Sólin Sólin Rís 05:19 • sest 21:35 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:18 • Sest 04:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:08 • Síðdegis: 13:14 í Reykjavík

Hvers konar borgir og byggingar byggðu Mayarnir og voru þær skreyttar á einhvern hátt?

Sigurður Hjartarson

Mayarnir lifðu í borgríkjum sem voru þrautskipulögð. Í miðjunni voru trúarmiðstöðvar, gjarnan píramídar með hofum á toppi, stór torg með minningarsúlum (e. stele) og þá hallir ráðastéttarinnar, allt byggt af steini. Fjær miðjunni komu síðan aðrar byggingar af steini, stjörnuskoðunarturnar, boltaleikvangar og þá híbýli annarra stétta og fjærst bústaðir alþýðunnar, sem byggðir voru af viði og hálmi og því forgengilegir og löngu horfnir. Það sem við okkur blasir í dag eru því miðkjarnar og aðrar helstu opinberar byggingar hinna fornu borga. Píramídarnir voru flestallir gegnheilir sem undirstöður undir meginhofin, en nokkrir píramídar voru þó jafnframt grafhýsi svo sem sjá má í Palenque, Chiapa de Corzo og víðar.

Kjarnar stærstu borganna gátu orðið æðistórir, margir hektarar í Tikal, Copán og Chichén Itzá, með píramídum er náðu 50-60 metra hæð, torgum sem voru meira en 200 metrar á kant og boltaleikvöngum er voru á stærð við knattspyrnuleikvelli nútímans.



Sýn listamanns á borgina Copán.

Það sem helst einkennir byggingarlist Mayanna er að allar byggingar hvíla á sterkum steingrunnum, allt að nokkurra metra háum. Annað sérkenni flestra bygginga, er þakgerðin. Mayar notuðu ekki reglulega burðarboga eins og Rómverjar forðum en beittu svipuðum lögmálum til að bera uppi þök með því að setja steina sífellt innar með vaxandi hæð.



Margs konar þakgerðir á byggingum Maya.

Bogarnir voru þeim vissulega kunnir svo sem sjá má á stjörnuskoðunarturninum í Chichén Itzá og víðar. Flöt steinþök voru algeng en þá var burðarvirkið viðarstoðir og smurt yfir, undir og á milli stoða með steinlími. Þriðja einkenni flestra bygginga eru skreytingar á útveggjum þar sem flókin og oft ótrúlega fíngerð steinmósaík þekur veggi.



Steinmósaík á landstjórahöllinni í Uxmal.

Innandyra voru byggingar gjarnan mikið skreyttar með lágmyndum og meðfylgjandi leturflötum auk þess sem marglitar freskur hafa komið í ljós á allmörgum stöðum. Langþekktust veggmálverkanna eru freskurnar í Bonampak í Chiapas-fylki í Mexíkó, málaðar árið 790. Þar eru veggir þriggja lítilla sala í einu húsi þaktir marglitum freskum sem voru í fullkomnu ástandi er þær fundust aftur árið 1946.

Á myndunum segir frá tilnefningu eða krýningu nýs ríkisarfa. Í fyrsta salnum er lýst undirbúningi vígslunnar, komu hljómsveitar á staðinn þar sem fyrir eru konungur, tignir gestir og æðstu aðstoðarmenn. Í öðrum sal er lýst árás á nærliggjandi konungsríki, töku fanga, dómi yfir þeim og refsingu á tröppum hofs eða hallar. Í þriðja salnum er lýst hápunkti athafnarinnar með trúardansi á tröppum píramída, þar sem konungur og ættmenn hans í dýrlegum klæðum vekja sér blóð í þágu guðanna. Fjöldi táknmynda á myndflötunum sýna dagsetningar atburða og skýra myndirnar með nöfnum og titlum þátttakenda. Allar eru myndirnar afar natúralistískar þar sem þekkja má ýmsar persónur frá einum sal til annars. Í fyrsta salnum eru andlitsdrættir fólk afslappaðir, í öðrum salnum grimmir í árásinni, í þriðja salnum ábúðarfullir og upphafnir við dómana og fórnirnar. Natúralisminn er mun sterkari og teikningin öll listrænni en sjá má í evrópskri list frá sama tíma.



Freskur í Bonampak. Herteknir fangar dæmdir.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Heimildir og myndir:

  • Diego de Landa: Relación de las Cosas de Yucatán. Historia 16, Madrid, 1985.
  • R.J. Sharer: The Ancient Maya; 5. útg. Stanford Univ. Press, 1994.
  • Michael D. Coe: The Maya. Pelican Books 1971.
  • Maria Longhena: Maya Script. New York, 2000.
  • T.P. Culbert: Maya Civilization. Washington D.C., 1993.
  • J.A. Sabloff: The Cities of Ancient Mexico. London, 1997.
  • Mary Ellen Mirren: Maya Art and Architeture. London, 1999.
  • S.G. Morley: La Civilización Maya. Mexico, DF, 1994.
  • Teikning af Copán: Western Kentucky University
  • Teikningar af þakgerðum: S.G. Morley (1994), bls. 333)
  • Mynd af steinmósaík: Mesoweb
  • Freskur í Bonampak: Ancient Americas

Höfundur

sagnfræðingur og kennari

Útgáfudagur

18.5.2011

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Sigurður Hjartarson. „Hvers konar borgir og byggingar byggðu Mayarnir og voru þær skreyttar á einhvern hátt?“ Vísindavefurinn, 18. maí 2011. Sótt 25. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=59616.

Sigurður Hjartarson. (2011, 18. maí). Hvers konar borgir og byggingar byggðu Mayarnir og voru þær skreyttar á einhvern hátt? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=59616

Sigurður Hjartarson. „Hvers konar borgir og byggingar byggðu Mayarnir og voru þær skreyttar á einhvern hátt?“ Vísindavefurinn. 18. maí. 2011. Vefsíða. 25. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=59616>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvers konar borgir og byggingar byggðu Mayarnir og voru þær skreyttar á einhvern hátt?
Mayarnir lifðu í borgríkjum sem voru þrautskipulögð. Í miðjunni voru trúarmiðstöðvar, gjarnan píramídar með hofum á toppi, stór torg með minningarsúlum (e. stele) og þá hallir ráðastéttarinnar, allt byggt af steini. Fjær miðjunni komu síðan aðrar byggingar af steini, stjörnuskoðunarturnar, boltaleikvangar og þá híbýli annarra stétta og fjærst bústaðir alþýðunnar, sem byggðir voru af viði og hálmi og því forgengilegir og löngu horfnir. Það sem við okkur blasir í dag eru því miðkjarnar og aðrar helstu opinberar byggingar hinna fornu borga. Píramídarnir voru flestallir gegnheilir sem undirstöður undir meginhofin, en nokkrir píramídar voru þó jafnframt grafhýsi svo sem sjá má í Palenque, Chiapa de Corzo og víðar.

Kjarnar stærstu borganna gátu orðið æðistórir, margir hektarar í Tikal, Copán og Chichén Itzá, með píramídum er náðu 50-60 metra hæð, torgum sem voru meira en 200 metrar á kant og boltaleikvöngum er voru á stærð við knattspyrnuleikvelli nútímans.



Sýn listamanns á borgina Copán.

Það sem helst einkennir byggingarlist Mayanna er að allar byggingar hvíla á sterkum steingrunnum, allt að nokkurra metra háum. Annað sérkenni flestra bygginga, er þakgerðin. Mayar notuðu ekki reglulega burðarboga eins og Rómverjar forðum en beittu svipuðum lögmálum til að bera uppi þök með því að setja steina sífellt innar með vaxandi hæð.



Margs konar þakgerðir á byggingum Maya.

Bogarnir voru þeim vissulega kunnir svo sem sjá má á stjörnuskoðunarturninum í Chichén Itzá og víðar. Flöt steinþök voru algeng en þá var burðarvirkið viðarstoðir og smurt yfir, undir og á milli stoða með steinlími. Þriðja einkenni flestra bygginga eru skreytingar á útveggjum þar sem flókin og oft ótrúlega fíngerð steinmósaík þekur veggi.



Steinmósaík á landstjórahöllinni í Uxmal.

Innandyra voru byggingar gjarnan mikið skreyttar með lágmyndum og meðfylgjandi leturflötum auk þess sem marglitar freskur hafa komið í ljós á allmörgum stöðum. Langþekktust veggmálverkanna eru freskurnar í Bonampak í Chiapas-fylki í Mexíkó, málaðar árið 790. Þar eru veggir þriggja lítilla sala í einu húsi þaktir marglitum freskum sem voru í fullkomnu ástandi er þær fundust aftur árið 1946.

Á myndunum segir frá tilnefningu eða krýningu nýs ríkisarfa. Í fyrsta salnum er lýst undirbúningi vígslunnar, komu hljómsveitar á staðinn þar sem fyrir eru konungur, tignir gestir og æðstu aðstoðarmenn. Í öðrum sal er lýst árás á nærliggjandi konungsríki, töku fanga, dómi yfir þeim og refsingu á tröppum hofs eða hallar. Í þriðja salnum er lýst hápunkti athafnarinnar með trúardansi á tröppum píramída, þar sem konungur og ættmenn hans í dýrlegum klæðum vekja sér blóð í þágu guðanna. Fjöldi táknmynda á myndflötunum sýna dagsetningar atburða og skýra myndirnar með nöfnum og titlum þátttakenda. Allar eru myndirnar afar natúralistískar þar sem þekkja má ýmsar persónur frá einum sal til annars. Í fyrsta salnum eru andlitsdrættir fólk afslappaðir, í öðrum salnum grimmir í árásinni, í þriðja salnum ábúðarfullir og upphafnir við dómana og fórnirnar. Natúralisminn er mun sterkari og teikningin öll listrænni en sjá má í evrópskri list frá sama tíma.



Freskur í Bonampak. Herteknir fangar dæmdir.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Heimildir og myndir:

  • Diego de Landa: Relación de las Cosas de Yucatán. Historia 16, Madrid, 1985.
  • R.J. Sharer: The Ancient Maya; 5. útg. Stanford Univ. Press, 1994.
  • Michael D. Coe: The Maya. Pelican Books 1971.
  • Maria Longhena: Maya Script. New York, 2000.
  • T.P. Culbert: Maya Civilization. Washington D.C., 1993.
  • J.A. Sabloff: The Cities of Ancient Mexico. London, 1997.
  • Mary Ellen Mirren: Maya Art and Architeture. London, 1999.
  • S.G. Morley: La Civilización Maya. Mexico, DF, 1994.
  • Teikning af Copán: Western Kentucky University
  • Teikningar af þakgerðum: S.G. Morley (1994), bls. 333)
  • Mynd af steinmósaík: Mesoweb
  • Freskur í Bonampak: Ancient Americas
...