Sólin Sólin Rís 10:39 • sest 15:52 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:40 • Sest 22:32 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:26 • Síðdegis: 23:02 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:56 • Síðdegis: 16:54 í Reykjavík

Hvað vitið þið um talíbana, hverjir eru þeir og fyrir hvað standa þeir?

Erlingur Erlingsson

Talíbanar (e. taliban, arabískt orð yfir „nemendur“) er andspyrnufylking Pastúna sem berst gegn fjölþjóðaliði ISAF (e. International Security Assistance Force) í Afganistan. Þeir stefna að því að ná yfirráðum yfir Afganistan á nýjan leik, en þeir réðu landinu frá 1996 til 2001. Í baráttu sinni gegn veru erlends herliðs í Afganistan hafa þeir einnig það markmið að steypa stjórn Hamid Karzai sem nýtur stuðnings alþjóðasamfélagsins, en talíbanar kalla hana iðulega „leppstjórn innrásarherjanna“. Múlla Muhamed Omar hefur verið leiðtogi hreyfingarinnar frá upphafi og stýrir hann æðsta ráði talíbana í Quetta í Pakistan (e. Quetta Shura).

Talíbanar réðu stærstum hluta Afganistan á árunum 1996-2001. Markmið þeirra er að ná yfirráðum yfir landinu á nýjan leik.

Tilurð talíbanahreyfingarinnar

Upplausn og borgarastríð geisaði í Afganistan eftir fall stjórnar Najibullah 1992, en Sovétríkin höfðu stutt hann til valda meðan á hernaði þeirra í landinu stóð 1979-1989. Andspyrnufylkingar sem barist höfðu gegn sovéska innrásarliðinu og umbjóðendum þeirra í Kabúl snerust nú hver gegn annarri í baráttu um yfirráð yfir landinu, ýmist með stuðningi Pakistan, Íran eða Sádi-Arabíu. Kjör almennings versnuðu til muna og vopnaðir hópar fóru sínu fram hvarvetna um landið.

Margt er á reiki um uppruna talíbanahreyfingarinnar en þó liggur fyrir að árið 1994 var Múlla Omar beðinn að leiða hóp íslamskra stúdenta gegn spilltum stjórnvöldum og stríðsherrum sem höfðu ítrekað beitt almenning í Kandahar-héraði ofbeldi og kúgun. Snemma virðist hreyfingin hafa notið stuðnings Pakistana enda hafa þeir lengi viljað komast til áhrifa í Afganistan, meðal annars til að koma í veg fyrir að höfuðóvinur þeirra, Indverjar, geri slíkt hið sama. Framganga talíbana, sem urðu æ fjölmennari, naut í fyrstu mikilla vinsælda almennings, enda var fólk langþreytt á spilltri stjórn stríðsherra þegar hér var komið. Afl talíbana jókst sérstaklega þegar þúsundir námsmanna úr trúarskólum í Pakistan gengu til liðs við þá og náðu þeir Kandaharborg á sitt vald 1994 og um þriðjungi landsins það sama ár. Talíbanar voru búnir þungavopnum frá Pakistan þegar þeir lögðu til atlögu við höfuðborgina Kabúl 1995 sem þeir náðu endanlega á sitt vald haustið 1996.

Íslamska emírdæmið Afganistan

Þegar Kabúl féll í hendur talíbana í septemberlok 1996 lýstu þeir yfir stofnun Íslamska emírdæmisins Afganistan undir hvítum fána hreyfingarinnar. Stjórn þeirra einkenndist af strangri túlkun íslamskra laga og harkalegum refsingum við jafnvel minnstu brotum. Konum var bannað að vinna og stúlkum að stunda nám. Margvísleg mannréttindi íbúanna voru skert undir harðri stjórn talíbana sem hélt einnig áfram hernaði gegn stríðsherrum sem myndað höfðu Norðurbandalagið (e. Northern Alliance). Með áframhaldandi óopinberum stuðningi Pakistana og einnig með tilstyrk arabískra bandamanna sinna í Al Kaída tókst hinum nýju stjórnvöldum í Kabúl að ná um 90% landsins á sitt vald á næstu árum.

Samskipti ríkisins við alþjóðasamfélagið voru nær engin og voru stjórnarhættir þeirra og mannréttindabrot ítrekað fordæmd.

Yfirráðasvæði talíbana haustið 2001.

Innrás og andspyrna

Endalok valdatíðar talíbana í Afganistan varð í kjölfar þess að Múlla Omar neitaði að framselja gest sinn Osama bin Ladin eftir árásirnar á Bandaríkin 2001. Bandaríkin beittu umfangsmiklum lofthernaði og sendu sérsveitir til stuðnings Norðurbandalaginu sem tókst að ná öllu landinu á sitt vald fyrir árslok 2001. Ósigur talíbana sem í upphafi virtist alger hefur þó reynst takmarkaður þrátt fyrir að þeim hafi verið stökkt á flótta yfir landamærin til Pakistan og að mannfall þeirra í árásum Bandaríkjanna hafi verið mikið. Andspyrna þeirra hófst fyrir alvöru á árunum 2005 til 2006 gegn fjölþjóðlegu liði ISAF sem kom til landsins í framhaldi af ósigri talíbana til þess að vinna að uppbyggingu í landinu og styðja bráðabirgðastjórn Hamid Karzai, sem var síðan kjörinn forseti landsins 2004 og aftur 2009.

Talíbönum hefur orðið nokkuð ágengt þrátt fyrir sívaxandi alþjóðlegan og innlendan herstyrk í landinu og nú er svo komið að þeir hafa veruleg áhrif víða um suður- og austurhluta landsins þegar brottflutningur alþjóðaliðsins er að hefjast, en áætlað er að honum ljúki árið 2014. Talíbanar standa fyrir þúsundum árása víða um land og þeim hefur tekist að takmarka áhrif stjórnvalda verulega víða um land. Á liðnum árum hafa talíbanar breytt orðræðu sinni verulega, væntanlega með það fyrir augum að fólk felli sig frekar við mögulega endurkomu þeirra og óttist ekki endurtekna ógnarstjórn þeirra. Hafa þeir til dæmis sagt að þeir geti fellt sig við menntun stúlkna upp að vissu marki og hafa lagt áherslu á umhyggju sína fyrir almenningi.

Myndir:

Höfundur

hernaðarsagnfræðingur og fyrrv. starfsmaður SÞ og NATO í Afganistan

Útgáfudagur

15.2.2012

Spyrjandi

Sigurbjörg Helga Ingadóttir, Sigríður Sigurðardóttir, Helgi Hjálmtýsson, Einar Njálsson

Tilvísun

Erlingur Erlingsson. „Hvað vitið þið um talíbana, hverjir eru þeir og fyrir hvað standa þeir?“ Vísindavefurinn, 15. febrúar 2012. Sótt 29. nóvember 2022. http://visindavefur.is/svar.php?id=58763.

Erlingur Erlingsson. (2012, 15. febrúar). Hvað vitið þið um talíbana, hverjir eru þeir og fyrir hvað standa þeir? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=58763

Erlingur Erlingsson. „Hvað vitið þið um talíbana, hverjir eru þeir og fyrir hvað standa þeir?“ Vísindavefurinn. 15. feb. 2012. Vefsíða. 29. nóv. 2022. <http://visindavefur.is/svar.php?id=58763>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað vitið þið um talíbana, hverjir eru þeir og fyrir hvað standa þeir?
Talíbanar (e. taliban, arabískt orð yfir „nemendur“) er andspyrnufylking Pastúna sem berst gegn fjölþjóðaliði ISAF (e. International Security Assistance Force) í Afganistan. Þeir stefna að því að ná yfirráðum yfir Afganistan á nýjan leik, en þeir réðu landinu frá 1996 til 2001. Í baráttu sinni gegn veru erlends herliðs í Afganistan hafa þeir einnig það markmið að steypa stjórn Hamid Karzai sem nýtur stuðnings alþjóðasamfélagsins, en talíbanar kalla hana iðulega „leppstjórn innrásarherjanna“. Múlla Muhamed Omar hefur verið leiðtogi hreyfingarinnar frá upphafi og stýrir hann æðsta ráði talíbana í Quetta í Pakistan (e. Quetta Shura).

Talíbanar réðu stærstum hluta Afganistan á árunum 1996-2001. Markmið þeirra er að ná yfirráðum yfir landinu á nýjan leik.

Tilurð talíbanahreyfingarinnar

Upplausn og borgarastríð geisaði í Afganistan eftir fall stjórnar Najibullah 1992, en Sovétríkin höfðu stutt hann til valda meðan á hernaði þeirra í landinu stóð 1979-1989. Andspyrnufylkingar sem barist höfðu gegn sovéska innrásarliðinu og umbjóðendum þeirra í Kabúl snerust nú hver gegn annarri í baráttu um yfirráð yfir landinu, ýmist með stuðningi Pakistan, Íran eða Sádi-Arabíu. Kjör almennings versnuðu til muna og vopnaðir hópar fóru sínu fram hvarvetna um landið.

Margt er á reiki um uppruna talíbanahreyfingarinnar en þó liggur fyrir að árið 1994 var Múlla Omar beðinn að leiða hóp íslamskra stúdenta gegn spilltum stjórnvöldum og stríðsherrum sem höfðu ítrekað beitt almenning í Kandahar-héraði ofbeldi og kúgun. Snemma virðist hreyfingin hafa notið stuðnings Pakistana enda hafa þeir lengi viljað komast til áhrifa í Afganistan, meðal annars til að koma í veg fyrir að höfuðóvinur þeirra, Indverjar, geri slíkt hið sama. Framganga talíbana, sem urðu æ fjölmennari, naut í fyrstu mikilla vinsælda almennings, enda var fólk langþreytt á spilltri stjórn stríðsherra þegar hér var komið. Afl talíbana jókst sérstaklega þegar þúsundir námsmanna úr trúarskólum í Pakistan gengu til liðs við þá og náðu þeir Kandaharborg á sitt vald 1994 og um þriðjungi landsins það sama ár. Talíbanar voru búnir þungavopnum frá Pakistan þegar þeir lögðu til atlögu við höfuðborgina Kabúl 1995 sem þeir náðu endanlega á sitt vald haustið 1996.

Íslamska emírdæmið Afganistan

Þegar Kabúl féll í hendur talíbana í septemberlok 1996 lýstu þeir yfir stofnun Íslamska emírdæmisins Afganistan undir hvítum fána hreyfingarinnar. Stjórn þeirra einkenndist af strangri túlkun íslamskra laga og harkalegum refsingum við jafnvel minnstu brotum. Konum var bannað að vinna og stúlkum að stunda nám. Margvísleg mannréttindi íbúanna voru skert undir harðri stjórn talíbana sem hélt einnig áfram hernaði gegn stríðsherrum sem myndað höfðu Norðurbandalagið (e. Northern Alliance). Með áframhaldandi óopinberum stuðningi Pakistana og einnig með tilstyrk arabískra bandamanna sinna í Al Kaída tókst hinum nýju stjórnvöldum í Kabúl að ná um 90% landsins á sitt vald á næstu árum.

Samskipti ríkisins við alþjóðasamfélagið voru nær engin og voru stjórnarhættir þeirra og mannréttindabrot ítrekað fordæmd.

Yfirráðasvæði talíbana haustið 2001.

Innrás og andspyrna

Endalok valdatíðar talíbana í Afganistan varð í kjölfar þess að Múlla Omar neitaði að framselja gest sinn Osama bin Ladin eftir árásirnar á Bandaríkin 2001. Bandaríkin beittu umfangsmiklum lofthernaði og sendu sérsveitir til stuðnings Norðurbandalaginu sem tókst að ná öllu landinu á sitt vald fyrir árslok 2001. Ósigur talíbana sem í upphafi virtist alger hefur þó reynst takmarkaður þrátt fyrir að þeim hafi verið stökkt á flótta yfir landamærin til Pakistan og að mannfall þeirra í árásum Bandaríkjanna hafi verið mikið. Andspyrna þeirra hófst fyrir alvöru á árunum 2005 til 2006 gegn fjölþjóðlegu liði ISAF sem kom til landsins í framhaldi af ósigri talíbana til þess að vinna að uppbyggingu í landinu og styðja bráðabirgðastjórn Hamid Karzai, sem var síðan kjörinn forseti landsins 2004 og aftur 2009.

Talíbönum hefur orðið nokkuð ágengt þrátt fyrir sívaxandi alþjóðlegan og innlendan herstyrk í landinu og nú er svo komið að þeir hafa veruleg áhrif víða um suður- og austurhluta landsins þegar brottflutningur alþjóðaliðsins er að hefjast, en áætlað er að honum ljúki árið 2014. Talíbanar standa fyrir þúsundum árása víða um land og þeim hefur tekist að takmarka áhrif stjórnvalda verulega víða um land. Á liðnum árum hafa talíbanar breytt orðræðu sinni verulega, væntanlega með það fyrir augum að fólk felli sig frekar við mögulega endurkomu þeirra og óttist ekki endurtekna ógnarstjórn þeirra. Hafa þeir til dæmis sagt að þeir geti fellt sig við menntun stúlkna upp að vissu marki og hafa lagt áherslu á umhyggju sína fyrir almenningi.

Myndir:...