Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Lífrænn landbúnaður hefur verið stundaður lengi hér á landi. Í dag eru um 40 aðilar með staðfesta vottun á því að þeir séu með lífrænan landbúnað og er fjölbreytileiki afurða frá þessum framleiðendum og vinnslustöðvum mjög mikill.
Stærstur hluti íslenskra bænda framleiðir sínar afurðir í sátt við umhverfi sitt og með vistvænum hætti. Íslensk landbúnaðarframleiðsla og íslenskar landbúnaðarafurðir standa því mun framar að þessu leiti en landbúnaðarframleiðsla víða annars staðar í heiminum. Vörur sem uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til lífrænnar ræktunar bera sérstaka merkingu sem staðfestir framleiðsluaðferð þeirra gagnvart neytendum.
Brot úr sögu
Lífrænn landbúnaður hefur verið stundaður hér á landi allt frá árinu 1930 þegar Sesselía Hreindís Sigmundsdóttir hóf meðvitað slíka ræktun að Sólheimum í Grímsnesi. Lífræn ræktun hefur því verið stunduð hvað lengst hér á landi af öllum Norðurlöndunum, þó ekki hafi á þeim tíma verið til neitt eftirlits- eða vottunarkerfi um lífræna framleiðslu.
Lífræn ræktun er háð fjölda skilyrða hvað varðar ræktunar- og framleiðsluhætti, en þessar grunnreglur eru settar af Alþjóðasamtökum lífrænna landbúnaðarhreyfinga (IFOAM) sem stofnuð voru árið 1972. Evrópusambandið gefur svo út reglugerð um þær kröfur sem gerðar eru til lífrænnar landbúnaðarframleiðslu á Evrópska efnahagssvæðinu (EES), en á þeim grunnreglum og reglugerðum byggjum við hér á landi.
Það var þó ekki fyrr en árið 1994 sem alþingi staðfesti í fyrsta skipti lög um lífræna landbúnaðarframleiðslu sem samræmdust þessum reglugerðum. Þau lög tóku einnig mið af Staðardagskrá 21 (framkvæmdaáætlun Heimsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun í Rio de Janeiro 1992 varðandi sjálfbæran landbúnað), sem og reglum um lífræna landbúnaðarframleiðslu frá Norðurlöndunum, Kanada, Bandaríkjunum og Bretlandi.
Vottun lífrænnar ræktunar
Vottunarstofan Tún ehf. var stofnuð sama ár og lögin voru sett að frumkvæði framleiðenda, fyrirtækja, neytenda og verslunar. Upphaflega sá vottunarstofan Soil Association í Bretlandi um vottun og eftirlit, en hún var síðan meginráðgjafi við uppsetningu vottunarkerfis Túns sem hefur allar götur síðan séð um vottun lífrænnar framleiðslu hér á landi.
Tún er viðurkennd vottunarstofa á Evrópska efnahagssvæðinu, samkvæmt reglugerð ESB nr. 2092/91, og er starfrækt í samræmi við grunnreglur IFOAM. Tún hefur starfsleyfi frá Landbúnaðarráðuneytinu til þess að annast eftirlit og vottun samkvæmt lögum.
Vottunarkerfi Túns nær til allra greina landbúnaðar sem og nýtingu villtra jurta lands og sjávar. Þjónusta Túns stendur öllum bændum og fyrirtækjum til boða. Til að aðgreina vottaðar vörur gefur Tún út ákveðið kennimerki sem sést hér til hliðar. Merkið gefur til kynna að afurðin hafi verið framleidd samkvæmt reglum Túns um lífræna framleiðslu og að framleiðslan sé undir eftirliti Túns. Vottunin tekur ekki fyrir efnainnihald afurðarinnar heldur fyrst og fremst hvaða aðferðum er beytt við framleiðslu hennar og vinnslu – allt frá mold til matar. Það er því ekki hægt að treysta því að vörur þar sem orðið "lífrænt" kemur fyrir í vörumerkinu séu lífrænt ræktaðar eða unnar nema það sé staðfest sérstaklega með kennimerki Túns.
Innlend framleiðsla
Innlend framleiðsla á lífrænum afurðum hefur aukist mikið undanfarin ár samhliða auknum innflutningi á slíkum vörum. Í töflunni hér að neðan má sjá nokkrar tölur í því sambandi. Þó fjöldi framleiðenda sé enn mjög takmarkaður er fjölbreytileiki í afurðum mikill.
1998
1999
2000
2001
2002
2003
2004
Vottuð býli
22
21
27
27
28
30
25
Vottuð vinnslufyrirtæki
7
9
10
11
11
12
11
Vottaðir aðilar með náttúruafurðir
-
1
1
1
1
-
-
Samtals vottaðar einingar
29
31
38
39
40
42
36
Nokkrir punktar í lokin:
Rúmlega 40 aðilar hafa hlotið vottun fyrir framleiðslu, vinnslu og dreifingu lífrænna afurða hér á landi. Flestir eru staðsettir á Suðurlandi eða í nánd við höfuðborgarsvæðið.
Vörurnar bera merki vottunarstofu Túns og eru þessar þær helstu:
mjólk, dilkakjöt, nautakjöt, egg, AB-mjólk, jógúrt, kryddjurtir, hey, trjáplöntur, gulrætur, kartöflur, gulrófur, kálmeti, garðplöntur, agúrkur, paprikur, kirsuberjatómatar, bygg, brauðmeti, þörungaafurðir, æðadúnn, tejurtir, nuddolíur, krem, tilbúnir grænmetisréttir og margt fleira.
Á þriðja hundrað vörutegundir eru framleiddar hér á landi með lífrænum aðferðum og fjölgar þeim ár frá ári.
Innlendar lífrænar afurðir má finna víða um land, þó stærstur hluti þeirra séu til sölu í heilsu- og sérvöruverslunum á höfuðborgarsvæðinu. Einnig er hægt að gerast áskrifandi að fersku lífrænt ræktuðu grænmeti og jógúrt í gegnum Græna hlekkinn.
Innflutningur lífrænt vottaðra afurða hefur einnig aukist mikið undanfarin ár.
Ásdís Helga Bjarnadóttir. „Er eitthvað um lífrænan landbúnað á Íslandi?“ Vísindavefurinn, 19. júlí 2006, sótt 5. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6072.
Ásdís Helga Bjarnadóttir. (2006, 19. júlí). Er eitthvað um lífrænan landbúnað á Íslandi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6072
Ásdís Helga Bjarnadóttir. „Er eitthvað um lífrænan landbúnað á Íslandi?“ Vísindavefurinn. 19. júl. 2006. Vefsíða. 5. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6072>.