Sólin Sólin Rís 08:54 • sest 18:29 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 18:18 • Sest 09:37 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:41 • Síðdegis: 19:01 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:33 • Síðdegis: 12:58 í Reykjavík

Hvað er læsi?

Baldur Sigurðsson

Spurningin í fullri lengd hljóðaði svona:

Hvað er læsi? Hér er átt við læsi í sinni víðustu mynd ekki orðabókarskilgreiningu.

Orðið læsi í íslensku er notað bæði sem almennt orð og íðorð.

Læsi sem almennt orð

Sem almennt orð er læsi notað bæði í bókstaflegri merkinu og í yfirfærðri merkingu:

Í bókstaflegri merkingu er læsi notað um þá færni að geta lesið ritað mál og skilið það, það er að vera læs eins og almenningur skilur það hugtak. Orðið getur einnig átt við þá færni að geta skrifað texta samkvæmt viðurkenndri stafsetningu, að vera læs og skrifandi. Það að geta notað tölur í einföldum útreikningum er stundum talið hluti af því að vera læs, en um þá færni er einnig notað hugtakið talnalæsi (e. numeracy).

Í yfirfærðri merkingu er læsi notað um þá færni að geta ráðið í, lesið og skilið ýmis konar tákn eða merki í umhverfinu, sem skynjuð verða með augum eða eyrum. Í þessum yfirfærða skilningi er allt umhverfi mannsins fullt af merkingarbærum táknum, umhverfið hefur mál og getur talað til mannsins. Dæmi um þessa notkun má finna í skáldskap og fræðum frá öllum tímum.

Í yfirfærðri merkingu er læsi notað um þá færni að geta ráðið í, lesið og skilið ýmis konar tákn eða merki í umhverfinu, sem skynjuð verða með augum eða eyrum.

Læsi sem íðorð

Sem íðorð eða sérfræðiorð í tengslum við menntun hefur læsi verið skilgreint á nokkra mismunandi vegu (Ehren, Lenz og Deshler, 2004, bls. 690).

Í þröngri merkingu tekur læsi einungis til þeirrar tæknilegu færni að geta lesið og skrifað tiltekið tungumál eða táknmál. Útbreidd fræðileg skilgreining á læsi felur í sér tvo meginþætti (Hoover og Gough, 1990):

 1. Færni í umskráningu (e. decoding) og orðakennslum (e. word recognition)
 2. Málskilning (e. linguistic comprehension)

Færni í umskráningu og kennslum orða vísar fyrst og fremst til þeirrar tæknilegu færni að geta tengt ritmál og talmál, lesið úr skrifuðum texta og tengt hann munnlegri málfærni og málskilningi (e. oracy).

Málskilningur byggist á almennri málfærni og málþroska, munnlegum og skriflegum, og tekur bæði til skilnings og tjáningar. Lesfærni eða læsi í þröngum skilningi hvílir því á allmörgum færniþáttum, orðaforða, samskiptahæfni, reynslu af lestri, þekkingu og áhuga á lestri og lesmáli, ályktunarhæfni og hvers kyns þekkingu á umhverfi og viðfangsefnum sem þarf til að geta lesið sér til skilnings og tekið þátt í umræðu. Læsi er því ekki einungis fólgið í að geta lesið upphátt eða í hljóði, heldur líka að geta skilið, túlkað og dregið ályktanir.

Í víðari merkingu getur hugtakið læsi falið í sér þrjá þætti til viðbótar:

 1. Nánari viðmið um hvaða marki þarf að ná til að teljast læs.
 2. Færni, sem nauðsynleg er til að skilja og miðla merkingu sem ekki er bundin við tungumál eða ritmál í hefðbundnum skilningi.
 3. Félagslegt umhverfi eða aðstæður við lestur og ritun.

Í fyrsta lagi getur læsishugtakið falið í sér hæfniviðmið, til dæmis að geta lesið tiltekinn lágmarksfjölda orða eða atkvæða á mínútu af tiltekinni nákvæmni, eða að skilja texta, allt frá að skilja einstök orð til þess að geta dregið ályktanir eða rökrætt á grundvelli þess texta sem lesinn er (Sigríður Ólafsdóttir og Baldur Sigurðsson, 2017, 2019).

Læsishugtakið getur falið í sér umhverfi eða aðstæður lestrar og ritunar hverju sinni, og hvernig læsi nýtist hverjum og einum.

Í öðru lagi má bæta við læsishugtakið mjög fjölbreyttri færni af ýmsu tagi sem fólki er nauðsynleg í samfélaginu til að skilja það sem á gengur í kringum það og geta lagt sitt til þeirrar hringiðu. Merkingu er miðlað á fjölbreyttan hátt, og nú á dögum skiptir mestu máli hvers kyns rafræn miðlun á skjá og með hljóði, í útvarpi, á sviði, á tjaldi eða með öðrum miðlum listarinnar. Sömuleiðis þarf fólk nú að ráða í og meðhöndla hvers kyns tákn, myndir, atferli og atburði eða merkingu sem ekki er sögð berum orðum, skilja merkingu þeirra og samhengi, til að geta ályktað og brugðist við eða tekið þátt í því ferli tjáningar eða samskipta sem við á hverju sinni.

Í þriðja lagi má bæta við læsishugtakið skilgreiningu á umhverfi og aðstæðum læsis. Þar er ekki aðeins átt við félagslegar aðstæður barna og tækifæri til náms, heldur líka kringumstæður og tilgang lestrar eða ritunar hverju sinni, hvernig læsi nýtist hverjum og einum til að afla sér upplýsinga og hafa áhrif á umhverfi sitt.

Læsi í víðum skilningi getur til dæmis átt við færni í að nýta netið til samskipta, taka upp myndir eða búa til leikþátt og miðla á Snappi eða Instagram, versla á netinu og fleira í þeim dúr.

Læsi í menntun

PISA (The Programme for International Student Assessment) er nafn á prófi sem lagt er fyrir nemendur í fjölmörgum löndum við lok skyldunáms (15 ára). PISA-prófinu er ætlað að meta hversu vel nemendur á þessum tímamótum hafa tileinkað sér þá þekkingu og hæfni sem þeir þurfa á að halda í nútímasamfélagi. Sú þekking og hæfni er metin með því að mæla þrjá þætti læsis: textalæsi (e. reading literacy), stærðfræðilæsi (e. mathematical literacy) og náttúrufræðilæsi (e. scientific literacy). Í mati PISA á textalæsi er þessi skilgreining lögð til grundvallar (OECD, 2019, bls. 28):

Textalæsi (e. reading literacy) er að skilja, nota, meta, ígrunda og ástunda lestur í þeim tilgangi að ná markmiðum sínum, þroska þekkingu sína og hæfileika, og að taka þátt í samfélagi.

Lykilatriði hér er að læsi snýst ekki aðeins um hæfni til að skilja tungumál, heldur líka um hæfni til að beita tungumáli. Prófað er í því hvort og hversu vel nemendur geta beitt grunnþekkingu og hæfni á þessum sviðum og hversu vel nemendur geta nýtt þessa þekkingu við óþekktar aðstæður innan og utan skólastofunnar.

UNESCO, Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna, leggur áherslu á að berjast gegn ólæsi í heiminum, eða bæta læsi og hækka hlutfall þeirra sem teljast læsir. UNESCO skilgreinir læsi svo (UNESCO, 2012):

Læsi er undirstöðuþáttur mannréttinda og grunnur að ævilöngu námi. Það er alger lykilþáttur í þróun manneskjunnar og hæfni hennar til að takast á við lífið. Læsi er öflugt tæki til að bæta heilsufar, tekjur og tengsl við umheiminn, jafnt fyrir einstaklinga, fjölskyldur og samfélög.

Notkun læsis til þekkingarmiðlunar þróast stöðugt, samhliða tækniþróun. Samskipti á neti, skilaboð í síma og stöðugt fjölbreyttari möguleikar á samskiptum veita tækifæri til að taka þátt í samfélaginu og mótun þess á nýjan hátt. Læst samfélag er kraftmikið samfélag, þar sem skipst er á skoðunum og hvatt til umræðna. Ólæsi er á hinn bóginn hindrun á leið til betra lífs og getur jafnvel verið undirrót misréttis og ofbeldis.

Læsi í skilningi UNESCO er bundið tungumálinu en tengt félagslegri færni í samfélaginu. Í Dakar-áætlun samtakanna (Unesco, 2000 ) er bent á að margs konar óformleg menntun í ýmsum leikniþáttum komi ekki í stað læsis, sem er eini varanlegi grundvöllur framfara í samfélögum (UNESCO, 2000, bls. 13).

Heimildir
 • Ehren, B. J., Lenz, B. K. og Deshler, D. D. (2004). Enhancing literacy proficiency with adolescents and young adults. Í C. A. Stone, E. R. Silliman, B. J. Ehren og K. Apel (ritstj.), Handbook of language and literacy (bls. 681-701). New York: Guildford Press.
 • Hoover, V. A. og Gough, P. B. (1990). The simple view of reading. Reading and Writing: An Interdisciplinary Journal, 2, 127-160.
 • Sigríður Ólafsdóttir og Baldur Sigurðsson. (2017). Hnignandi frammistaða íslenskra nemenda í lesskilningshluta PISA frá 2000 til 2015: Leiðir til að snúa þróuninni við. Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun. http://netla.hi.is/greinar/2017/ryn/16.pdf
 • Sigríður Ólafsdóttir og Baldur Sigurðsson. (2019). Rýnt í niðurstöður lesskilningshluta PISA 2018 og tækifæri til framfara. Í Menntamálastofnun (ritstjóri), PISA 2018: Helstu niðurstöður á Íslandi (bls. 38-61). Reykjavík: OECD, Menntamálastofnun. https://mms.is/sites/mms.is/files/pisa_2018_helstu_island.pdf
 • Unesco. (2000). The Dakar framwork for action. Education for all: Meeting our collective commitments. París: Unesco.
 • Unesco. (2012). Literacy. www.unesco.org/new/en/education/themes/education-building-blocks/literacy/

Myndir:

Höfundur

Baldur Sigurðsson

prófessor emeritus á Menntavísindasviði HÍ

Útgáfudagur

13.2.2023

Spyrjandi

Sigrún Birna Björnsdóttir

Tilvísun

Baldur Sigurðsson. „Hvað er læsi?“ Vísindavefurinn, 13. febrúar 2023. Sótt 24. febrúar 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=61662.

Baldur Sigurðsson. (2023, 13. febrúar). Hvað er læsi? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=61662

Baldur Sigurðsson. „Hvað er læsi?“ Vísindavefurinn. 13. feb. 2023. Vefsíða. 24. feb. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=61662>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er læsi?
Spurningin í fullri lengd hljóðaði svona:

Hvað er læsi? Hér er átt við læsi í sinni víðustu mynd ekki orðabókarskilgreiningu.

Orðið læsi í íslensku er notað bæði sem almennt orð og íðorð.

Læsi sem almennt orð

Sem almennt orð er læsi notað bæði í bókstaflegri merkinu og í yfirfærðri merkingu:

Í bókstaflegri merkingu er læsi notað um þá færni að geta lesið ritað mál og skilið það, það er að vera læs eins og almenningur skilur það hugtak. Orðið getur einnig átt við þá færni að geta skrifað texta samkvæmt viðurkenndri stafsetningu, að vera læs og skrifandi. Það að geta notað tölur í einföldum útreikningum er stundum talið hluti af því að vera læs, en um þá færni er einnig notað hugtakið talnalæsi (e. numeracy).

Í yfirfærðri merkingu er læsi notað um þá færni að geta ráðið í, lesið og skilið ýmis konar tákn eða merki í umhverfinu, sem skynjuð verða með augum eða eyrum. Í þessum yfirfærða skilningi er allt umhverfi mannsins fullt af merkingarbærum táknum, umhverfið hefur mál og getur talað til mannsins. Dæmi um þessa notkun má finna í skáldskap og fræðum frá öllum tímum.

Í yfirfærðri merkingu er læsi notað um þá færni að geta ráðið í, lesið og skilið ýmis konar tákn eða merki í umhverfinu, sem skynjuð verða með augum eða eyrum.

Læsi sem íðorð

Sem íðorð eða sérfræðiorð í tengslum við menntun hefur læsi verið skilgreint á nokkra mismunandi vegu (Ehren, Lenz og Deshler, 2004, bls. 690).

Í þröngri merkingu tekur læsi einungis til þeirrar tæknilegu færni að geta lesið og skrifað tiltekið tungumál eða táknmál. Útbreidd fræðileg skilgreining á læsi felur í sér tvo meginþætti (Hoover og Gough, 1990):

 1. Færni í umskráningu (e. decoding) og orðakennslum (e. word recognition)
 2. Málskilning (e. linguistic comprehension)

Færni í umskráningu og kennslum orða vísar fyrst og fremst til þeirrar tæknilegu færni að geta tengt ritmál og talmál, lesið úr skrifuðum texta og tengt hann munnlegri málfærni og málskilningi (e. oracy).

Málskilningur byggist á almennri málfærni og málþroska, munnlegum og skriflegum, og tekur bæði til skilnings og tjáningar. Lesfærni eða læsi í þröngum skilningi hvílir því á allmörgum færniþáttum, orðaforða, samskiptahæfni, reynslu af lestri, þekkingu og áhuga á lestri og lesmáli, ályktunarhæfni og hvers kyns þekkingu á umhverfi og viðfangsefnum sem þarf til að geta lesið sér til skilnings og tekið þátt í umræðu. Læsi er því ekki einungis fólgið í að geta lesið upphátt eða í hljóði, heldur líka að geta skilið, túlkað og dregið ályktanir.

Í víðari merkingu getur hugtakið læsi falið í sér þrjá þætti til viðbótar:

 1. Nánari viðmið um hvaða marki þarf að ná til að teljast læs.
 2. Færni, sem nauðsynleg er til að skilja og miðla merkingu sem ekki er bundin við tungumál eða ritmál í hefðbundnum skilningi.
 3. Félagslegt umhverfi eða aðstæður við lestur og ritun.

Í fyrsta lagi getur læsishugtakið falið í sér hæfniviðmið, til dæmis að geta lesið tiltekinn lágmarksfjölda orða eða atkvæða á mínútu af tiltekinni nákvæmni, eða að skilja texta, allt frá að skilja einstök orð til þess að geta dregið ályktanir eða rökrætt á grundvelli þess texta sem lesinn er (Sigríður Ólafsdóttir og Baldur Sigurðsson, 2017, 2019).

Læsishugtakið getur falið í sér umhverfi eða aðstæður lestrar og ritunar hverju sinni, og hvernig læsi nýtist hverjum og einum.

Í öðru lagi má bæta við læsishugtakið mjög fjölbreyttri færni af ýmsu tagi sem fólki er nauðsynleg í samfélaginu til að skilja það sem á gengur í kringum það og geta lagt sitt til þeirrar hringiðu. Merkingu er miðlað á fjölbreyttan hátt, og nú á dögum skiptir mestu máli hvers kyns rafræn miðlun á skjá og með hljóði, í útvarpi, á sviði, á tjaldi eða með öðrum miðlum listarinnar. Sömuleiðis þarf fólk nú að ráða í og meðhöndla hvers kyns tákn, myndir, atferli og atburði eða merkingu sem ekki er sögð berum orðum, skilja merkingu þeirra og samhengi, til að geta ályktað og brugðist við eða tekið þátt í því ferli tjáningar eða samskipta sem við á hverju sinni.

Í þriðja lagi má bæta við læsishugtakið skilgreiningu á umhverfi og aðstæðum læsis. Þar er ekki aðeins átt við félagslegar aðstæður barna og tækifæri til náms, heldur líka kringumstæður og tilgang lestrar eða ritunar hverju sinni, hvernig læsi nýtist hverjum og einum til að afla sér upplýsinga og hafa áhrif á umhverfi sitt.

Læsi í víðum skilningi getur til dæmis átt við færni í að nýta netið til samskipta, taka upp myndir eða búa til leikþátt og miðla á Snappi eða Instagram, versla á netinu og fleira í þeim dúr.

Læsi í menntun

PISA (The Programme for International Student Assessment) er nafn á prófi sem lagt er fyrir nemendur í fjölmörgum löndum við lok skyldunáms (15 ára). PISA-prófinu er ætlað að meta hversu vel nemendur á þessum tímamótum hafa tileinkað sér þá þekkingu og hæfni sem þeir þurfa á að halda í nútímasamfélagi. Sú þekking og hæfni er metin með því að mæla þrjá þætti læsis: textalæsi (e. reading literacy), stærðfræðilæsi (e. mathematical literacy) og náttúrufræðilæsi (e. scientific literacy). Í mati PISA á textalæsi er þessi skilgreining lögð til grundvallar (OECD, 2019, bls. 28):

Textalæsi (e. reading literacy) er að skilja, nota, meta, ígrunda og ástunda lestur í þeim tilgangi að ná markmiðum sínum, þroska þekkingu sína og hæfileika, og að taka þátt í samfélagi.

Lykilatriði hér er að læsi snýst ekki aðeins um hæfni til að skilja tungumál, heldur líka um hæfni til að beita tungumáli. Prófað er í því hvort og hversu vel nemendur geta beitt grunnþekkingu og hæfni á þessum sviðum og hversu vel nemendur geta nýtt þessa þekkingu við óþekktar aðstæður innan og utan skólastofunnar.

UNESCO, Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna, leggur áherslu á að berjast gegn ólæsi í heiminum, eða bæta læsi og hækka hlutfall þeirra sem teljast læsir. UNESCO skilgreinir læsi svo (UNESCO, 2012):

Læsi er undirstöðuþáttur mannréttinda og grunnur að ævilöngu námi. Það er alger lykilþáttur í þróun manneskjunnar og hæfni hennar til að takast á við lífið. Læsi er öflugt tæki til að bæta heilsufar, tekjur og tengsl við umheiminn, jafnt fyrir einstaklinga, fjölskyldur og samfélög.

Notkun læsis til þekkingarmiðlunar þróast stöðugt, samhliða tækniþróun. Samskipti á neti, skilaboð í síma og stöðugt fjölbreyttari möguleikar á samskiptum veita tækifæri til að taka þátt í samfélaginu og mótun þess á nýjan hátt. Læst samfélag er kraftmikið samfélag, þar sem skipst er á skoðunum og hvatt til umræðna. Ólæsi er á hinn bóginn hindrun á leið til betra lífs og getur jafnvel verið undirrót misréttis og ofbeldis.

Læsi í skilningi UNESCO er bundið tungumálinu en tengt félagslegri færni í samfélaginu. Í Dakar-áætlun samtakanna (Unesco, 2000 ) er bent á að margs konar óformleg menntun í ýmsum leikniþáttum komi ekki í stað læsis, sem er eini varanlegi grundvöllur framfara í samfélögum (UNESCO, 2000, bls. 13).

Heimildir
 • Ehren, B. J., Lenz, B. K. og Deshler, D. D. (2004). Enhancing literacy proficiency with adolescents and young adults. Í C. A. Stone, E. R. Silliman, B. J. Ehren og K. Apel (ritstj.), Handbook of language and literacy (bls. 681-701). New York: Guildford Press.
 • Hoover, V. A. og Gough, P. B. (1990). The simple view of reading. Reading and Writing: An Interdisciplinary Journal, 2, 127-160.
 • Sigríður Ólafsdóttir og Baldur Sigurðsson. (2017). Hnignandi frammistaða íslenskra nemenda í lesskilningshluta PISA frá 2000 til 2015: Leiðir til að snúa þróuninni við. Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun. http://netla.hi.is/greinar/2017/ryn/16.pdf
 • Sigríður Ólafsdóttir og Baldur Sigurðsson. (2019). Rýnt í niðurstöður lesskilningshluta PISA 2018 og tækifæri til framfara. Í Menntamálastofnun (ritstjóri), PISA 2018: Helstu niðurstöður á Íslandi (bls. 38-61). Reykjavík: OECD, Menntamálastofnun. https://mms.is/sites/mms.is/files/pisa_2018_helstu_island.pdf
 • Unesco. (2000). The Dakar framwork for action. Education for all: Meeting our collective commitments. París: Unesco.
 • Unesco. (2012). Literacy. www.unesco.org/new/en/education/themes/education-building-blocks/literacy/

Myndir:...