Sólin Sólin Rís 08:19 • sest 18:06 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 17:56 • Sest 04:30 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:32 • Síðdegis: 16:49 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:44 • Síðdegis: 23:08 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 08:19 • sest 18:06 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 17:56 • Sest 04:30 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:32 • Síðdegis: 16:49 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:44 • Síðdegis: 23:08 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvernig var samfélag Mayanna, við hvað unnu þeir og hver var heimsmynd þeirra?

Sigurður Hjartarson

Öll samfélög Mayanna byggðu á akuryrkju þar sem maísræktun var undirstaðan og maís meginfæða íbúanna. En þeir ræktuðu ótrúlegan fjölda nytjajurta, svo sem fjölda afbrigða af sílípipar og baunum, sætar kartöflur, tómata, lárperur, grasker, kakó, vanillu, tóbak, baðmull og henekvín (e. henequin). Reyndar ræktuðu Mayar og aðrar indíánaþjóðir miklu fleiri matjurtir en íbúar gamla heimsins. Kjötneysla var hins vegar lítil enda dýrahald hverfandi, einna helst voru ræktaðir kalkúnar. Villidýr voru að sjálfsögðu veidd svo og fiskur.

Allur þorri íbúanna stundaði akuryrkju en matvælaöflun virðist hafa verið býsna auðveld enda verða ekki á annan hátt skýrðar þær miklu byggingaframkvæmdir sem sjá má víðast á svæði Mayanna. Þeir virðast hafa haft nægilegan mannafla til annarra starfa en mataröflunar; byggingamenn hvers konar, arkitekta, steinhöggvara, smiði, myndhöggvara, skrifara, vefara og málara auk fjölmennrar yfirstéttar, presta og vísindamanna.



Mayar ræktuðu fjöldann allan af nytjajurtum, þar með talinn maís sem var helsta fæða þeirra.

Verslun var umfangsmikil og bárust sumar vörur langt að, ýmsir eðalsteinar, málmar, sjaldgæfar fjaðrir og fleira. Saltverslun var og mikil um allt svæðið. Verslunin var einkum í formi vöruskipta en kakóbaunir voru algengur gjaldmiðill og hátt metnar. Vöruflutningar voru með ströndum fram og á landi voru það burðarmenn sem sáu um flutningana því Mayar höfðu engin burðardýr.

Trúarbrögð Mayanna einkenndust af frjósemisdýrkun svo sem títt er um akuryrkjusamfélög. Kornið, regnið, vindurinn, himinninn, sólin, tunglið, fæðing og dauði, allt var þetta tengt trúnni og trúarathafnir virðast hafa náð til allra skapaðra hluta.

Hugmyndin um heimsmynd Mayanna virðist hafa breiðst út meðal flestra þjóða í Mið-Ameríku. Himnaríki þeirra eða uppheimar voru 13 og helheimarnir 9. Heiminn töldu þeir hvíla á baki krókódíls en fjögur goðmögn báru hin 13 himnaríki uppi í fjórum höfuðáttum. Hvert þessara fjögurra goðmagna hafði sinn einkennislit og kemur þar skýrt fram í tímatali þeirra og almanaki hvernig höfuðskepnurnar tengjast goðmögnum, höfuðáttum og litum.

Heimur Mayanna hafði mátt þola heimsendi fjórum sinnum en hvern heim töldu þeir vara 5126 ár og lifðu Mayar þess tíma sína fimmtu endursköpun. Er hér sennilega kominn lykillinn að árinu 3114 sem líklega hefur verið upphaf hinnar fimmtu tilveru Mayanna. Samkvæmt þessu má gera ráð fyrir að næsti heimsendir og upphaf hinnar sjöttu endursköpunar verði 21. desember árið 2012.



Píramídinn í Chichén Itzá.

Tímaskynjun Mayanna var með miklum ólíkindum því með þessum hugmyndum gera þeir ráð fyrir að um 23.000 ár séu liðin frá sköpun hins fyrsta heims, eða um fjórum sinnum lengri tími en kristnir spekingar 17. aldar töldu liðinn frá sköpun heimsins samkvæmt Biblíunni.

Gleggst merki um trúarlíf Mayanna, sem gegnsýrði allt þeirra líf og tilveru, sjást best í hinum fjölmörgu byggingum þeirra og trúarmiðstöðvum. Hof þeirra og hallir í Tikal, Copán, Palenque, Piedras Negras, Bonampak, Uaxactún, Uxmal, Mayapan og Chichén Itzá eru einhverjar stórkostlegustu minjar sem nokkur þjóð hefur skilið eftir sig, bæði hvað snertir mikilleik og listrænt gildi.

Frekara lesefni á Vísindavefnum eftir sama höfund:

Heimildir og myndir:

  • Diego de Landa: Relación de las Cosas de Yucatán. Historia 16, Madrid, 1985.
  • R.J. Sharer: The Ancient Maya; 5. útg. Stanford Univ. Press, 1994.
  • Michael D. Coe: The Maya. Pelican Books 1971.
  • Maria Longhena: Maya Script. New York, 2000.
  • T.P. Culbert: Maya Civilization. Washington D.C., 1993.
  • Mynd af maís: Sacred Earth. Sótt 17. 5. 2011.
  • Mynd frá Chichén Itzá: City Pictures. Sótt 17. 5. 2011.


Spurningin í heild hljóðaði svona:
  • Getið þið gefið mér einhverjar upplýsingar um Maya í Mið-Ameríku? Sem sagt menningu og samfélag Maya! Ég finn nánast engar heimildir á Netinu!

Höfundur

sagnfræðingur og kennari

Útgáfudagur

19.5.2011

Spyrjandi

Sigrún Sveinsdóttir

Tilvísun

Sigurður Hjartarson. „Hvernig var samfélag Mayanna, við hvað unnu þeir og hver var heimsmynd þeirra?“ Vísindavefurinn, 19. maí 2011, sótt 15. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=59711.

Sigurður Hjartarson. (2011, 19. maí). Hvernig var samfélag Mayanna, við hvað unnu þeir og hver var heimsmynd þeirra? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=59711

Sigurður Hjartarson. „Hvernig var samfélag Mayanna, við hvað unnu þeir og hver var heimsmynd þeirra?“ Vísindavefurinn. 19. maí. 2011. Vefsíða. 15. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=59711>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvernig var samfélag Mayanna, við hvað unnu þeir og hver var heimsmynd þeirra?
Öll samfélög Mayanna byggðu á akuryrkju þar sem maísræktun var undirstaðan og maís meginfæða íbúanna. En þeir ræktuðu ótrúlegan fjölda nytjajurta, svo sem fjölda afbrigða af sílípipar og baunum, sætar kartöflur, tómata, lárperur, grasker, kakó, vanillu, tóbak, baðmull og henekvín (e. henequin). Reyndar ræktuðu Mayar og aðrar indíánaþjóðir miklu fleiri matjurtir en íbúar gamla heimsins. Kjötneysla var hins vegar lítil enda dýrahald hverfandi, einna helst voru ræktaðir kalkúnar. Villidýr voru að sjálfsögðu veidd svo og fiskur.

Allur þorri íbúanna stundaði akuryrkju en matvælaöflun virðist hafa verið býsna auðveld enda verða ekki á annan hátt skýrðar þær miklu byggingaframkvæmdir sem sjá má víðast á svæði Mayanna. Þeir virðast hafa haft nægilegan mannafla til annarra starfa en mataröflunar; byggingamenn hvers konar, arkitekta, steinhöggvara, smiði, myndhöggvara, skrifara, vefara og málara auk fjölmennrar yfirstéttar, presta og vísindamanna.



Mayar ræktuðu fjöldann allan af nytjajurtum, þar með talinn maís sem var helsta fæða þeirra.

Verslun var umfangsmikil og bárust sumar vörur langt að, ýmsir eðalsteinar, málmar, sjaldgæfar fjaðrir og fleira. Saltverslun var og mikil um allt svæðið. Verslunin var einkum í formi vöruskipta en kakóbaunir voru algengur gjaldmiðill og hátt metnar. Vöruflutningar voru með ströndum fram og á landi voru það burðarmenn sem sáu um flutningana því Mayar höfðu engin burðardýr.

Trúarbrögð Mayanna einkenndust af frjósemisdýrkun svo sem títt er um akuryrkjusamfélög. Kornið, regnið, vindurinn, himinninn, sólin, tunglið, fæðing og dauði, allt var þetta tengt trúnni og trúarathafnir virðast hafa náð til allra skapaðra hluta.

Hugmyndin um heimsmynd Mayanna virðist hafa breiðst út meðal flestra þjóða í Mið-Ameríku. Himnaríki þeirra eða uppheimar voru 13 og helheimarnir 9. Heiminn töldu þeir hvíla á baki krókódíls en fjögur goðmögn báru hin 13 himnaríki uppi í fjórum höfuðáttum. Hvert þessara fjögurra goðmagna hafði sinn einkennislit og kemur þar skýrt fram í tímatali þeirra og almanaki hvernig höfuðskepnurnar tengjast goðmögnum, höfuðáttum og litum.

Heimur Mayanna hafði mátt þola heimsendi fjórum sinnum en hvern heim töldu þeir vara 5126 ár og lifðu Mayar þess tíma sína fimmtu endursköpun. Er hér sennilega kominn lykillinn að árinu 3114 sem líklega hefur verið upphaf hinnar fimmtu tilveru Mayanna. Samkvæmt þessu má gera ráð fyrir að næsti heimsendir og upphaf hinnar sjöttu endursköpunar verði 21. desember árið 2012.



Píramídinn í Chichén Itzá.

Tímaskynjun Mayanna var með miklum ólíkindum því með þessum hugmyndum gera þeir ráð fyrir að um 23.000 ár séu liðin frá sköpun hins fyrsta heims, eða um fjórum sinnum lengri tími en kristnir spekingar 17. aldar töldu liðinn frá sköpun heimsins samkvæmt Biblíunni.

Gleggst merki um trúarlíf Mayanna, sem gegnsýrði allt þeirra líf og tilveru, sjást best í hinum fjölmörgu byggingum þeirra og trúarmiðstöðvum. Hof þeirra og hallir í Tikal, Copán, Palenque, Piedras Negras, Bonampak, Uaxactún, Uxmal, Mayapan og Chichén Itzá eru einhverjar stórkostlegustu minjar sem nokkur þjóð hefur skilið eftir sig, bæði hvað snertir mikilleik og listrænt gildi.

Frekara lesefni á Vísindavefnum eftir sama höfund:

Heimildir og myndir:

  • Diego de Landa: Relación de las Cosas de Yucatán. Historia 16, Madrid, 1985.
  • R.J. Sharer: The Ancient Maya; 5. útg. Stanford Univ. Press, 1994.
  • Michael D. Coe: The Maya. Pelican Books 1971.
  • Maria Longhena: Maya Script. New York, 2000.
  • T.P. Culbert: Maya Civilization. Washington D.C., 1993.
  • Mynd af maís: Sacred Earth. Sótt 17. 5. 2011.
  • Mynd frá Chichén Itzá: City Pictures. Sótt 17. 5. 2011.


Spurningin í heild hljóðaði svona:
  • Getið þið gefið mér einhverjar upplýsingar um Maya í Mið-Ameríku? Sem sagt menningu og samfélag Maya! Ég finn nánast engar heimildir á Netinu!
...