Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Heimildir um galdraiðkun á Íslandi eru ýmiss konar. Um þau galdramál sem háð voru fyrir dómstólum eru Alþingisbækur traustustu heimildirnar auk þeirra héraðsdómsskjala sem varðveist hafa (dóma- og þingbækur). Þar sem þeim heimildum sleppir hafa annálar, bréfabækur, prestastefnubækur og máldagar einnig reynst haldbær gögn að byggja á, þótt sundurlaus séu (sjá um þetta: Ólína Þorvarðardóttir 2000, bls. 13-15 og 336-37).
Skráðar sögur (þar á meðal Íslendingasögur) og sjálfsævisöguleg skrif (til að mynda Píslarsaga síra Jóns Magnússonar, Fjölmóður Jóns Guðmundssonar lærða og Æviraun Þorvaldar Rögnvaldssonar í Sauðanesi) hafa einnig reynst gagnleg við að átta sig á ýmsu því sem lýtur að galdraiðju og galdramálum okkar Íslendinga. Eru þá ónefndar sjálfar galdrabækurnar og -blöðin af ýmsu tagi sem varðveist hafa frá sautjándu og fram á nítjándu öld. Þau gögn gefa hugmynd um það að galdraiðja, eða að minnsta kosti þekking um hana, hafi verið við lýði hérlendis allt fram á nýliðna öld.
Síðasta galdramálið sem kom fyrir Alþingi var tekið fyrir á árunum 1719-1720. Þar var fjallað um héraðsdóm sem sýslumaðurinn Teitur Arason hafði látið ganga að Neðri-Hvestu við Arnarfjörð „viðvíkjandi tveimur blöðum með óvenjulegum characteribus, sem Sigmundur Atlason, Sigurður Gíslason og Jakob Jónsson“ höfðu meðkennt að eiga og „brúkað hafa til að verja sig illu“, eins og fram kemur í dómnum (Alþb. X, 432-33). Voru mennirnir dæmdir til fésekta „til hospitalsins“, mismikið eftir efnum og aðstæðum hvers og eins.
Alþingis- og dómabækur greina einungis frá þeim málum sem komu fyrir dómstóla, en ætla má að ýmis mál hafi verið útkljáð án frekari afskipta yfirvalda, einkum þegar frá leið. Munnmæli og annálar greina auk þess frá því fólki sem bar fjölkynngisorð, og eru þannig heimildir um afstöðu til galdurs og hugsanlega einnig um galdratrú án þess þó að segja okkur margt um galdraiðjuna sjálfa.
Síðast er vitað um mál sem reis vegna gruns um að konur tvær héldu tilbera að Björk í Sölvadal. Var af því tilefni framin húsrannsókn árið 1804 þar sem líkamar þeirra voru grannskoðaðir. Rannsóknin var gerð að ósk húsbóndans sjálfs sem vildi hrinda óorði af heimilinu. Í ljós kom að önnur kvennanna, Guðrún Jónsdóttir, 79 ára gömul, hafði grunsamlegan útvöxt neðan við nafla, eins og fram kemur í bréfi hreppstjóranna til sýslumanns að rannsókn lokinni. Þar segir að „gjordemóðirin Guðríður Ólafsdóttir“ hafi fundið á Guðrúnu gömlu „fyrir neðan nafla svo sem keppur eður lint vatnsæxli, en þó mjög stórt og lafði ofan eptir lífinu, en hafði þó réttan hörundslit, fyrir utan litla ákomu á neðri enda“ (Sunnanfari II, 1893, 94; sbr. AM 960 XV a 4to).
Engin frekari eftirmál urðu af þessu, og mér vitanlega er þetta síðasti vísirinn sem við höfum að hérlendu galdramáli -- eða formlegri rannsókn vegna orðróms um galdur. Hins vegar segir þetta mál sína sögu um það hve tilberatrúin virðist hafa verið sterk hér á landi þegar komið var fram á 19. öld.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
Ólína Þorvarðardóttir. „Hverjar eru síðustu heimildir um galdraiðkun á Íslandi?“ Vísindavefurinn, 6. mars 2001, sótt 8. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1369.
Ólína Þorvarðardóttir. (2001, 6. mars). Hverjar eru síðustu heimildir um galdraiðkun á Íslandi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1369
Ólína Þorvarðardóttir. „Hverjar eru síðustu heimildir um galdraiðkun á Íslandi?“ Vísindavefurinn. 6. mar. 2001. Vefsíða. 8. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1369>.