Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Hver var Sólon frá Aþenu?

Geir Þ. Þórarinsson

Sólon var aþenskur stjórnmálaleiðtogi, löggjafi og skáld, sem hafði nokkurs konar landsföðursímynd í hugum Aþeninga á klassískum tíma. Hann var einnig talinn einn af vitringunum sjö síðar meir en til þeirra sóttu Grikkir gjarnan innblástur enda var þeim eignuð margvísleg speki. Þó var líklega oft um vel kunna málshætti og alþýðuspeki að ræða og alls óvíst hvort rekja mætti hana til einhvers þessara spekinga.

Sólon fæddist um 640 f.Kr. á eynni Salamis og var sonur Exekestídesar. Sá var vel stæður aðalsmaður en sólundaði auði sínum svo að Sólon varð að vinna fyrir sér. Um ævi hans og störf eru hans eigin kvæði helsta heimildin en hann er elsta attíska skáldið, sem varðveist hefur. Kvæði hans voru samin undir elegískum, trókæískum og jambískum háttum. Þau eru því miður ekki varðveitt í heild sinni þótt brotin séu mörg heilleg en grískir sagnaritarar studdust við þau og þekktu eflaust flest kvæðin. Meðal þeirra voru Heródótos, Aristóteles, Díodóros frá Sikiley, Plútarkos og Díogenes Laertíos. En það ber að varast að kyngja öllu sem skáldið segir enda minnir hann sjálfur á að „skáldin segja mörg ósannindi.“ Það sama gildir vitaskuld um sagnaritara. Um Sólon og umbætur hans er því margt fremur óljóst.

Frægar eru hálf-þjóðsagnakenndar sögur af samskiptum Sólons og Krösosar konungs í Lýdíu, þótt ósennilegt sé að þeir hafi nokkurn tímann hist. Krösos á til dæmis að hafa boðið Sóloni í heimsókn til sín eitt sinn og sýnt honum her sinn og auðævi og spurt hann svo hvort hann teldi sig ekki hamingjusamastan allra. En Sólon svaraði að hann gæti ómögulega sagt til um það, því enginn veit sína ævina fyrr en öll er og einungis þá er hægt að meta hvort hann lifði hamingjusömu lífi eða ekki. Krösos minntist þessara orða seinna, þegar hann hafði blásið til stríðs gegn Persaveldi, beðið lægri hlut og var í haldi Kýrosar mikla konungs. Þegar það átti að brenna hann á báli hrópaði hann út nafn Sólons í sífellu og þegar Kýros fékk að vita ástæðuna ákvað hann að þyrma lífi Krösosar.

Árið 594 f.Kr. var Sólon kjörinn arkon í Aþenu. Þá var ástandið í borginni slæmt og útlit fyrir að átök gætu brotist út milli stétta samfélagsins. Það féll í skaut Sólons að miðla málum. Misskiptingin var mikil og allur auður var í höndum landeigenda. Gríðarleg óánægja var meðal fátækra, ekki síst vegna þess að lög Aþenu leyfðu að gengið væri að fólkinu sjálfu sem veði. Með öðrum orðum var fólk, sem ekki gat greitt skuldir sínar, hneppt í skuldaánauð. Sólon lýsti yfir því sem hann nefndi byrðalétti, seisakþeia. Skuldaþrælkun var afnumin og bönnuð, þeir sem hnepptir höfðu verið í þrældóm fengu frelsi að nýju og veðskuldum var létt af jörðum bænda, sem áður þurftu að greiða aðalsmönnum drjúgan hlut af framleiðslu sinni. Sólon stærði sig af því að hafa flutt heim til Aþenu marga, sem seldir höfðu verið í þrældóm, en um það er ekkert meira vitað. Það er óljóst hvort hann lét einnig ógilda og fella niður allar skuldir í samfélaginu en Plútarkos segir svo hafa verið í Ævisögu Sólons.

Í kvæðum sínum kveðst Sólon hafa haldið hlífiskildi yfir báðum aðilum, aðalsmönnum og almúganum: frelsi almúgans var tryggt en auðmenn héldu lífi sínu og eignum. En það er erfitt að gera öllum til geðs, eins og Sólon kemst sjálfur að orði. Sumir töldu hann ganga of langt en aðrir vildu að hann gengi enn lengra og skipti upp öllum landareignum og útbýtti þeim að nýju. Hann lýsir því sjálfur þannig að hann hafi varist í allar áttir eins og úlfur, sem er umkringdur hundum. En þótt ekki hafi verið hægt að gera öllum til geðs virðist Sólon þó hafa afstýrt borgarastyrjöld.

Aresarhæð séð frá Akrópólis.

Sólon gerði gagngerar breytingar á lögum Aþenuborgar og var einmitt minnst sem mikils löggjafa (nomoþetes). Lögin sem voru í gildi voru einnar kynslóðar gömul, sett um 621 f.Kr. og kennd við Drakon. Þau voru afar ströng og dauðarefsing var algengustu viðurlögin. Þaðan er komin sú venja að nefna ströng lög drakonsk. Sólon breytti öllum lögum borgarinnar nema þeim sem vörðuðu morð. Hann lögleiddi vændi, skattlagði starfsemina og kom á fót opinberu vændishúsi. Hann bannaði með lögum illt umtal um látna menn. Og hann leyfði að framhjáhaldarar væru drepnir væru þeir gripnir glóðvolgir svo eitthvað sé nefnt. Plútarkos hefur raunar orð á því hversu fáránlegt misræmi var í lögunum því viðurlög við nauðgun voru einungis fjársektir.

Hann var einnig sagður hafa umbylt stjórnkerfinu og aukið þar með möguleika almennings til þátttöku og áhrifa í stjórnmálum. Á 7. öld f.Kr. gátu einungis þeir sem voru aðalsbornir gegnt embættum borgarinnar en í stað þess að miða þátttökurétt í stjórnsýslu borgarinnar við ætterni skipti Sólon lýðnum niður í fjórar stéttir eftir eignum og miðuðust réttindi borgaranna við stétt þeirra. Einungis efri stéttirnar tvær (pentakosiomedimnoi og hippeis) gátu gegnt valdamestu embættunum. Menn af næstneðstu stétt (zeugitai) gátu gegnt valdaminni embættum en lægsta stéttin (þetes) hafði ekki rétt til að gegna embættum en gat tekið þátt á þjóðþinginu (Ekklesía) eins og hinar stéttirnar. Sólon stofnaði einnig 400 manna ráð (Búle) sem undirbjó mál fyrir þjóðþingið og starfaði samhliða öldungaráðinu á Aresarhæð (Areopagos). Nú kaus þjóðþingið æðstu embættismennina í stað öldungaráðsins og gat sótt þá til saka. Þótt möguleikar flestra til stjórnmálaþátttöku og áhrifa væru enn afar takmarkaðir réðust þeir þó ekki lengur af ætterni og jukust raunar talsvert frá því sem áður var.

Sólon hefur verið nefndur faðir aþenska lýðræðisins þótt ekki séu allir sannfærðir um að þær stjórnkerfisbreytingar sem honum hafa verið eignaðar hafi í raun verið hans verk. Hann lifði að minnsta kosti til ársins 561 f.Kr. en þá var að brjótast til valda í Aþenu harðstjórinn Peisistratos. Sólon varaði eindregið við þeirri þróun en allt kom fyrir ekki. Kerfið sem Sólon kom á fót í Aþenu entist því skemur en ævi hans en andi þess og arfleifð féllu ekki í gleymsku. Þegar annar af sonum Peisistratosar hafði verið drepinn og hinn hrökklaðist frá völdum árið 510 f.Kr. dustaði annar umbótamaður að nafni Kleisþenes rykið af hugmyndum Sólons. Hann gerði ýmsar breytingar og skóp árið 507 f.Kr. það kerfi sem við þekkjum úr heimildum frá klassískum tíma á fimmtu og fjórðu öld f.Kr. Fyrir vikið hefur hann einnig verið nefndur faðir aþenska lýðræðisins en hér verður ekki farið nánar í þá sálma.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir og ítarefni:
  • Lesky, Albin. A History of Greek Literature, 2. útg. James Willis og Cornelis de Heer (þýð.) (Indianapolis: Hackett, 1996).
  • Murray, Oswyn. Early Greece, 2. útg. (Cambridge, MA: Harvard University Press, 1993).
  • Orrieux, Claude og Pauline Schmitt Pantel. A History of Ancient Greece. Janet Lloyd (þýð.) (Oxford: Blackwell, 1999).

Myndir:

Höfundur

Geir Þ. Þórarinsson

aðjúnkt í grísku og latínu við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

23.2.2011

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Geir Þ. Þórarinsson. „Hver var Sólon frá Aþenu?“ Vísindavefurinn, 23. febrúar 2011. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=58562.

Geir Þ. Þórarinsson. (2011, 23. febrúar). Hver var Sólon frá Aþenu? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=58562

Geir Þ. Þórarinsson. „Hver var Sólon frá Aþenu?“ Vísindavefurinn. 23. feb. 2011. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=58562>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver var Sólon frá Aþenu?
Sólon var aþenskur stjórnmálaleiðtogi, löggjafi og skáld, sem hafði nokkurs konar landsföðursímynd í hugum Aþeninga á klassískum tíma. Hann var einnig talinn einn af vitringunum sjö síðar meir en til þeirra sóttu Grikkir gjarnan innblástur enda var þeim eignuð margvísleg speki. Þó var líklega oft um vel kunna málshætti og alþýðuspeki að ræða og alls óvíst hvort rekja mætti hana til einhvers þessara spekinga.

Sólon fæddist um 640 f.Kr. á eynni Salamis og var sonur Exekestídesar. Sá var vel stæður aðalsmaður en sólundaði auði sínum svo að Sólon varð að vinna fyrir sér. Um ævi hans og störf eru hans eigin kvæði helsta heimildin en hann er elsta attíska skáldið, sem varðveist hefur. Kvæði hans voru samin undir elegískum, trókæískum og jambískum háttum. Þau eru því miður ekki varðveitt í heild sinni þótt brotin séu mörg heilleg en grískir sagnaritarar studdust við þau og þekktu eflaust flest kvæðin. Meðal þeirra voru Heródótos, Aristóteles, Díodóros frá Sikiley, Plútarkos og Díogenes Laertíos. En það ber að varast að kyngja öllu sem skáldið segir enda minnir hann sjálfur á að „skáldin segja mörg ósannindi.“ Það sama gildir vitaskuld um sagnaritara. Um Sólon og umbætur hans er því margt fremur óljóst.

Frægar eru hálf-þjóðsagnakenndar sögur af samskiptum Sólons og Krösosar konungs í Lýdíu, þótt ósennilegt sé að þeir hafi nokkurn tímann hist. Krösos á til dæmis að hafa boðið Sóloni í heimsókn til sín eitt sinn og sýnt honum her sinn og auðævi og spurt hann svo hvort hann teldi sig ekki hamingjusamastan allra. En Sólon svaraði að hann gæti ómögulega sagt til um það, því enginn veit sína ævina fyrr en öll er og einungis þá er hægt að meta hvort hann lifði hamingjusömu lífi eða ekki. Krösos minntist þessara orða seinna, þegar hann hafði blásið til stríðs gegn Persaveldi, beðið lægri hlut og var í haldi Kýrosar mikla konungs. Þegar það átti að brenna hann á báli hrópaði hann út nafn Sólons í sífellu og þegar Kýros fékk að vita ástæðuna ákvað hann að þyrma lífi Krösosar.

Árið 594 f.Kr. var Sólon kjörinn arkon í Aþenu. Þá var ástandið í borginni slæmt og útlit fyrir að átök gætu brotist út milli stétta samfélagsins. Það féll í skaut Sólons að miðla málum. Misskiptingin var mikil og allur auður var í höndum landeigenda. Gríðarleg óánægja var meðal fátækra, ekki síst vegna þess að lög Aþenu leyfðu að gengið væri að fólkinu sjálfu sem veði. Með öðrum orðum var fólk, sem ekki gat greitt skuldir sínar, hneppt í skuldaánauð. Sólon lýsti yfir því sem hann nefndi byrðalétti, seisakþeia. Skuldaþrælkun var afnumin og bönnuð, þeir sem hnepptir höfðu verið í þrældóm fengu frelsi að nýju og veðskuldum var létt af jörðum bænda, sem áður þurftu að greiða aðalsmönnum drjúgan hlut af framleiðslu sinni. Sólon stærði sig af því að hafa flutt heim til Aþenu marga, sem seldir höfðu verið í þrældóm, en um það er ekkert meira vitað. Það er óljóst hvort hann lét einnig ógilda og fella niður allar skuldir í samfélaginu en Plútarkos segir svo hafa verið í Ævisögu Sólons.

Í kvæðum sínum kveðst Sólon hafa haldið hlífiskildi yfir báðum aðilum, aðalsmönnum og almúganum: frelsi almúgans var tryggt en auðmenn héldu lífi sínu og eignum. En það er erfitt að gera öllum til geðs, eins og Sólon kemst sjálfur að orði. Sumir töldu hann ganga of langt en aðrir vildu að hann gengi enn lengra og skipti upp öllum landareignum og útbýtti þeim að nýju. Hann lýsir því sjálfur þannig að hann hafi varist í allar áttir eins og úlfur, sem er umkringdur hundum. En þótt ekki hafi verið hægt að gera öllum til geðs virðist Sólon þó hafa afstýrt borgarastyrjöld.

Aresarhæð séð frá Akrópólis.

Sólon gerði gagngerar breytingar á lögum Aþenuborgar og var einmitt minnst sem mikils löggjafa (nomoþetes). Lögin sem voru í gildi voru einnar kynslóðar gömul, sett um 621 f.Kr. og kennd við Drakon. Þau voru afar ströng og dauðarefsing var algengustu viðurlögin. Þaðan er komin sú venja að nefna ströng lög drakonsk. Sólon breytti öllum lögum borgarinnar nema þeim sem vörðuðu morð. Hann lögleiddi vændi, skattlagði starfsemina og kom á fót opinberu vændishúsi. Hann bannaði með lögum illt umtal um látna menn. Og hann leyfði að framhjáhaldarar væru drepnir væru þeir gripnir glóðvolgir svo eitthvað sé nefnt. Plútarkos hefur raunar orð á því hversu fáránlegt misræmi var í lögunum því viðurlög við nauðgun voru einungis fjársektir.

Hann var einnig sagður hafa umbylt stjórnkerfinu og aukið þar með möguleika almennings til þátttöku og áhrifa í stjórnmálum. Á 7. öld f.Kr. gátu einungis þeir sem voru aðalsbornir gegnt embættum borgarinnar en í stað þess að miða þátttökurétt í stjórnsýslu borgarinnar við ætterni skipti Sólon lýðnum niður í fjórar stéttir eftir eignum og miðuðust réttindi borgaranna við stétt þeirra. Einungis efri stéttirnar tvær (pentakosiomedimnoi og hippeis) gátu gegnt valdamestu embættunum. Menn af næstneðstu stétt (zeugitai) gátu gegnt valdaminni embættum en lægsta stéttin (þetes) hafði ekki rétt til að gegna embættum en gat tekið þátt á þjóðþinginu (Ekklesía) eins og hinar stéttirnar. Sólon stofnaði einnig 400 manna ráð (Búle) sem undirbjó mál fyrir þjóðþingið og starfaði samhliða öldungaráðinu á Aresarhæð (Areopagos). Nú kaus þjóðþingið æðstu embættismennina í stað öldungaráðsins og gat sótt þá til saka. Þótt möguleikar flestra til stjórnmálaþátttöku og áhrifa væru enn afar takmarkaðir réðust þeir þó ekki lengur af ætterni og jukust raunar talsvert frá því sem áður var.

Sólon hefur verið nefndur faðir aþenska lýðræðisins þótt ekki séu allir sannfærðir um að þær stjórnkerfisbreytingar sem honum hafa verið eignaðar hafi í raun verið hans verk. Hann lifði að minnsta kosti til ársins 561 f.Kr. en þá var að brjótast til valda í Aþenu harðstjórinn Peisistratos. Sólon varaði eindregið við þeirri þróun en allt kom fyrir ekki. Kerfið sem Sólon kom á fót í Aþenu entist því skemur en ævi hans en andi þess og arfleifð féllu ekki í gleymsku. Þegar annar af sonum Peisistratosar hafði verið drepinn og hinn hrökklaðist frá völdum árið 510 f.Kr. dustaði annar umbótamaður að nafni Kleisþenes rykið af hugmyndum Sólons. Hann gerði ýmsar breytingar og skóp árið 507 f.Kr. það kerfi sem við þekkjum úr heimildum frá klassískum tíma á fimmtu og fjórðu öld f.Kr. Fyrir vikið hefur hann einnig verið nefndur faðir aþenska lýðræðisins en hér verður ekki farið nánar í þá sálma.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir og ítarefni:
  • Lesky, Albin. A History of Greek Literature, 2. útg. James Willis og Cornelis de Heer (þýð.) (Indianapolis: Hackett, 1996).
  • Murray, Oswyn. Early Greece, 2. útg. (Cambridge, MA: Harvard University Press, 1993).
  • Orrieux, Claude og Pauline Schmitt Pantel. A History of Ancient Greece. Janet Lloyd (þýð.) (Oxford: Blackwell, 1999).

Myndir:...