Sólin Sólin Rís 05:47 • sest 21:09 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 11:52 • Sest 06:25 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:29 • Síðdegis: 14:32 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 08:11 • Síðdegis: 20:41 í Reykjavík

Hver var hinn kínverski Konfúsíus og hvað er konfúsíanismi?

Geir Sigurðsson

Eins þversagnakennt og það kann að hljóma var konfúsíanismi til á undan Konfúsíusi. Það sem á Vesturlöndum kallast „konfúsíanismi“ er þýðing á kínverska orðinu rujia (儒家), en það var heiti á hópi menntamanna í Kína til forna sem voru sérfróðir um hefðbundnar helgiathafnir. Konfúsíus tilheyrði sjálfur þessum hópi en gaf inntaki stefnunnar nýja merkingu. Hún varð síðan gífurlega áhrifamikil og hefur mótað kínverskt samfélag á síðastliðnum 2000 árum.

Nafnið „Konfúsíus“ er dregið af latneskri umritun vestrænna trúboða á hinu kínverska Kongzi (孔子) sem merkir bókstaflega „Meistari Kong“. Upprunalegt nafn Konfúsíusar var Kong Qiu (孔丘) og fæddist hann í Lu-héraði (núverandi Shandong-héraði) á austurströnd Kína árið 551 f.Kr. Faðir Konfúsíusar lést þegar hann var aðeins fjögurra ára. Hann ólst því upp í verulegri fátækt og þurfti á sínum yngri árum að vinna alls kyns handverks- og verkamannastörf til að geta séð fyrir sér og fjölskyldu sinni. Hann unni samt lærdómi og menntun, og var gífurlega fróðleiksfús.

Á þessum tíma var Kína í alvarlegri upplausn. Að nafninu til var landið sameinað undir stjórn Zhou-keisaraættarinnar (周) en í raun og veru hafði það klofnað í fjölmörg smærri ríki undir stjórn hertoga og fursta sem höfðu tekið til við að kljást innbyrðis um svæðisbundin völd. Konfúsíus hafði miklar áhyggjur af þessari framvindu, einkum vegna þess að hún gróf undan samlífi manna, sameiginlegum gildum og gagnkvæmu siðferði.

Konfúsíus taldi að á blómaskeiði Zhou-veldisins (um 10.-8. öld f.Kr.) hafi samfélagið stjórnast af afar fágaðri siðferðishugsun. Þess vegna taldi hann bestu leiðina til að forðast algera ringulreið í samfélaginu vera þá að endurlífga þessa hugsun. Í því fólst ekki, eins og stundum er haldið fram, krafa um algert afturhvarf til samfélagskerfis Zhou-veldisins, heldur var þetta fremur spurning um nýja túlkun á tilteknum hugsunarhætti sem tæki mið af breyttum aðstæðum. Konfúsíus tók snemma til við að kenna heimspeki sína og varð að sumu leyti ágengt. Hann laðaði að sér nokkur þúsund lærisveina en um 70 þeirra voru honum afar nánir og áttu eftir að fylgja honum um langt skeið.


Konfúsíus og lærisveinar hans.

Þegar á heildina er litið mistókst Konfúsíusi þó ætlunarverk sitt. Hann eyddi stórum hluta ævinnar í að ferðast um og reyna að sannfæra valdhafa um að fylgja heimspeki sinni. Raunar var hann skipaður í mikilvægt embætti í Lu-ríki um aldamótin 500 f.Kr. en missti það einungis örfáum árum síðar vegna stjórnspillingar á æðstu stöðum. Eftir að hafa eytt þrettán árum í árangurslausar tilraunir til að telja um fyrir valdagráðugum furstum sneri hann aftur til Lu og tók þá til við að stunda kennslustörf að nýju. Þar bjó hann síðustu æviárin eða þar til hann lést árið 479 f.Kr. Mikilvægasta heimildin um líf og hugsun Konfúsíusar er ritið Speki Konfúsíusar (Lunyu 论语) sem skráð var af lærisveinum hans og hefur komið út í íslenskri þýðingu Ragnars Baldurssonar.

Eftirmenn Konfúsíusar, einkum Mensíus (Mengzi 孟子 ) og Xunzi (荀子), þróuðu áfram hugmyndir hans og lögðu grundvöllinn að þeim konfúsíansma sem síðar átti eftir að vera opinber hugmyndafræði kínverska ríkisins frá sameiningu þess árið 221 f.Kr. og allt fram að falli síðasta keisaraveldisins árið 1911. Þessi tegund konfúsíanisma blandaðist svo saman við stjórnmálaheimspeki í anda svokallaðrar löghyggju (fajia 法家) en hún fól meðal annars í sér algera undirgefni sonar gagnvart föður, eiginkonu gagnvart eiginmanni og þegns gagnvart valdhafa. Tilhneigingin hefur verið sú að heimfæra þetta stífa regluveldi upp á konfúsíanisma en það á sér ekki fordæmi í heimspeki hinna fyrstu konfúsíanísku hugsuða.

Í örstuttu og ofureinfölduðu máli snýst konfúsíanísk heimspeki um að tileinka sér siði og hefðir sem ríkt hafa í Kína frá og með Zhou-veldinu en laga þau að breyttum aðstæðum. Konfúsíus sagði sjálfur að viska fælist í því að færa fram hið nýja á grundvelli hins gamla. Í þessu felst mikil og sterk fjölskylduhefð og krafa um virðingu hinna yngri og óreyndu gagnvart hinum eldri og lífsreyndari. Hinum yngri er ætlað að taka sér eldra fólk til fyrirmyndar en um leið tjá reynslu þess í framkvæmd með persónulegum hætti í ljósi ríkjandi aðstæðna. Þannig er gífurleg áhersla lögð á lærdóm og námsfýsi.

Áherslan á námið í konfúsíanískri heimspeki birtist einnig í embættismannakerfi keisaraveldanna. Árlega voru haldin mikil próf til að velja úr þá sem þóttu hæfastir til að gegna embætti við hirðina. Með þessum hætti höfðu menntamenn ávallt mikil áhrif á stjórnmál í Kína. Prófin fólust einkum í að túlka, með hliðsjón af samtímaaðstæðum, fornrit þau sem þóttu vera grundvöllur kínverskrar og konfúsíanískrar menningar. Þeirra á meðal voru Samræður Konfúsíusar og ritið sem kennt er við Mensíus.


Konfúsíus sýnir Lao Tse hinn unga Gautama Búdda.

Á 9. öld tók að bera á auknum áhrifum búddískrar heimspeki í kínversku samfélagi. Konfúsíanískir menntamenn höfðu sérstakar áhyggjur af þessari þróun. Þeir kölluðu því á endurnýjun konfúsíanískrar hugsunar og tóku að þróa betur þætti innan hennar sem lítil áhersla hafði verið lögð á, til dæmis kerfisbundna heimsfræði eða frumspeki. Þetta var upphafið að nýju blómaskeiði konfúsíanisma á tímum Song- og Ming-keisaraveldanna. Nýrri gerð konfúsíanisma hefur verið kölluð „nýkonfúsíanismi“ á Vesturlöndum en gengur undir nafninu Song-Ming-konfúsíanismi í Kína (Song-Ming rujia 宋明儒家) Á meðal helstu hugsuða þessa tíma voru Zhang Zai (张载), Cheng Yi (程颐) og Zhu Xi (朱熹).

Lokaskeið Ming-keisaraveldisins og Qing-keisaraveldið, síðasta keisaraveldið í Kína, þykja mikið hnignunartímabil í sögu konfúsíanisma. Hann tók þá að einkennast af aukinni afturhaldsstefnu og kreddutrú. Eftir miðja 19. öld, þegar vesturveldin höfðu knúið Kínverja til ósigurs í tveimur ópíumstríðum, tóku að heyrast raddir innan Kína sem kenndu afturhaldssömum konfúsíanisma um stöðnun keisaraveldisins. Raddir þessar mögnuðust og eftir fall keisaraveldisins 1911 átti sér stað mikil herferð gegn konfúsíanískri hugsun sem náði vissu hámarki í hinni svokölluðu 4. maí-hreyfingu að fyrri heimsstyrjöld lokinni. Litið var á Konfúsíus sem fulltrúa strangrar hefðarhyggju og stífra valdaafstæðna lénsveldisins. Þetta viðhorf varð enn meira áberandi eftir að kommúnistar settu Kínverska alþýðulýðveldið á stofn árið 1949. Í hinni óhugnanlegu menningarbyltingu, sem hófst árið 1966, var Konfúsíus, ásamt „brautryðjendum kapítalismans“ fordæmdur sem helsti óvinur sósíalískra framfara. Ótal konfúsíanísk hof og mannvirki voru lögð í rúst á þessum árum.

Síðan Alþýðulýðveldið opnaðist gagnvart umheiminum 1978 hefur viðhorfið til konfúsíanískrar hugsunar smám saman orðið jákvæðara. Um þessar mundir á sér stað veruleg gróska í endurlífgun konfúsíanískrar heimspeki, sem gengur undir heitinu „nýr konfúsíanismi“ (xin rujia 新儒家) og á einkum rætur hjá heimspekingum á borð við Kang Youwei (康有为), Mou Zongsan (牟宗三) og Tang Junyi (唐君毅). Um og eftir aldamótin 1900 reyndu þessir hugsuðir að nútímavæða konfúsíanisma í stað þess að hafna honum með öllu, þar sem þeir töldu að höfnun konfúsíanískrar hugsunar jafngilti að hafna kínverskri menningu. Á 20. öld var stefna þessi mest áberandi í Taívan, Hong Kong og Singapúr en nú má víða finna fulltrúa hennar, meðal annars í Alþýðulýðveldinu og á Vesturlöndum.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Frekara lesefni á íslensku:

  • Geir Sigurðsson. „Á meðal hinna tíu þúsund hluta: Tang Junyi og sérkenni kínverskrar heimsfræði“. Hugur, tímarit um heimspeki 15 (2003), bls. 52-65.
  • Konfúsíus“. Wikipedia, frjálsa alfræðiritið.
  • Speki Konfúsíusar. 2. útgáfa. Ragnar Baldursson þýddi. Reykjavík: Pjaxi, 2006.

Myndir:

Upphaflegar spurningar voru:

  • Hver var Konfúsíus og hvað er konfúsíansismi? (Unnþór)
  • Hver var hinn kínverski Konfúsíus? Hverjar eru helstu kenningar hans? (Jóhanna)

Höfundur

Geir Sigurðsson

heimspekingur og prófessor í kínverskum fræðum

Útgáfudagur

22.8.2006

Spyrjandi

Unnþór Jónsson, Jóhanna Jóhannsdóttir

Tilvísun

Geir Sigurðsson. „Hver var hinn kínverski Konfúsíus og hvað er konfúsíanismi?“ Vísindavefurinn, 22. ágúst 2006. Sótt 17. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=6140.

Geir Sigurðsson. (2006, 22. ágúst). Hver var hinn kínverski Konfúsíus og hvað er konfúsíanismi? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=6140

Geir Sigurðsson. „Hver var hinn kínverski Konfúsíus og hvað er konfúsíanismi?“ Vísindavefurinn. 22. ágú. 2006. Vefsíða. 17. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=6140>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver var hinn kínverski Konfúsíus og hvað er konfúsíanismi?
Eins þversagnakennt og það kann að hljóma var konfúsíanismi til á undan Konfúsíusi. Það sem á Vesturlöndum kallast „konfúsíanismi“ er þýðing á kínverska orðinu rujia (儒家), en það var heiti á hópi menntamanna í Kína til forna sem voru sérfróðir um hefðbundnar helgiathafnir. Konfúsíus tilheyrði sjálfur þessum hópi en gaf inntaki stefnunnar nýja merkingu. Hún varð síðan gífurlega áhrifamikil og hefur mótað kínverskt samfélag á síðastliðnum 2000 árum.

Nafnið „Konfúsíus“ er dregið af latneskri umritun vestrænna trúboða á hinu kínverska Kongzi (孔子) sem merkir bókstaflega „Meistari Kong“. Upprunalegt nafn Konfúsíusar var Kong Qiu (孔丘) og fæddist hann í Lu-héraði (núverandi Shandong-héraði) á austurströnd Kína árið 551 f.Kr. Faðir Konfúsíusar lést þegar hann var aðeins fjögurra ára. Hann ólst því upp í verulegri fátækt og þurfti á sínum yngri árum að vinna alls kyns handverks- og verkamannastörf til að geta séð fyrir sér og fjölskyldu sinni. Hann unni samt lærdómi og menntun, og var gífurlega fróðleiksfús.

Á þessum tíma var Kína í alvarlegri upplausn. Að nafninu til var landið sameinað undir stjórn Zhou-keisaraættarinnar (周) en í raun og veru hafði það klofnað í fjölmörg smærri ríki undir stjórn hertoga og fursta sem höfðu tekið til við að kljást innbyrðis um svæðisbundin völd. Konfúsíus hafði miklar áhyggjur af þessari framvindu, einkum vegna þess að hún gróf undan samlífi manna, sameiginlegum gildum og gagnkvæmu siðferði.

Konfúsíus taldi að á blómaskeiði Zhou-veldisins (um 10.-8. öld f.Kr.) hafi samfélagið stjórnast af afar fágaðri siðferðishugsun. Þess vegna taldi hann bestu leiðina til að forðast algera ringulreið í samfélaginu vera þá að endurlífga þessa hugsun. Í því fólst ekki, eins og stundum er haldið fram, krafa um algert afturhvarf til samfélagskerfis Zhou-veldisins, heldur var þetta fremur spurning um nýja túlkun á tilteknum hugsunarhætti sem tæki mið af breyttum aðstæðum. Konfúsíus tók snemma til við að kenna heimspeki sína og varð að sumu leyti ágengt. Hann laðaði að sér nokkur þúsund lærisveina en um 70 þeirra voru honum afar nánir og áttu eftir að fylgja honum um langt skeið.


Konfúsíus og lærisveinar hans.

Þegar á heildina er litið mistókst Konfúsíusi þó ætlunarverk sitt. Hann eyddi stórum hluta ævinnar í að ferðast um og reyna að sannfæra valdhafa um að fylgja heimspeki sinni. Raunar var hann skipaður í mikilvægt embætti í Lu-ríki um aldamótin 500 f.Kr. en missti það einungis örfáum árum síðar vegna stjórnspillingar á æðstu stöðum. Eftir að hafa eytt þrettán árum í árangurslausar tilraunir til að telja um fyrir valdagráðugum furstum sneri hann aftur til Lu og tók þá til við að stunda kennslustörf að nýju. Þar bjó hann síðustu æviárin eða þar til hann lést árið 479 f.Kr. Mikilvægasta heimildin um líf og hugsun Konfúsíusar er ritið Speki Konfúsíusar (Lunyu 论语) sem skráð var af lærisveinum hans og hefur komið út í íslenskri þýðingu Ragnars Baldurssonar.

Eftirmenn Konfúsíusar, einkum Mensíus (Mengzi 孟子 ) og Xunzi (荀子), þróuðu áfram hugmyndir hans og lögðu grundvöllinn að þeim konfúsíansma sem síðar átti eftir að vera opinber hugmyndafræði kínverska ríkisins frá sameiningu þess árið 221 f.Kr. og allt fram að falli síðasta keisaraveldisins árið 1911. Þessi tegund konfúsíanisma blandaðist svo saman við stjórnmálaheimspeki í anda svokallaðrar löghyggju (fajia 法家) en hún fól meðal annars í sér algera undirgefni sonar gagnvart föður, eiginkonu gagnvart eiginmanni og þegns gagnvart valdhafa. Tilhneigingin hefur verið sú að heimfæra þetta stífa regluveldi upp á konfúsíanisma en það á sér ekki fordæmi í heimspeki hinna fyrstu konfúsíanísku hugsuða.

Í örstuttu og ofureinfölduðu máli snýst konfúsíanísk heimspeki um að tileinka sér siði og hefðir sem ríkt hafa í Kína frá og með Zhou-veldinu en laga þau að breyttum aðstæðum. Konfúsíus sagði sjálfur að viska fælist í því að færa fram hið nýja á grundvelli hins gamla. Í þessu felst mikil og sterk fjölskylduhefð og krafa um virðingu hinna yngri og óreyndu gagnvart hinum eldri og lífsreyndari. Hinum yngri er ætlað að taka sér eldra fólk til fyrirmyndar en um leið tjá reynslu þess í framkvæmd með persónulegum hætti í ljósi ríkjandi aðstæðna. Þannig er gífurleg áhersla lögð á lærdóm og námsfýsi.

Áherslan á námið í konfúsíanískri heimspeki birtist einnig í embættismannakerfi keisaraveldanna. Árlega voru haldin mikil próf til að velja úr þá sem þóttu hæfastir til að gegna embætti við hirðina. Með þessum hætti höfðu menntamenn ávallt mikil áhrif á stjórnmál í Kína. Prófin fólust einkum í að túlka, með hliðsjón af samtímaaðstæðum, fornrit þau sem þóttu vera grundvöllur kínverskrar og konfúsíanískrar menningar. Þeirra á meðal voru Samræður Konfúsíusar og ritið sem kennt er við Mensíus.


Konfúsíus sýnir Lao Tse hinn unga Gautama Búdda.

Á 9. öld tók að bera á auknum áhrifum búddískrar heimspeki í kínversku samfélagi. Konfúsíanískir menntamenn höfðu sérstakar áhyggjur af þessari þróun. Þeir kölluðu því á endurnýjun konfúsíanískrar hugsunar og tóku að þróa betur þætti innan hennar sem lítil áhersla hafði verið lögð á, til dæmis kerfisbundna heimsfræði eða frumspeki. Þetta var upphafið að nýju blómaskeiði konfúsíanisma á tímum Song- og Ming-keisaraveldanna. Nýrri gerð konfúsíanisma hefur verið kölluð „nýkonfúsíanismi“ á Vesturlöndum en gengur undir nafninu Song-Ming-konfúsíanismi í Kína (Song-Ming rujia 宋明儒家) Á meðal helstu hugsuða þessa tíma voru Zhang Zai (张载), Cheng Yi (程颐) og Zhu Xi (朱熹).

Lokaskeið Ming-keisaraveldisins og Qing-keisaraveldið, síðasta keisaraveldið í Kína, þykja mikið hnignunartímabil í sögu konfúsíanisma. Hann tók þá að einkennast af aukinni afturhaldsstefnu og kreddutrú. Eftir miðja 19. öld, þegar vesturveldin höfðu knúið Kínverja til ósigurs í tveimur ópíumstríðum, tóku að heyrast raddir innan Kína sem kenndu afturhaldssömum konfúsíanisma um stöðnun keisaraveldisins. Raddir þessar mögnuðust og eftir fall keisaraveldisins 1911 átti sér stað mikil herferð gegn konfúsíanískri hugsun sem náði vissu hámarki í hinni svokölluðu 4. maí-hreyfingu að fyrri heimsstyrjöld lokinni. Litið var á Konfúsíus sem fulltrúa strangrar hefðarhyggju og stífra valdaafstæðna lénsveldisins. Þetta viðhorf varð enn meira áberandi eftir að kommúnistar settu Kínverska alþýðulýðveldið á stofn árið 1949. Í hinni óhugnanlegu menningarbyltingu, sem hófst árið 1966, var Konfúsíus, ásamt „brautryðjendum kapítalismans“ fordæmdur sem helsti óvinur sósíalískra framfara. Ótal konfúsíanísk hof og mannvirki voru lögð í rúst á þessum árum.

Síðan Alþýðulýðveldið opnaðist gagnvart umheiminum 1978 hefur viðhorfið til konfúsíanískrar hugsunar smám saman orðið jákvæðara. Um þessar mundir á sér stað veruleg gróska í endurlífgun konfúsíanískrar heimspeki, sem gengur undir heitinu „nýr konfúsíanismi“ (xin rujia 新儒家) og á einkum rætur hjá heimspekingum á borð við Kang Youwei (康有为), Mou Zongsan (牟宗三) og Tang Junyi (唐君毅). Um og eftir aldamótin 1900 reyndu þessir hugsuðir að nútímavæða konfúsíanisma í stað þess að hafna honum með öllu, þar sem þeir töldu að höfnun konfúsíanískrar hugsunar jafngilti að hafna kínverskri menningu. Á 20. öld var stefna þessi mest áberandi í Taívan, Hong Kong og Singapúr en nú má víða finna fulltrúa hennar, meðal annars í Alþýðulýðveldinu og á Vesturlöndum.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Frekara lesefni á íslensku:

  • Geir Sigurðsson. „Á meðal hinna tíu þúsund hluta: Tang Junyi og sérkenni kínverskrar heimsfræði“. Hugur, tímarit um heimspeki 15 (2003), bls. 52-65.
  • Konfúsíus“. Wikipedia, frjálsa alfræðiritið.
  • Speki Konfúsíusar. 2. útgáfa. Ragnar Baldursson þýddi. Reykjavík: Pjaxi, 2006.

Myndir:

Upphaflegar spurningar voru:

  • Hver var Konfúsíus og hvað er konfúsíansismi? (Unnþór)
  • Hver var hinn kínverski Konfúsíus? Hverjar eru helstu kenningar hans? (Jóhanna)
...