Sólin Sólin Rís 03:42 • sest 23:23 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 17:28 • Sest 23:32 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:35 • Síðdegis: 13:20 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:50 • Síðdegis: 19:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 03:42 • sest 23:23 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 17:28 • Sest 23:32 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:35 • Síðdegis: 13:20 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:50 • Síðdegis: 19:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver fann upp peningana?

Gylfi Magnússon

Peningar gegna mikilvægu hlutverki í nútímahagkerfum. Þessu hefur þó ekki alltaf verið svo farið. Í einföldum þjóðfélögum fyrr á tímum tíðkuðust vöruskipti, það er skipt var á einni vöru fyrir aðra, eða jafnvel sjálfsþurftarbúskapur, það er hvert heimili var að mestu sjálfu sér nægt og þurfti því lítt eða ekki á viðskiptum við aðila utan heimilisins að halda.

Bætt verktækni varð þess smám saman valdandi að verkaskipting varð algengari. Verkaskipting kallar á viðskipti. Þannig getur maður, sem sérhæfir sig í skógerð, svo að dæmi sé tekið, ekki lifað af skónum einum saman. Hann stundar því viðskipti, lætur eitt par af skóm af hendi til bakara og fær í staðinn brauð, annað afhendir hann svínabónda og fær kjöt, það þriðja trésmið, sem lætur honum húsgögn í té og svo framvegis.

Rómverskir peningar.

Þetta er mun hentugra fyrirkomulag en að hver maður um sig sníði sína eigin skó, baki brauð, smíði húsgögn og stundi svínarækt. Þó eru nokkur vandamál óhjákvæmileg, til dæmis getur vel staðið þannig á að bakarann vanti ekki skó þegar skósmiðinn langar í brauð. Ein lausn á því vandamáli væri að skósmiðurinn leitaði uppi annan bakara, sem væri ekki jafnvel skóaður. Önnur lausn væri að bakarinn tæki við skónum sem borgun fyrir brauð og léti berfættan þriðja aðila fá þá í skiptum fyrir einhver gæði, sem bakarinn girnist sjálfur.

Vöruskiptum getur fylgt talsvert umstang og kostnaður við viðskiptin orðið mikill. Með því að koma sér saman um ákveðna staðla var þó hægt að liðka fyrir viðskiptum. Þannig fékk orðið fé núverandi merkingu vegna þess að búfé var notað sem gjaldmiðill. Kúgildi og ærgildi, það er verðgildi kvikfénaðar, voru notuð sem mælieining á verðmæti. Vaðmál var einnig notað sem gjaldmiðill á miðöldum hér á landi, og alin vaðmáls sem mælieining.

Erlendis tóku menn eftir því, að viðskipti með sumar vörur hafa í för með sér minna umstang en viðskipti með aðrar vörur. Þannig er mun einfaldara að flytja, geyma og meta gull en til dæmis kvikfé. Því þróuðust viðskipti smám saman þannig að í stað einfaldra vöruskipta var tekið að selja vörur fyrir gull eða aðra góðmálma, svo sem silfur, kopar eða brons, sem síðan var hægt að nota aftur í viðskiptum. Talið er að þekkst hafi að nota málma sem gjaldmiðil síðan að minnsta kosti árið 2000 fyrir Krist. Í dæminu að ofan um svanga skósmiðinn hefði lausnin því verið sú að skósmiðurinn seldi einhverjum þriðja aðila skó og fengi gull í staðinn, í stað þess að leita að bakara sem var illa búinn til fótanna. Skósmiðurinn gæti síðan keypt brauð fyrir gullið og bakarinn keypt af enn öðrum aðila það, sem hann vanhagar um, fyrir andvirði brauðsins í gulli.

Enn eitt skref til framfara var tekið þegar yfirvöld tóku að gefa út mynt úr góðmálmi. Yfirvaldið ábyrgðist að í hverri mynt væri ákveðið magn af góðmálmum. Þá þurfti ekki lengur að vega málmstykki og meta hreinleika þeirra í hvert sinn sem þau skiptu um eigendur. Vitað er að slík myntslátta þekktist í Grikklandi snemma á sjöundu öld fyrir Krist og einstaka myntir eru jafnvel taldar enn eldri.

Seðlar komu mun síðar til sögunnar. Notkun þeirra breiddist fyrst út á 17. og 18. öld í Evrópu. Er oft miðað við það sem upphaf notkunar seðla þótt Kínverjar virðist hafa verið nokkrum öldum á undan Evrópumönnum að gera tilraunir með þá. Frakkar voru fyrstir Evrópubúa til að prenta seðla í stórum stíl, snemma á átjándu öld.

Bréf frá 1771 sem tilgreinir að handhafi þess eigi 30 dali.

Skýringin á tilkomu seðla var að menn áttuðu sig á að óþarfi var að flytja góðmálmana fram og til baka við hver viðskipti, því fylgdi bæði umstang og hætta á þjófnaði (það vildi til dæmis kvarnast utan úr gullpeningunum í meðförunum). Næsta skref var því að aðilar, sem áttu talsvert magn af góðmálmum, svo sem kaupmenn og gullsmiðir, létu ekki málmana sjálfa af hendi þegar þeir keyptu vörur. Í staðinn létu þeir seljandanum í té bréf upp á það að hann gæti hvenær sem er náð í svo og svo mikið af gulli eða silfri til sín. Handhafa bréfsins var svo í sjálfsvald sett hvort hann náði í málmana. Einnig gat handhafi bréfsins afhent það þriðja aðila sem greiðslu í stað gulls ef sá hafði trú á því að útgefandi bréfsins myndi standa við það, sem í því stóð. Þetta fyrirkomulag gerði það kleift að stunda umfangsmikil viðskipti án þess að þurfa að standa í sífelldum flutningum á dýrmætum málmum. Útgáfa á bréfum sem þessum varð upphafið að skipulagðri útgáfu á peningaseðlum eins og þeim, sem við þekkjum í dag. Jafnframt fór starfsemi sumra þessara kaupmanna og gullsmiða að líkjast æ meir starfsemi banka og lagði grunninn að nútíma bankakerfi.

Frekara lesefni af Vísindavefnum:

Myndir:

Höfundur

Gylfi Magnússon

prófessor í hagfræði við HÍ

Útgáfudagur

9.2.2000

Síðast uppfært

21.1.2021

Spyrjandi

Jóhann Andri Gunnarsson

Tilvísun

Gylfi Magnússon. „Hver fann upp peningana?“ Vísindavefurinn, 9. febrúar 2000, sótt 15. júlí 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=75.

Gylfi Magnússon. (2000, 9. febrúar). Hver fann upp peningana? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=75

Gylfi Magnússon. „Hver fann upp peningana?“ Vísindavefurinn. 9. feb. 2000. Vefsíða. 15. júl. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=75>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver fann upp peningana?
Peningar gegna mikilvægu hlutverki í nútímahagkerfum. Þessu hefur þó ekki alltaf verið svo farið. Í einföldum þjóðfélögum fyrr á tímum tíðkuðust vöruskipti, það er skipt var á einni vöru fyrir aðra, eða jafnvel sjálfsþurftarbúskapur, það er hvert heimili var að mestu sjálfu sér nægt og þurfti því lítt eða ekki á viðskiptum við aðila utan heimilisins að halda.

Bætt verktækni varð þess smám saman valdandi að verkaskipting varð algengari. Verkaskipting kallar á viðskipti. Þannig getur maður, sem sérhæfir sig í skógerð, svo að dæmi sé tekið, ekki lifað af skónum einum saman. Hann stundar því viðskipti, lætur eitt par af skóm af hendi til bakara og fær í staðinn brauð, annað afhendir hann svínabónda og fær kjöt, það þriðja trésmið, sem lætur honum húsgögn í té og svo framvegis.

Rómverskir peningar.

Þetta er mun hentugra fyrirkomulag en að hver maður um sig sníði sína eigin skó, baki brauð, smíði húsgögn og stundi svínarækt. Þó eru nokkur vandamál óhjákvæmileg, til dæmis getur vel staðið þannig á að bakarann vanti ekki skó þegar skósmiðinn langar í brauð. Ein lausn á því vandamáli væri að skósmiðurinn leitaði uppi annan bakara, sem væri ekki jafnvel skóaður. Önnur lausn væri að bakarinn tæki við skónum sem borgun fyrir brauð og léti berfættan þriðja aðila fá þá í skiptum fyrir einhver gæði, sem bakarinn girnist sjálfur.

Vöruskiptum getur fylgt talsvert umstang og kostnaður við viðskiptin orðið mikill. Með því að koma sér saman um ákveðna staðla var þó hægt að liðka fyrir viðskiptum. Þannig fékk orðið fé núverandi merkingu vegna þess að búfé var notað sem gjaldmiðill. Kúgildi og ærgildi, það er verðgildi kvikfénaðar, voru notuð sem mælieining á verðmæti. Vaðmál var einnig notað sem gjaldmiðill á miðöldum hér á landi, og alin vaðmáls sem mælieining.

Erlendis tóku menn eftir því, að viðskipti með sumar vörur hafa í för með sér minna umstang en viðskipti með aðrar vörur. Þannig er mun einfaldara að flytja, geyma og meta gull en til dæmis kvikfé. Því þróuðust viðskipti smám saman þannig að í stað einfaldra vöruskipta var tekið að selja vörur fyrir gull eða aðra góðmálma, svo sem silfur, kopar eða brons, sem síðan var hægt að nota aftur í viðskiptum. Talið er að þekkst hafi að nota málma sem gjaldmiðil síðan að minnsta kosti árið 2000 fyrir Krist. Í dæminu að ofan um svanga skósmiðinn hefði lausnin því verið sú að skósmiðurinn seldi einhverjum þriðja aðila skó og fengi gull í staðinn, í stað þess að leita að bakara sem var illa búinn til fótanna. Skósmiðurinn gæti síðan keypt brauð fyrir gullið og bakarinn keypt af enn öðrum aðila það, sem hann vanhagar um, fyrir andvirði brauðsins í gulli.

Enn eitt skref til framfara var tekið þegar yfirvöld tóku að gefa út mynt úr góðmálmi. Yfirvaldið ábyrgðist að í hverri mynt væri ákveðið magn af góðmálmum. Þá þurfti ekki lengur að vega málmstykki og meta hreinleika þeirra í hvert sinn sem þau skiptu um eigendur. Vitað er að slík myntslátta þekktist í Grikklandi snemma á sjöundu öld fyrir Krist og einstaka myntir eru jafnvel taldar enn eldri.

Seðlar komu mun síðar til sögunnar. Notkun þeirra breiddist fyrst út á 17. og 18. öld í Evrópu. Er oft miðað við það sem upphaf notkunar seðla þótt Kínverjar virðist hafa verið nokkrum öldum á undan Evrópumönnum að gera tilraunir með þá. Frakkar voru fyrstir Evrópubúa til að prenta seðla í stórum stíl, snemma á átjándu öld.

Bréf frá 1771 sem tilgreinir að handhafi þess eigi 30 dali.

Skýringin á tilkomu seðla var að menn áttuðu sig á að óþarfi var að flytja góðmálmana fram og til baka við hver viðskipti, því fylgdi bæði umstang og hætta á þjófnaði (það vildi til dæmis kvarnast utan úr gullpeningunum í meðförunum). Næsta skref var því að aðilar, sem áttu talsvert magn af góðmálmum, svo sem kaupmenn og gullsmiðir, létu ekki málmana sjálfa af hendi þegar þeir keyptu vörur. Í staðinn létu þeir seljandanum í té bréf upp á það að hann gæti hvenær sem er náð í svo og svo mikið af gulli eða silfri til sín. Handhafa bréfsins var svo í sjálfsvald sett hvort hann náði í málmana. Einnig gat handhafi bréfsins afhent það þriðja aðila sem greiðslu í stað gulls ef sá hafði trú á því að útgefandi bréfsins myndi standa við það, sem í því stóð. Þetta fyrirkomulag gerði það kleift að stunda umfangsmikil viðskipti án þess að þurfa að standa í sífelldum flutningum á dýrmætum málmum. Útgáfa á bréfum sem þessum varð upphafið að skipulagðri útgáfu á peningaseðlum eins og þeim, sem við þekkjum í dag. Jafnframt fór starfsemi sumra þessara kaupmanna og gullsmiða að líkjast æ meir starfsemi banka og lagði grunninn að nútíma bankakerfi.

Frekara lesefni af Vísindavefnum:

Myndir:...