Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Könnunarjeppanum Curiosity var skotið á loft 26. nóvember 2011. Jeppinn lenti í Gale-gígnum á Mars klukkan 05:17:57 að íslenskum tíma þann 6. ágúst 2012 og bárust fyrstu myndir fáeinum mínútum síðar.
Curiosity er fyrst og fremst ætlað að finna út hve lífvænleg Mars var í fyrndinni eða er hugsanlega í dag. Til þess þarf jeppinn að uppfylla átta vísindaleg markmið sem eru að:
Finna út magn og eðli lífrænna kolefnasambanda.
Finna út magn kolefnis, vetnis, niturs, súrefnis, fosfórs og brennisteins á yfirborðinu en þessi efni eru byggingarefni lífsins eins og við þekkjum það.
Greina þau einkenni sem gætu bent til áhrifa lífrænna ferla.
Rannsaka samsetningu efna, samsæta og steinda á yfirborði Mars sem og jarðefna rétt undir yfirborðinu.
Túlka þau ferli sem hafa myndað og breytt bergi og jarðvegi á Mars.
Varpa ljósi á þróun lofthjúps Mars síðustu 4 milljarða ára.
Kanna núverandi ástand, dreifingu og hringrás vatns og koltvíildis.
Mæla geimgeislun við yfirborð Mars.
Til að mæta þessum metnaðarfullu markmiðum eru tíu vísindatæki um borð í Curiosity. Í skrokknum eru sýnagreiningartæki, Sample Analysis at Mars (SAM) og CheMin sem eiga að greina lífræn efni og gastegundir í lofthjúpnum og af yfirborðinu. Í SAM er gasskiljunartæki, massagreinir og stillanlegur leysilitrófsgreinir. Massagreinirinn á að greina gastegundir í lofthjúpnum og þeim sem losna úr jarðvegssýnunum er þau eru hituð. Með gasskiljunartækinu eru stakar gassameindir greindar í sundur. Leysilitrófsgreinirinn mun svo gera nákvæmar mælingar á samsætuhlutföllum súrefnis og kolefnis úr koltvíildi og metani á Mars. Með þeim hætti er unnt að skera úr um hvort þessi efni séu af jarðfræðilegum eða lífrænum toga. CheMin (Chemistry & Mineralogy) er röntgengreiningartæki sem mælir, með beinum hætti, efnasamsetningu bergsins og jarðvegsins. Það gerir vísindamönnum kleift að finna út nákvæmlega hvers konar steindir eru á yfirborðinu.
Vísindatækin í farmi Curiosity jeppans.
Á mastri jeppans eru nokkrar myndavélar. Áhugaverðastar eru sennilega MastCam og ChemCam. MastCam tekur 10 ramma á sekúndu í 1280x720 díla háskerpuupplausn. Gangi allt að óskum gætum við fengið að sjá fyrstu þrívíðu háskerpumyndskeiðin frá annarri reikistjörnu með þessari myndavél. James Cameron, leikstjóri Titanic, The Abyss, Avatar og fleiri mynda, er meðlimur í rannsóknarhópnum sem er á bak við myndavélina.
ChemCam (Chemistry & Camera) er myndavél sem skýtur innrauðum leysigeisla að bergi eða jarðvegi úr allt að tíu metra fjarlægð. Þegar geislinn lendir á berginu gufar smávægilegt magn af efni upp af því. Öflug myndavél og litrófsgreinir kannar svo efnasamsetninguna þess sem gufaði upp af berginu úr fjarlægð.
Á jeppanum er fjarstýrður armur, nokkurs konar hönd sem teygir sig út frá honum, sem sækir sýni af yfirborðinu og færir í greiningartækin innan í skrokknum. Á arminum er MAHLI-myndavélin (Mars Hand Lens Imager) sem tekur smásjármyndir í lit af berginu og jarðveginum í 1600x1200 díla upplausn. Á myndavélinni eru ljóstvistar (e. LED) sem gefa frá sér útblátt ljós svo hægt sé að mynda sýnin í myrkri eða til að flúrljóma þau. Fyrsta litmyndin sem barst frá Curiosity kom frá MAHLI.
Á arminum er einnig APXS-röntgenlitrófsgreinir (Alpha Particle X-ray Spectrometer) sem mælir magn frumefna í bergi og jarðvegi. APXS hjálpar þannig til við að velja áhugaverðustu sýnin sem kanna á nánar í CheMin.
Þrjú tæki rannsaka umhverfið í kringum jeppann. RAD (Radiation Assessment Detector) er geislunarmælir sem mæla á skaðlega geimgeislun á yfirborðinu, nokkuð sem er mjög mikilvægt áður en haldið verður í mannaða rannsóknarleiðangra í framtíðinni. REMS (Rover Environmental Monitoring Station) er veðurathugunartæki sem mæla á loftþrýsting, lofthita, rakastig, vindhraða og útbláa geislun við yfirborðið. DAN (Dynamic Albedo of Neutrons) er svo ætlað að mæla vetni eða ís og vatn á eða við yfirborð Mars.
Á leiðinni niður að yfirborði Mars tók MARDI-myndavélin (Mars Descent Imager) litmyndir í 1600x1200 díla upplausn af yfirborðinu. Myndatakan hófst í um 3,7 km hæð og lauk við lendingu. Teknir voru 4,5 rammar á sekúndu í um tvær mínútur. Með þessum hætti gátu vísindamenn kortlagt lendingarsvæðið og fundið áhugaverðustu staðina sem jeppinn á rannsaka.
Mynd:
Sævar Helgi Bragason. „Hvað á Curiosity að rannsaka á Mars og hvernig fer hann að því?“ Vísindavefurinn, 14. ágúst 2012, sótt 13. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=63040.
Sævar Helgi Bragason. (2012, 14. ágúst). Hvað á Curiosity að rannsaka á Mars og hvernig fer hann að því? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=63040
Sævar Helgi Bragason. „Hvað á Curiosity að rannsaka á Mars og hvernig fer hann að því?“ Vísindavefurinn. 14. ágú. 2012. Vefsíða. 13. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=63040>.