Sólin Sólin Rís 03:49 • sest 23:02 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 22:41 • Sest 03:14 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:38 • Síðdegis: 18:00 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:46 • Síðdegis: 24:13 í Reykjavík

Er vitað hvaða sjúkdómur hrjáði Jón þumlung?

Ólína Þorvarðardóttir

Upprunalega hljóðaði spurningin svona:
Hvað getið þið sagt mér um Jón þumlung og píslarsögu hans?

Jón „þumlungur“ sem svo var oft nefndur hét Jón Magnússon og var um miðbik 17. aldar sóknarprestur að Eyri í Skutulsfirði, þar sem nú er Ísafjarðarbær.

Séra Jón Magnússon er þekktastur fyrir að hafa orðið til þess að feðgar tveir, Jón og Jón Jónssynir á Kirkjubóli í Skutulsfirði voru brenndir á báli á sumardaginn fyrsta árið 1656. Um þá atburði skrifaði hann sjálfur rit sem nefnt hefur verið „Píslarsaga síra Jóns Magnússonar“ þar sem hann reynir að réttlæta framgöngu sína gegn mönnunum tveimur, og einnig gegn Þuríði dóttur eldra Jóns og systur þess yngra. Hún slapp naumlega undan galdraákærum prestsins eftir að faðir hennar og bróðir höfðu verið brenndir.

Séra Jón Magnússon var prestur á Eyri í Skutulsfirði þar sem nú er Ísafjarðarbær. Kirkjuból var bær í Engidal í Skutulsfirði en það er dalurinn til vinstri í bakgrunni.

Jón var sonur Magnúsar Eiríkssonar prests á Auðkúlu í Svínadal og Steinvarar Péturdóttur en hún var ein af afkomendum hjónanna Jóns Magnússonar á Svalbarði við Eyjafjörð og Ragnheiðar á rauðum sokkum, sem svo var kölluð. Jón ólst upp í stórum hópi systkina, en missti móður sína ungur. Hann gekk í Skálholtsskóla þar sem hann kom sér „ærlega, vel og meinlaust alla sína daga“ eins og segir í bréfi sem skrifað var af Gísla Oddssyni yfirumsjónarmanni Skálholtsstaðar 1633.

Engin útlitslýsing er til á séra Jóni þumlungi, en viðurnefnið gefur til kynna að hann hafi verið heldur smávaxinn. Hann gekk að eiga Þórkötlu Bjarnadóttur frá Kirkjubóli í Dýrafirði. Áður en hann kom sem prestur að Eyri í Skutulsfirði þjónaði hann í Ögurþingum um átta ára skeið.

Sjúkdómseinkennin sem Jón þumlungur lýsir í frásögn sinni eiga líklega við skæða kvefpest eða inflúensu. Myndin er eftir Hieronymus Bosch og nefnist Lækning við brjálæði (um 1494).

Af Píslarsögu séra Jóns Magnússonar er ljóst að hann áleit sig hafa orðið fyrir djöfullegum ásóknum af hendi þeirra Kirkjubólsfeðga veturinn 1655. Lýsir hann hinum ætluðu ásóknum Kirkjubólsfólksins á hann sjálfan og heimilisfólk hans, sem og vanlíðan sinni og annarra umræddan vetur. Þær fjálglegu og margorðu lýsingar og túlkanir hafa löngum þótt bera vitni um geðsýki. Krampaflog með mási og froðufalli, sem komu yfir Eyrarfólkið eru einkenni sem einatt hafa verið sett í samband við sefasýkisfaraldur (hysteríu), og koma við sögu galdramála hér á Íslandi sem annarsstaðar í Evrópu. Jafnframt hafa lýsingar Píslarsögunnar á líðan fólksins vakið grun um að einhver sjúkdómur hafi herjað á séra Jón og heimilisfólkið með einkennum sem hann túlkar augljóslega sem djöfulsárásir. Bent hefur verið á að þegar klerkur lýsir því hvernig djöfullinn leggst yfir hann "í hundslíki" svo hann getur sig hvergi hreyft, eða læsir klónum í háls síra Jóns, sé í raun verið að lýsa máttleysistilfinningu sem fari saman við verki í hálsi og brjóstholi, sem eru einkenni til dæmis eyrnabólgu sem er algengur fylgikvilli hálsbólgu og/eða inflúensusýkingar. Fram kemur í Píslarsögunni að heimilisfólkið að Eyri fann fyrir "fiðringi, dofa, hita og kulda - bruna um brjóstið, - nístingskulda, sumir um slög yfir höfuðið, sumir fyrir brjóstið, sumir um böggul eða bita í kverkum sem færði sig stundum ofan að brjóstinu" (Ó.Þorv. 1992, 32-37). Er því helst að sjá sem skæð kvefpest eða inflúensa hafi verið að ganga með þeim líkamlegu einkennum sem við má búast af slíkri sótt; eyrnaverk, brjóstþyngslum, hitaskjálfta og almennri vanlíðan, sem séra Jón lýsir nákvæmlega í riti sínu. Vanlíðanin sem þessu fylgdi virðist hafa orðið upphafið að sálsýkislegum túlkunum sem leiddu til þess að tveir menn voru brenndir lifandi á báli 10. apríl 1656.

Heimildir og myndir:

 • Sr. Jón Magnússon 2001: Píslarsaga. Mál og menning. Reykjavík.
 • Matthías Viðar Sæmundsson 2001: „Ævi séra Jóns Magnússonar“. Jón Magnússon: Píslarsaga, bls. 9-47.
 • Ólína Þorvarðardóttir 2001: Brennuöldin. Galdur og galdramál í málskjölum og munnmælum. Háskólaútgáfan. Reykjavík.
 • Ólína Þorvarðardóttir 1992: „Merkingarheimur og skynjun. Um sekt og sakleysi í Píslarsögu síra Jóns Magnússonar“. TMM 1992:4.
 • Cutting the Stone - Wikipedia, the free encyclopedia. (Sótt 8.10.2014).
 • Mats: Íslandsmyndasafn © Mats Wibe Lund. (Sótt 30. 9. 2014).


Hér er einnig svarað spurningunni:
Hvaða sjúkdómar hrjáðu Jón Magnússon/Jón þumlung, miðað við þær heimildir sem til eru um hann?

Höfundur

Dr. Phil. í íslenskum bókmenntum og þjóðfræði

Útgáfudagur

8.10.2014

Spyrjandi

Kristín Káradóttir, Birna Gunnarsdóttir

Tilvísun

Ólína Þorvarðardóttir. „Er vitað hvaða sjúkdómur hrjáði Jón þumlung?“ Vísindavefurinn, 8. október 2014. Sótt 22. maí 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=64220.

Ólína Þorvarðardóttir. (2014, 8. október). Er vitað hvaða sjúkdómur hrjáði Jón þumlung? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=64220

Ólína Þorvarðardóttir. „Er vitað hvaða sjúkdómur hrjáði Jón þumlung?“ Vísindavefurinn. 8. okt. 2014. Vefsíða. 22. maí. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=64220>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Er vitað hvaða sjúkdómur hrjáði Jón þumlung?
Upprunalega hljóðaði spurningin svona:

Hvað getið þið sagt mér um Jón þumlung og píslarsögu hans?

Jón „þumlungur“ sem svo var oft nefndur hét Jón Magnússon og var um miðbik 17. aldar sóknarprestur að Eyri í Skutulsfirði, þar sem nú er Ísafjarðarbær.

Séra Jón Magnússon er þekktastur fyrir að hafa orðið til þess að feðgar tveir, Jón og Jón Jónssynir á Kirkjubóli í Skutulsfirði voru brenndir á báli á sumardaginn fyrsta árið 1656. Um þá atburði skrifaði hann sjálfur rit sem nefnt hefur verið „Píslarsaga síra Jóns Magnússonar“ þar sem hann reynir að réttlæta framgöngu sína gegn mönnunum tveimur, og einnig gegn Þuríði dóttur eldra Jóns og systur þess yngra. Hún slapp naumlega undan galdraákærum prestsins eftir að faðir hennar og bróðir höfðu verið brenndir.

Séra Jón Magnússon var prestur á Eyri í Skutulsfirði þar sem nú er Ísafjarðarbær. Kirkjuból var bær í Engidal í Skutulsfirði en það er dalurinn til vinstri í bakgrunni.

Jón var sonur Magnúsar Eiríkssonar prests á Auðkúlu í Svínadal og Steinvarar Péturdóttur en hún var ein af afkomendum hjónanna Jóns Magnússonar á Svalbarði við Eyjafjörð og Ragnheiðar á rauðum sokkum, sem svo var kölluð. Jón ólst upp í stórum hópi systkina, en missti móður sína ungur. Hann gekk í Skálholtsskóla þar sem hann kom sér „ærlega, vel og meinlaust alla sína daga“ eins og segir í bréfi sem skrifað var af Gísla Oddssyni yfirumsjónarmanni Skálholtsstaðar 1633.

Engin útlitslýsing er til á séra Jóni þumlungi, en viðurnefnið gefur til kynna að hann hafi verið heldur smávaxinn. Hann gekk að eiga Þórkötlu Bjarnadóttur frá Kirkjubóli í Dýrafirði. Áður en hann kom sem prestur að Eyri í Skutulsfirði þjónaði hann í Ögurþingum um átta ára skeið.

Sjúkdómseinkennin sem Jón þumlungur lýsir í frásögn sinni eiga líklega við skæða kvefpest eða inflúensu. Myndin er eftir Hieronymus Bosch og nefnist Lækning við brjálæði (um 1494).

Af Píslarsögu séra Jóns Magnússonar er ljóst að hann áleit sig hafa orðið fyrir djöfullegum ásóknum af hendi þeirra Kirkjubólsfeðga veturinn 1655. Lýsir hann hinum ætluðu ásóknum Kirkjubólsfólksins á hann sjálfan og heimilisfólk hans, sem og vanlíðan sinni og annarra umræddan vetur. Þær fjálglegu og margorðu lýsingar og túlkanir hafa löngum þótt bera vitni um geðsýki. Krampaflog með mási og froðufalli, sem komu yfir Eyrarfólkið eru einkenni sem einatt hafa verið sett í samband við sefasýkisfaraldur (hysteríu), og koma við sögu galdramála hér á Íslandi sem annarsstaðar í Evrópu. Jafnframt hafa lýsingar Píslarsögunnar á líðan fólksins vakið grun um að einhver sjúkdómur hafi herjað á séra Jón og heimilisfólkið með einkennum sem hann túlkar augljóslega sem djöfulsárásir. Bent hefur verið á að þegar klerkur lýsir því hvernig djöfullinn leggst yfir hann "í hundslíki" svo hann getur sig hvergi hreyft, eða læsir klónum í háls síra Jóns, sé í raun verið að lýsa máttleysistilfinningu sem fari saman við verki í hálsi og brjóstholi, sem eru einkenni til dæmis eyrnabólgu sem er algengur fylgikvilli hálsbólgu og/eða inflúensusýkingar. Fram kemur í Píslarsögunni að heimilisfólkið að Eyri fann fyrir "fiðringi, dofa, hita og kulda - bruna um brjóstið, - nístingskulda, sumir um slög yfir höfuðið, sumir fyrir brjóstið, sumir um böggul eða bita í kverkum sem færði sig stundum ofan að brjóstinu" (Ó.Þorv. 1992, 32-37). Er því helst að sjá sem skæð kvefpest eða inflúensa hafi verið að ganga með þeim líkamlegu einkennum sem við má búast af slíkri sótt; eyrnaverk, brjóstþyngslum, hitaskjálfta og almennri vanlíðan, sem séra Jón lýsir nákvæmlega í riti sínu. Vanlíðanin sem þessu fylgdi virðist hafa orðið upphafið að sálsýkislegum túlkunum sem leiddu til þess að tveir menn voru brenndir lifandi á báli 10. apríl 1656.

Heimildir og myndir:

 • Sr. Jón Magnússon 2001: Píslarsaga. Mál og menning. Reykjavík.
 • Matthías Viðar Sæmundsson 2001: „Ævi séra Jóns Magnússonar“. Jón Magnússon: Píslarsaga, bls. 9-47.
 • Ólína Þorvarðardóttir 2001: Brennuöldin. Galdur og galdramál í málskjölum og munnmælum. Háskólaútgáfan. Reykjavík.
 • Ólína Þorvarðardóttir 1992: „Merkingarheimur og skynjun. Um sekt og sakleysi í Píslarsögu síra Jóns Magnússonar“. TMM 1992:4.
 • Cutting the Stone - Wikipedia, the free encyclopedia. (Sótt 8.10.2014).
 • Mats: Íslandsmyndasafn © Mats Wibe Lund. (Sótt 30. 9. 2014).


Hér er einnig svarað spurningunni:
Hvaða sjúkdómar hrjáðu Jón Magnússon/Jón þumlung, miðað við þær heimildir sem til eru um hann?

...