Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Myndin er líklega af afrísku mörgæsinni (Spheniscus demersus), en hún er stundum kölluð asna-mörgæs (e. jackass penquin) þar sem köll hennar þykja minna á hljóð í asna.
Eins og nafnið gefur til kynna lifir afríska mörgæsin undan ströndum Afríku, nánar tiltekið við Namibíu og Suður-Afríku. Stærsta og kunnasta byggð afrísku mörgæsarinnar er á Dyer eyju nærri Kleinbaai í Suður-Afríku. Flestar byggðir mörgæsarinnar eru á eyjum undan ströndum Afríku þar sem rándýr komast ekki að. Undanfarna áratugi hefur afríska mörgæsin numið land á meginlandinu á svæðum þar sem rándýrum eins og sjakölum og hýenum hefur veið útrýmt.
Afríska mörgæsin getur orðið allt að 50 cm á hæð og 2-4 kg á þyngd, en karlfuglarnir eru nokkru stærri en kvenfuglarnir. Á höfði mörgæsanna eru áberandi bleikir svitakirtlar á fiðurlausum svæðum sem liggja fyrir ofan augun. Þegar mörgæsinni hitnar streymir blóð í kirtlana og kælist þar niður. Afríska mörgæsin hefur þannig lagast að lífi á heitum svæðum, en hún er eina mörgæsategundin sem finnst í Afríku og lifa fáar tegundir þessara heimsskautafugla í jafn hlýju umhverfi.
Afríska mörgæsin (Spheniscus demersus).
Algengasti varptími afrísku mörgæsarinnar er í janúar, en hún getur þó verpt árið um kring. Yfirleitt verpir hún tveimur eggjum og er útungunartíminn um 38-42 dagar. Afríska mörgæsin er einkvænisfugl og taka báðir foreldrar jafnan þátt í að ala önn fyrir ungunum. Helsta fæða mörgæsarinnar eru uppsjávarfiskar eins og sardínur og ansjósur.
Samkvæmt niðurstöðum rannsókna á stofni afrísku mörgæsarinnar frá árinu 2003 taldist stofninn vera um 180 þúsund fuglar með um 56 þúsund varppörum. Tegundinni hefur fækkað mikið síðustu 60 ár eða um allt að 90%. Vísindamenn telja að ástæðuna megi rekja til mengunar og ofveiði á uppsjávarfiskum við strendur Afríku. Sökum þess hversu tegundinni hefur hrakað á undanförnum árum er hún alfriðuð og samkvæmt lista IUCN er hún flokkuð sem í hættu (e. vulnerable).
Jón Már Halldórsson. „Hvað getið þið sagt mér um afrísku mörgæsina?“ Vísindavefurinn, 24. ágúst 2006, sótt 5. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6145.
Jón Már Halldórsson. (2006, 24. ágúst). Hvað getið þið sagt mér um afrísku mörgæsina? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6145
Jón Már Halldórsson. „Hvað getið þið sagt mér um afrísku mörgæsina?“ Vísindavefurinn. 24. ágú. 2006. Vefsíða. 5. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6145>.