Sólin Sólin Rís 03:58 • sest 22:53 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 17:24 • Sest 03:47 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:47 • Síðdegis: 16:21 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:07 • Síðdegis: 22:30 í Reykjavík

Hvað er auðlind?

Þorsteinn Vilhjálmsson

Íslenska orðið auðlind er tiltölulega gagnsætt og hlýtur að eiga að tákna eitthvað sem menn geta gert sér auð úr - auðsuppspretta eins og stundum er sagt. Í nútíma samfélagi þýðir þetta að menn geti nýtt sér fyrirbærið til arðbærrar framleiðslu eða starfsemi, þrátt fyrir að öflun þess kunni að kosta fé og fyrirhöfn. En á almennara máli sem gæti náð yfir fleiri og eldri samfélagsgerðir mundi þetta þýða að menn geti nýtt viðkomandi efni eða fyrirbæri - auðlindina - til þess að spara sér eitthvað annað þannig að aukin hagkvæmni náist, í víðum skilningi. Það þarf sem sé að vera einhver sem vill nýta auðlindina eða „kaupa vöruna“ svo að við notum velþekkt orðalag úr viðskiptum; nýtingin þarf að færa mönnum meiri „auð“ en sem svarar kostnaðinum við nýtinguna.

Við sjáum af þessu að merking orðsins „auðlind“ er afstæð gagnvart stað og tíma; það sem er auðlind á einum stað og einum tíma þarf ekkert endilega að vera það annars staðar eða á öðrum tíma. Og þó að eitthvað sé auðlind - auðsuppspretta - í einhverju tilteknu magni, þá er ekki þar með sagt að meira af því sama sé líka auðlind. Um þetta hefur auðlindahagfræðin miklu meira að segja en hér verður rakið.

Dæmin um þetta afstæði auðlindarhugtaksins eru ótal mörg ef við horfum örlítið kringum okkur í tíma og rúmi. Þannig voru mómýrar á Íslandi mikilvæg auðlind áður fyrr en eru það ekki lengur; markaðsverð þeirra er ekkert nú á dögum. Sauðfjárbeitilönd Íslands voru auðlind meðan nógur markaður var fyrir vöruna sem varð til með beitinni -- á verði sem stóð undir framleiðslukostnaði -- en svo þarf ekki að vera endalaust ef verðhlutföll og aðrar aðstæður breytast -- og þannig mætti lengi telja.

Auðlindir eru háðar stað og tíma. Vatnsorkan er ein af mikilvægustu auðlindum Íslendinga í dag en áður fyrr voru fallvötnin fáum til gagns og aðallega farartálmar.

Orka fallvatnanna var hins vegar í raun og veru alls engin auðlind fyrr en til sögunnar kom tækni sem gerði mönnum kleift að virkja hana - og að sjálfsögðu, nýta hana til einhvers við hinn enda raflínunnar! Með öðrum orðum hefði raforka frá virkjun til dæmis verið einskis virði ef ekki væru til nógu mörg og fjölbreytileg tæki eins og ljósaperan til að breyta henni í eitthvað sem að gagni mátti koma fyrir mannfólkið.

Fróðlegt er líka að hugleiða í þessu viðfangi í hvaða skilningi andrúmsloftið sé auðlind. Að því marki sem nóg er af blessuðu loftinu allt um kring virðist svo ekki vera. Jafnvel þótt við notum það í ýmiss konar efnislega framleiðslu, til dæmis í tilbúinn áburð, þá mundum við ekkert endilega taka svo til orða að það sé þar í hlutverki auðlindar. Ástæðan er sú að sjálf öflun þess - loftsins sjálfs - kostar ekki neitt og það er nóg af því alls staðar þannig að þess vegna má til dæmis einu gilda hvar við komum áburðarverksmiðju fyrir.

Hins vegar er vel hægt að hugsa sér þær aðstæður að hreint andrúmsloft sé auðlind, til dæmis í stórborgum nútímans þar sem skortur er á því. Þetta nýja eðli þess þarf ekki endilega að birtast þannig að hreint loft gangi kaupum og sölum í tönkum, heldur til dæmis í mismunandi ásókn í lóðir og búsetu eftir ástandi loftsins á hverjum stað.

Mynd:

Höfundur

Þorsteinn Vilhjálmsson

prófessor emeritus, ritstjóri Vísindavefsins 2000-2010 og ritstjóri Evrópuvefsins 2011

Útgáfudagur

3.9.2013

Spyrjandi

Sigrún Gyða Þórarinsdóttir, f. 1994

Tilvísun

Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hvað er auðlind?“ Vísindavefurinn, 3. september 2013. Sótt 19. maí 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=60548.

Þorsteinn Vilhjálmsson. (2013, 3. september). Hvað er auðlind? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=60548

Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hvað er auðlind?“ Vísindavefurinn. 3. sep. 2013. Vefsíða. 19. maí. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=60548>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er auðlind?
Íslenska orðið auðlind er tiltölulega gagnsætt og hlýtur að eiga að tákna eitthvað sem menn geta gert sér auð úr - auðsuppspretta eins og stundum er sagt. Í nútíma samfélagi þýðir þetta að menn geti nýtt sér fyrirbærið til arðbærrar framleiðslu eða starfsemi, þrátt fyrir að öflun þess kunni að kosta fé og fyrirhöfn. En á almennara máli sem gæti náð yfir fleiri og eldri samfélagsgerðir mundi þetta þýða að menn geti nýtt viðkomandi efni eða fyrirbæri - auðlindina - til þess að spara sér eitthvað annað þannig að aukin hagkvæmni náist, í víðum skilningi. Það þarf sem sé að vera einhver sem vill nýta auðlindina eða „kaupa vöruna“ svo að við notum velþekkt orðalag úr viðskiptum; nýtingin þarf að færa mönnum meiri „auð“ en sem svarar kostnaðinum við nýtinguna.

Við sjáum af þessu að merking orðsins „auðlind“ er afstæð gagnvart stað og tíma; það sem er auðlind á einum stað og einum tíma þarf ekkert endilega að vera það annars staðar eða á öðrum tíma. Og þó að eitthvað sé auðlind - auðsuppspretta - í einhverju tilteknu magni, þá er ekki þar með sagt að meira af því sama sé líka auðlind. Um þetta hefur auðlindahagfræðin miklu meira að segja en hér verður rakið.

Dæmin um þetta afstæði auðlindarhugtaksins eru ótal mörg ef við horfum örlítið kringum okkur í tíma og rúmi. Þannig voru mómýrar á Íslandi mikilvæg auðlind áður fyrr en eru það ekki lengur; markaðsverð þeirra er ekkert nú á dögum. Sauðfjárbeitilönd Íslands voru auðlind meðan nógur markaður var fyrir vöruna sem varð til með beitinni -- á verði sem stóð undir framleiðslukostnaði -- en svo þarf ekki að vera endalaust ef verðhlutföll og aðrar aðstæður breytast -- og þannig mætti lengi telja.

Auðlindir eru háðar stað og tíma. Vatnsorkan er ein af mikilvægustu auðlindum Íslendinga í dag en áður fyrr voru fallvötnin fáum til gagns og aðallega farartálmar.

Orka fallvatnanna var hins vegar í raun og veru alls engin auðlind fyrr en til sögunnar kom tækni sem gerði mönnum kleift að virkja hana - og að sjálfsögðu, nýta hana til einhvers við hinn enda raflínunnar! Með öðrum orðum hefði raforka frá virkjun til dæmis verið einskis virði ef ekki væru til nógu mörg og fjölbreytileg tæki eins og ljósaperan til að breyta henni í eitthvað sem að gagni mátti koma fyrir mannfólkið.

Fróðlegt er líka að hugleiða í þessu viðfangi í hvaða skilningi andrúmsloftið sé auðlind. Að því marki sem nóg er af blessuðu loftinu allt um kring virðist svo ekki vera. Jafnvel þótt við notum það í ýmiss konar efnislega framleiðslu, til dæmis í tilbúinn áburð, þá mundum við ekkert endilega taka svo til orða að það sé þar í hlutverki auðlindar. Ástæðan er sú að sjálf öflun þess - loftsins sjálfs - kostar ekki neitt og það er nóg af því alls staðar þannig að þess vegna má til dæmis einu gilda hvar við komum áburðarverksmiðju fyrir.

Hins vegar er vel hægt að hugsa sér þær aðstæður að hreint andrúmsloft sé auðlind, til dæmis í stórborgum nútímans þar sem skortur er á því. Þetta nýja eðli þess þarf ekki endilega að birtast þannig að hreint loft gangi kaupum og sölum í tönkum, heldur til dæmis í mismunandi ásókn í lóðir og búsetu eftir ástandi loftsins á hverjum stað.

Mynd:

...