Úti á hafi verður lítið vart við bylgjuna sem fylgir jarðskjálftanum þar sem öldulengdin er mikil og útslagið, það er hve hátt bylgjan nær, lítið. Þegar bylgjan kemur nær landi og að grynnra vatni minnkar hraði bylgjunnar töluvert og öldulengdin minnkar. Orkan sem býr í bylgjunni dreifist þá á minna rúmmál í sjónum og ölduhæðin eða útslagið vex. Það getur svo haft áhrif á stærð flóðbylgjunnar hvernig aðstæður við ströndina eru. Ef fjörðurinn þrengist því nær sem að landi kemur getur flóðbylgjan orðið mun hærri.
Eitt sem ber að varast við flóðbylgjur er sú staðreynd að fyrsta bylgjan er ekki endilega sú stærsta. Oftar en ekki er fyrsta bylgjan þannig að mikið útfiri verður í sjónum, það er að sjórinn virðist hopa til baka. Við þetta hafa margir flykkst niður að sjónum enda óvenjulegur hlutur á ferð. En í þann mund gæti komið stór flóðbylgja sem skolar öllu sem í vegi hennar er í burtu.
Þegar stór flóðbylgja skall á eyjunni Súmötru, annan dag jóla árið 2004, bjargaði ung skólastelpa lífi fjölmargra strandgesta. Hún hafði fylgst vel með í jarðfræðitímum í skólanum heima á Englandi og vissi því að áðurnefnt útfiri gæti þýtt að flóðbylgja væri í þann mund að skella á ströndinni. Hún aðvaraði því strandgestina og náðu flestir að forða sér upp á hæðir í grenndinni.
Textinn hér að ofan er lauslegur útdráttur, auk smá viðbótar, úr svari Páls Einarssonar við spurningunni: Hvernig myndast flóðbylgjur (tsunami)?Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvað er sjávarskafl eða tsunami? eftir Halldór Björnsson
- Environment Waikato. Sótt 17.3.2011.
Þetta svar er í flokknum "bekkirnir spyrja" þar sem starfsfólk vefsins svarar spurningum frá grunnskólabekk í kennslustund, samkvæmt samningi. Lögð er áhersla á skjót svör, stutt og aðgengileg. Oft er byggt á öðrum svörum sem kunna að nýtast almennum lesendum betur.