Sólin Sólin Rís 02:55 • sest 24:03 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 18:12 • Sest 01:42 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:44 • Síðdegis: 15:27 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:04 • Síðdegis: 21:42 í Reykjavík

Hver var Per Henrik Ling og hvert var hans framlag til sjúkraþjálfunar?

María H. Þorsteinsdóttir

Per Henrik Ling fæddist í Södra Ljunga í Svíþjóð 15. nóvember 1776. Þess má geta að langalangafi hans í móðurætt var hinn frægi vísindamaður Olof Rudbeck (1630-1702) sem lýsti sogæðakerfi mannsins. Ling var prestssonur og fetaði í fótspor föður síns og lauk prófi í guðfræði árið 1797. Að því loknu hélt hann til Kaupmannahafnar, stundaði nám við háskólann þar og vann fyrir sér sem tungumálakennari. Hugur hans hneigðist til bókmennta og hann skrifaði ljóð, sögur og leikrit, en hafði einnig fleiri áhugamál. Í Kaupmannahöfn kynntist hann kínverskum manni, Ming, sem var meistari í bardagalist og svonefndu „tui-na“ og hóf þjálfun hjá honum með áherslu á skylmingar. Hann fræddist einnig um heimspekilegar kenningar Kínverjans sem sneru að heilsu og æfingum og heillaðist af þessum hugmyndum. Ling ferðaðist síðan til Þýskalands, Frakklands og Englands, þar sem hann viðaði að sér meiri þekkingu og þróaði æfingar sínar í þeim tilgangi að verða betri í skylmingum.

Ling var ekki heilsuhraustur og var það að hluta til skýrt með álagi en einnig sökum fátæktar og skorts. Einkum er þess getið að hann hafi þjáðst af gigtareinkennum. Árið 1804 hélt hann heim til Svíþjóðar og var ráðinn kennari í skylmingum í Lundi og árið eftir var hann skipaður skylmingameistari við háskólann þar. Brátt fann hann að daglegu æfingarnar sem hann stundaði bættu heilsu hans og hann losnaði við einkennin sem höfðu plagað hann til margra ára. Hann fékk áhuga á því að miðla þessari reynslu til að bæta heilsu annarra og jafnframt læra meira um tengsl sjúkdóma og hreyfingar. Ling hóf því nám í líffærafræði og lífeðlisfræði og lauk að lokum öllu námsefninu í læknisfræði.

Per Henrik Ling þróaði áfram hugmyndir sínar um líkamsæfingar og barðist fyrir skilningi yfirvalda á mikilvægi þess að efla notkun æfinga gegn sjúkdómum. Árið 1813 tókst honum að fá stjórnvöld til að setja á stofn sérstaka stofnun til að mennta þjálfara, Kungliga Gymnastiska Centralinstitutet (GCI) í Stokkhólmi. Ling var fyrsti rektor skólans. Minnismerki um Ling stendur nú fyrir framan Kulturhuset á horni Hamngatan og Sveavägen þar sem stofnunin var.

Ling hefur verið nefndur faðir leikfiminnar í Svíþjóð eða „den svenska gymnastikens fader“, en hann er einnig, og ekki síður, talinn vera faðir sjúkraþjálfunar vegna grunnsins sem hann lagði að sérhæfri hreyfingarmeðferð til lækninga. Hann flokkaði leikfimi í fjórar flokka:
  1. uppeldislega leikfimikennslu
  2. leikfimi hermanna
  3. listrænar æfingar
  4. læknisfræðilegar æfingar
Um það síðastnefnda, sem á sænsku kallast medikalgymnastik, sagði Ling:
medikalgymnastik, varigenom människan antingen medelst sig själv, i passande ställning, eller medelst andras biträde och inverkande rörelser, söker lindra eller övervinna de lidanden, som uppstår i hennes kropp, genom dess abnorma förhållanden (Ling, bls. 78).

Ling var mjög upptekinn af lækningamætti æfinga og því fékk þessi síðastnefndi flokkur mikla athygli í skólanum. Skólinn er þar af leiðandi talinn hafa útskrifað fyrstu sjúkraþjálfarana enda þótt í fyrstu hafi ekki verið gerður greinarmunur á menntun leikfimikennara og sjúkraþjálfara. Það var hins vegar gert formlega með lögum árið 1934. Nemendur í skólanum voru gjarnan liðsforingjar í hernum og fengu að loknu námi titilinn „gymnastikdirektör“. Þeir urðu brátt vinsælir í öðrum löndum og breiddu út aðferðir Ling.

Erfitt er að lýsa aðferðunum í medikalgymnastik en þær virðast hafa verið blanda af æfingum og sérstöku nuddi, sem einnig má rekja til kínversku aðferðanna. Aðferðirnar voru kallaðar „Lingism“, en þegar þær breiddust út varð heitið sænskt nudd (e. Swedish massage) æ algengara í öðrum löndum og ýmislegt bendir til þess að áhersla á nudd hafi náð undirtökum. Breytingar á aðferðum hafa líklega ekki ávallt verið í anda Ling, því hann virðist hafa lagt mesta áherslu á hreyfimeðferð (e. movement cure).


Gymnastiska Centralinstitutet (GCI) í Stokkhólmi. Teikning frá 1866 eftir S. Hallbeck.

Athyglisvert er að við skiptingu á menntuninni í leikfimiþjálfara og sjúkraþjálfara lækkaði staða sjúkraþjálfara sem fengu ekki lengur að kalla sig „gymnastikdirektör“. Sennilega hefur það þó haft mest áhrif að sjúkraþjálfarar fóru að starfa undir stjórn lækna og urðu smám saman kvennastétt. Hugmyndir Ling um að lækna sjúka með æfingum mættu andstöðu frá læknum sem drógu í efa lækningamátt æfinga og töldu þar að auki fráleitt að einhverjir aðrir en læknar ættu að koma að meðferð sjúklinga. Dæmi voru um að læknar stofnuðu eigin skóla og settu fram sínar aðferðir. Um þetta ríkti óeining, en 1864 ákvað ríkisstjórnin í Svíþjóð að GCI hefði einkarétt á að mennta sjúkraþjálfara, en kynning til lækna var aukin og meðal annars komust á tengsl GCI og Karolinska Institutet. Þróunin varð víða sú að læknar stýrðu menntun sjúkraþjálfara og réðu þá sem aðstoðarmenn. Áherslur í meðferð breyttust og nudd, böð og önnur slík meðferðarúrræði virðast hafa náð undirtökunum. Til dæmis hét fyrsta félag sjúkraþjálfara á Íslandi Félag íslenskra nuddkvenna. Þetta hefur þó mikið breyst og má gera sér í hugarlund að áherslur sjúkraþjálfunar í dag á virka æfingameðferð myndu gleðja Per Henrik Ling. Ekki síður myndi hann gleðjast yfir því að nú er verið að koma á svokölluðum hreyfiseðlum þar sem skrifað er upp á hreyfingu sem meðferð ýmissa sjúkdóma.

Þrátt fyrir einhverja baráttu við lækna er það þó merki um að Ling hafi hlotið faglega viðurkenningu í sínu heimalandi að hann gerðist meðlimur í sænska læknafélaginu árið 1831. Hann dó 3. maí 1839, en stofnunin var rekin áfram af lærisveinum hans, þar á meðal syni hans, Hjalmar Ling (1820-1886), en einnig Branting (1799-1881), Georgii og ekki síst Thure Brandt (1819-1895) sem er frægur fyrir sérhæfingu sína í kvensjúkdómameðferð. Allir þessir eru taldir vera frumkvöðlar „Swedish Medical Gymnastics“ eða sjukgymnastik í Svíþjóð og má segja að sjúkraþjálfun, sem nú heitir reyndar physiotherapy í flestum löndum, eigi uppruna sinn að rekja til þeirra, en auðvitað fyrst og fremst til Per Henrik Ling.

Að lokum skal geta þess að enda þótt Per Henrik Ling sé þekktastur fyrir líkamsræktarhugmyndir sínar og aðferðir lagði hann einnig fram sinn skerf til bókmennta. Hann heillaðist sérstaklega af fornnorrænni goðafræði og gaf út ljóð og fræðileg verk eins og Asarne (1816-1833) og Eddornas Sinnebildslära för Olärde (1819). Þar að auki skrifaði hann nokkur leikrit, til dæmis Ingjald Illråda og Ivar Vidfamne (1824).

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Helstu heimildir og myndir:

Höfundur

dósent við námsbraut í sjúkraþjálfun við HÍ

Útgáfudagur

10.6.2011

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

María H. Þorsteinsdóttir. „Hver var Per Henrik Ling og hvert var hans framlag til sjúkraþjálfunar? “ Vísindavefurinn, 10. júní 2011. Sótt 17. júní 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=59932.

María H. Þorsteinsdóttir. (2011, 10. júní). Hver var Per Henrik Ling og hvert var hans framlag til sjúkraþjálfunar? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=59932

María H. Þorsteinsdóttir. „Hver var Per Henrik Ling og hvert var hans framlag til sjúkraþjálfunar? “ Vísindavefurinn. 10. jún. 2011. Vefsíða. 17. jún. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=59932>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver var Per Henrik Ling og hvert var hans framlag til sjúkraþjálfunar?
Per Henrik Ling fæddist í Södra Ljunga í Svíþjóð 15. nóvember 1776. Þess má geta að langalangafi hans í móðurætt var hinn frægi vísindamaður Olof Rudbeck (1630-1702) sem lýsti sogæðakerfi mannsins. Ling var prestssonur og fetaði í fótspor föður síns og lauk prófi í guðfræði árið 1797. Að því loknu hélt hann til Kaupmannahafnar, stundaði nám við háskólann þar og vann fyrir sér sem tungumálakennari. Hugur hans hneigðist til bókmennta og hann skrifaði ljóð, sögur og leikrit, en hafði einnig fleiri áhugamál. Í Kaupmannahöfn kynntist hann kínverskum manni, Ming, sem var meistari í bardagalist og svonefndu „tui-na“ og hóf þjálfun hjá honum með áherslu á skylmingar. Hann fræddist einnig um heimspekilegar kenningar Kínverjans sem sneru að heilsu og æfingum og heillaðist af þessum hugmyndum. Ling ferðaðist síðan til Þýskalands, Frakklands og Englands, þar sem hann viðaði að sér meiri þekkingu og þróaði æfingar sínar í þeim tilgangi að verða betri í skylmingum.

Ling var ekki heilsuhraustur og var það að hluta til skýrt með álagi en einnig sökum fátæktar og skorts. Einkum er þess getið að hann hafi þjáðst af gigtareinkennum. Árið 1804 hélt hann heim til Svíþjóðar og var ráðinn kennari í skylmingum í Lundi og árið eftir var hann skipaður skylmingameistari við háskólann þar. Brátt fann hann að daglegu æfingarnar sem hann stundaði bættu heilsu hans og hann losnaði við einkennin sem höfðu plagað hann til margra ára. Hann fékk áhuga á því að miðla þessari reynslu til að bæta heilsu annarra og jafnframt læra meira um tengsl sjúkdóma og hreyfingar. Ling hóf því nám í líffærafræði og lífeðlisfræði og lauk að lokum öllu námsefninu í læknisfræði.

Per Henrik Ling þróaði áfram hugmyndir sínar um líkamsæfingar og barðist fyrir skilningi yfirvalda á mikilvægi þess að efla notkun æfinga gegn sjúkdómum. Árið 1813 tókst honum að fá stjórnvöld til að setja á stofn sérstaka stofnun til að mennta þjálfara, Kungliga Gymnastiska Centralinstitutet (GCI) í Stokkhólmi. Ling var fyrsti rektor skólans. Minnismerki um Ling stendur nú fyrir framan Kulturhuset á horni Hamngatan og Sveavägen þar sem stofnunin var.

Ling hefur verið nefndur faðir leikfiminnar í Svíþjóð eða „den svenska gymnastikens fader“, en hann er einnig, og ekki síður, talinn vera faðir sjúkraþjálfunar vegna grunnsins sem hann lagði að sérhæfri hreyfingarmeðferð til lækninga. Hann flokkaði leikfimi í fjórar flokka:
  1. uppeldislega leikfimikennslu
  2. leikfimi hermanna
  3. listrænar æfingar
  4. læknisfræðilegar æfingar
Um það síðastnefnda, sem á sænsku kallast medikalgymnastik, sagði Ling:
medikalgymnastik, varigenom människan antingen medelst sig själv, i passande ställning, eller medelst andras biträde och inverkande rörelser, söker lindra eller övervinna de lidanden, som uppstår i hennes kropp, genom dess abnorma förhållanden (Ling, bls. 78).

Ling var mjög upptekinn af lækningamætti æfinga og því fékk þessi síðastnefndi flokkur mikla athygli í skólanum. Skólinn er þar af leiðandi talinn hafa útskrifað fyrstu sjúkraþjálfarana enda þótt í fyrstu hafi ekki verið gerður greinarmunur á menntun leikfimikennara og sjúkraþjálfara. Það var hins vegar gert formlega með lögum árið 1934. Nemendur í skólanum voru gjarnan liðsforingjar í hernum og fengu að loknu námi titilinn „gymnastikdirektör“. Þeir urðu brátt vinsælir í öðrum löndum og breiddu út aðferðir Ling.

Erfitt er að lýsa aðferðunum í medikalgymnastik en þær virðast hafa verið blanda af æfingum og sérstöku nuddi, sem einnig má rekja til kínversku aðferðanna. Aðferðirnar voru kallaðar „Lingism“, en þegar þær breiddust út varð heitið sænskt nudd (e. Swedish massage) æ algengara í öðrum löndum og ýmislegt bendir til þess að áhersla á nudd hafi náð undirtökum. Breytingar á aðferðum hafa líklega ekki ávallt verið í anda Ling, því hann virðist hafa lagt mesta áherslu á hreyfimeðferð (e. movement cure).


Gymnastiska Centralinstitutet (GCI) í Stokkhólmi. Teikning frá 1866 eftir S. Hallbeck.

Athyglisvert er að við skiptingu á menntuninni í leikfimiþjálfara og sjúkraþjálfara lækkaði staða sjúkraþjálfara sem fengu ekki lengur að kalla sig „gymnastikdirektör“. Sennilega hefur það þó haft mest áhrif að sjúkraþjálfarar fóru að starfa undir stjórn lækna og urðu smám saman kvennastétt. Hugmyndir Ling um að lækna sjúka með æfingum mættu andstöðu frá læknum sem drógu í efa lækningamátt æfinga og töldu þar að auki fráleitt að einhverjir aðrir en læknar ættu að koma að meðferð sjúklinga. Dæmi voru um að læknar stofnuðu eigin skóla og settu fram sínar aðferðir. Um þetta ríkti óeining, en 1864 ákvað ríkisstjórnin í Svíþjóð að GCI hefði einkarétt á að mennta sjúkraþjálfara, en kynning til lækna var aukin og meðal annars komust á tengsl GCI og Karolinska Institutet. Þróunin varð víða sú að læknar stýrðu menntun sjúkraþjálfara og réðu þá sem aðstoðarmenn. Áherslur í meðferð breyttust og nudd, böð og önnur slík meðferðarúrræði virðast hafa náð undirtökunum. Til dæmis hét fyrsta félag sjúkraþjálfara á Íslandi Félag íslenskra nuddkvenna. Þetta hefur þó mikið breyst og má gera sér í hugarlund að áherslur sjúkraþjálfunar í dag á virka æfingameðferð myndu gleðja Per Henrik Ling. Ekki síður myndi hann gleðjast yfir því að nú er verið að koma á svokölluðum hreyfiseðlum þar sem skrifað er upp á hreyfingu sem meðferð ýmissa sjúkdóma.

Þrátt fyrir einhverja baráttu við lækna er það þó merki um að Ling hafi hlotið faglega viðurkenningu í sínu heimalandi að hann gerðist meðlimur í sænska læknafélaginu árið 1831. Hann dó 3. maí 1839, en stofnunin var rekin áfram af lærisveinum hans, þar á meðal syni hans, Hjalmar Ling (1820-1886), en einnig Branting (1799-1881), Georgii og ekki síst Thure Brandt (1819-1895) sem er frægur fyrir sérhæfingu sína í kvensjúkdómameðferð. Allir þessir eru taldir vera frumkvöðlar „Swedish Medical Gymnastics“ eða sjukgymnastik í Svíþjóð og má segja að sjúkraþjálfun, sem nú heitir reyndar physiotherapy í flestum löndum, eigi uppruna sinn að rekja til þeirra, en auðvitað fyrst og fremst til Per Henrik Ling.

Að lokum skal geta þess að enda þótt Per Henrik Ling sé þekktastur fyrir líkamsræktarhugmyndir sínar og aðferðir lagði hann einnig fram sinn skerf til bókmennta. Hann heillaðist sérstaklega af fornnorrænni goðafræði og gaf út ljóð og fræðileg verk eins og Asarne (1816-1833) og Eddornas Sinnebildslära för Olärde (1819). Þar að auki skrifaði hann nokkur leikrit, til dæmis Ingjald Illråda og Ivar Vidfamne (1824).

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Helstu heimildir og myndir:...