Sólin Sólin Rís 05:36 • sest 21:19 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:44 • Sest 05:50 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:37 • Síðdegis: 17:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:57 • Síðdegis: 23:09 í Reykjavík

Hver var Vere Gordon Childe og hvert var framlag hans til fornleifafræðinnar?

Gavin Lucas

Vere Gordon Childe (1892-1957) var fæddur og uppalinn í Ástralíu og nam fornfræði í Sydney. Hann flutti til Oxford til að læra klassíska fornleifafræði um það leyti sem fyrri heimsstyrjöldin skall á. Á háskólaárunum fékk Childe áhuga á sósíalisma og þegar hann sneri aftur heim til Ástralíu árið 1917 varð hann fljótlega virkur í Verkamannaflokknum. Fyrsta bók hans fjallaði um vinstri stjórnmál í Ástralíu (How Labour Governs, 1923). Árið 1922 fór hann aftur til London og lagði stund á fornleifafræði að nýju eftir að hafa misst trúna á áströlsk stjórnmál. Hann sinnti stundakennslu og skrifaði greinar en tengdist líka bresku sósíalistahreyfingunni. Á þessum tíma ferðaðist hann vítt og breitt um Evrópu og heimsótti söfn og árið 1925 gaf hann út eitt mikilvægasta rit fornleifafræðinnar: The Dawn of European Civilization, samantekt um stöðu þekkingar á evrópskri forsögu.

Það sem var mikilvægt við bókina og önnur verk Childes á þessum tíma, var notkun hans á hugtakinu menning eins og það hafði verið útfært af þýska fornleifafræðingnum Gustaf Kossinna (1858-1931). Þar var gert ráð fyrir að hægt væri að tengja fólk af ákveðnu þjóðerni eða kynstofni við húsagerð, leirker og aðra þætti efnismenningar sem í ljós komu við fornleifarannsóknir. Childe studdist við þessa hugmynd, án þess þó að tengja hana við þjóðerni eða kynstofn. Þar með víkkaði hann menningarhugtakið út og gerði það einnig óræðara. Þá kortlagði hann mismun og breytingar á efnismenningu eftir tímabilum í Evrópu. Nálgun Childes dró saman margar samtímahugmyndir og hún varð einnig viðmið evrópskrar forsögu á 20. öld og kallast menningarsöguleg fornleifafræði.

Vere Gordon Childe (1892-1957).

Árið 1927 fékk Childe prófessorsstöðu í fornleifafræði við Edinborgarháskóla. Hann gegndi henni í tæp 20 ár en varð yfirmaður Fornleifastofnunar Lundúnaborgar árið 1946. Þar starfaði hann allt til starfsloka árið 1956. Þótt Childe hafi starfað mikið við fornleifauppgröft, aðallega í Skotlandi og ekki síður í byggð frá nýsteinöld í Skara Brae á Orkneyjum, var mikilvægasta framlag hans til fornleifafræðinnar kennilegs eðlis, eins og hann sjálfur viðurkenndi síðar meir.

Á árunum 1930-1950 ritaði Childe fjöldann allan af greinum og um 20 bækur, þar á meðal margar fyrir almenning, til dæmis Man Makes Himself (1936) og What Happened in History (1942). Það var í bókum af því tagi sem hann kynnti annað meginframlag sitt til fornleifafræðinnar: Efnislega túlkun forsögunnar, sem var innblásin marxískum hugmyndum. Í augum Childes snerist mannkynssagan um síaukið vald yfir efnisheiminum, sem var aðeins mögulegt með þróun efnismenningarinnar. Í mikilvægri grein frá 1935 sem hét "Changing Methods and Aims in Prehistory", túlkaði Childe þriggja alda kenninguna, steinöld, bronsöld og járnöld, sem stig í efnahagslegri þróun: Upphaf landbúnaðar, upphaf handverks og sérhæfingar vegna viðskipta; og útbreiðslu byggðar í nýjar gerðir umhverfis. Þannig voru tæknilegar framfarir tengdar beint við breytingar á efnahags- og félagskerfum.Vere Gordon Childe við uppgröft á Skara Brae í Orkneyjum árið 1930.

Childe bar kennsl á tvo lykilatburði í forsögunni í tengslum við endurtúlkun forsögunnar út frá efnismenningu: Landbúnaðarbyltinguna og borgvæðinguna. Þessar umbreytingar mörkuðu mikilvæg spor í sögu mannkyns fyrir iðnbyltinguna, sem þær voru sambærilegar við. Landbúnaðarbyltingin, sem er einnig þekkt sem nýsteinaldarbyltingin, markaði upphaf nytjaplönturæktunar og húsdýrahalds ásamt fastri búsetu og leiddi af sér gríðarlega breytingu fyrir mennina. Áður höfðu þeir verið veiðimenn og safnarar og farið um í hópum sem flökkuðu á milli staða. Með borgvæðingunni litu fyrstu borgirnar dagsins ljós, með fjölda íbúa. Í augum Childes var einungis hægt að framfleyta slíkum mannfjölda með þróun stéttaskiptingar og breytileika í búsetuformi – bændur sáu íbúum borganna fyrir matvælum, en þeir helguðu sig á hinn bóginn handverki, verslun, stríðsrekstri, stjórnsýslu og trúariðkun.

Jafnvel þótt flestar kenningar Childes hafi verið gagnrýndar og endurbættar, sérstaklega með tilkomu nýrrar þekkingar og þróunar aldursgreininga, eru bæði sú grundvallarnálgun sem hann kom á og lykilspurningar sem hann tókst á við enn í fullu gildi. Uppruni landbúnaðar og myndun borga og ríkja eru enn mikilvæg viðfangsefni fornleifafræðinga. Þegar Childe horfði til baka yfir feril sinn og afrek var hann hógvær og jafnvel gagnrýninn og leit á verk sín sem ófullkomin. Um leið var hann greinilega upp með sér yfir því að hafa lagt sitt af mörkum til þess að fornleifafræðin fengi hlutverk í endurmati sögunnar og að gera fornleifafræði að marktæku viðmiði í vísindalegri sögu. Childe lét af störfum sumarið 1956 og ein af síðustu ferðum hans var á Víkingaráðstefnuna á Íslandi sama ár. Childe fyrirfór sér árið eftir í Ástralíu.

Heimildir:
  • Barbara McNairn 1980. The Method and Theory of V. Gordon Childe. Edinburgh: Edinburgh University Press.
  • Bruce Trigger 1980. Gordon Childe. Revolutions in Archaeology. London: Thames & Hudson
  • Thomas Patterson & Charles Orser 2004. Foundations of Social Archaeology. Selected Writings of V. Gorden Childe. Oxford: Berg.

Myndir:

Höfundur

dósent í fornleifafræði við HÍ

Útgáfudagur

2.3.2012

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Gavin Lucas. „Hver var Vere Gordon Childe og hvert var framlag hans til fornleifafræðinnar?“ Vísindavefurinn, 2. mars 2012. Sótt 20. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=62073.

Gavin Lucas. (2012, 2. mars). Hver var Vere Gordon Childe og hvert var framlag hans til fornleifafræðinnar? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=62073

Gavin Lucas. „Hver var Vere Gordon Childe og hvert var framlag hans til fornleifafræðinnar?“ Vísindavefurinn. 2. mar. 2012. Vefsíða. 20. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=62073>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver var Vere Gordon Childe og hvert var framlag hans til fornleifafræðinnar?
Vere Gordon Childe (1892-1957) var fæddur og uppalinn í Ástralíu og nam fornfræði í Sydney. Hann flutti til Oxford til að læra klassíska fornleifafræði um það leyti sem fyrri heimsstyrjöldin skall á. Á háskólaárunum fékk Childe áhuga á sósíalisma og þegar hann sneri aftur heim til Ástralíu árið 1917 varð hann fljótlega virkur í Verkamannaflokknum. Fyrsta bók hans fjallaði um vinstri stjórnmál í Ástralíu (How Labour Governs, 1923). Árið 1922 fór hann aftur til London og lagði stund á fornleifafræði að nýju eftir að hafa misst trúna á áströlsk stjórnmál. Hann sinnti stundakennslu og skrifaði greinar en tengdist líka bresku sósíalistahreyfingunni. Á þessum tíma ferðaðist hann vítt og breitt um Evrópu og heimsótti söfn og árið 1925 gaf hann út eitt mikilvægasta rit fornleifafræðinnar: The Dawn of European Civilization, samantekt um stöðu þekkingar á evrópskri forsögu.

Það sem var mikilvægt við bókina og önnur verk Childes á þessum tíma, var notkun hans á hugtakinu menning eins og það hafði verið útfært af þýska fornleifafræðingnum Gustaf Kossinna (1858-1931). Þar var gert ráð fyrir að hægt væri að tengja fólk af ákveðnu þjóðerni eða kynstofni við húsagerð, leirker og aðra þætti efnismenningar sem í ljós komu við fornleifarannsóknir. Childe studdist við þessa hugmynd, án þess þó að tengja hana við þjóðerni eða kynstofn. Þar með víkkaði hann menningarhugtakið út og gerði það einnig óræðara. Þá kortlagði hann mismun og breytingar á efnismenningu eftir tímabilum í Evrópu. Nálgun Childes dró saman margar samtímahugmyndir og hún varð einnig viðmið evrópskrar forsögu á 20. öld og kallast menningarsöguleg fornleifafræði.

Vere Gordon Childe (1892-1957).

Árið 1927 fékk Childe prófessorsstöðu í fornleifafræði við Edinborgarháskóla. Hann gegndi henni í tæp 20 ár en varð yfirmaður Fornleifastofnunar Lundúnaborgar árið 1946. Þar starfaði hann allt til starfsloka árið 1956. Þótt Childe hafi starfað mikið við fornleifauppgröft, aðallega í Skotlandi og ekki síður í byggð frá nýsteinöld í Skara Brae á Orkneyjum, var mikilvægasta framlag hans til fornleifafræðinnar kennilegs eðlis, eins og hann sjálfur viðurkenndi síðar meir.

Á árunum 1930-1950 ritaði Childe fjöldann allan af greinum og um 20 bækur, þar á meðal margar fyrir almenning, til dæmis Man Makes Himself (1936) og What Happened in History (1942). Það var í bókum af því tagi sem hann kynnti annað meginframlag sitt til fornleifafræðinnar: Efnislega túlkun forsögunnar, sem var innblásin marxískum hugmyndum. Í augum Childes snerist mannkynssagan um síaukið vald yfir efnisheiminum, sem var aðeins mögulegt með þróun efnismenningarinnar. Í mikilvægri grein frá 1935 sem hét "Changing Methods and Aims in Prehistory", túlkaði Childe þriggja alda kenninguna, steinöld, bronsöld og járnöld, sem stig í efnahagslegri þróun: Upphaf landbúnaðar, upphaf handverks og sérhæfingar vegna viðskipta; og útbreiðslu byggðar í nýjar gerðir umhverfis. Þannig voru tæknilegar framfarir tengdar beint við breytingar á efnahags- og félagskerfum.Vere Gordon Childe við uppgröft á Skara Brae í Orkneyjum árið 1930.

Childe bar kennsl á tvo lykilatburði í forsögunni í tengslum við endurtúlkun forsögunnar út frá efnismenningu: Landbúnaðarbyltinguna og borgvæðinguna. Þessar umbreytingar mörkuðu mikilvæg spor í sögu mannkyns fyrir iðnbyltinguna, sem þær voru sambærilegar við. Landbúnaðarbyltingin, sem er einnig þekkt sem nýsteinaldarbyltingin, markaði upphaf nytjaplönturæktunar og húsdýrahalds ásamt fastri búsetu og leiddi af sér gríðarlega breytingu fyrir mennina. Áður höfðu þeir verið veiðimenn og safnarar og farið um í hópum sem flökkuðu á milli staða. Með borgvæðingunni litu fyrstu borgirnar dagsins ljós, með fjölda íbúa. Í augum Childes var einungis hægt að framfleyta slíkum mannfjölda með þróun stéttaskiptingar og breytileika í búsetuformi – bændur sáu íbúum borganna fyrir matvælum, en þeir helguðu sig á hinn bóginn handverki, verslun, stríðsrekstri, stjórnsýslu og trúariðkun.

Jafnvel þótt flestar kenningar Childes hafi verið gagnrýndar og endurbættar, sérstaklega með tilkomu nýrrar þekkingar og þróunar aldursgreininga, eru bæði sú grundvallarnálgun sem hann kom á og lykilspurningar sem hann tókst á við enn í fullu gildi. Uppruni landbúnaðar og myndun borga og ríkja eru enn mikilvæg viðfangsefni fornleifafræðinga. Þegar Childe horfði til baka yfir feril sinn og afrek var hann hógvær og jafnvel gagnrýninn og leit á verk sín sem ófullkomin. Um leið var hann greinilega upp með sér yfir því að hafa lagt sitt af mörkum til þess að fornleifafræðin fengi hlutverk í endurmati sögunnar og að gera fornleifafræði að marktæku viðmiði í vísindalegri sögu. Childe lét af störfum sumarið 1956 og ein af síðustu ferðum hans var á Víkingaráðstefnuna á Íslandi sama ár. Childe fyrirfór sér árið eftir í Ástralíu.

Heimildir:
  • Barbara McNairn 1980. The Method and Theory of V. Gordon Childe. Edinburgh: Edinburgh University Press.
  • Bruce Trigger 1980. Gordon Childe. Revolutions in Archaeology. London: Thames & Hudson
  • Thomas Patterson & Charles Orser 2004. Foundations of Social Archaeology. Selected Writings of V. Gorden Childe. Oxford: Berg.

Myndir:

...