Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hafið sem liggur að öllum Norðurlöndum er einfaldlega Norður-Atlantshaf. Sumum finnst það kannski hljóma undarlega, en í kerfi heimshafanna eru Noregshaf, Norðursjór, Eystrasalt og svo framvegis, eingöngu innhöf, strandhöf eða flóar sem tilheyra Atlantshafinu. Hér er reyndar einnig gert ráð fyrir að Norður-Íshafið, og þar með Barentshafið, sé hluti Atlantshafs, en það er oft talið sérstakt heimshaf. Um heimshöfin má lesa í svari við spurningunni Hvert er stærsta úthafið?
Venjulega greinum við heimshöfin þó niður í hafsvæði og væntanlega er verið að spyrja um þau. Skoðum þá hvað helstu hafsvæðin umhverfis Norðurlöndin fimm kallast, án þess að fara í of mikil smáatriði og heiti á öllum mögulegum sundum, og tökum líka með Færeyjar og Grænland.
Þau höf sem liggja að Noregi eru Barentshaf í norðri, Noregshaf í vestri og Norðursjór í suðvestri. Sundið á milli Noregs og Danmerkur kallast svo Skagerrak.
Kattagat er sundið á milli suðvesturstrandar Svíþjóðar og Danmerkur. Skagerrak og Kattegat tengja Norðursjóinn við Eystrasaltið sem liggur að suðausturströnd Svíþjóðar. Nyrsti hluti Eystrasaltsins kallast Helsingjabotn og skilur hann að austurströnd Svíþjóðar og vesturströnd Finnlands. Við suðurströnd Finnlands er Finnski flói en hann gengur austur úr Eystrasaltinu.
Eystrasaltið liggur að austasta hluta Danmerkur. Eins og áður er getið liggja sundin Kattegat og Skagerrak að Danmörku, það fyrrnefnda austan megin Jótlands og það síðarnefnda norðan og norðvestan Jótlands. Að vesturströnd Danmerkur liggur svo Norðursjórinn.
Í daglegu tali er hafsvæðið umhverfis Ísland allt kallað Atlantshaf, en fleiri heiti eru þó notuð um hafsvæðin í kringum landið. Í bókinni Hafið eftir Unnstein Stefánsson haffræðing segir að þrjú höf liggi að landinu; Atlantshaf að sunnan, Grænlandshaf (e. Irminger sea) að vestan og Íslandshaf (e. Greenland sea) að norðan. Svæðið á milli Íslands og Grænlands kallast Grænlandssund (e. Denmark strait). Eins og lesendur sjá eru íslensku heitin nokkuð ólík þeim ensku og getur það valdið ruglingi. Unnsteinn ræðir þessi íslensku heiti í bók sinni og færir rök fyrir notkun þeirra.
Það sama á við um Færeyjar og Ísland, yfirleitt er aðeins talað um að eyjurnar séu í Atlantshafi en Noregshaf er austan við Færeyjar.
Að lokum er það Grænland en að því liggja frá norðaustri umhverfis eyjuna réttsælis; Norður-Grænlandshaf, Íslandshaf, Grænlandssund, Grænlandshaf, Labradorhaf, Baffinflói og Norður-Íshaf.
Heimildir og kort:
Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hvaða höf liggja að Norðurlöndum?“ Vísindavefurinn, 6. júní 2013, sótt 6. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=63229.
Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. (2013, 6. júní). Hvaða höf liggja að Norðurlöndum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=63229
Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hvaða höf liggja að Norðurlöndum?“ Vísindavefurinn. 6. jún. 2013. Vefsíða. 6. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=63229>.