Sólin Sólin Rís 11:08 • sest 15:33 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:06 • Sest 03:07 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:24 • Síðdegis: 13:51 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:38 • Síðdegis: 20:14 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 11:08 • sest 15:33 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:06 • Sest 03:07 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:24 • Síðdegis: 13:51 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:38 • Síðdegis: 20:14 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver var Émilie du Châtelet og hvert var hennar framlag til vísindanna?

Emelía Eiríksdóttir

Émilie du Châtelet (17. desember 1706 - 10. september 1749) var franskur eðlis- og stærðfræðingur. Innan vísindaheimsins er Émilie einna helst þekkt fyrir franska þýðingu sína á bók Newtons (1642-1727), Stærðfræðilögmál náttúruspekinnar (Philosophiæ Naturalis Principia Mathematica, almennt kölluð Principia) og leiðréttingar á jöfnunni fyrir hreyfiorku. Þó virtist fátt vera Émilie óviðkomandi og lagði hún meðal annars stund á eiginleika elds, ljóss, lita og segulmagns. Í heimi hins venjulega borgara stendur líklega ástarsamband hennar við rithöfundinn og skáldið Voltaire (1694-1778) hæst.

Émilie fæddist í París 17. desember 1706 og voru henni gefin nöfnin Gabrielle Émilie Le Tonnelier de Breteuil. Á sínum yngri árum hlýddi hún nafninu Gabrielle Émilie sem síðar styttist í Émilie eftir tilkomu Voltaires. Faðir Émilie, Nicolas Le Tonnelier de Breteuil (1648 - 1728), var embættismaður við hirð Loðvíks 14. Frakklandskonungs; ágætlega efnaður aðalsmaður. Móðir Émilie hét Gabrielle-Anne de Froulay (d. 1740) og sá hún um heimili þeirra eins og venjan var á þeim tíma. Émilie átti fimm albræður og eina hálfsystur (föður megin).

Á tímum Émilie var Mið-Evrópa miðdepill vísinda í heiminum. Feðraveldið var gríðarlega sterkt og karlmenn voru einráðir í vísindasamfélaginu. Konum var því ekki hleypt þangað inn, sama hversu vel að sér þær voru. Þær voru einfaldlega ekki liðnar innan vísindasamfélagsins og var meinað að fara í háskóla. Þó voru til konur sem fengu tilhlýðilega menntun í náttúrufræðum (stærðfræði og eðlisfræði og jafnvel stjörnufræði) og áttu þær feðrum sínum og eiginmönnum það að þakka. Émilie var ein þessara kvenna. Faðir hennar sendi hana í nokkra skóla og fékk jafnvel kennara inn á heimilið, allt í óþökk móður hennar sem fannst mikilvægast að haga sér í samræmi við samfélagsstöðu.

Kunnátta Émilie var ekki einskorðuð við vísindi. Ung náði hún góðu valdi á fjölda tungumála, latínu, ítölsku, grísku, þýsku og ensku, auk þess sem hún fékkst við skylmingar, hestamennsku og bókmenntir. Vinur fjölskyldunnar, M. de Mezieres að nafni, tók eftir hæfileikum hennar á sviði stærðfræðinnar og hvatti hana til dáða. Tíu ára fékk Émilie kennslu í stjörnufræði hjá Bernard Le Bouvier de Fontenelle. Þar lærði hún fyrst um vetrarbrautina og þær reikistjörnur sem vitað var um. Síðar áttu síðan Pierre Louis de Maupertuis (stærð- og stjörnufræðingur), Samuel König (stærðfræðingur) og Alexis Clairaut (stærð- og stjörnufræðingur) eftir að gegna mikilvægu hlutverki í að dýpka skilning Émilie í stærðfræði.

Þann 12. júní 1725 giftist Émilie (þá 18 ára) hinum þrítuga Florent-Claude, vel ættuðum liðsforingja í franska konunglega hernum. Florent-Claude bar titilinn marquis du Chastellet-Lomont (markgreifinn af Chastellet-Lomont) og hjónabandinu fylgdi því titillinn marquise du Chastellet eða markgreifynjan af Chastellet. Eins og svo oft á þessum tíma var hjónabandið skipulagt af fjölskyldu parsins; aðalsfólkinu og hinum ríku var mikið í mun að viðhalda bláa blóðinu í ættum sínum og reyndi í lengstu lög að hindra innkomu hinna lægri settu og fátæku.

Émilie og Florent-Claude eignuðust þrjú börn saman: dótturina Françoise Gabriel Pauline og synina Louis Marie Florent og Victor-Esprit. Émilie og Florent-Claude áttu fátt sameiginlegt. Þau lifðu nánast aðskildu lífi eins og svo margir á þessum tíma; Émilie hélt heimili þeirra en Florent-Claude var í setuliði hersins fjarri heimilinu mestan hluta ársins. Það er því ekki svo skrýtið að hugsa til þess að eftir að Émilie hafði fullnægt skyldum sínum sem eiginkona og fætt Florent-Claude þrjú börn, sneri hún sér aftur að samkvæmislífinu og lærdómnum, sem hafði setið á hakanum í sjö ár.

Árið 1733 kynntist Émilie hinum fertuga Voltaire, sem var rithöfundur, skáld, sagnfræðingur og heimspekingur. Hún var þá 27 ára gömul og með þeim tókust strax ástir, bæði líkamlegar og andlegar. Það væri í raun móðgun við þau að halda því fram að þau hefðu einungis átt í ástarsambandi. Émilie og Voltaire bjuggu saman í mörg ár, aðallega í Château de Cirey, eða kastalanum Cirey sem tilheyrði Florent-Claude, ásamt stuttum tímabilum annars staðar, meðal annars í París. Aldrei fyrr hafði Émilie nálgast nokkurn mann á eins vitsmunalegu stigi. Samræður þeirra náðu yfir ástríður þeirra beggja, vísindi og skáldskap auk daglegra málefna. Málefni kirkjunnar og ríkisins bar oft á góma en Émilie og Voltaire voru hlynnt trúfrelsi og fannst að afskipti ríkisins gagnvart þegnum landsins ættu að vera í lágmarki. Voltaire sagði meira að segja að kirkjan hefði haft tangarhald á hugsun mannsins á miðöldum og þess vegna hefði fáfræði ríkt á þessu myrka skeiði. Bæði voru þau ákveðin svo erfitt gat verið að leiða mál til lykta ef upp kom ágreiningur. Engu að síður var þeim vel til vina allt til endaloka þó að ástarsambandi þeirra hafi verið löngu lokið. Til marks um það er það einmitt Voltaire sem er ábyrgur fyrir du Châtelet nafni Émilie sem er í raun bara smá afbökun á du Chastellet.



Château de Cirey.

Það var á Cirey-tímabili Émilie sem vísindaframlög hennar litu dagsins ljós. Émilie og Voltaire tóku þátt í samkeppni á vegum vísindaakademíunnar í París árið 1737; umræðuefnið var eldur og útbreiðsla hans. Voltaire hafði mikinn áhuga á vísindum þó hann hefði ekki sömu hæfileika á vísindasviðinu og Émilie. Til að ýfa ekki skap hans hélt Émilie því leyndu þar til eftir samkeppnina að hún hefði einnig tekið þátt. Hvorugt þeirra vann en ritgerð hennar, Dissertation sur la nature et la propagation du feu (Fræðiritgerð um eiginleika og útbreiðslu elds) var birt af vísindaakademíunni árið 1744 ásamt framlagi Voltaires og vinningshafans. Í þessari ritgerð hélt Émilie því fram að hiti og ljós væri sama fyrirbærið og spáði þannig fyrir um það sem við köllum í dag innrautt ljós. Émilie var einnig sannfærð um að ljósið væri ekki gert af örlitlum ögnum, eins og talið var, því slíkar agnir sem ferðuðust um á hraða ljóssins myndu eyða lífi á jörðinni þegar þær skyllu á jörðinni.

Þetta var fyrsta ritið þar sem nafn Émilie stóð sem höfundur. Árið 1738 hafði hún samt í raun verið meðhöfundur að bók Voltaires, Eléments de la philosophie de Newton (e. The Elements of the Philosophy of Newton), þar sem lögmál Newtons voru útskýrð fyrir hinum almenna borgara. Émilie sá meðal annars um allar stærðfræðilegar útleiðslur í bókinni en nafn hennar birtist þó ekki nema í formálanum, sem var skrifaður af Voltaire.

Árið 1740 kom út bók Émilie Institutions de physique (kennsla í eðlisfræði), yfirlit yfir nýjar hugmyndir í vísindum og heimspeki sem hún ætlaði sem kennslurit fyrir unglingsson sinn. Í þessu riti leiðrétti Émilie jöfnuna um hreyfiorku hlutar sem talin var vera í réttu hlutfalli við hraða hlutarins, jafnvel Newton hélt því fram. Émilie sýndi hins vegar að orka hlutar á hreyfingu er í réttu hlutfalli við hraðann í öðru veldi (v2): \[E\propto mv^{2}\] Því er jafnvel haldið fram að Einstein hafi sótt í þessa jöfnu þegar hann setti fram hina frægu \(E=mc^{2}\).

Isaac Newton hafði gefið út bókina sína, Stærðfræðilögmál náttúruspekinnar, árið 1725. Tuttugu árum síðar réðst Émilie í það stóra verkefni að þýða bókina úr latínu yfir á frönsku. Snilli bókarinnar fólst ekki einungis í þýðingu Émilie heldur einnig í athugasemdum, útskýringum og jafnvel nánari útleiðslum á útreikningum. Émilie helgaði seinustu mánuði lífs síns þýðingu á bókinni enda var það henni kappsmál og klára þetta meistarastykki áður en hún létist. Émilie var þá nefnilega þunguð og sannfærð um að meðgangan myndi ganga af henni dauðri. Á þessum tíma var ekki óalgengt að konur létust af barnsförum, sérstaklega þær sem eldri voru, en Émilie var þá 42 ára. Émilie tókst ætlunarverk sitt og kláraði þýðinguna 30. ágúst 1749.

Þann 3. september 1749 fæddi Émilie, stúlku að nafni Stanislas-Adélaïde Du Châtelet. Faðir stúlkunnar var skáldið og liðsforinginn Jean François de Saint-Lambert (1716-1803), sem hafði verið ástmaður Émilie í rúmt ár, en Florent-Claude feðraði stúlkuna. Voltaire og Saint-Lambert voru langt í frá einu ástmenn Émilie. Meðal ástmanna voru margir af kennurum hennar auk nokkurra annarra sem áttu leið um líf hennar. Svo virðist sem þetta hafi ekki verið tiltökumál fyrir manninn hennar enda ástarævintýri viðtekin venja á þessum tíma. Sjálfur átti Florent-Claude margar ástkonur um ævina.

Émilie dó 10. september 1749 af völdum sýkingar eftir fæðinguna og nýfædd dóttir hennar dó skömmu síðar. Émilie var því ekki þeirrar ánægju aðnjótandi að sjá bókina útgefna. Hluti bókarinnar kom út árið 1756, sjö árum eftir dauða hennar, en verkið í heild sinni kom út árið 1759.

Heimildir:

Myndir:

Höfundur

Emelía Eiríksdóttir

efnafræðingur og starfsmaður Vísindavefsins

Útgáfudagur

26.9.2011

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Emelía Eiríksdóttir. „Hver var Émilie du Châtelet og hvert var hennar framlag til vísindanna?“ Vísindavefurinn, 26. september 2011, sótt 10. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=60672.

Emelía Eiríksdóttir. (2011, 26. september). Hver var Émilie du Châtelet og hvert var hennar framlag til vísindanna? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=60672

Emelía Eiríksdóttir. „Hver var Émilie du Châtelet og hvert var hennar framlag til vísindanna?“ Vísindavefurinn. 26. sep. 2011. Vefsíða. 10. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=60672>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver var Émilie du Châtelet og hvert var hennar framlag til vísindanna?
Émilie du Châtelet (17. desember 1706 - 10. september 1749) var franskur eðlis- og stærðfræðingur. Innan vísindaheimsins er Émilie einna helst þekkt fyrir franska þýðingu sína á bók Newtons (1642-1727), Stærðfræðilögmál náttúruspekinnar (Philosophiæ Naturalis Principia Mathematica, almennt kölluð Principia) og leiðréttingar á jöfnunni fyrir hreyfiorku. Þó virtist fátt vera Émilie óviðkomandi og lagði hún meðal annars stund á eiginleika elds, ljóss, lita og segulmagns. Í heimi hins venjulega borgara stendur líklega ástarsamband hennar við rithöfundinn og skáldið Voltaire (1694-1778) hæst.

Émilie fæddist í París 17. desember 1706 og voru henni gefin nöfnin Gabrielle Émilie Le Tonnelier de Breteuil. Á sínum yngri árum hlýddi hún nafninu Gabrielle Émilie sem síðar styttist í Émilie eftir tilkomu Voltaires. Faðir Émilie, Nicolas Le Tonnelier de Breteuil (1648 - 1728), var embættismaður við hirð Loðvíks 14. Frakklandskonungs; ágætlega efnaður aðalsmaður. Móðir Émilie hét Gabrielle-Anne de Froulay (d. 1740) og sá hún um heimili þeirra eins og venjan var á þeim tíma. Émilie átti fimm albræður og eina hálfsystur (föður megin).

Á tímum Émilie var Mið-Evrópa miðdepill vísinda í heiminum. Feðraveldið var gríðarlega sterkt og karlmenn voru einráðir í vísindasamfélaginu. Konum var því ekki hleypt þangað inn, sama hversu vel að sér þær voru. Þær voru einfaldlega ekki liðnar innan vísindasamfélagsins og var meinað að fara í háskóla. Þó voru til konur sem fengu tilhlýðilega menntun í náttúrufræðum (stærðfræði og eðlisfræði og jafnvel stjörnufræði) og áttu þær feðrum sínum og eiginmönnum það að þakka. Émilie var ein þessara kvenna. Faðir hennar sendi hana í nokkra skóla og fékk jafnvel kennara inn á heimilið, allt í óþökk móður hennar sem fannst mikilvægast að haga sér í samræmi við samfélagsstöðu.

Kunnátta Émilie var ekki einskorðuð við vísindi. Ung náði hún góðu valdi á fjölda tungumála, latínu, ítölsku, grísku, þýsku og ensku, auk þess sem hún fékkst við skylmingar, hestamennsku og bókmenntir. Vinur fjölskyldunnar, M. de Mezieres að nafni, tók eftir hæfileikum hennar á sviði stærðfræðinnar og hvatti hana til dáða. Tíu ára fékk Émilie kennslu í stjörnufræði hjá Bernard Le Bouvier de Fontenelle. Þar lærði hún fyrst um vetrarbrautina og þær reikistjörnur sem vitað var um. Síðar áttu síðan Pierre Louis de Maupertuis (stærð- og stjörnufræðingur), Samuel König (stærðfræðingur) og Alexis Clairaut (stærð- og stjörnufræðingur) eftir að gegna mikilvægu hlutverki í að dýpka skilning Émilie í stærðfræði.

Þann 12. júní 1725 giftist Émilie (þá 18 ára) hinum þrítuga Florent-Claude, vel ættuðum liðsforingja í franska konunglega hernum. Florent-Claude bar titilinn marquis du Chastellet-Lomont (markgreifinn af Chastellet-Lomont) og hjónabandinu fylgdi því titillinn marquise du Chastellet eða markgreifynjan af Chastellet. Eins og svo oft á þessum tíma var hjónabandið skipulagt af fjölskyldu parsins; aðalsfólkinu og hinum ríku var mikið í mun að viðhalda bláa blóðinu í ættum sínum og reyndi í lengstu lög að hindra innkomu hinna lægri settu og fátæku.

Émilie og Florent-Claude eignuðust þrjú börn saman: dótturina Françoise Gabriel Pauline og synina Louis Marie Florent og Victor-Esprit. Émilie og Florent-Claude áttu fátt sameiginlegt. Þau lifðu nánast aðskildu lífi eins og svo margir á þessum tíma; Émilie hélt heimili þeirra en Florent-Claude var í setuliði hersins fjarri heimilinu mestan hluta ársins. Það er því ekki svo skrýtið að hugsa til þess að eftir að Émilie hafði fullnægt skyldum sínum sem eiginkona og fætt Florent-Claude þrjú börn, sneri hún sér aftur að samkvæmislífinu og lærdómnum, sem hafði setið á hakanum í sjö ár.

Árið 1733 kynntist Émilie hinum fertuga Voltaire, sem var rithöfundur, skáld, sagnfræðingur og heimspekingur. Hún var þá 27 ára gömul og með þeim tókust strax ástir, bæði líkamlegar og andlegar. Það væri í raun móðgun við þau að halda því fram að þau hefðu einungis átt í ástarsambandi. Émilie og Voltaire bjuggu saman í mörg ár, aðallega í Château de Cirey, eða kastalanum Cirey sem tilheyrði Florent-Claude, ásamt stuttum tímabilum annars staðar, meðal annars í París. Aldrei fyrr hafði Émilie nálgast nokkurn mann á eins vitsmunalegu stigi. Samræður þeirra náðu yfir ástríður þeirra beggja, vísindi og skáldskap auk daglegra málefna. Málefni kirkjunnar og ríkisins bar oft á góma en Émilie og Voltaire voru hlynnt trúfrelsi og fannst að afskipti ríkisins gagnvart þegnum landsins ættu að vera í lágmarki. Voltaire sagði meira að segja að kirkjan hefði haft tangarhald á hugsun mannsins á miðöldum og þess vegna hefði fáfræði ríkt á þessu myrka skeiði. Bæði voru þau ákveðin svo erfitt gat verið að leiða mál til lykta ef upp kom ágreiningur. Engu að síður var þeim vel til vina allt til endaloka þó að ástarsambandi þeirra hafi verið löngu lokið. Til marks um það er það einmitt Voltaire sem er ábyrgur fyrir du Châtelet nafni Émilie sem er í raun bara smá afbökun á du Chastellet.



Château de Cirey.

Það var á Cirey-tímabili Émilie sem vísindaframlög hennar litu dagsins ljós. Émilie og Voltaire tóku þátt í samkeppni á vegum vísindaakademíunnar í París árið 1737; umræðuefnið var eldur og útbreiðsla hans. Voltaire hafði mikinn áhuga á vísindum þó hann hefði ekki sömu hæfileika á vísindasviðinu og Émilie. Til að ýfa ekki skap hans hélt Émilie því leyndu þar til eftir samkeppnina að hún hefði einnig tekið þátt. Hvorugt þeirra vann en ritgerð hennar, Dissertation sur la nature et la propagation du feu (Fræðiritgerð um eiginleika og útbreiðslu elds) var birt af vísindaakademíunni árið 1744 ásamt framlagi Voltaires og vinningshafans. Í þessari ritgerð hélt Émilie því fram að hiti og ljós væri sama fyrirbærið og spáði þannig fyrir um það sem við köllum í dag innrautt ljós. Émilie var einnig sannfærð um að ljósið væri ekki gert af örlitlum ögnum, eins og talið var, því slíkar agnir sem ferðuðust um á hraða ljóssins myndu eyða lífi á jörðinni þegar þær skyllu á jörðinni.

Þetta var fyrsta ritið þar sem nafn Émilie stóð sem höfundur. Árið 1738 hafði hún samt í raun verið meðhöfundur að bók Voltaires, Eléments de la philosophie de Newton (e. The Elements of the Philosophy of Newton), þar sem lögmál Newtons voru útskýrð fyrir hinum almenna borgara. Émilie sá meðal annars um allar stærðfræðilegar útleiðslur í bókinni en nafn hennar birtist þó ekki nema í formálanum, sem var skrifaður af Voltaire.

Árið 1740 kom út bók Émilie Institutions de physique (kennsla í eðlisfræði), yfirlit yfir nýjar hugmyndir í vísindum og heimspeki sem hún ætlaði sem kennslurit fyrir unglingsson sinn. Í þessu riti leiðrétti Émilie jöfnuna um hreyfiorku hlutar sem talin var vera í réttu hlutfalli við hraða hlutarins, jafnvel Newton hélt því fram. Émilie sýndi hins vegar að orka hlutar á hreyfingu er í réttu hlutfalli við hraðann í öðru veldi (v2): \[E\propto mv^{2}\] Því er jafnvel haldið fram að Einstein hafi sótt í þessa jöfnu þegar hann setti fram hina frægu \(E=mc^{2}\).

Isaac Newton hafði gefið út bókina sína, Stærðfræðilögmál náttúruspekinnar, árið 1725. Tuttugu árum síðar réðst Émilie í það stóra verkefni að þýða bókina úr latínu yfir á frönsku. Snilli bókarinnar fólst ekki einungis í þýðingu Émilie heldur einnig í athugasemdum, útskýringum og jafnvel nánari útleiðslum á útreikningum. Émilie helgaði seinustu mánuði lífs síns þýðingu á bókinni enda var það henni kappsmál og klára þetta meistarastykki áður en hún létist. Émilie var þá nefnilega þunguð og sannfærð um að meðgangan myndi ganga af henni dauðri. Á þessum tíma var ekki óalgengt að konur létust af barnsförum, sérstaklega þær sem eldri voru, en Émilie var þá 42 ára. Émilie tókst ætlunarverk sitt og kláraði þýðinguna 30. ágúst 1749.

Þann 3. september 1749 fæddi Émilie, stúlku að nafni Stanislas-Adélaïde Du Châtelet. Faðir stúlkunnar var skáldið og liðsforinginn Jean François de Saint-Lambert (1716-1803), sem hafði verið ástmaður Émilie í rúmt ár, en Florent-Claude feðraði stúlkuna. Voltaire og Saint-Lambert voru langt í frá einu ástmenn Émilie. Meðal ástmanna voru margir af kennurum hennar auk nokkurra annarra sem áttu leið um líf hennar. Svo virðist sem þetta hafi ekki verið tiltökumál fyrir manninn hennar enda ástarævintýri viðtekin venja á þessum tíma. Sjálfur átti Florent-Claude margar ástkonur um ævina.

Émilie dó 10. september 1749 af völdum sýkingar eftir fæðinguna og nýfædd dóttir hennar dó skömmu síðar. Émilie var því ekki þeirrar ánægju aðnjótandi að sjá bókina útgefna. Hluti bókarinnar kom út árið 1756, sjö árum eftir dauða hennar, en verkið í heild sinni kom út árið 1759.

Heimildir:

Myndir:...