Íslendingar eru aðeins örlítið brot af mannkyninu öllu. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands voru landsmenn 299.404 í desember 2005. Áætlað er að mannkynið allt telji nú rúmlega 6,5 milljarða einstaklinga. Samkvæmt því eru Íslendingar aðeins um 0,0046% af jarðarbúum.
Samkvæmt lista yfir mannfjölda í löndum heims sem finna má á Wikipedia.org eru 179 lönd fjölmennari en eyjan okkar. Kína og Indland bera höfuð og herðar yfir önnur ríki heims þegar kemur að mannfjölda; um fimmtungur mannkyns (1,3 milljarðar) býr í Kína og tæplega 17% (1,1 milljarður) á Indlandi. Alls eru 11 lönd með yfir 100 milljónir íbúa. Auk Kína og Indlands eru það Bandaríkin, Indónesía, Brasilía, Pakistan, Bangladess, Rússland, Nígería, Japan og Mexíkó.
Af listanum má ráða að 56 lönd séu fámennari en Ísland. Af þeim eru langflest eyjar, til dæmis í Kyrrahafi og Karíbahafi. Tekið skal fram að í þessu svari er orðið land ekki notað um sjálfstæð ríki eingöngu eins og gert er í sumum svörum á Vísindavefnum, til dæmis við spurningunni Hvað eru til mörg sjálfstæð lönd? heldur einnig um lönd og eyjar sem lúta stjórn annarra ríkja á einhvern hátt.
Fámennasta sjálfstæða ríki heims er Vatíkanið eða Páfagarður eins og lesa má um í svari við spurningunni Hvort er Mónakó eða Vatíkanið minna ríki? Samkvæmt listanum á Wikipediu eru Pitcairn-eyjar í Kyrrahafi hins vegar fámennasta land heims en lesa má um þær í svari við spurningunni Eru Pitcairn-eyjar í Kyrrahafi sjálfstætt ríki? Á Vísindavefnum er að finna fleiri svör um svipað efni, til dæmis:
- Hver er fámennasta þjóð í heimi?
- Hver eru þrjú stærstu lönd í heiminum í röð?
- Hver eru fimm þéttbýlustu lönd í heimi?
- Hvar er hægt að finna upplýsingar um hversu margir búa í tilteknu landi?
- Hvert er strjálbýlasta land í heimi?
- Hvað eru margir íbúar í allri Eyjaálfu?
- Hvað búa margir í Evrópu?
- Hversu margir búa í Afríku?