13.2 (2013), 17.
  4. ^ Ástráður Eysteinsson, „Hvað er póstmódernismi? Hvernig er byggt á rústum?“ Tímarit Máls og menningar 49 (1988), 425-54.

Mynd:

Þetta svar er fengið úr bókinni Íslenskar bókmenntir: Saga og samhengi, Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík 2021. Textinn er lítillega aðlagaður Vísindavefnum.

Höfundur

Ásta Kristín Benediktsdóttir

lektor í íslenskum samtímabókmenntum

Útgáfudagur

3.3.2023

Spyrjandi

Jenný

Tilvísun

Ásta Kristín Benediktsdóttir. „Hvað eru póstmódernískar bókmenntir?“ Vísindavefurinn, 3. mars 2023, sótt 8. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=84520.

Ásta Kristín Benediktsdóttir. (2023, 3. mars). Hvað eru póstmódernískar bókmenntir? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=84520

Ásta Kristín Benediktsdóttir. „Hvað eru póstmódernískar bókmenntir?“ Vísindavefurinn. 3. mar. 2023. Vefsíða. 8. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=84520>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað eru póstmódernískar bókmenntir?
Hugtakið póstmódernískar bókmenntir hefur verið notað til að lýsa textum sem bregðast við síðnútímanum og hinu póstmóderna ástandi; í þeim er heildræn merking og leitin að henni gefin upp á bátinn eða tekin sérstaklega til umfjöllunar. Póstmódernísk verk birta samkvæmt slíkum viðmiðum ekki bara brotakenndan heim, eins og þau módernísku, heldur ringulreið. Þau fjalla oft um tungumálið sjálft, skáldskapinn og túlkun hans, óáreiðanlegir sögumenn birtast þar gjarnan og ýmiss konar sjálfsmeðvitund - athygli er beint að því að verkið sem um ræðir er skáldskapur og kannski ekki til nema í huga lesandans. Verkin eru gjarnan pólitísk og fela í sér andóf gegn ríkjandi valdi en líka gáskafull og írónísk. Í íróníu felst einmitt tvöfeldni þar sem hún þýðir eitt en um leið annað veigamikill hluti af því að efast og gagnrýna viðfangsefni er að gera grín að því og draga fram þversagnir.

Í póstmódernisma felst meðvitund um að enginn texti er nýr eða frumlegur í rauninni, heldur samsettur úr orðum sem hafa verið sögð áður og bera með sér „leifar“ fortíðar merkingu og samhengi. Þess vegna vísa póstmódernísk bókmenntaverk oft í aðra texta og listgreinar og eru jafnvel eins konar endurblöndun. Hermann Stefánsson lýsti því eitt sinn þegar hann fékk í hendurnar bók sem hann hélt að væri skáldsagan Íslenski draumurinn (1991) eftir Guðmund Andra Thorsson (f. 1957) en eftir því sem lestrinum vatt fram varð hún að unglingabók eftir Þorgrím Þráinsson (f. 1959). Í ljós kom að brot úr báðum verkum voru fyrir mistök prentuð sem hluti af sömu bók og úr varð gallað eintak - en um leið draumur allra póstmódernista að sögn Hermanns. Íslenski draumurinn í réttri útgáfu er þó raunar einnig gott dæmi um póstmódernískt verk en þar úir og grúir af vísunum í íslenskar bókmenntir, ekki síst ljóð rómantísku skáldanna. Frásögnin, sem er á tveimur tímaplönum, fjallar um feðga og sögumaðurinn minnir lesandann reglulega á að saga þeirra sé ekki „sönn“ heldur verði til í höfðinu á honum sjálfum.

Í póstmódernisma felst meðvitund um að enginn texti er nýr eða frumlegur í rauninni, heldur samsettur úr orðum sem hafa verið sögð áður og bera með sér „leifar“ fortíðar merkingu og samhengi.

Annað gott, og meðvitað, dæmi um póstmódernisma er fyrsta ljóðið í ljóðabók Einars Más Guðmundssonar, Sendisveinninn er einmana (1980) sem ber titilinn „flassbakk um framtíðina“ og hefst á eftirfarandi orðum: „Shantih shantih shantih / shake it up shake it up // t.s. eliot/david bowie“. Jón Yngvi Jóhannsson (1999) bendir á að þetta sé póstmódernismi í hnotskurn:[1] Teflt er saman vísunum í eitt merkasta verk hámódernismans, Eyðilandið eftir T. S. Eliot, og poppmenningu samtímans. Í titlinum er öskrandi þversögn og skilin milli há- og lágmenningar eru þurrkuð út með því að leggja Eliot og Bowie að jöfnu og setja slanguryrði í titilinn. Einnig má nefna hina vinsælu myndabók Skilaboðaskjóðuna (1986) eftir Þorvald Þorsteinsson (1960-2013) og leikgerð hennar. Þar segir frá Putta litla sem týnist í Ævintýraskóginum og hittir persónur úr ýmsum ævintýrum og heimsbókmenntum, svo sem íslenskt nátttröll, Bangsímon, einfættan tindáta, úlf, norn og dverga. Jón Yngvi telur söguna vera líkt og uppskrift að póstmódernisma: að nýta hefð og eldri texta sem hráefni í nýtt verk á írónískan og leikglaðan máta.[2]

Að lokum má spyrja hver munurinn sé á módernisma og póstmódernisma. Við því er ekkert einfalt svar. Mörg af framangreindum einkennum eiga líka við um verk sem kennd hafa verið við módernisma og því má velta fyrir sér hvort það sé yfirhöfuð hægt að greina þarna á milli.

Ástráður Eysteinsson hefur til dæmis sagt að líta megi á módernisma sem „jaðarhreyfing[u] til langs tíma“ og á póstmódernisma sem síðari tíma módernisma, því bæði hugtökin lýsa viðbrögðum við nútíma og andófi gegn staðnaðri hugsun.[3] Einnig veltir Ástráður vöngum yfir því hvort póstmódernismi sé lesháttur eða túlkunarmáti frekar en einkenni á textum.[4] Fjölmarga bókmenntatexta má lesa sem móderníska, póstmóderníska og jafnvel raunsæja, allt eftir því hvaða sjónarhorni og nálgun er beitt, og þetta er einmitt póstmódernísk hugsun í hnotskurn: Öll merking er breytingum undirorpin og flest, ef ekki allt, er mögulegt.

Tilvísanir:
  1. ^ Jón Yngvi Jóhannsson, „Upphaf íslensk póstmódernisma: Um fyrstu ljóðabækur Einars Más Guðmundssonar,“ Kynlegir kvistir tíndir til heiðurs Dagnýju Kristjánsdóttur fimmtugri, Soffía Auður Birgisdóttir (ritstj.) Reykjavík 1999, 125-42.
  2. ^ Jón Yngvi Jóhannsson, „Barnabókmenntir og íslensk bókmenntasaga - þrjú dæmi,“ Tímarit Máls og menningar 81.2 (2020) 53-58.
  3. ^ Ástráður Eysteinsson, „Frásagnarkreppur módernismans: Tilraun um bókmenntir og fuglaskoðendur,“ Ritið 13.2 (2013), 17.
  4. ^ Ástráður Eysteinsson, „Hvað er póstmódernismi? Hvernig er byggt á rústum?“ Tímarit Máls og menningar 49 (1988), 425-54.

Mynd:

Þetta svar er fengið úr bókinni Íslenskar bókmenntir: Saga og samhengi, Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík 2021. Textinn er lítillega aðlagaður Vísindavefnum.

...