Sólin Sólin Rís 07:21 • sest 19:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 19:44 • Sest 00:58 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:47 • Síðdegis: 16:15 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:00 • Síðdegis: 22:39 í Reykjavík

Hvers vegna var Hitler valinn maður ársins?

Björn Reynir Halldórsson

Adolf Hitler var valinn maður ársins af bandaríska tímaritinu Time árið 1938. Það kann að koma mönnum spánskt fyrir sjónir að Hitler hafi hlotið slíka útnefningu en hafa þarf í huga að hún var ekki hugsuð sem verðlaun og henni fylgdi enginn sérstakur heiður. 'Maður ársins' samkvæmt Time er sá einstaklingur/-ar (eða eitthvað annað) sem hafði mest áhrif á almennan fréttaflutning það ár, til góðs eða ills. Valið endurspeglar því það sem þykir tíðindaverðast í heiminum á hverju ári. Hitler er ekki eini einræðisherrann sem Time hefur útnefnt mann ársins. Stalín var valinn maður ársins árið 1939 og aftur 1942, annar leiðtogi Sovétríkjanna, Nikita Khrushchev, var útnefndur 1957 og Khomeni erkiklerkur eftir Klerkabyltinguna í Íran árið 1979.

Münchenar-samkomulagið frá 29. september 1938 vó þungt þegar kom að útnefningu Hitlers sem maður ársins. Samkomulagið markaði hápunkt fréttaársins að mati Time því þar tókst Hitler að semja við Neville Chamberlain, forsætisráðherra Bretlands, og Edouard Daladier, forsætisráðherra Frakklands, um að mega ráðast inn í og taka yfir hluta Tékkóslóvakíu (Sudetenland) án þeirra afskipta. Að mati Time varð Hitler þar með að stærstu ógninni við lýðræði og frelsi í heiminum en hann hafði þá þegar „rænt Austurríki fyrir framan nefið á skelfingu lostinni og vanmáttugri heimsbyggðinni“ eins og segir í grein í Time (sjá heimild hér fyrir neðan).

Undirritun Münchenar-samkomulagsins. Frá vinstri: Chamberlain, Daladier, Hitler, Mussolini og Galeazzo Ciano, utanríkisráðherra Ítalíu.

Í rökstuðningi Time fyrir vali Hitlers sem maður ársins var tekið fram hvers vegna aðrir einstaklingar, sem voru áberandi á þessum tíma, hefðu ekki verðskuldað útnefninguna. Chamberlain og Daladier höfðu látið í minni pokann fyrir Hitler við gerð Münchenar-samkomulagsins; Franklin D. Roosevelt, Bandaríkjaforseti, hafði beðið ósigur í þingkosningum; Edward Beneš, forseti Tékkóslóvakíu, var horfinn í útlegð; Fransisco Franco, leiðtogi fasista á Spáni, var ekki enn búinn að vinna fullnaðarsigur á lýðveldissinnum í spænsku borgarastyrjöldinni og Chiang Kai-shek, leiðtogi Kínverja og maður ársins á undan, hafði þurft að hörfa undan Japönum með her sinn.

Aðrir voru útnefndir í smærri flokkum, til dæmis íþróttamaður ársins, en komust ekki með tærnar þar sem Hitler hafði hælana. Þrátt fyrir að útvarpsmaður ársins 1938, Orson Welles, hefði skotið samlöndum sínum skelk í bringu með frægum flutningi á Innrásinni frá Mars, þótti tímaritinu sú ógn lítil í samaburði við landvinninga Hitlers.

Séu einhverjir í vafa um hug Time til Hitlers má benda á forsíðu tímaritsins sem tileinkuð var útnefningunni (sjá mynd). Á henni er teikning barónsins Rudolph Charles von Ripper, kaþólikka sem hafði fengið sig fullsaddann af Þýskalandi nasismans. Myndin sýnir Hitler leika haturssálm sinn á orgel í vanhelgri dómkirkju á meðan fórnarlömb hans hanga lafandi á pyntingarhjóli og háttsettir embættismenn í nasistaflokknum fylgjast með.

Forsíða Time, 2. janúar 1939.

Time hefur útnefnt mann ársins (í dag persónu ársins) allt frá árinu 1927 þegar flugmaðurinn Charles Lindberg hlaut útnefninguna eftir að hafa flogið einn yfir Atlantshafið fyrstur manna. Bandaríkjaforsetar eru mest áberandi á listanum yfir þá sem Time hefur valið menn ársins en algengt er að þeir hafi hlotið útnefninguna eftir forsetakosningar eða í kjölfar stríðstengdra atburða. Harry S. Truman var valinn maður ársins eftir að hafa ákveðið að varpa kjarnorkusprengjum á Hiroshima og Nagasaki árið 1945; Lyndon B. Johnson (1967) og Richard M. Nixon (1971 og 1972 ásamt Henry Kissinger) fengu útnefningar á meðan Víetnamstríðin stóðu yfir og Bush-feðgar í kjölfar stríða við botn Persaflóa (1990 og 2004). Skilgreindir hópar Bandaríkjamanna hafa sömuleiðis oft hlotið útnefninguna, svo sem millistéttin (1969), vísindamenn (1960), geimfarar (1968), hermenn (1950 og 2003) og amerískar konur sem voru útnefndar árið 1975.

Að öðru leyti hafa fáar konur verið valdar maður ársins. Elísabet II Englandsdrottning (1952), Wallis Simpson, eiginkona Játvarðs VIII, (1936) og Corazon Aquino, fyrrverandi forseti Filippseyja, (1986) hafa hlotið útnefninguna einar og sér. Melinda Gates (2005) og Soong May-ling (1937) voru valdar ásamt eiginmönnum sínum (Melinda sem annar fulltrúi miskunnsama samverjans og May-Ling sem 'eiginkona ársins'). Konunar sem komu upp um Enron-hneyklið voru einnig útnefndar árið 2002. Fleiri konur hafa ekki verið útnefndar. Loks má nefna að útnefningin hefur náð víðar en til einstaklinga og hópa manna. Tölvan hlaut til dæmis útnefningu árið 1982 og hin hætt komna Jörð árið 1988. Síðast en ekki síst hlaust Þú útnefninguna árið 2006.

Heimildir:

Myndir:

Höfundur

Útgáfudagur

25.9.2014

Spyrjandi

Margrét Magnúsdóttir, f. 1998

Tilvísun

Björn Reynir Halldórsson. „Hvers vegna var Hitler valinn maður ársins?“ Vísindavefurinn, 25. september 2014. Sótt 26. september 2023. http://visindavefur.is/svar.php?id=65231.

Björn Reynir Halldórsson. (2014, 25. september). Hvers vegna var Hitler valinn maður ársins? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=65231

Björn Reynir Halldórsson. „Hvers vegna var Hitler valinn maður ársins?“ Vísindavefurinn. 25. sep. 2014. Vefsíða. 26. sep. 2023. <http://visindavefur.is/svar.php?id=65231>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvers vegna var Hitler valinn maður ársins?
Adolf Hitler var valinn maður ársins af bandaríska tímaritinu Time árið 1938. Það kann að koma mönnum spánskt fyrir sjónir að Hitler hafi hlotið slíka útnefningu en hafa þarf í huga að hún var ekki hugsuð sem verðlaun og henni fylgdi enginn sérstakur heiður. 'Maður ársins' samkvæmt Time er sá einstaklingur/-ar (eða eitthvað annað) sem hafði mest áhrif á almennan fréttaflutning það ár, til góðs eða ills. Valið endurspeglar því það sem þykir tíðindaverðast í heiminum á hverju ári. Hitler er ekki eini einræðisherrann sem Time hefur útnefnt mann ársins. Stalín var valinn maður ársins árið 1939 og aftur 1942, annar leiðtogi Sovétríkjanna, Nikita Khrushchev, var útnefndur 1957 og Khomeni erkiklerkur eftir Klerkabyltinguna í Íran árið 1979.

Münchenar-samkomulagið frá 29. september 1938 vó þungt þegar kom að útnefningu Hitlers sem maður ársins. Samkomulagið markaði hápunkt fréttaársins að mati Time því þar tókst Hitler að semja við Neville Chamberlain, forsætisráðherra Bretlands, og Edouard Daladier, forsætisráðherra Frakklands, um að mega ráðast inn í og taka yfir hluta Tékkóslóvakíu (Sudetenland) án þeirra afskipta. Að mati Time varð Hitler þar með að stærstu ógninni við lýðræði og frelsi í heiminum en hann hafði þá þegar „rænt Austurríki fyrir framan nefið á skelfingu lostinni og vanmáttugri heimsbyggðinni“ eins og segir í grein í Time (sjá heimild hér fyrir neðan).

Undirritun Münchenar-samkomulagsins. Frá vinstri: Chamberlain, Daladier, Hitler, Mussolini og Galeazzo Ciano, utanríkisráðherra Ítalíu.

Í rökstuðningi Time fyrir vali Hitlers sem maður ársins var tekið fram hvers vegna aðrir einstaklingar, sem voru áberandi á þessum tíma, hefðu ekki verðskuldað útnefninguna. Chamberlain og Daladier höfðu látið í minni pokann fyrir Hitler við gerð Münchenar-samkomulagsins; Franklin D. Roosevelt, Bandaríkjaforseti, hafði beðið ósigur í þingkosningum; Edward Beneš, forseti Tékkóslóvakíu, var horfinn í útlegð; Fransisco Franco, leiðtogi fasista á Spáni, var ekki enn búinn að vinna fullnaðarsigur á lýðveldissinnum í spænsku borgarastyrjöldinni og Chiang Kai-shek, leiðtogi Kínverja og maður ársins á undan, hafði þurft að hörfa undan Japönum með her sinn.

Aðrir voru útnefndir í smærri flokkum, til dæmis íþróttamaður ársins, en komust ekki með tærnar þar sem Hitler hafði hælana. Þrátt fyrir að útvarpsmaður ársins 1938, Orson Welles, hefði skotið samlöndum sínum skelk í bringu með frægum flutningi á Innrásinni frá Mars, þótti tímaritinu sú ógn lítil í samaburði við landvinninga Hitlers.

Séu einhverjir í vafa um hug Time til Hitlers má benda á forsíðu tímaritsins sem tileinkuð var útnefningunni (sjá mynd). Á henni er teikning barónsins Rudolph Charles von Ripper, kaþólikka sem hafði fengið sig fullsaddann af Þýskalandi nasismans. Myndin sýnir Hitler leika haturssálm sinn á orgel í vanhelgri dómkirkju á meðan fórnarlömb hans hanga lafandi á pyntingarhjóli og háttsettir embættismenn í nasistaflokknum fylgjast með.

Forsíða Time, 2. janúar 1939.

Time hefur útnefnt mann ársins (í dag persónu ársins) allt frá árinu 1927 þegar flugmaðurinn Charles Lindberg hlaut útnefninguna eftir að hafa flogið einn yfir Atlantshafið fyrstur manna. Bandaríkjaforsetar eru mest áberandi á listanum yfir þá sem Time hefur valið menn ársins en algengt er að þeir hafi hlotið útnefninguna eftir forsetakosningar eða í kjölfar stríðstengdra atburða. Harry S. Truman var valinn maður ársins eftir að hafa ákveðið að varpa kjarnorkusprengjum á Hiroshima og Nagasaki árið 1945; Lyndon B. Johnson (1967) og Richard M. Nixon (1971 og 1972 ásamt Henry Kissinger) fengu útnefningar á meðan Víetnamstríðin stóðu yfir og Bush-feðgar í kjölfar stríða við botn Persaflóa (1990 og 2004). Skilgreindir hópar Bandaríkjamanna hafa sömuleiðis oft hlotið útnefninguna, svo sem millistéttin (1969), vísindamenn (1960), geimfarar (1968), hermenn (1950 og 2003) og amerískar konur sem voru útnefndar árið 1975.

Að öðru leyti hafa fáar konur verið valdar maður ársins. Elísabet II Englandsdrottning (1952), Wallis Simpson, eiginkona Játvarðs VIII, (1936) og Corazon Aquino, fyrrverandi forseti Filippseyja, (1986) hafa hlotið útnefninguna einar og sér. Melinda Gates (2005) og Soong May-ling (1937) voru valdar ásamt eiginmönnum sínum (Melinda sem annar fulltrúi miskunnsama samverjans og May-Ling sem 'eiginkona ársins'). Konunar sem komu upp um Enron-hneyklið voru einnig útnefndar árið 2002. Fleiri konur hafa ekki verið útnefndar. Loks má nefna að útnefningin hefur náð víðar en til einstaklinga og hópa manna. Tölvan hlaut til dæmis útnefningu árið 1982 og hin hætt komna Jörð árið 1988. Síðast en ekki síst hlaust Þú útnefninguna árið 2006.

Heimildir:

Myndir:

...