Blá- á við dimma skóga, víst vanalega horfna t.d. Bláskógar, Blámýri, Bláland, gagnstætt Ljósaland ... og Rauð- merkir jarðsæld, auða jörð, t.a.m. Rauðholt, Rauðanes, Roðgúll (þ.e. rauðkjaftur); er Vatnsdalur kallaður, af því þar er jarðsælt og dalurinn gapir opt alauður inn í hjarnbreiður fjallanna umhverfis hann.Páll virðist þarna telja að Roðgúll sé annað nafn á Vatnsdal í Austur-Húnavatnssýslu en ekki á koti á Stokkseyri. Svo er ekki enda varla um neinar „hjarnbreiður fjallanna“ að ræða umhverfis Stokkseyri. Í neðanmálsgrein við þessa grein Páls skrifar útgefandi Blöndu: „Í grein þessari eru margar merkilegar athuganir, þótt sumar skýringar hér kunni að orka nokkurs tvímælis, enda verður leingi mart vafasamt í jafn vandasömum efnum og þessum“ (bls. 269). Skýring Páls á nafninu er líka heldur langsótt og önnur nærtækari.
Í Roðgúl, sem þá hét Vatnsdalur, bjó fyrir löngu formaður, framúrskarandi sjósækinn og aflasæll, og bar ávallt hæstan hlut frá borði af öllum formönnum á Stokkseyri. Mörgum þeirra lék öfund á velgengni hans, og einhvern tíma varð einhverjum að orði með nokkurri kerskni, er hann kom hlaðinn að landi: „Sá hefur nú fengið roð í gúlinn núna.“ Þetta varð svo að orðtaki, og brátt var farið að kalla bæ formanns Roðgúl. Festist það smám saman við hann. (Sögn Þórðar Jónssonar frá Stokkseyri).Sagan er náttúrlega eftiráskýring á torskildu nafni en sýnir svo ekki verður um villst að framburðurinn hefur verið Roð- en ekki Rauð-. Ef nafnið er krufið til mergjar og haft í huga um hvers konar nafn er að ræða blasir niðurstaðan við. Roð merkir vissulega 'húð fisks' eða því um líkt en orðið merkir líka 'fánýti' eða 'rusl', samanber orðtakið „fá ekki nema roðið og uggana“ sem merkir að 'sitja uppi með það lélegasta'. Upphaflega merkir roð það sem „rutt er af“, af sögninni ryðja, og getur þannig þýtt 'brottkast'. Gúll getur vissulega merkt 'trantur' eða 'hvoftur', neikvætt orð yfir munn, en getur líka staðið fyrir 'ójöfnu' eða 'gúlp' eða 'kepp'. Í nýnorsku er af sömu rót orðið gol sem merkir eitthvað sem 'sveigist upp í miðju'. Kannski hefur torfkotið Roðgúll verið rétt eins og lítil bunga upp úr landslaginu þegar það reis fyrst og hlaut þetta auknefni. Forliðurinn Roð- hnekkir svo á því hvað kotið er ræfilslegt. Helstu heimildir og mynd:
- Ásgeir Bl. Magnússon. Íslensk orðsifjabók. Reykjavík 1989.
- Guðni Jónsson, Bólstaðir og búendur í Stokkseyrarhreppi. Reykjavík 1952.
- Hallgrímur J. Ámundason, Óformleg örnefni í Reykjavík. Orð og tunga 12 (2010), bls. 41-53.
- Íslensk orðabók handa skólum og almenningi. Reykjavík 1983.
- Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns II, Árnessýsla. Kaupmannahöfn 1918-1921.
- J. Johnsen, Jarðatal á Íslandi, Kaupmannahöfn 1847.
- Lesbók Morgunblaðsins 9. maí 1976 (timarit.is), bls. 4-5.
- Manntal á Íslandi árið 1703. Tekið að tilhlutan Árna Magnússonar og Páls Vídalíns. Reykjavík 1924-1947.
- Manntal á Íslandi 1910, III Árnessýsla. Reykjavík 1997.
- Páll Bjarnason, Um bæjanöfn, Blanda II,3 (1923), bls. 269-282.
- Mynd: Af vef Stofnunar Árna Magnússonar, upprunalega úr Lesbók Morgunblaðsins 9. maí 1976.
Þessi texti hefur einnig birst á vef Stofnunar Árna Magnússonar.