Sólin Sólin Rís 09:25 • sest 16:57 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:08 • Síðdegis: 20:26 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:55 • Síðdegis: 14:30 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 09:25 • sest 16:57 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:08 • Síðdegis: 20:26 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:55 • Síðdegis: 14:30 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver var Montesquieu og fyrir hvað er hann þekktur?

Sigurður Líndal (1931-2023)

Montesquieu, eða fullu nafni Charles de Secondat, Baron de la Bréde et de Montesquieu fæddist árið 1689 og lést 1755. Eftir venjulega skólagöngu, þar sem megináherslan var lögð á latínu, hóf hann árið 1705 nám í lögfræði og lauk því fjórum árum síðar. Næstu árin fékkst hann við lögfræðistörf. Hann kvæntist árið 1715 og hlaut ríflegan heimanmund með konu sinni og árið eftir erfði hann miklar jarðeignir eftir föðurbróður sinn, þar á meðal aðalssetrið Montesquieu. Við það varð hann fjárhagslega sjálfstæður og gat nú óskiptur helgað sig hugðarefnum sínum sem voru fjölmörg. Við nýstofnaða akademíu í Bordeaux tók hann að leggja stund á ýmsar fræðigreinar, svo sem jarðfræði, líffræði og eðlisfræði, þannig að hann varð fjölmenntaður.

Montesquieu (1689-1755).

Árið 1721 birtist undir dulnefni ritið Persabréf (Lettres persanes). Það var nöpur háðsádeila á spillta stjórn og allt menningarástand í Frakklandi, en þó með heimspekilegum undirtón, þar sem menntun og borgaralegar dyggðir skyldu vera undirstaða þjóðfélagsins. Áður en langt um leið varð á almannavitorði hver höfundurinn væri og hann varð víðfrægur. Þetta hleypti honum inn í raðir höfðingja- og heldri menntastétta Parísar og hlaut hann inngöngu í frönsku Akademíuna árið 1728.

Á árunum 1728-1731 var Montesquieu á ferðalögum og heimsótti fjölda landa í Evrópu, en lengst af dvaldist hann í Englandi, eða tvö ár. Þar kynnti hann sér stjórnskipan og stjórnarhætti Englendinga og viðaði að sér miklu efni. Höfðu þau kynni mikil áhrif á allar stjórnskipunarhugmyndir hans. Árið 1734 birtist rit hans Hugleiðingar um orsakir uppgangs og hnignunar Rómaveldis (Considérations sur les causes de la grandeur des Romains et de leur décadence), en að því hafði hann unnið áður en hann lagði í utanlandsferðir sínar. Ritið hlaut misjafnar viðtökur. Meðferð hans á heimildum þótt áfátt, en stíll og framsetning hlaut lof og þá ekki síst skarpleg greining hans á orsakasamhengi og sögulegu ferli.

Montesquieu hafði lengi hugleitt að setja saman rit um lög og stjórnspeki og eftir heimkomuna og útgáfu ritsins um gengi og hnignun Rómaveldis hófst hann handa við að rita höfuðverk sitt sem hlaut nafnið Um anda laganna (De l‘esprit des lois). Vann hann að verkinu, um skeið ásamt aðstoðarmönnum, í tuttugu ár áður en það birtist árið 1748. Ritið skiptist í 31 bók og er 1086 blaðsíður.

Efni þess má skipta í þrjá flokka. Hinn fyrsti lýtur að flokkun ólíkra tegunda stjórnskipunar. Aristóteles hafði skipt stjórnskipan ríkja í þrjá flokka eftir ferli valdsins og sú skipting hafði lengi verið lögð til grundvallar í stjórnspekinni. Skiptingin var á þessa leið: Einveldi (monarchia), valmennastjórn (aristokratia), lýðræði (demokratia).

Montesquieu hvarf frá þessari skiptingu og flokkaði tegundir stjórnskipunar eftir þeim grunnhugmyndum sem gaf þeim gildi. Samkvæmt því merkti lýðræði að æðsta vald í þjóðfélagi, sem byggi við þá skipan, væri í höndum lýðsins. Dyggðin væri grunngildi þess. Einveldi fól í sér að þjóðhöfðingi stjórnaði samkvæmt lögum sem afmörkuðu völd hans og grunngildi þess væri heiður. Harðstjórn væri í þjóðfélagi þar sem einstaklingur stjórnaði samkvæmt eigin vilja og geðþótta. Undistaða þess væri óttinn.

Annar flokkurinn í ritinu Um anda laganna lýtur að sundurgreiningu valdaþátta í löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald og er þessi hluti rits hans sá er flestir kannast við. Með því að skipta þjóðfélagsvaldi með framangreindum hætti og fela meðferð þess sjálfstæðum einstaklingum eða stofnunum taldi Montesquieu að frelsi og lýðræði yrði best tryggt. Langþekktasti kaflinn í ritinu er 11. bók, 6. kafli. Þar gengur hann að því vísu að menn sækist eftir völdum og hneigist til að misnota þau. Löggjafarvaldi sem sameinað sé framkvæmdarvaldi fylgi ófrelsi, dómsvald tryggi ekki frelsi nema það sé skilið frá lagasetningarvaldi. Vald verði að tempra vald.

Fyrirmynd að þessu taldi hann sig sækja til Englands. Reyndar er álit manna að hann hafi ekki túlkað stjórnskipan Englendinga að öllu leyti rétt, en þrátt fyrir það hlaut valdskiptakenningin almennt lof og aðdáun, jafnvel í Englandi. Hún hafði áhrif á sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjamanna 1776 og stjórnarskrá þeirra 1787 og einnig á mannréttindayfirlýsingu frönsku stjórnarbyltingarinnar 1789 og stjórnarskrá þeirra 1791.

Þriðji flokkurinn lýtur að áhrifum loftslags og annarra umhverfisþátta á stjórnmál og stjórnskipan. Hann leggur áherslu á þá þætti loftslagsins sem lúta að hita og kulda á líkamlegt ásigkomulag manna. Þessu fylgi síðan áhrif á sálarlíf og annars konar andlegt ástand manna. Reyndar hefur Montesquieu þann fyrirvara á, að þessir ytri áhrifaþættir séu ekki allsráðandi; trúarbrögð, lög, siðvenjur og almennt viðteknar hugmyndir hafi einnig mótandi áhrif á það hvernig málum sé skipað í þjóðfélaginu. Áhrif þessara óáþreifanlegu áhrifaþátta styrkjast á kostnað hinna ytri og áþreifanlegu eftir því sem siðmenning styrkist.

Segja má að Montesquieu nálgist viðfangsefni sín algerlega kreddulaust. Þannig skoðar hann trúarbrögðin sem félagslegt fyrirbæri, án tillits til gagnsemi eða skaðsemi og óháð því hvort kennisetningar séu sannar eða ósannar, þau eru hvorki algóð né alslæm. Fáu í tilverunni sé þannig háttað að það megi ekki bæta án þess þó að það sé að öllu leyti slæmt. Þrennt er þó í eðli sínu alslæmt, þannig að það verður ekki bætt: harðstjórn, þrælahald og umburðarleysi.

Mynd:

Höfundur

prófessor emeritus við lagadeild HÍ

Útgáfudagur

31.10.2011

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Sigurður Líndal (1931-2023). „Hver var Montesquieu og fyrir hvað er hann þekktur?“ Vísindavefurinn, 31. október 2011, sótt 5. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=61023.

Sigurður Líndal (1931-2023). (2011, 31. október). Hver var Montesquieu og fyrir hvað er hann þekktur? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=61023

Sigurður Líndal (1931-2023). „Hver var Montesquieu og fyrir hvað er hann þekktur?“ Vísindavefurinn. 31. okt. 2011. Vefsíða. 5. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=61023>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver var Montesquieu og fyrir hvað er hann þekktur?
Montesquieu, eða fullu nafni Charles de Secondat, Baron de la Bréde et de Montesquieu fæddist árið 1689 og lést 1755. Eftir venjulega skólagöngu, þar sem megináherslan var lögð á latínu, hóf hann árið 1705 nám í lögfræði og lauk því fjórum árum síðar. Næstu árin fékkst hann við lögfræðistörf. Hann kvæntist árið 1715 og hlaut ríflegan heimanmund með konu sinni og árið eftir erfði hann miklar jarðeignir eftir föðurbróður sinn, þar á meðal aðalssetrið Montesquieu. Við það varð hann fjárhagslega sjálfstæður og gat nú óskiptur helgað sig hugðarefnum sínum sem voru fjölmörg. Við nýstofnaða akademíu í Bordeaux tók hann að leggja stund á ýmsar fræðigreinar, svo sem jarðfræði, líffræði og eðlisfræði, þannig að hann varð fjölmenntaður.

Montesquieu (1689-1755).

Árið 1721 birtist undir dulnefni ritið Persabréf (Lettres persanes). Það var nöpur háðsádeila á spillta stjórn og allt menningarástand í Frakklandi, en þó með heimspekilegum undirtón, þar sem menntun og borgaralegar dyggðir skyldu vera undirstaða þjóðfélagsins. Áður en langt um leið varð á almannavitorði hver höfundurinn væri og hann varð víðfrægur. Þetta hleypti honum inn í raðir höfðingja- og heldri menntastétta Parísar og hlaut hann inngöngu í frönsku Akademíuna árið 1728.

Á árunum 1728-1731 var Montesquieu á ferðalögum og heimsótti fjölda landa í Evrópu, en lengst af dvaldist hann í Englandi, eða tvö ár. Þar kynnti hann sér stjórnskipan og stjórnarhætti Englendinga og viðaði að sér miklu efni. Höfðu þau kynni mikil áhrif á allar stjórnskipunarhugmyndir hans. Árið 1734 birtist rit hans Hugleiðingar um orsakir uppgangs og hnignunar Rómaveldis (Considérations sur les causes de la grandeur des Romains et de leur décadence), en að því hafði hann unnið áður en hann lagði í utanlandsferðir sínar. Ritið hlaut misjafnar viðtökur. Meðferð hans á heimildum þótt áfátt, en stíll og framsetning hlaut lof og þá ekki síst skarpleg greining hans á orsakasamhengi og sögulegu ferli.

Montesquieu hafði lengi hugleitt að setja saman rit um lög og stjórnspeki og eftir heimkomuna og útgáfu ritsins um gengi og hnignun Rómaveldis hófst hann handa við að rita höfuðverk sitt sem hlaut nafnið Um anda laganna (De l‘esprit des lois). Vann hann að verkinu, um skeið ásamt aðstoðarmönnum, í tuttugu ár áður en það birtist árið 1748. Ritið skiptist í 31 bók og er 1086 blaðsíður.

Efni þess má skipta í þrjá flokka. Hinn fyrsti lýtur að flokkun ólíkra tegunda stjórnskipunar. Aristóteles hafði skipt stjórnskipan ríkja í þrjá flokka eftir ferli valdsins og sú skipting hafði lengi verið lögð til grundvallar í stjórnspekinni. Skiptingin var á þessa leið: Einveldi (monarchia), valmennastjórn (aristokratia), lýðræði (demokratia).

Montesquieu hvarf frá þessari skiptingu og flokkaði tegundir stjórnskipunar eftir þeim grunnhugmyndum sem gaf þeim gildi. Samkvæmt því merkti lýðræði að æðsta vald í þjóðfélagi, sem byggi við þá skipan, væri í höndum lýðsins. Dyggðin væri grunngildi þess. Einveldi fól í sér að þjóðhöfðingi stjórnaði samkvæmt lögum sem afmörkuðu völd hans og grunngildi þess væri heiður. Harðstjórn væri í þjóðfélagi þar sem einstaklingur stjórnaði samkvæmt eigin vilja og geðþótta. Undistaða þess væri óttinn.

Annar flokkurinn í ritinu Um anda laganna lýtur að sundurgreiningu valdaþátta í löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald og er þessi hluti rits hans sá er flestir kannast við. Með því að skipta þjóðfélagsvaldi með framangreindum hætti og fela meðferð þess sjálfstæðum einstaklingum eða stofnunum taldi Montesquieu að frelsi og lýðræði yrði best tryggt. Langþekktasti kaflinn í ritinu er 11. bók, 6. kafli. Þar gengur hann að því vísu að menn sækist eftir völdum og hneigist til að misnota þau. Löggjafarvaldi sem sameinað sé framkvæmdarvaldi fylgi ófrelsi, dómsvald tryggi ekki frelsi nema það sé skilið frá lagasetningarvaldi. Vald verði að tempra vald.

Fyrirmynd að þessu taldi hann sig sækja til Englands. Reyndar er álit manna að hann hafi ekki túlkað stjórnskipan Englendinga að öllu leyti rétt, en þrátt fyrir það hlaut valdskiptakenningin almennt lof og aðdáun, jafnvel í Englandi. Hún hafði áhrif á sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjamanna 1776 og stjórnarskrá þeirra 1787 og einnig á mannréttindayfirlýsingu frönsku stjórnarbyltingarinnar 1789 og stjórnarskrá þeirra 1791.

Þriðji flokkurinn lýtur að áhrifum loftslags og annarra umhverfisþátta á stjórnmál og stjórnskipan. Hann leggur áherslu á þá þætti loftslagsins sem lúta að hita og kulda á líkamlegt ásigkomulag manna. Þessu fylgi síðan áhrif á sálarlíf og annars konar andlegt ástand manna. Reyndar hefur Montesquieu þann fyrirvara á, að þessir ytri áhrifaþættir séu ekki allsráðandi; trúarbrögð, lög, siðvenjur og almennt viðteknar hugmyndir hafi einnig mótandi áhrif á það hvernig málum sé skipað í þjóðfélaginu. Áhrif þessara óáþreifanlegu áhrifaþátta styrkjast á kostnað hinna ytri og áþreifanlegu eftir því sem siðmenning styrkist.

Segja má að Montesquieu nálgist viðfangsefni sín algerlega kreddulaust. Þannig skoðar hann trúarbrögðin sem félagslegt fyrirbæri, án tillits til gagnsemi eða skaðsemi og óháð því hvort kennisetningar séu sannar eða ósannar, þau eru hvorki algóð né alslæm. Fáu í tilverunni sé þannig háttað að það megi ekki bæta án þess þó að það sé að öllu leyti slæmt. Þrennt er þó í eðli sínu alslæmt, þannig að það verður ekki bætt: harðstjórn, þrælahald og umburðarleysi.

Mynd:...