Sólin Sólin Rís 04:10 • sest 22:56 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:27 • Sest 08:55 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:25 • Síðdegis: 20:45 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:23 • Síðdegis: 14:30 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 04:10 • sest 22:56 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:27 • Sest 08:55 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:25 • Síðdegis: 20:45 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:23 • Síðdegis: 14:30 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver er elsta þekkta heimild um galdrastafi á Íslandi?

Alessia Bauer

Íslensk hefð galdrabóka, sem á alþjóðmálum kallast grimoires, hófst snemma á svonefndri lærdómsöld (1550–1750), sem þrátt fyrir nafnið var engan veginn laus við hjátrú. Fyrir miðja 16. öld urðu siðaskipti í landinu og tók lútherstrú við af kaþólsku. Ísland var þá hluti af danska konungsríkinu. Ströng opinber viðmið ríktu um hugmyndir og hugsanir fólks og kirkjan ákvað hvað leyfilegt var að lesa. Alþýðutrú dafnaði engu að síður til hliðar við hina opinberu og þar voru hjátrú og galdrar ríkjandi. Í nærri helmingi íslenskra galdramála sem þekkt eru frá tímabilinu 1554–1719 koma galdrastafir eða galdramyndir við sögu, nánar tiltekið í 62 málum af 130. Einnig var nokkuð um galdrablöð og eiginlegar galdrabækur eða kver sem fólk átti að hafa notað við galdraiðkun, einkum karlar.[1] Gera má ráð fyrir því að fjöldi slíkra handrita hafi verið brenndur á laun eða eyðilagður, því eigendur óttuðust ákæru og dóm fyrir galdra. Slíkt athæfi varðaði lífláti eða alvarlegri hýðingu.

Elsta varðveitta íslenska handritið sem geymir galdrastafi er frá upphafi 16. aldar. Það ber safnmarkið AM 434a 12mo. Tveir skrifarar voru að verkum. Nokkuð vantar í handritið en mestur hluti textans varðar lækningar.[2] Efnið tengist danskri hefð bóka um grös (lat. herbarium; d. urtebog) sem átti upphaf sitt í verkum læknisins Henrik Harpestræng sem lést árið 1244).[3] Á fyrstu blaðsíðunum (1r–6v) gefur hins vegar að líta galdrastafi sem eru elstir sinnar tegundar í handritum frá Norðurlöndum þar sem fara saman texti og myndir.

Elsta varðveitta íslenska handritið sem geymir galdrastafi er frá upphafi 16. aldar. Á fyrstu blaðsíðunum gefur að líta galdrastafi sem eru elstir sinnar tegundar í handritum frá Norðurlöndum þar sem fara saman texti og myndir.

Annað handrit af sama toga er svonefnd Galdrabók frá síðari hluta 16. aldar sem nú er á safni í Stokkhólmi.[4] Þetta er safn 47 særinga sem virðist vera raðað af algjöru handahófi en sýna glöggt hvernig iðkendur galdra stóðu að verki. Ekki er í handritinu auðvelt að greina á milli skaðlegra galdra og óskaðlegra, sem einnig er talað um sem hvítagaldur og svartagaldur. Þó er ljóst að nokkur hluti særinganna er ekki þess eðlis að ætlunin hafi verið að skaða annað fólk heldur frekar að verjast ásókn eða ógæfu. Þarna eru ákvæðisorð og særingar en líka bænir, fremur til góðs en ills. Teikningarnar sýna ólíkar gerðir galdrastafa og innsigla.

Almennt má segja að hlutverk íslenskra galdrabóka hafi verið að verjast illu fremur en að valda illu eða skaða aðra. Textunum má skipta í tvennt. Annars vegar eru særingar og annað sem ætlað var að styrkja notandann við tiltekin markmið, svo sem að verða ósýnilegur, handsama þjóf eða ná ástum kvenna. Hins vegar eru særingar þar sem innsigli voru mikilvæg og verkuðu nánast eins og verndargripir fyrir einstaklinga sem báru þá á sér. Innsigli eru formfastari en galdrastafir og oftast hringlaga. Rétt er líka að geta þess að margar særingarnar eru í raun kristileg hjátrú fremur en beinlínis galdrar.

Íslensku galdrastafirnir eiga sér hliðstæður og jafnvel fyrirmyndir í Evrópu. Vinsælustu ritin voru Clavicula Salomonis (Lyklar Salómons), Corpus Hermeticum (Leyndir dómar), De Occulta Philosophia (Hulin speki) og rit sem nefndist Sjötta og sjöunda bók Móse. Þar þóttust höfundur sækja allt aftur til Salómons konungs í Gamla testamentinu eða jafnvel gríska guðsins Hermesar um þekkingu og visku. Veitt er leiðsögn um það hvernig eigi að laða að sér anda til aðstoðar eða til að hrekja frá sér hvers kyns djöfla með því að brugga seyð eða setja saman lyf eða útbúa galdragripi. Einnig átti að vera hægt að gera fólk ósýnilegt eða drepa kvikfénað óvina. Undarlegur og fágætur efniviður gat verið innyfli fiska, tunga úr fugli, vanað dýr, húð af nýuppgröfnu líki, með fleiru. Aðgerðir skyldu fara fram á miðnætti eða á fullu tungli eða á sérstökum hátíðardögum svo sem á jólum eða um áramót. Stjörnuspeki, gullgerðarlist, læknislist og náttúrufræði gegndu mikilvægu hlutiverki. Slíkar bækur voru prentaðar í stórum upplögum og nutu mikilla vinsælda, jafnvel þótt kirkjan hefði bannað þær og gerði hvað hún gat til að hefta dreifingu.

Viðamesta safn galdrastafa er í handritinu Lbs 2413 8vo frá því um 1800. Á 74 blöðum eru 200 særingar og verndartextar sem tengjast tiltekinni galdramynd, þannig að saman myndar þetta tvennt merkingu.

Í Landsbókasafni Íslands eru ófáar galdrabækur til í handritum (sjá skrá hér fyrir neðan og á vefnum www.handrit.is). Langflestar þeirra eru reyndar skrifaðar eftir lærdómsöld en þær tengjast margar hverjar eldri bókum sem afrit og afrit afrita. Viðamesta safn galdrastafa er í handritinu Lbs 2413 8vo frá því um 1800. Ekki er vitað hverjir gerðu það eða áttu það en á 74 blöðum eru 200 særingar og verndartextar sem tengjast tiltekinni galdramynd, þannig að saman myndar þetta tvennt merkingu. Samspil myndar og texta jók kraftinn. Ekkert er vitað um það hvernig þessi bók var notuð, en eins og þegar er getið má ætla að vegna þeirrar áhættu sem eigendur galdrabóka óneitanlega tóku á meðan galdraiðkun varðaði við lög er líklegt að fjöldi bóka hafi verið eyðilagður, svo yfirvöld ekki kæmust á snoðir um þær og gripu til aðgerða.

Tilvísanir:
 1. ^ Sbr. Magnús Rafnsson 2003, 15.
 2. ^ Textaútgáfa eftir Kålund 1907 (Den islandske lægebog).
 3. ^ Í þessu riti eru 150 kaflar um grös og lækningamátt þeirra. Best varðveitta handritið er frá 13. öld.
 4. ^ ATA, Ämbetsarkiv 2, Vitterhetsakademiens handskriftsamling, serie F 16 volym 26, útgáfa með skýringum eftir Lindqvist 1921; sjá líka Flowers 2005.

Útgáfur:

 • En Isländsk Svartkonstbok från 1500-talet. Utgiven med översättning och kommentar, ritstj. Natal Lindqvist. Uppsala: Appelberg 1921.
 • The Galdrabók. An Icelandic Book of Magic. Önnur útgáfa. Ritstjóri Steven Flowers. Smithville: Samuel Weiser 2005.
 • Galdrakver. Textaútgáfa Lbs 143 8º. Ritstjóri Emilía Sigmarsdóttir. Reykjavík: Háskólabókasafn 2004.
 • Tvær galdraskræður. Lbs 2413 8vo, Leyniletursskræðan Lbs 764 8vo. Two Icelandic Books of Magic. Ritstjóri Magnús Rafnsson. Hólmavík: Strandagaldur 2008.
 • Harpestræng = Den islandske lægebog. Ritstjóri Kristian Kålund. Kaupmannahöfn: A. F. Høst & Søn 1907.
 • The Key of Solomon (Clavicula Salomonis). Ritstjórar Samuel Lidell McGregor Mathers og Joseph H. Peterson, 2005; http://www.esotericarchives.com/solomon/ksol.htm [síðast athugað 15. júní 2021].
 • https://handrit.is/ [síðast athugað 15. júní 2021].

Heimildir og frekara lesefni:

 • Bauer, Alessia (2020): „Biblical Magic as a Manifestation of Folk Belief in the North“. Ritstjórar Karoline Kjesrud og Mikael Males, Faith and Knowledge in Late Medieval & Early Modern Scandinavia, bls. 251–287. Turnhout: Brepols.
 • Magnús Rafnsson (2003): Angurgapi. Um galdramál á Íslandi. Hólmavík: Strandagaldur.
 • Matthías Viðar Sæmundsson (1992): Galdrar á Íslandi. Reykjavík: Almenna Bókafélagið.
 • Ólafur Davíðsson (1903): „Isländische Zauberzeichen und Zauberbücher“. Zeitschrift des Vereins für Volkskunde 13, bls. 150–167, 267–279, pl. III–VIII.
 • Óskar Halldórsson (1996): Bókmenntir á lærdómsöld (1550-1770). Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag.

Skrá yfir íslensk handrit sem innihalda galdrastafi:

 • Kaupmannahöfn
  • AM 247 8vo: 1790–1810, nokkrir skrifarar (galdrastafir)
  • AM 434a 12mo: c. 1500, einn skrifari (lækningakver)
  • AM 434d 12mo: 17. öld, einn skrifari (galdrakver)

 • Stokkhólmur
  • ATA Ämb. 2, F 16:26: 15. til 17. öld, nokkrir skrifarar (galdrakver)

 • Reykjavík
  • ÍB 179 8vo: 18. og 19. öld, nokkrir skrifarar (galdrakver)
  • ÍB 383 4to: 1860, einn skrifari (galdrar)
  • ÍB 663 8vo: 1780, einn skrifari (vísdómsbók)
  • ÍB 799 8vo: lok 17. aldar, einn skrifari (galdrar)
  • JS 248 4to: 1846, einn skrifari (galdrar)
  • JS 313 8vo: 1750–1850, nokkrir skrifarar (galdrar)
  • JS 375 8vo: 1800–1820, nokkrir skrifarar (galdrakver)
  • JS 379 8vo: 18. og 19. öld, nokkrir skrifarar (galdrar)
  • Lbs 143 8vo: 1670, einn skrifari (brot úr galdrakveri)
  • Lbs 489 8vo: 18. og 19. öld, nokkrir skrifarar (galdrar)
  • Lbs 627 8vo: um 1820, einn skrifari (galdrakver)
  • Lbs 764 8vo: 1780, einn skrifari (galdrakver)
  • Lbs 977 4to: 1818–1820, einn skrifari (galdrakver)
  • Lbs 1140 8vo: 1820, einn skrifari (galdrakver)
  • Lbs 1593 a 4to: 18. og 19. öld, nokkrir skrifarar (galdrastafir)
  • Lbs 1861–1869 4to: 1859–1879, einn skrifari (galdrar og særingar)
  • Lbs 2413 8vo: um 1800, einn skrifari (galdrakver)
  • Lbs 4375 8vo: fyrri helmingur 20. aldar, einn skrifari (galdrakver)
  • Lbs 4627 8vo: 19. öld, þrír skrifarar (galdrakver)
  • Lbs 5472 I–III 4to: lok 19. aldar, einn skrifari (galdrakver)

Myndir:

Upprunalegri spurningu Erlings er hér svarað að hluta.

Már Jónsson, prófessor í sagnfræði við HÍ, þýddi svarið úr ensku.

Höfundur

Alessia Bauer

prófessor í norrænum fræðum við École Pratique des Hautes Études

Útgáfudagur

21.6.2021

Spyrjandi

Erlingur Thoroddsen

Tilvísun

Alessia Bauer. „Hver er elsta þekkta heimild um galdrastafi á Íslandi?“ Vísindavefurinn, 21. júní 2021, sótt 24. júlí 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=81960.

Alessia Bauer. (2021, 21. júní). Hver er elsta þekkta heimild um galdrastafi á Íslandi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=81960

Alessia Bauer. „Hver er elsta þekkta heimild um galdrastafi á Íslandi?“ Vísindavefurinn. 21. jún. 2021. Vefsíða. 24. júl. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=81960>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver er elsta þekkta heimild um galdrastafi á Íslandi?
Íslensk hefð galdrabóka, sem á alþjóðmálum kallast grimoires, hófst snemma á svonefndri lærdómsöld (1550–1750), sem þrátt fyrir nafnið var engan veginn laus við hjátrú. Fyrir miðja 16. öld urðu siðaskipti í landinu og tók lútherstrú við af kaþólsku. Ísland var þá hluti af danska konungsríkinu. Ströng opinber viðmið ríktu um hugmyndir og hugsanir fólks og kirkjan ákvað hvað leyfilegt var að lesa. Alþýðutrú dafnaði engu að síður til hliðar við hina opinberu og þar voru hjátrú og galdrar ríkjandi. Í nærri helmingi íslenskra galdramála sem þekkt eru frá tímabilinu 1554–1719 koma galdrastafir eða galdramyndir við sögu, nánar tiltekið í 62 málum af 130. Einnig var nokkuð um galdrablöð og eiginlegar galdrabækur eða kver sem fólk átti að hafa notað við galdraiðkun, einkum karlar.[1] Gera má ráð fyrir því að fjöldi slíkra handrita hafi verið brenndur á laun eða eyðilagður, því eigendur óttuðust ákæru og dóm fyrir galdra. Slíkt athæfi varðaði lífláti eða alvarlegri hýðingu.

Elsta varðveitta íslenska handritið sem geymir galdrastafi er frá upphafi 16. aldar. Það ber safnmarkið AM 434a 12mo. Tveir skrifarar voru að verkum. Nokkuð vantar í handritið en mestur hluti textans varðar lækningar.[2] Efnið tengist danskri hefð bóka um grös (lat. herbarium; d. urtebog) sem átti upphaf sitt í verkum læknisins Henrik Harpestræng sem lést árið 1244).[3] Á fyrstu blaðsíðunum (1r–6v) gefur hins vegar að líta galdrastafi sem eru elstir sinnar tegundar í handritum frá Norðurlöndum þar sem fara saman texti og myndir.

Elsta varðveitta íslenska handritið sem geymir galdrastafi er frá upphafi 16. aldar. Á fyrstu blaðsíðunum gefur að líta galdrastafi sem eru elstir sinnar tegundar í handritum frá Norðurlöndum þar sem fara saman texti og myndir.

Annað handrit af sama toga er svonefnd Galdrabók frá síðari hluta 16. aldar sem nú er á safni í Stokkhólmi.[4] Þetta er safn 47 særinga sem virðist vera raðað af algjöru handahófi en sýna glöggt hvernig iðkendur galdra stóðu að verki. Ekki er í handritinu auðvelt að greina á milli skaðlegra galdra og óskaðlegra, sem einnig er talað um sem hvítagaldur og svartagaldur. Þó er ljóst að nokkur hluti særinganna er ekki þess eðlis að ætlunin hafi verið að skaða annað fólk heldur frekar að verjast ásókn eða ógæfu. Þarna eru ákvæðisorð og særingar en líka bænir, fremur til góðs en ills. Teikningarnar sýna ólíkar gerðir galdrastafa og innsigla.

Almennt má segja að hlutverk íslenskra galdrabóka hafi verið að verjast illu fremur en að valda illu eða skaða aðra. Textunum má skipta í tvennt. Annars vegar eru særingar og annað sem ætlað var að styrkja notandann við tiltekin markmið, svo sem að verða ósýnilegur, handsama þjóf eða ná ástum kvenna. Hins vegar eru særingar þar sem innsigli voru mikilvæg og verkuðu nánast eins og verndargripir fyrir einstaklinga sem báru þá á sér. Innsigli eru formfastari en galdrastafir og oftast hringlaga. Rétt er líka að geta þess að margar særingarnar eru í raun kristileg hjátrú fremur en beinlínis galdrar.

Íslensku galdrastafirnir eiga sér hliðstæður og jafnvel fyrirmyndir í Evrópu. Vinsælustu ritin voru Clavicula Salomonis (Lyklar Salómons), Corpus Hermeticum (Leyndir dómar), De Occulta Philosophia (Hulin speki) og rit sem nefndist Sjötta og sjöunda bók Móse. Þar þóttust höfundur sækja allt aftur til Salómons konungs í Gamla testamentinu eða jafnvel gríska guðsins Hermesar um þekkingu og visku. Veitt er leiðsögn um það hvernig eigi að laða að sér anda til aðstoðar eða til að hrekja frá sér hvers kyns djöfla með því að brugga seyð eða setja saman lyf eða útbúa galdragripi. Einnig átti að vera hægt að gera fólk ósýnilegt eða drepa kvikfénað óvina. Undarlegur og fágætur efniviður gat verið innyfli fiska, tunga úr fugli, vanað dýr, húð af nýuppgröfnu líki, með fleiru. Aðgerðir skyldu fara fram á miðnætti eða á fullu tungli eða á sérstökum hátíðardögum svo sem á jólum eða um áramót. Stjörnuspeki, gullgerðarlist, læknislist og náttúrufræði gegndu mikilvægu hlutiverki. Slíkar bækur voru prentaðar í stórum upplögum og nutu mikilla vinsælda, jafnvel þótt kirkjan hefði bannað þær og gerði hvað hún gat til að hefta dreifingu.

Viðamesta safn galdrastafa er í handritinu Lbs 2413 8vo frá því um 1800. Á 74 blöðum eru 200 særingar og verndartextar sem tengjast tiltekinni galdramynd, þannig að saman myndar þetta tvennt merkingu.

Í Landsbókasafni Íslands eru ófáar galdrabækur til í handritum (sjá skrá hér fyrir neðan og á vefnum www.handrit.is). Langflestar þeirra eru reyndar skrifaðar eftir lærdómsöld en þær tengjast margar hverjar eldri bókum sem afrit og afrit afrita. Viðamesta safn galdrastafa er í handritinu Lbs 2413 8vo frá því um 1800. Ekki er vitað hverjir gerðu það eða áttu það en á 74 blöðum eru 200 særingar og verndartextar sem tengjast tiltekinni galdramynd, þannig að saman myndar þetta tvennt merkingu. Samspil myndar og texta jók kraftinn. Ekkert er vitað um það hvernig þessi bók var notuð, en eins og þegar er getið má ætla að vegna þeirrar áhættu sem eigendur galdrabóka óneitanlega tóku á meðan galdraiðkun varðaði við lög er líklegt að fjöldi bóka hafi verið eyðilagður, svo yfirvöld ekki kæmust á snoðir um þær og gripu til aðgerða.

Tilvísanir:
 1. ^ Sbr. Magnús Rafnsson 2003, 15.
 2. ^ Textaútgáfa eftir Kålund 1907 (Den islandske lægebog).
 3. ^ Í þessu riti eru 150 kaflar um grös og lækningamátt þeirra. Best varðveitta handritið er frá 13. öld.
 4. ^ ATA, Ämbetsarkiv 2, Vitterhetsakademiens handskriftsamling, serie F 16 volym 26, útgáfa með skýringum eftir Lindqvist 1921; sjá líka Flowers 2005.

Útgáfur:

 • En Isländsk Svartkonstbok från 1500-talet. Utgiven med översättning och kommentar, ritstj. Natal Lindqvist. Uppsala: Appelberg 1921.
 • The Galdrabók. An Icelandic Book of Magic. Önnur útgáfa. Ritstjóri Steven Flowers. Smithville: Samuel Weiser 2005.
 • Galdrakver. Textaútgáfa Lbs 143 8º. Ritstjóri Emilía Sigmarsdóttir. Reykjavík: Háskólabókasafn 2004.
 • Tvær galdraskræður. Lbs 2413 8vo, Leyniletursskræðan Lbs 764 8vo. Two Icelandic Books of Magic. Ritstjóri Magnús Rafnsson. Hólmavík: Strandagaldur 2008.
 • Harpestræng = Den islandske lægebog. Ritstjóri Kristian Kålund. Kaupmannahöfn: A. F. Høst & Søn 1907.
 • The Key of Solomon (Clavicula Salomonis). Ritstjórar Samuel Lidell McGregor Mathers og Joseph H. Peterson, 2005; http://www.esotericarchives.com/solomon/ksol.htm [síðast athugað 15. júní 2021].
 • https://handrit.is/ [síðast athugað 15. júní 2021].

Heimildir og frekara lesefni:

 • Bauer, Alessia (2020): „Biblical Magic as a Manifestation of Folk Belief in the North“. Ritstjórar Karoline Kjesrud og Mikael Males, Faith and Knowledge in Late Medieval & Early Modern Scandinavia, bls. 251–287. Turnhout: Brepols.
 • Magnús Rafnsson (2003): Angurgapi. Um galdramál á Íslandi. Hólmavík: Strandagaldur.
 • Matthías Viðar Sæmundsson (1992): Galdrar á Íslandi. Reykjavík: Almenna Bókafélagið.
 • Ólafur Davíðsson (1903): „Isländische Zauberzeichen und Zauberbücher“. Zeitschrift des Vereins für Volkskunde 13, bls. 150–167, 267–279, pl. III–VIII.
 • Óskar Halldórsson (1996): Bókmenntir á lærdómsöld (1550-1770). Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag.

Skrá yfir íslensk handrit sem innihalda galdrastafi:

 • Kaupmannahöfn
  • AM 247 8vo: 1790–1810, nokkrir skrifarar (galdrastafir)
  • AM 434a 12mo: c. 1500, einn skrifari (lækningakver)
  • AM 434d 12mo: 17. öld, einn skrifari (galdrakver)

 • Stokkhólmur
  • ATA Ämb. 2, F 16:26: 15. til 17. öld, nokkrir skrifarar (galdrakver)

 • Reykjavík
  • ÍB 179 8vo: 18. og 19. öld, nokkrir skrifarar (galdrakver)
  • ÍB 383 4to: 1860, einn skrifari (galdrar)
  • ÍB 663 8vo: 1780, einn skrifari (vísdómsbók)
  • ÍB 799 8vo: lok 17. aldar, einn skrifari (galdrar)
  • JS 248 4to: 1846, einn skrifari (galdrar)
  • JS 313 8vo: 1750–1850, nokkrir skrifarar (galdrar)
  • JS 375 8vo: 1800–1820, nokkrir skrifarar (galdrakver)
  • JS 379 8vo: 18. og 19. öld, nokkrir skrifarar (galdrar)
  • Lbs 143 8vo: 1670, einn skrifari (brot úr galdrakveri)
  • Lbs 489 8vo: 18. og 19. öld, nokkrir skrifarar (galdrar)
  • Lbs 627 8vo: um 1820, einn skrifari (galdrakver)
  • Lbs 764 8vo: 1780, einn skrifari (galdrakver)
  • Lbs 977 4to: 1818–1820, einn skrifari (galdrakver)
  • Lbs 1140 8vo: 1820, einn skrifari (galdrakver)
  • Lbs 1593 a 4to: 18. og 19. öld, nokkrir skrifarar (galdrastafir)
  • Lbs 1861–1869 4to: 1859–1879, einn skrifari (galdrar og særingar)
  • Lbs 2413 8vo: um 1800, einn skrifari (galdrakver)
  • Lbs 4375 8vo: fyrri helmingur 20. aldar, einn skrifari (galdrakver)
  • Lbs 4627 8vo: 19. öld, þrír skrifarar (galdrakver)
  • Lbs 5472 I–III 4to: lok 19. aldar, einn skrifari (galdrakver)

Myndir:

Upprunalegri spurningu Erlings er hér svarað að hluta.

Már Jónsson, prófessor í sagnfræði við HÍ, þýddi svarið úr ensku....