Sólin Sólin Rís 05:43 • sest 21:13 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 13:37 • Sest 06:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:59 • Síðdegis: 15:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:39 • Síðdegis: 21:50 í Reykjavík

Er kjarnorka umhverfisvæn?

Þröstur Þorsteinsson

Ef miðað er við útblástur gróðurhúsalofttegunda og annarrar mengunar er kjarnorka betri en flestir ef ekki allir aðrir núverandi orkugjafar. Hins vegar gerir hættan á kjarnorkuslysi og vandamál tengd geymslu geislavirks úrgangs úr kjarnorkuverum svarið við spurningunni flóknara. Ný kjarnorkuver eiga að vera örugg, en eins og atburðirnir í Fukushima[1] sýna er ekkert til sem heitir algerlega öruggt. Einnig eru umhverfisáhrif vegna námavinnslu í tengslum við öflun úrans eða þóríns.

Ef aðeins er litið til útblásturs gróðurhúsalofttegunda yfir lífsferil orkugjafa (e. life cycle emission[2]) eru kjarnorkuver umhverfisvæn (3,7 g CO2eq/kWh), samanborið við til dæmis kol (820 g CO2eq/kWh), sólarsellur (41 – 48 g CO2eq/kWh), vatnsorku (24 g CO2eq/kWh) og vindorku (11-12 g CO2eq/kWh).

Dukovany-kjarnorkuverið í Tékklandi.

Einnig taka kjarnorkuver minna landsvæði en flestir aðrir orkugjafar, vindorka þarfnast allt að 360 sinnum meira landsvæðis og sólarorka (sólarsellur - PV) um 75 sinnum meira[3]. Taka verður þessum tölum með fyrirvara, því mjög misjafnt er hvernig þær eru reiknaðar og einnig eru þær mismunandi eftir svæðum. Þannig eru hlutföllin nær 30 fyrir vind og 15 fyrir sólarorku (PV) miðað við kjarnorku í sumum útreikningum[4].

Vandamálið við kjarnorku er hins vegar alltaf geislavirki úrgangurinn – hvernig á að ganga frá honum þannig að hann valdi ekki skaða. Tækniframfarir í endurvinnslu úrgangs gera raunar kleift að minnka verulega magn hans, en slíkt er kostnaðarsamt. Kjarnorka er nú þegar dýrari[5] kostur en sumir endurnýjanlegir orkugjafar, þannig að framtíð kjarnorkunnar sem orkugjafa veltur án efa töluvert á því hversu vel gengur að geyma orku sem framleidd er með sólarorku og vindorku til að jafna út framboðið.

Einnig er alltaf fyrir hendi hættan á kjarnorkuslysum. Þrátt fyrir að þau hafi ekki valdið mörgum dauðsföllum, að minnsta kosti ekki beint, miðað við marga aðra orkugjafa, eru þau stór hindrun í framgangi kjarnorkunnar.

Að lokum verður að hafa í huga að kjarnorka er ekki endurnýjanlegur orkugjafi.

Tilvísanir:
  1. ^ Fukushima Accident - World Nuclear Association. (Skoðað 9. 3. 2017).
  2. ^ IPCC Working Group III – Mitigation of Climate Change, Annex III: Technology - specific cost and performance parameters. (Skoðað 9. 3. 2017).
  3. ^ Land Needs for Wind, Solar Dwarf Nuclear Plant’s Footprint - Nuclear Energy Institute. (Skoðað 9. 3. 2017).
  4. ^ Energy, Water, and Land - National Climate Assessment. (Skoðað 9. 3. 2017).
  5. ^ U.S. Energy Information Administration (EIA) - Source. (Skoðað 9. 3. 2017).

Mynd:

Höfundur

Þröstur Þorsteinsson

prófessor í umhverfis- og auðlindafræði við HÍ

Útgáfudagur

30.5.2017

Spyrjandi

Arna Rós Arnarsdóttir, Steinar Leó Gunnarsson

Tilvísun

Þröstur Þorsteinsson. „Er kjarnorka umhverfisvæn?“ Vísindavefurinn, 30. maí 2017. Sótt 18. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=64388.

Þröstur Þorsteinsson. (2017, 30. maí). Er kjarnorka umhverfisvæn? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=64388

Þröstur Þorsteinsson. „Er kjarnorka umhverfisvæn?“ Vísindavefurinn. 30. maí. 2017. Vefsíða. 18. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=64388>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Er kjarnorka umhverfisvæn?
Ef miðað er við útblástur gróðurhúsalofttegunda og annarrar mengunar er kjarnorka betri en flestir ef ekki allir aðrir núverandi orkugjafar. Hins vegar gerir hættan á kjarnorkuslysi og vandamál tengd geymslu geislavirks úrgangs úr kjarnorkuverum svarið við spurningunni flóknara. Ný kjarnorkuver eiga að vera örugg, en eins og atburðirnir í Fukushima[1] sýna er ekkert til sem heitir algerlega öruggt. Einnig eru umhverfisáhrif vegna námavinnslu í tengslum við öflun úrans eða þóríns.

Ef aðeins er litið til útblásturs gróðurhúsalofttegunda yfir lífsferil orkugjafa (e. life cycle emission[2]) eru kjarnorkuver umhverfisvæn (3,7 g CO2eq/kWh), samanborið við til dæmis kol (820 g CO2eq/kWh), sólarsellur (41 – 48 g CO2eq/kWh), vatnsorku (24 g CO2eq/kWh) og vindorku (11-12 g CO2eq/kWh).

Dukovany-kjarnorkuverið í Tékklandi.

Einnig taka kjarnorkuver minna landsvæði en flestir aðrir orkugjafar, vindorka þarfnast allt að 360 sinnum meira landsvæðis og sólarorka (sólarsellur - PV) um 75 sinnum meira[3]. Taka verður þessum tölum með fyrirvara, því mjög misjafnt er hvernig þær eru reiknaðar og einnig eru þær mismunandi eftir svæðum. Þannig eru hlutföllin nær 30 fyrir vind og 15 fyrir sólarorku (PV) miðað við kjarnorku í sumum útreikningum[4].

Vandamálið við kjarnorku er hins vegar alltaf geislavirki úrgangurinn – hvernig á að ganga frá honum þannig að hann valdi ekki skaða. Tækniframfarir í endurvinnslu úrgangs gera raunar kleift að minnka verulega magn hans, en slíkt er kostnaðarsamt. Kjarnorka er nú þegar dýrari[5] kostur en sumir endurnýjanlegir orkugjafar, þannig að framtíð kjarnorkunnar sem orkugjafa veltur án efa töluvert á því hversu vel gengur að geyma orku sem framleidd er með sólarorku og vindorku til að jafna út framboðið.

Einnig er alltaf fyrir hendi hættan á kjarnorkuslysum. Þrátt fyrir að þau hafi ekki valdið mörgum dauðsföllum, að minnsta kosti ekki beint, miðað við marga aðra orkugjafa, eru þau stór hindrun í framgangi kjarnorkunnar.

Að lokum verður að hafa í huga að kjarnorka er ekki endurnýjanlegur orkugjafi.

Tilvísanir:
  1. ^ Fukushima Accident - World Nuclear Association. (Skoðað 9. 3. 2017).
  2. ^ IPCC Working Group III – Mitigation of Climate Change, Annex III: Technology - specific cost and performance parameters. (Skoðað 9. 3. 2017).
  3. ^ Land Needs for Wind, Solar Dwarf Nuclear Plant’s Footprint - Nuclear Energy Institute. (Skoðað 9. 3. 2017).
  4. ^ Energy, Water, and Land - National Climate Assessment. (Skoðað 9. 3. 2017).
  5. ^ U.S. Energy Information Administration (EIA) - Source. (Skoðað 9. 3. 2017).

Mynd:

...