Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað er Cohen-heilkenni?

Cohen-heilkenni er ástand sem stafar af víkjandi stökkbreytingu á litningi átta sem er einn af líkamslitningunum. Til að heilkennið komi fram þarf barn að erfa stökkbreytta genið frá báðum foreldrum. Ekki er vitað hvaða prótín þetta gen geymir upplýsingar um en það er gallað eða óstarfhæft í einstaklingum með Cohen-heilkenni. Einkennin eru misalvarleg eftir tilfellum en þau koma fram í hreyfigetu, andlegum þroska og hegðun.

Ungbörn með heilkennið vaxa hægt og þyngjast ekki eðlilega. Þau hafa minni vöðvaspennu en eðlilegt er og óvenju sveigjanlega liði. Þau eru slöpp, halda ekki höfði og minna jafnvel á tuskudúkkur. Þegar þau eldast eiga þau erfitt með að læra að velta sér, sitja, skríða og ganga. Í lok bernskunnar fara börn með þetta heilkenni oft að fitna um búkinn og ef ekki er gripið inn í getur það endað með offitu en þó haldast útlimirnir grannir. Höfuðið getur verið lítið og einkenni geta komið fram í andlitinu eins og þykkt hár og augabrúnir, löng augnhár, möndlulöguð augu, kúlulagaður nefbroddur, slétt eða stutt svæði milli nefs og efri varar og óvenjustórar efri framtennur. Tvö síðasttöldu andlitseinkennin valda því að munnurinn er oft hálfopinn.

Nærsýni og versnandi sjón er eitt af einkennum Cohen-heilkennis.

Greindar- og hreyfiskerðing er hófleg eða alvarleg. Hún er stöðug og versnar ekki með tímanum.

Fólk með Cohen-heilkenni er viðkvæmt fyrir sýkingum því að fjöldi hvítkorna sem berjast við sýkingar eru færri hjá þeim en eðlilegt er. Sýkingar geta því verið tíðari og alvarlegri hjá þeim en öðrum.

Sjón fólks með Cohen-heilkenni versnar með tímanum. Hér er um nærsýni að ræða og hrörnun sjónunnar. Margir verða að lokum blindir.

Eitt af einkennum fólks með Cohen-heilkenni er að það er óvenju vingjarnlegt og glaðlegt, jafnvel við ókunnugt fólk. Foreldrar barna með heilkennið þurfa því að vera vel á verði varðandi öryggi þeirra.

Ekki er vitað nákvæmlega hversu algengt Cohen-heilkenni er en vitað er um færri en 1000 tilfelli í heiminum öllum. Það er algengast í litlu Amish-samfélagi í Ohio í Bandaríkjunum þar sem það kemur fyrir hjá einum af hverjum 500. Það er einnig algengara í Finnlandi en annars staðar.

Ekki er til lækning við Cohen-heilkenni en ef gripið er snemma inn í með sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun og raddþjálfun er hægt að draga úr einkennum eins og of sveigjanlegum liðamótum, klaufsku og þroskaseinkun. Fylgst er með sjóninni og viðeigandi ráðstafanir gerðar til að bæta hana ef þarf. Einnig er fylgst reglulega með fjölda hvítkorna til að bregðast skjótt við sýkingum.

Ekki er vitað nákvæmlega hvaða áhrif Cohen-heilkenni hefur á ævilengd en þekkt eru tilfelli á sextugsaldri.

Heimildir og mynd:

Útgáfudagur

1.4.2014

Spyrjandi

Anney Ýr Geirsdóttir

Höfundur

Tilvísun

Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvað er Cohen-heilkenni?“ Vísindavefurinn, 1. apríl 2014. Sótt 18. ágúst 2019. http://visindavefur.is/svar.php?id=63820.

Þuríður Þorbjarnardóttir. (2014, 1. apríl). Hvað er Cohen-heilkenni? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=63820

Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvað er Cohen-heilkenni?“ Vísindavefurinn. 1. apr. 2014. Vefsíða. 18. ágú. 2019. <http://visindavefur.is/svar.php?id=63820>.

Chicago | APA | MLA

Frekara lesefni á Vísindavefnum

Sendu inn spurningu
eða

Vísindadagatalið

Ásta Heiðrún Pétursdóttir

1984

Ásta Heiðrún Elísabet Pétursdóttir er doktor í efnagreiningum og vinnur sem sérfræðingur hjá Matís. Rannsóknir Ástu snúa að snefilefnum, sér í lagi að formgreiningu arsens. Ásta hefur unnið að aðferðaþróun til að mæla eitruð efnaform arsens auk þess að rannsaka flókin efnasambönd arsens á borð við arsenlípíð.