Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Könnunarjeppanum Curiosity var skotið á loft 26. nóvember 2011. Jeppinn á að rannsaka hvort aðstæður á Mars voru einhvern tímann, eða eru jafnvel í dag, heppilegar fyrir örverulíf. Jeppinn lenti á Mars klukkan 05:17:57 að íslenskum tíma þann 6. ágúst 2012 og bárust fyrstu myndir fáeinum mínútum síðar.
Miklu máli skipti að velja góðan lendingarstað fyrir jeppann. Hópur vísindamanna sem starfar við leiðangurinn mat kosti og galla allra lendingarstaða og valdi þann besta úr nokkrum álitlegum. Ekki var hægt að lenda hvar sem er á yfirborðinu af nokkrum tæknilegum ástæðum:
Breiddargráða. Jeppinn varð að lenda nálægt miðbaug, hvorki norðan 30. breiddargráðu norður né sunnan 30. breiddargráðu suður. Ástæðan er sú að við lendingu varð jeppinn að geta haft samskipti við Mars Reconnaissance Orbiter sem er á hringsóli um Mars. Á veturna á Mars getur kuldinn á norðlægari og sér í lagi suðlægari breiddargráðum orðið mjög mikill sem getur haft áhrif á starfsemi jeppans.
Hæð. Lendingarstaðurinn varð að vera í innan við 1 km hæð yfir meðalhæð yfirborðsins sem mælt var með MOLA-tækinu í Mars Global Surveyor. Hærra er lofthjúpurinn of þunnur til að tryggja örugga lendingu.
Halli og hæðarmunur. Halli landslagsins og hæðarmunur innan fyrirhugaðs lendingarsvæðis varð að vera eins lítill og mögulegt er til að auka líkur á öruggri lendingu.
Stórgrýti og magn grýtis. Erfitt er að gera sér grein fyrir hversu grýtt lendingarsvæðið er fyrirfram. Lendi jeppinn til dæmis á stórgrýti getur hann oltið eða einfaldlega fest sig. Mikil hjálp er af myndum frá HiRISE-myndavélinni í Mars Reconnaissance Orbiter til að meta þennan þátt.
Aðgengi. Þegar jeppinn var lentur varð hann að eiga auðvelt um vik að aka um svæðið.
Þótt þessi þættir hafi eflaust dregið úr von sumra um spennandi lendingarstað var Curiosity-jeppinn betur í stakk búinn en nokkurt annað könnunarfar til að lenda á áhugaverðum stað.
Kort sem sýnir alla af meira en 60 mögulegum lendingarstöðum (rauðir) Curiosity-jeppans og þá fjóra (bláir) sem 150 vísindamönnum þótti álitlegastir eftir fimm ára rökræður. Ljósu skyggðu svæðin eru meira en 30 gráðum norðar og sunnan miðbaugs á Mars þar sem jeppinn getur ekki lent vegna mikils kulda. Svörtu svæðin eru of hálend til þess að jeppinn geti lent þar.
Á fyrirhuguðum lendingarstað varð umhverfið að vera jarðfræðilega áhugavert. Þar þurftu að vera jarðfræðilegar vísbendingar um að vatn hafi mögulega verið til staðar í fyrndinni. Litrófsgreiningar brautarfara þurftu að hafa sýnt fram á vatnaðar steindir, sér í lagi leirsteindir og súlfatsölt á yfirborðinu.
Í nóvember 2008 var mögulegum lendingarstöðum fækkað úr 50 í 4 út frá myndum Mars Global Surveyor, Mars Odyssey og Mars Reconniassance Orbiter. Þessir staðir voru: Holden-gígurinn, Mawrth Vallis, Eberswalde-gígurinn og Gale-gígurinn.
Þann 22. júlí 2011 tilkynnti NASA að Curiosity-jeppinn myndi lenda í Gale-gígnum á Mars sem er á mörkum gígótta suðurhálendisins og láglendis Elysium-eldfjallasvæðisins.
Gale-gígurinn er um 155 km breiður og misdjúpur, mest 4.674 metra undir gígbarminum. Gígurinn er nefndur eftir ástralska bankamanninum Walter Frederick Gale sem gerðist síðar stjörnufræðingur og rannsakaði Mars. Talið er að gígurinn sé milli 3,5 til 3,8 milljarða ára gamall.
Í miðju gígsins er mikil sigðarlaga bunga eða fjall, um 5 km á hæð, sem er mun yngri en gígurinn sjálfur. Fjallið nefnist Sharpfjall og hefur hlaðist upp við mismunandi aðstæður í sögu Mars fyrir tilverknað vatns og vinda. Fjallið er lagskipt sem mun gera vísindamönnum kleift að lesa sögu loftslags og veðrunar á reikistjörnunni. Svo virðist sem gígurinn hafi fyllst af seti sem síðan hefur rofið burt en skilið eftir fjallið í miðjunni.
Gale-gígurinn á Mars. Svarta sporaskjan er lendingarsvæði Curiosity.
Ofan í gígnum og kringum hann eru mörg ummerki rennandi vatns í fyrndinni svo sem árfarvegir, gljúfur og aurkeilur en Curiosity lenti við rætur einnar slíkrar. Aurkeilur myndast þegar vatn rennur niður halla, dreifist og myndar keilulaga svuntu.
Í aurkeilunni í Gale-gígnum sjást ummerki um leir, súlfatlög og blaðsíliköt sem hafa að öllum líkindum myndast í vatni.
Myndir:
Sævar Helgi Bragason. „Var hægt að lenda Curiosity hvar sem er á Mars, eða hvernig var lendingarstaðurinn ákveðinn?“ Vísindavefurinn, 15. ágúst 2012, sótt 4. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=63046.
Sævar Helgi Bragason. (2012, 15. ágúst). Var hægt að lenda Curiosity hvar sem er á Mars, eða hvernig var lendingarstaðurinn ákveðinn? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=63046
Sævar Helgi Bragason. „Var hægt að lenda Curiosity hvar sem er á Mars, eða hvernig var lendingarstaðurinn ákveðinn?“ Vísindavefurinn. 15. ágú. 2012. Vefsíða. 4. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=63046>.