Sólin Sólin Rís 05:36 • sest 21:19 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:44 • Sest 05:50 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:37 • Síðdegis: 17:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:57 • Síðdegis: 23:09 í Reykjavík

Hvað getið þið sagt mér um kínverskt samfélag?

Geir Sigurðsson

Hér skal „kínverskt samfélag“ skilið sem samfélag Kínverska alþýðulýðveldisins. Talin verða upp fimm almenn atriði sem einkum gera þetta samfélag frábrugðið þeim vestrænu: 1. menningarhefðin á sér ólíkar rætur; 2. kínversk matarmenning hefur ómetanleg áhrif á daglegt líf og ásýnd samfélagsins; 3. fólksfjöldi er margfalt meiri; 4. breytingar eru örar um þessar mundir vegna mikils efnahagsuppgangs; og 5. munurinn á lífsgæðum í borgum og sveitum er almennt meiri en á Vesturlöndum. Skoðum stuttlega hvert atriði fyrir sig.

1. Menningarhefðin á sér ólíkar rætur

Menningarhefð hvers samfélags á stóran þátt í að móta gildismat fólks og samskipti þess á milli. Kínverskt samfélag er á margan hátt afar frábrugðið vestrænum samfélögum í þessu tilliti, því kínversk menning á sér djúpar rætur og þróaðist í aldaraðir svo til án nokkurra áhrifa frá vestrænni menningu.


Í kínversku samfélagi er mikil áhersla lögð á náin fjölskyldutengsl.

Tvö af helstu séreinkennum kínversks samfélags eru djúptæk fjölskylduhyggja og rík áhersla á rækt persónulegra vináttu- og hagsmunatengsla. Enn er til dæmis algengt að foreldrar flytji heim til barna sinna þegar þeir eru komnir á eftir ár, þótt vissulega hafi nokkuð dregið úr því á undanförnum áratugum. Einnig eru samskipti í Kína oft frekar formleg, þó almennt ekki jafn formleg og í löndum á borð við Kóreu og Japan. Má til dæmis nefna að strangari reglur gilda um snertingu milli karla og kvenna á opinberum stöðum í Kína en almennt á Vesturlöndum, en þó eru Kínverjar líklega frjálslegri að þessu leyti en til dæmis Kóreumenn.

Gera þarf nokkurn greinarmun á siðvenjum í stórborgum annars vegar og minni byggðarlögum hins vegar. Í borgum á borð við Beijing, Shanghai og Guangzhou má almennt finna meiri áhrif heimsvæðingar en í minni borgum, bæjum og sveitum, svo í því tilliti er varla unnt að greina kínverskar stórborgir frá sambærilegum borgum eins og Lundúnum og París. Minni byggðarlög hneigjast hins vegar til hefðbundnari gilda og eru þar með ólíkari því sem Vesturlandabúar eiga að venjast.

Loks ber að nefna að í Kína er að finna alls 56 mismunandi þjóðir með jafn margar menningarhefðir. Han-þjóðin telur þó langflesta, eða yfir 90% Kínverja. Fólk af öðru þjóðerni býr gjarnan utan stærri borga og leggur þar rækt við eigin menningarhefð. Í mörgum tilvikum eru samfélög þessara minnihlutahópa afar frábrugðin almennu kínversku samfélagi hvað varðar ásýnd, lífsstíl og hegðun.

2. Kínversk matarmenning hefur ómetanleg áhrif á daglegt líf og ásýnd samfélagsins

Kínverjar eru miklir sælkerar og matur leikur ómetanlega stórt hlutverk í lífi þeirra. Í Kína er rækt náinna mannlegra samskipta, hvort sem um er að ræða rómantíska ást, vináttu eða viðskiptahagsmuni, óhugsandi án sameiginlegra máltíða. Því setja matsölustaðir af öllum stærðum og gerðum mikinn svip á kínverskt samfélag.


Á nánast hverju götuhorni eru seldir litlir skyndibitar.

Á götum úti eru seldir ávextir og hvers kyns litlir skyndibitar, og veitingastaðir eru í nánast endalausum röðum. Jafnvel í hæstu fjöllum og afskekktustu dölum má gera ráð fyrir að rekast á einstaka matselju sem ber níðþungar matarkörfur eða ýtir veitingavagni á undan sér.

3. Fólksfjöldi er margfalt meiri

Í byggðarlögum í austurhluta Kína er fólk bókstaflega alls staðar. Þetta hefur að sjálfsögðu bein áhrif á ásýnd samfélagsins og lífið innan þess. Almenningssamgöngutæki eru jafnan full af farþegum, verslunarmiðstöðvar og stórmarkaðir troðnir og óhjákvæmilegt er að eyða verulegum tíma í biðröðum. Á vissum tímum árs, þegar margir eru á faraldsfæti, getur verið martröð að útvega sér farmiða með lest eða rútu, hvað þá að ferðast með þeim. Ennfremur safnast mikið magn sorps og úrgangs saman á skömmum tíma og er því oft áberandi í borgum.

Jákvæðar hliðar margmennisins eru hins vegar þær að í stærri borgum er alltaf eitthvað um að vera og á seinustu árum hefur sprottið upp fjöldi verslana og veitingastaða sem hafa opið allan sólarhringinn. Þótt Kínverjar verði sjálfir oft dauðþreyttir á öllum þessum fólksfjölda vilja þeir almennt finna fyrir miklu lífi í kringum sig. Veitingastaðir eiga til dæmis helst að vera vel upplýstir, pakkfullir og háværir – alger andstæða við ímynd bestu veitingastaða Vesturlanda.

4. Breytingar eru örar vegna mikils efnahagsuppgangs

Síðan markaðir í Kína opnuðust fyrir erlendum fjárfestum árið 1978 hafa orðið gífurlegar breytingar á samfélaginu. Uppbygging og „nútímavæðing“ er allsráðandi í borgum. Stöðugt er verið að rífa hús í eldri og hefðbundnari borgarhlutum til að rýma fyrir glerprýddum skýjakljúfum, nútímalegum viðskiptamiðstöðvum og risavöxnum fjölbýlum. Ekkert stendur í stað. Þannig eru hefðbundnir útimarkaðir smám saman að víkja fyrir verslunarmiðstöðvum, þótt ekki sé líklegt að þeir hverfi alfarið.


Útimarkaðir sem þessi eru smám saman að víkja fyrir verslunarmiðstöðvum.

Fjöldi bifreiða, einkum einkabifreiða, hefur margfaldast á undanförnum áratug. Afleiðingar eru umferðarteppa og bílastæðavandi sem yfirvöld hafa ekki náð að leysa með fullnægjandi hætti. Mengun vegna útblásturs fer einnig vaxandi og bætist við þá iðnmengun sem borgarbúar hafa þurft að þola fram að þessu. Augljóslega hefur þetta mikil áhrif á lífsgæði í kínversku samfélagi. Á móti kemur að framboð á vörum og afþreyingu í stærri kínverskum borgum er orðið sambærilegt við vestrænar borgir og jafnvel meira, því það felur oft í sér jafnt vestrænar sem asískar hefðir.

Með þessum öru breytingum veikjast fornar hefðir og margir Kínverjar, einkum hinir eldri, eiga afar erfitt með að fylgja þeim eftir. Víst er að á síðasta aldarfjórðungi hefur kínverskt samfélag að mörgu leyti orðið mun ópersónulegra og skeytingarlausara en áður.

5. Munurinn á lífsgæðum í borgum og sveitum er almennt meiri en á Vesturlöndum

Það er einkum þessi breyta sem veldur því að sérlega erfitt er að lýsa kínversku samfélagi, því segja má að það einkennist af alvarlegum klofningi. Kínverjar eru 1,3 milljarðar, og af þeim eru yfir 800 milljónir bændur. Sumir þeirra búa yfir nokkrum fjárráðum, einkum í Guangdong-héraði og út við austurströndina, en langstærsti hlutinn lifir afar einföldu lífi – lífi sem í grundvallaratriðum hefur lítið breyst á síðastliðnum öldum.

Á meðan efnuðustu borgarbúarnir lifa miklu munaðarlífi býr stór hluti sveitamanna við kröpp kjör. Með aukinni iðnvæðingu streymir fólk úr sveitum til borganna og vinnur þar verksmiðjuvinnu eða hvers kyns afgreiðslu- og þjónustustörf. Margir óttast að í kínverskum borgum taki að magnast spenna milli hinna nýmótuðu samfélagsstétta, en þrátt fyrir mikinn fjölda fólks hefur glæpatíðni í stórborgum Kína hingað til verið lág miðað við vestrænar borgir. Þó kann að vera að djúpstæð andúð kínverskrar siðmenningar á líkamlegu ofbeldi muni að lokum hafa yfirhöndina.

Frekara lesefni á Vísindavefnum

Frekara lesefni á íslensku

Myndir

Höfundur

Geir Sigurðsson

heimspekingur og prófessor í kínverskum fræðum

Útgáfudagur

28.8.2006

Spyrjandi

Davíð Eiríksson, f. 1989
Vordís Eiríksdóttir, f. 1989

Tilvísun

Geir Sigurðsson. „Hvað getið þið sagt mér um kínverskt samfélag?“ Vísindavefurinn, 28. ágúst 2006. Sótt 20. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=6153.

Geir Sigurðsson. (2006, 28. ágúst). Hvað getið þið sagt mér um kínverskt samfélag? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=6153

Geir Sigurðsson. „Hvað getið þið sagt mér um kínverskt samfélag?“ Vísindavefurinn. 28. ágú. 2006. Vefsíða. 20. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=6153>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað getið þið sagt mér um kínverskt samfélag?
Hér skal „kínverskt samfélag“ skilið sem samfélag Kínverska alþýðulýðveldisins. Talin verða upp fimm almenn atriði sem einkum gera þetta samfélag frábrugðið þeim vestrænu: 1. menningarhefðin á sér ólíkar rætur; 2. kínversk matarmenning hefur ómetanleg áhrif á daglegt líf og ásýnd samfélagsins; 3. fólksfjöldi er margfalt meiri; 4. breytingar eru örar um þessar mundir vegna mikils efnahagsuppgangs; og 5. munurinn á lífsgæðum í borgum og sveitum er almennt meiri en á Vesturlöndum. Skoðum stuttlega hvert atriði fyrir sig.

1. Menningarhefðin á sér ólíkar rætur

Menningarhefð hvers samfélags á stóran þátt í að móta gildismat fólks og samskipti þess á milli. Kínverskt samfélag er á margan hátt afar frábrugðið vestrænum samfélögum í þessu tilliti, því kínversk menning á sér djúpar rætur og þróaðist í aldaraðir svo til án nokkurra áhrifa frá vestrænni menningu.


Í kínversku samfélagi er mikil áhersla lögð á náin fjölskyldutengsl.

Tvö af helstu séreinkennum kínversks samfélags eru djúptæk fjölskylduhyggja og rík áhersla á rækt persónulegra vináttu- og hagsmunatengsla. Enn er til dæmis algengt að foreldrar flytji heim til barna sinna þegar þeir eru komnir á eftir ár, þótt vissulega hafi nokkuð dregið úr því á undanförnum áratugum. Einnig eru samskipti í Kína oft frekar formleg, þó almennt ekki jafn formleg og í löndum á borð við Kóreu og Japan. Má til dæmis nefna að strangari reglur gilda um snertingu milli karla og kvenna á opinberum stöðum í Kína en almennt á Vesturlöndum, en þó eru Kínverjar líklega frjálslegri að þessu leyti en til dæmis Kóreumenn.

Gera þarf nokkurn greinarmun á siðvenjum í stórborgum annars vegar og minni byggðarlögum hins vegar. Í borgum á borð við Beijing, Shanghai og Guangzhou má almennt finna meiri áhrif heimsvæðingar en í minni borgum, bæjum og sveitum, svo í því tilliti er varla unnt að greina kínverskar stórborgir frá sambærilegum borgum eins og Lundúnum og París. Minni byggðarlög hneigjast hins vegar til hefðbundnari gilda og eru þar með ólíkari því sem Vesturlandabúar eiga að venjast.

Loks ber að nefna að í Kína er að finna alls 56 mismunandi þjóðir með jafn margar menningarhefðir. Han-þjóðin telur þó langflesta, eða yfir 90% Kínverja. Fólk af öðru þjóðerni býr gjarnan utan stærri borga og leggur þar rækt við eigin menningarhefð. Í mörgum tilvikum eru samfélög þessara minnihlutahópa afar frábrugðin almennu kínversku samfélagi hvað varðar ásýnd, lífsstíl og hegðun.

2. Kínversk matarmenning hefur ómetanleg áhrif á daglegt líf og ásýnd samfélagsins

Kínverjar eru miklir sælkerar og matur leikur ómetanlega stórt hlutverk í lífi þeirra. Í Kína er rækt náinna mannlegra samskipta, hvort sem um er að ræða rómantíska ást, vináttu eða viðskiptahagsmuni, óhugsandi án sameiginlegra máltíða. Því setja matsölustaðir af öllum stærðum og gerðum mikinn svip á kínverskt samfélag.


Á nánast hverju götuhorni eru seldir litlir skyndibitar.

Á götum úti eru seldir ávextir og hvers kyns litlir skyndibitar, og veitingastaðir eru í nánast endalausum röðum. Jafnvel í hæstu fjöllum og afskekktustu dölum má gera ráð fyrir að rekast á einstaka matselju sem ber níðþungar matarkörfur eða ýtir veitingavagni á undan sér.

3. Fólksfjöldi er margfalt meiri

Í byggðarlögum í austurhluta Kína er fólk bókstaflega alls staðar. Þetta hefur að sjálfsögðu bein áhrif á ásýnd samfélagsins og lífið innan þess. Almenningssamgöngutæki eru jafnan full af farþegum, verslunarmiðstöðvar og stórmarkaðir troðnir og óhjákvæmilegt er að eyða verulegum tíma í biðröðum. Á vissum tímum árs, þegar margir eru á faraldsfæti, getur verið martröð að útvega sér farmiða með lest eða rútu, hvað þá að ferðast með þeim. Ennfremur safnast mikið magn sorps og úrgangs saman á skömmum tíma og er því oft áberandi í borgum.

Jákvæðar hliðar margmennisins eru hins vegar þær að í stærri borgum er alltaf eitthvað um að vera og á seinustu árum hefur sprottið upp fjöldi verslana og veitingastaða sem hafa opið allan sólarhringinn. Þótt Kínverjar verði sjálfir oft dauðþreyttir á öllum þessum fólksfjölda vilja þeir almennt finna fyrir miklu lífi í kringum sig. Veitingastaðir eiga til dæmis helst að vera vel upplýstir, pakkfullir og háværir – alger andstæða við ímynd bestu veitingastaða Vesturlanda.

4. Breytingar eru örar vegna mikils efnahagsuppgangs

Síðan markaðir í Kína opnuðust fyrir erlendum fjárfestum árið 1978 hafa orðið gífurlegar breytingar á samfélaginu. Uppbygging og „nútímavæðing“ er allsráðandi í borgum. Stöðugt er verið að rífa hús í eldri og hefðbundnari borgarhlutum til að rýma fyrir glerprýddum skýjakljúfum, nútímalegum viðskiptamiðstöðvum og risavöxnum fjölbýlum. Ekkert stendur í stað. Þannig eru hefðbundnir útimarkaðir smám saman að víkja fyrir verslunarmiðstöðvum, þótt ekki sé líklegt að þeir hverfi alfarið.


Útimarkaðir sem þessi eru smám saman að víkja fyrir verslunarmiðstöðvum.

Fjöldi bifreiða, einkum einkabifreiða, hefur margfaldast á undanförnum áratug. Afleiðingar eru umferðarteppa og bílastæðavandi sem yfirvöld hafa ekki náð að leysa með fullnægjandi hætti. Mengun vegna útblásturs fer einnig vaxandi og bætist við þá iðnmengun sem borgarbúar hafa þurft að þola fram að þessu. Augljóslega hefur þetta mikil áhrif á lífsgæði í kínversku samfélagi. Á móti kemur að framboð á vörum og afþreyingu í stærri kínverskum borgum er orðið sambærilegt við vestrænar borgir og jafnvel meira, því það felur oft í sér jafnt vestrænar sem asískar hefðir.

Með þessum öru breytingum veikjast fornar hefðir og margir Kínverjar, einkum hinir eldri, eiga afar erfitt með að fylgja þeim eftir. Víst er að á síðasta aldarfjórðungi hefur kínverskt samfélag að mörgu leyti orðið mun ópersónulegra og skeytingarlausara en áður.

5. Munurinn á lífsgæðum í borgum og sveitum er almennt meiri en á Vesturlöndum

Það er einkum þessi breyta sem veldur því að sérlega erfitt er að lýsa kínversku samfélagi, því segja má að það einkennist af alvarlegum klofningi. Kínverjar eru 1,3 milljarðar, og af þeim eru yfir 800 milljónir bændur. Sumir þeirra búa yfir nokkrum fjárráðum, einkum í Guangdong-héraði og út við austurströndina, en langstærsti hlutinn lifir afar einföldu lífi – lífi sem í grundvallaratriðum hefur lítið breyst á síðastliðnum öldum.

Á meðan efnuðustu borgarbúarnir lifa miklu munaðarlífi býr stór hluti sveitamanna við kröpp kjör. Með aukinni iðnvæðingu streymir fólk úr sveitum til borganna og vinnur þar verksmiðjuvinnu eða hvers kyns afgreiðslu- og þjónustustörf. Margir óttast að í kínverskum borgum taki að magnast spenna milli hinna nýmótuðu samfélagsstétta, en þrátt fyrir mikinn fjölda fólks hefur glæpatíðni í stórborgum Kína hingað til verið lág miðað við vestrænar borgir. Þó kann að vera að djúpstæð andúð kínverskrar siðmenningar á líkamlegu ofbeldi muni að lokum hafa yfirhöndina.

Frekara lesefni á Vísindavefnum

Frekara lesefni á íslensku

Myndir

...