
Þegar eitthvað mjög kalt kemst í snertingu við efri góminn í munninum nema taugaendar sem þar eru kuldann og senda sársaukaboð til þrenndartaugarhnoða (e. trigeminal ganglia) í heila. Þetta veldur því að þrenndartaugin sendir boð til ennis og annarra staða í höfuðkúpu um að víkka út slagæðar sem liggja á þessum svæðum. Við víkkun æðanna eykst skyndilega blóðstreymið um þær og veldur það verk í enninu og efri hluta höfuðs, en ekki í gómnum þar sem kuldans varð vart. Þetta er sambærilegt við svokallaðan staðvilluverk (e. referred pain), líkt og þegar einstaklingur finnur fyrir verk í vinstri handlegg þegar hann er í raun að fá hjartaslag. Þess má geta að svokallaðar sprengitöflur og víagra hafa samskonar æðavíkkandi áhrif og hér var lýst. Hægt er að minnka líkur á því að fá íshausverk með því að gæta þess að mjög kaldir hlutir snerti ekki efrigóminn í miklu magni. Til dæmis með því að gæta þess að borða ís og frostpinna ekki of hratt. Gott ráð til þess að losna fyrr við íshausverk er að þrýsta tungunni upp í góminn. Tungan hitar þá gómsvæðið sem veldur því að æðar í höfðinu dragast aftur saman og verkurinn hverfur. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvað er mígreni? eftir Magnús Jóhannesson
- Hvað gerir hjartað og hvað veldur hjartaáfalli? eftir Þuríði Þorbjarnardóttur
- Af hverju fær maður kul í tennurnar? eftir Þuríði Þorbjarnardóttur
- Er það satt að maður veikist frekar í kulda en þegar heitt er? eftir Þórdísi Kristinsdóttur