Sólin Sólin Rís 05:26 • sest 21:28 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:24 • Sest 05:22 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:10 • Síðdegis: 18:30 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:11 • Síðdegis: 12:20 í Reykjavík

Getið þið sagt mér allt um gaupur?

Jón Már Halldórsson

Innan ættkvíslar gaupna Lynx eru fjórar tegundir: gaupa eða evrasíugaupa (Lynx lynx), rauðgaupa (Lynx rufus), kanadagaupa (Lynx canadensis) og íberíugaupa (Lynx pardinus).

Gaupur eru meðalstór kattardýr sem vega venjulega á milli 5-30 kg. Evrasíugaupan er að jafnaði stærst og vegur venjulega að minnsta kosti 18 kg, en rauðgaupan er að jafnaði minnst og vegur aðeins á milli 4-15 kg.

Í grundvallaratriðum eru gaupur sterklega byggðar, lappalangar með afar stutta rófu og einkennandi hárbrúsk á eyrunum. Fætur þeirra sýna vel aðlögun að lífi á snjóþungum svæðum, en breiðir þófarnir auðvelda þeim að komast hratt yfir snævi þakta jörð. Litarfar gaupna er frá ljósbrúnum og yfir í gráan lit, oftar en ekki með dökkum blettum á fótleggjum.

Heildarútbreiðslusvæði gaupna

Það er margt mjög áþekkt í vistfræði og útliti gauputegunda. Þær eru nær alfarið kjötætur og lifa oftar en ekki í skugga stærri og öflugari rándýra, svo sem úlfa (Canis lupus), bjarna (Ursus arctos) og tígrisdýra (Panthera tigris). Helsta fæða gaupunnar eru fuglar og minni spendýr.

Gaupur eru einfarar og helga sér óðöl, en stærð þeirra fer nokkuð eftir þéttleika veiðidýra á svæðinu. Óðöl karldýra eru þó venjulega mun stærri en kvendýra eða frá 5-300 km2. Dæmi eru þó um að gaupur haldi sig í hópum og veiði jafnvel saman, en slíkt er þó undantekning frá reglunni.

Gaupur beita fyrst og fremst sjón og heyrn við veiðar en heyrn þeirra er ákaflega næm. Gaupan er ekki mikill langhlaupari og reynir venjulega að læðast að bráðinni áður en hún tekur á sprett og læsir vígtönnunum í hálsinn á dýrinu.

Æxlun fer fram síðla vetrar og eftir það gerir læðan sér bæli, yfirleitt undir trjábol eða í hellisskúta, þar sem hún getur alið önn fyrir afkvæmum sínum. Kettlingarnir fæðast blindir og eru algjörlega háðir móður sinni fyrstu vikurnar. Got fer fram á vorin og er fjöldi kettlinga í goti á bilinu einn til fimm.

Ólíkt mörgum dýrum barrskógasvæðanna, sem annað hvort yfirgefa þá þegar vetur konungur gengur í garð eða leggjast í hýði, þá þreyir gaupan þorrann í harðræðinu. Hún er dugleg að nota sér þau auknu tækifæri til veiða sem veturinn færir henni, en mikið af veiðidýrum hennar eru í slæmu ásigkomulagi yfir vetrartímann og því gaupunni auðveld bráð,

Gaupum er lítið um menn gefið og þær halda sig yfirleitt fjarri mannabyggðum. Þetta skýrir að hluta til dreifingu þeirra á norðurhveli jarðar, en þeim farnast afar vel í óbyggðum Norður-Ameríku og Evrasíu en eiga erfitt uppdráttar eftir því sem sunnar dregur.

Rauðgaupa (Lynx rufus) á rafmagnsstaur.

Hér að neðan er fjallað nánar um einstaka tegundir gaupa:

Rauðgaupan (Lynx rufus)

Rauðgaupan lifir í Norður-Ameríku, og er útbreiðslusvæði hennar frá sunnanverðu Kanada suður til nyrstu svæða Mexíkó. Hún heldur til á margvíslegum búsvæðum svo sem í skóglendi, fjalllendi og í eyðimörkum. Hún gerir sér yfirleitt bæli í trjám eða urð og heldur þar til á meðan hún sefur. Rauðgaupan er venjulega um 65 til 105 cm á lengd og rúmlega 45 cm á hæð við herðakamb. Hún vegur á bilinu 6 til 15 kg.

Líkt og aðrar gaupur er rauðgaupan rándýr og er helsta fæða hennar nagdýr og smávaxin hófdýr ásamt fuglum og skriðdýrum. Áður fyrr var rauðgaupan veidd í miklum mæli vegna feldsins en þær veiðar virðast þó ekki hafa gengið mjög nærri stofninum og telst tegundin ekki vera í hættu. Á nokkrum einangruðum svæðum eru þó mjög fáliðaðir stofnar og telst deilitegund rauðgaupunnar, mexíkóska rauðgaupan (Lynx rufus escuinapae), til dæmis vera í mikilli útrýmingarhættu.

Náttúrufræðingar telja að heildarstofnstærð tegundarinnar sé nærri einni milljón dýra og er velgengni hennar þakkað hversu vel hún hefur aðlagast lífi nærri mannabyggðum. Kvartanir vegna rauðgaupu hafa hins vegar aukist mjög í Bandaríkjunum og þá helst vegna smávægilegra tjóna á hænsnabúum eða dráps á öðrum smávöxnum húsdýrum.

Kanadagaupan (Lynx canadensis)

Kanadagaupan finnst mun norðar en rauðgaupan og eru skógar Kanada kjörlendi hennar. Útbreiðsla hennar teygir sig þó suður yfir landamærin til Montana, Washington og Idaho í Bandaríkjunum og meðfram austurströndinni til New England og Utah. Hún heldur að mestu til í skóglendi með miklum lággróðri en finnst einnig á opnari svæðum í fjalllendi og túndrulandslagi.

Kanadagaupan (Lynx canadensis).

Helsta fæða kanadagaupunnar er snjóþrúguhérinn (Lepus americanus) og hafa sveiflur í stofnstærð hérans mikil áhrif á afkomu hennar.

Kanadagaupan hefur verið veidd vegna felds síns allt frá landnámi Evrópubúa í Norður-Ameríka, en þó ekki í miklum mæli. Uppúr 1960 varð vitundarvakning hjá alþjóðasamfélaginu varðandi nýtingu á feldum kattadýra í kjölfar verulegrar hnignunar á stofnum parduskattar (Felis pardalis) og tígriskattar (Felis tigrinus). Verndun þessara tegunda leiddi hins vegar til þess að athygli feldakaupmanna beindist í auknum mæli að nýtingu á kanadagaupunni. Enn sem komið er eru veiðar þó ekki taldar veruleg ógnun við tegundina og eru fæðuframboð og stofnsveiflur snjóþrúguhérans enn taldir vera helstu áhrifavaldar á stofnstærð hennar.

Íberíugaupan (Lynx pardinus)

Í útliti er íberíugaupan svipuð og evrasíugaupan, en þó talsvert minni. Fullvaxin karldýr vega að meðaltali 12,8 kg en kvendýrin eru rúm 9 kg. Evrópska villikanínan (Oryctolagus cuniculus) er meginstoðin í fæðu íberíugaupunnar. Rannsóknir á fæðuhlutfalli hennar að vetrarlagi sýnir að allt að 93% af fæðunni eru kanínur. Á sumrin þegar sjúkdómar eins og bóluveira og myxomatosis herja á kanínuna snýr gaupan sér yfirleitt að ungviðum dádýra (Dama dama), rauðhjarta (Cervus elaphus) og múflona (Ovis musimon).

Íberíugaupur eru ásamt evrasíugaupunni (Lynx lynx) og villikettinum (Felis sylvestris) einu núlifandi villtu kattadýrin í evrópskri náttúru. Íberíugaupan er jafnfram sjaldgæfasta kattardýr veraldar og næst því að verða aldauða. Nú er svo komið að þrátt fyrir áratuga friðun hefur henni hægt en örugglega fækkað í heimkynnum sínum á Íberíuskaganum.

Íberugaupan (Lynx pardinus) er sjaldgæfasta kattartegund í heimi.

Margar ástæður eru taldar liggja að baki slæmri stöðu íberíugaupunnar, en vísindamenn telja aðeins séu eftir um 600 villt dýr á mjög takmörkuðu svæði í fjalllendi Íberíuskagans. Ein helsta skýringin kann þó að vera sjúkdómar sem herja á evrópsku villikanínuna og hafa valdið hruni í stofninum. Þetta hefur orðið til þess að mikil afföll hafa verið á kettlingum gaupunnar og nýliðun sama og engin.

Bændur á Spáni hafa einnig reynst gaupunni skeinuhættir. Þeir setja út mikið af beitu til að eitra fyrir rándýrum, en gaupan er talin hafa farið mjög illa út úr þessu. Bændur skjóta einnig fjölda íberíugaupa ár hvert til að vernda búsmalann

Slæleg stjórnun og eftirlit á því stóran hlut í að íberíugaupan verður sennilega næsta kattadýr til að verða aldauða í náttúrunni. Nokkur þúsund ár eru síðan síðustu kattardýr dóu alveg út, en það voru sverðtígrar (Smilodon fatalis og Smilodon populator) og hellaljón (Panthera atrox), og umdeilt er hvort mannskepnan hafi einnig leikið þar lykilhlutverk.

Evrasíugaupa (Lynx lynx)

Evrasíugaupa (Lynx lynx).

Evrasíugaupan finnst í fjalllendu skóglendi frá Skandínavíu og til austurhluta Rússlands. Hún finnst ennfremur á takmörkuðum svæðum sunnar í álfunni, svo sem í Bialowieza-skóglendinu í suðaustur Póllandi. Frá árinu 1990 hafa fjölmargar tilraunir verið gerðar til að koma á fót villtum stofnum í Þýskalandi og komu fyrstu kettlingarnir í heiminn í Harz-þjóðgarðinum. Þá voru liðin um 140 ár síðan villt gaupa fæddist síðast á þýskri grundu. Það hefur einnig gengið vonum framar að endurreisa villta stofna í Frakklandi og Sviss. Villtar gaupur hafa svo borist frá Vosges-svæðinu í Frakklandi norður yfir landamærin til Belgíu. Flestar evrasíugaupur lifa þó í í Síberíu eða um 90%.

Matseðill evrasíugaupa er að jafnaði mun fjölbreytilegri en hjá öðrum gaupum, sem oftast eru nær alfarið háðar einni tegund veiðidýra. Hann samanstendur venjulega af dádýrum, refum, íkornum, gemsum (Rupicapra rupicapra), múrmeldýrum og fjölda tegunda fugla.

Heimildir og myndir:

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

18.9.2006

Spyrjandi

Erla Sighvatsdóttir

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Getið þið sagt mér allt um gaupur?“ Vísindavefurinn, 18. september 2006. Sótt 23. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=6194.

Jón Már Halldórsson. (2006, 18. september). Getið þið sagt mér allt um gaupur? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=6194

Jón Már Halldórsson. „Getið þið sagt mér allt um gaupur?“ Vísindavefurinn. 18. sep. 2006. Vefsíða. 23. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=6194>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Getið þið sagt mér allt um gaupur?
Innan ættkvíslar gaupna Lynx eru fjórar tegundir: gaupa eða evrasíugaupa (Lynx lynx), rauðgaupa (Lynx rufus), kanadagaupa (Lynx canadensis) og íberíugaupa (Lynx pardinus).

Gaupur eru meðalstór kattardýr sem vega venjulega á milli 5-30 kg. Evrasíugaupan er að jafnaði stærst og vegur venjulega að minnsta kosti 18 kg, en rauðgaupan er að jafnaði minnst og vegur aðeins á milli 4-15 kg.

Í grundvallaratriðum eru gaupur sterklega byggðar, lappalangar með afar stutta rófu og einkennandi hárbrúsk á eyrunum. Fætur þeirra sýna vel aðlögun að lífi á snjóþungum svæðum, en breiðir þófarnir auðvelda þeim að komast hratt yfir snævi þakta jörð. Litarfar gaupna er frá ljósbrúnum og yfir í gráan lit, oftar en ekki með dökkum blettum á fótleggjum.

Heildarútbreiðslusvæði gaupna

Það er margt mjög áþekkt í vistfræði og útliti gauputegunda. Þær eru nær alfarið kjötætur og lifa oftar en ekki í skugga stærri og öflugari rándýra, svo sem úlfa (Canis lupus), bjarna (Ursus arctos) og tígrisdýra (Panthera tigris). Helsta fæða gaupunnar eru fuglar og minni spendýr.

Gaupur eru einfarar og helga sér óðöl, en stærð þeirra fer nokkuð eftir þéttleika veiðidýra á svæðinu. Óðöl karldýra eru þó venjulega mun stærri en kvendýra eða frá 5-300 km2. Dæmi eru þó um að gaupur haldi sig í hópum og veiði jafnvel saman, en slíkt er þó undantekning frá reglunni.

Gaupur beita fyrst og fremst sjón og heyrn við veiðar en heyrn þeirra er ákaflega næm. Gaupan er ekki mikill langhlaupari og reynir venjulega að læðast að bráðinni áður en hún tekur á sprett og læsir vígtönnunum í hálsinn á dýrinu.

Æxlun fer fram síðla vetrar og eftir það gerir læðan sér bæli, yfirleitt undir trjábol eða í hellisskúta, þar sem hún getur alið önn fyrir afkvæmum sínum. Kettlingarnir fæðast blindir og eru algjörlega háðir móður sinni fyrstu vikurnar. Got fer fram á vorin og er fjöldi kettlinga í goti á bilinu einn til fimm.

Ólíkt mörgum dýrum barrskógasvæðanna, sem annað hvort yfirgefa þá þegar vetur konungur gengur í garð eða leggjast í hýði, þá þreyir gaupan þorrann í harðræðinu. Hún er dugleg að nota sér þau auknu tækifæri til veiða sem veturinn færir henni, en mikið af veiðidýrum hennar eru í slæmu ásigkomulagi yfir vetrartímann og því gaupunni auðveld bráð,

Gaupum er lítið um menn gefið og þær halda sig yfirleitt fjarri mannabyggðum. Þetta skýrir að hluta til dreifingu þeirra á norðurhveli jarðar, en þeim farnast afar vel í óbyggðum Norður-Ameríku og Evrasíu en eiga erfitt uppdráttar eftir því sem sunnar dregur.

Rauðgaupa (Lynx rufus) á rafmagnsstaur.

Hér að neðan er fjallað nánar um einstaka tegundir gaupa:

Rauðgaupan (Lynx rufus)

Rauðgaupan lifir í Norður-Ameríku, og er útbreiðslusvæði hennar frá sunnanverðu Kanada suður til nyrstu svæða Mexíkó. Hún heldur til á margvíslegum búsvæðum svo sem í skóglendi, fjalllendi og í eyðimörkum. Hún gerir sér yfirleitt bæli í trjám eða urð og heldur þar til á meðan hún sefur. Rauðgaupan er venjulega um 65 til 105 cm á lengd og rúmlega 45 cm á hæð við herðakamb. Hún vegur á bilinu 6 til 15 kg.

Líkt og aðrar gaupur er rauðgaupan rándýr og er helsta fæða hennar nagdýr og smávaxin hófdýr ásamt fuglum og skriðdýrum. Áður fyrr var rauðgaupan veidd í miklum mæli vegna feldsins en þær veiðar virðast þó ekki hafa gengið mjög nærri stofninum og telst tegundin ekki vera í hættu. Á nokkrum einangruðum svæðum eru þó mjög fáliðaðir stofnar og telst deilitegund rauðgaupunnar, mexíkóska rauðgaupan (Lynx rufus escuinapae), til dæmis vera í mikilli útrýmingarhættu.

Náttúrufræðingar telja að heildarstofnstærð tegundarinnar sé nærri einni milljón dýra og er velgengni hennar þakkað hversu vel hún hefur aðlagast lífi nærri mannabyggðum. Kvartanir vegna rauðgaupu hafa hins vegar aukist mjög í Bandaríkjunum og þá helst vegna smávægilegra tjóna á hænsnabúum eða dráps á öðrum smávöxnum húsdýrum.

Kanadagaupan (Lynx canadensis)

Kanadagaupan finnst mun norðar en rauðgaupan og eru skógar Kanada kjörlendi hennar. Útbreiðsla hennar teygir sig þó suður yfir landamærin til Montana, Washington og Idaho í Bandaríkjunum og meðfram austurströndinni til New England og Utah. Hún heldur að mestu til í skóglendi með miklum lággróðri en finnst einnig á opnari svæðum í fjalllendi og túndrulandslagi.

Kanadagaupan (Lynx canadensis).

Helsta fæða kanadagaupunnar er snjóþrúguhérinn (Lepus americanus) og hafa sveiflur í stofnstærð hérans mikil áhrif á afkomu hennar.

Kanadagaupan hefur verið veidd vegna felds síns allt frá landnámi Evrópubúa í Norður-Ameríka, en þó ekki í miklum mæli. Uppúr 1960 varð vitundarvakning hjá alþjóðasamfélaginu varðandi nýtingu á feldum kattadýra í kjölfar verulegrar hnignunar á stofnum parduskattar (Felis pardalis) og tígriskattar (Felis tigrinus). Verndun þessara tegunda leiddi hins vegar til þess að athygli feldakaupmanna beindist í auknum mæli að nýtingu á kanadagaupunni. Enn sem komið er eru veiðar þó ekki taldar veruleg ógnun við tegundina og eru fæðuframboð og stofnsveiflur snjóþrúguhérans enn taldir vera helstu áhrifavaldar á stofnstærð hennar.

Íberíugaupan (Lynx pardinus)

Í útliti er íberíugaupan svipuð og evrasíugaupan, en þó talsvert minni. Fullvaxin karldýr vega að meðaltali 12,8 kg en kvendýrin eru rúm 9 kg. Evrópska villikanínan (Oryctolagus cuniculus) er meginstoðin í fæðu íberíugaupunnar. Rannsóknir á fæðuhlutfalli hennar að vetrarlagi sýnir að allt að 93% af fæðunni eru kanínur. Á sumrin þegar sjúkdómar eins og bóluveira og myxomatosis herja á kanínuna snýr gaupan sér yfirleitt að ungviðum dádýra (Dama dama), rauðhjarta (Cervus elaphus) og múflona (Ovis musimon).

Íberíugaupur eru ásamt evrasíugaupunni (Lynx lynx) og villikettinum (Felis sylvestris) einu núlifandi villtu kattadýrin í evrópskri náttúru. Íberíugaupan er jafnfram sjaldgæfasta kattardýr veraldar og næst því að verða aldauða. Nú er svo komið að þrátt fyrir áratuga friðun hefur henni hægt en örugglega fækkað í heimkynnum sínum á Íberíuskaganum.

Íberugaupan (Lynx pardinus) er sjaldgæfasta kattartegund í heimi.

Margar ástæður eru taldar liggja að baki slæmri stöðu íberíugaupunnar, en vísindamenn telja aðeins séu eftir um 600 villt dýr á mjög takmörkuðu svæði í fjalllendi Íberíuskagans. Ein helsta skýringin kann þó að vera sjúkdómar sem herja á evrópsku villikanínuna og hafa valdið hruni í stofninum. Þetta hefur orðið til þess að mikil afföll hafa verið á kettlingum gaupunnar og nýliðun sama og engin.

Bændur á Spáni hafa einnig reynst gaupunni skeinuhættir. Þeir setja út mikið af beitu til að eitra fyrir rándýrum, en gaupan er talin hafa farið mjög illa út úr þessu. Bændur skjóta einnig fjölda íberíugaupa ár hvert til að vernda búsmalann

Slæleg stjórnun og eftirlit á því stóran hlut í að íberíugaupan verður sennilega næsta kattadýr til að verða aldauða í náttúrunni. Nokkur þúsund ár eru síðan síðustu kattardýr dóu alveg út, en það voru sverðtígrar (Smilodon fatalis og Smilodon populator) og hellaljón (Panthera atrox), og umdeilt er hvort mannskepnan hafi einnig leikið þar lykilhlutverk.

Evrasíugaupa (Lynx lynx)

Evrasíugaupa (Lynx lynx).

Evrasíugaupan finnst í fjalllendu skóglendi frá Skandínavíu og til austurhluta Rússlands. Hún finnst ennfremur á takmörkuðum svæðum sunnar í álfunni, svo sem í Bialowieza-skóglendinu í suðaustur Póllandi. Frá árinu 1990 hafa fjölmargar tilraunir verið gerðar til að koma á fót villtum stofnum í Þýskalandi og komu fyrstu kettlingarnir í heiminn í Harz-þjóðgarðinum. Þá voru liðin um 140 ár síðan villt gaupa fæddist síðast á þýskri grundu. Það hefur einnig gengið vonum framar að endurreisa villta stofna í Frakklandi og Sviss. Villtar gaupur hafa svo borist frá Vosges-svæðinu í Frakklandi norður yfir landamærin til Belgíu. Flestar evrasíugaupur lifa þó í í Síberíu eða um 90%.

Matseðill evrasíugaupa er að jafnaði mun fjölbreytilegri en hjá öðrum gaupum, sem oftast eru nær alfarið háðar einni tegund veiðidýra. Hann samanstendur venjulega af dádýrum, refum, íkornum, gemsum (Rupicapra rupicapra), múrmeldýrum og fjölda tegunda fugla.

Heimildir og myndir:...