Sólin Sólin Rís 06:01 • sest 20:57 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 09:34 • Síðdegis: 21:56 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:23 • Síðdegis: 15:33 í Reykjavík

Hver eru helstu einkenni kynþroskaskeiðs?

Þuríður Þorbjarnardóttir

Vísindavefurinn hefur fengið töluvert af spurningum sem tengjast kynþroska á einn eða annan hátt. Til dæmis:
 • Af hverju fær maður hár á kynfærin?
 • Hvers vegna vaxa punghárin?
 • Fara stelpur í mútur?
 • Getur röddin í stelpum breyst?
 • Hvenær fara strákar í mútur?
 • Breytist hárvöxtur á leggjum ungra kvenna við kynþroska?
 • Hvenær hættir fólk að vaxa?


Kynþroski hefur í för með sér ýmsar líkamlegar breytingar sem verða vegna kynhormóna eins og fjallað er um í svari sama höfundar við spurningunni Hvað gerist við kynþroska? Þessar líkamlegu breytingar eru ekki eins hjá kynjunum tveimur, enda undirstrikar kynþroskinn enn frekar mismunandi útlit kvenna og karla. Það eru samt ýmis einkenni kynþroska sem koma bæði fram hjá stelpum og strákum. Þau geta þó verið misáberandi hjá kynjunum. Hér er um að ræða vaxtarkipp, aukna svitamyndun, aukna myndun húðfeiti með hættu á unglingabólum, aukinn hárvöxt og dýpkun raddar.

Í flestum tilvikum verður vaxtarkippur hjá bæði strákum og stelpum af völdum kynhormóna, aðallega testósteróns. Testósterón er karlkynhormón en myndast líka í stelpum, þó í mun minna mæli en í strákum. Vöxturinn kemur bæði fram í aukinni hæð og þyngd, þótt meira beri á lengdarvexti hjá báðum kynjum. Erfðir hafa áhrif á vaxtarlag einstaklings, það er hvort hann verður hávaxinn eða lágvaxinn, grannur eða þrekinn og svo framvegis.Á kynþroskaskeiðinu taka stákar vaxtarkipp þar sem líkaminn lengist allur, axlir og bringa breikkar, og vöðvamassi eykst.

Vaxtarkippur kynþroskaskeiðsins kemur fyrst fram í höndum og fótum, síðan hand- og fótleggjum, og svo hryggnum. Að lokum breikka axlir og bringa hjá strákum, en mjaðmir og mjaðmagrind hjá stelpum. Andlitið breytist einnig hjá báðum kynjum þannig að það verður síður kringlótt og meira sporöskjulaga. Þó er vissulega munur milli kynja, einkum hvað varðar kjálkabreidd.

Að meðaltali er vaxtarkippurinn hraðastur hjá strákum á milli 14 og 15 ára aldurs en á milli 12 og 13 ára hjá stelpum. Honum er lokið í kringum 18 ára aldur hjá stelpum en um tvítugt hjá strákum. Vaxtarkippur stráka er hæggengari og endist lengur en hjá stelpum. Þetta gerir að verkum að karlar eru að meðaltali hærri en konur sem nemur um 10 cm. Hámarksvaxtarhraði hjá strákum nemur um 8,5-12 cm á ári.

Heildarþyngd líkamans má skipta í fitu annars vegar og það sem ekki telst vera fita hins vegar (e. lean body mass), svo sem vöðvamassi. Karlkynhormón í strákum stuðla að auknum vöðvamassa en hann getur orðið tvöfalt meiri á kynþroskaskeiðinu en hann var áður en það hófst. Kvenkynhormón stelpna stuðla hins vegar að fitusöfnun undir húð, einkum á mjöðmum og í brjóstum. Þetta leiðir til þess að fituhlutfall af líkamsþyngd er tvöfalt hærra í konum en körlum. Hinn hlutinn, aðallega vöðvamassi, er þrefalt meiri í körlum en konum. Vaxtarkippur vöðvamassa kemur fram frekar seint, eða um það bil einu ári eftir að meginvaxtarkippurinn á sér stað og getur haldið áfram fram á fullorðinsár.Á kynþroskaskeiðinu fær líkami stelpna ávalari línur en áður þar sem mjaðmir breikka og brjóst stækka.

Aukinn hárvöxtur er meðal fyrstu og jafnframt mest áberandi einkenna kynþroskaskeiðsins. Hárvöxtur stafar af áhrifum karlkynhormónsins testósteróns. Þótt stelpur myndi lítið af því miðað við stráka dugar það til þess að gera þær svolítið loðnari en áður.

Fyrstu merki um aukinn hárvöxt er að hár á hand- og fótleggjum verður meira áberandi, þá sérstaklega hjá strákum. Síðan fer að vaxa hár við kynfæri og í handarkrikum og á það jafnt við um bæði kyn.

Kynfærahár er ólíkt öðru hári. Í stað þess að vera sívalningslaga er hvert hár sporöskjulaga. Það er stutt, gróft og liðað. Vaxtartími hvers kynfærahárs er stuttur eða um hálft ár. Þá deyr hársekkurinn og hárið dettur af.

Ekki er vitað með vissu hvers vegna hár vex við kynfæri og í handarkrikum. Ein kenning gerir ráð fyrir að hárin séu notuð til að auka yfirborðið sem dreifir svita, en í svita má finna efni sem margar dýrategundir nota til að laða að gagnstætt kyn.

Að lokum fer hár að vaxa á bringu og stundum á baki stráka. Einnig tekur skegg að vaxa í andliti þeirra.

Áður en kynþroskaskeiðið hefst er sviti framleiddur í þeim tilgangi að kæla líkamann. Á kynþroskaskeiðinu verða sumir svitakirtlar virkari og breytist efnasamsetning svita þeirra þannig að hann verður þykkari, fitumeiri og gráleitari. Þessi sviti hefur enga sérstaka lykt, að minnsta kosti ekki fyrr en bakteríur á húðinni brjóta hann niður. Þessi gerð af svita myndast eingöngu undir álagi og við kynörvun, og þá aðeins í handarkrikum, nafla, eyrum, nárum og á geirvörtum. Hárin sem eru á mörgum þessara staða auka yfirborðið sem svitinn getur dreifst yfir. Nánar er fjallað um svita og svitamyndun í svari sama höfundar við spurningunni Hvers vegna svitnar maður meira undir höndunum en annars staðar?

Fitukirtlar eru dreifðir um alla húð í þúsundatali. Þeir verða virkari á kynþroskaskeiðinu vegna áhrifa kynhormóna, einkum karlkynhormóna. Venjulega sjá þeir um að halda húð okkar mjúkri með því að seyta olíukenndri húðfeiti. Segja má að þeir verði ofvirkir á unglingsárunum og getur það leitt til myndunar unglingabóla. Unglingabólur stafa því ekki af skorti á hreinlæti eða af slæmu mataræði. Þvert á móti er orsökin olían sem kemur úr húðinni sjálfri og bakteríur sem lokast inni í hársekkjunum sem húðfitan stíflar.

Unglingabólur geta verið mjög miklar og valdið vanlíðan. Góðu fréttirnar eru þó að hægt er að meðhöndla bólur á ýmsa vegu, til dæmis með sýklalyfjum og ýmsum vörum sem innihalda bakteríudrepandi efni. Nánar er fjallað um bólur í svari sama höfundar við spurningunni Af hverju fær fólk bólur?

Karlkynhormón hafa einnig þau áhrif á unglinga að brjóskið í barkakýlinu stækkar og raddböndin lengjast þannig að grunntónn þeirra verður dýpri. Þetta kallast að fara í mútur. Raddbreytingin er meira áberandi hjá strákum en stelpum þar sem rödd þeirra dýpkar mun meir eða um eina áttund hjá strákum á móti einum eða tveimur tónum hjá stelpum. Raddbreytingin getur gerst mjög skyndilega og verið vandræðaleg þegar röddin „gefur sig“ á óþægilegum augnablikum. Mútur verða oftast á þeim tíma kynþroskaskeiðs þegar vöxtur er í hámarki og áður en skeggvöxtur hjá strákum hefst að ráði, eða í kringum 14 til 15 ára aldur.

Hér hefur verið fjallað um nokkur einkenni kynþroskaskeiðs sem koma fram hjá báðum kynjum. Ýmis önnur einkenni fylgja kynþroskanum sem aðeins koma fram hjá öðru kyninu og er fjallað um þau í svörum sama höfundar við spurningunum Hvernig breytist líkami stelpna við kynþroska? og Hvernig breytist líkami stráka við kynþroska?

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Heimildir og myndir:

Höfundur

Útgáfudagur

23.3.2007

Spyrjandi

N.N.

Tilvísun

Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hver eru helstu einkenni kynþroskaskeiðs?“ Vísindavefurinn, 23. mars 2007. Sótt 13. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=6553.

Þuríður Þorbjarnardóttir. (2007, 23. mars). Hver eru helstu einkenni kynþroskaskeiðs? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=6553

Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hver eru helstu einkenni kynþroskaskeiðs?“ Vísindavefurinn. 23. mar. 2007. Vefsíða. 13. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=6553>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver eru helstu einkenni kynþroskaskeiðs?
Vísindavefurinn hefur fengið töluvert af spurningum sem tengjast kynþroska á einn eða annan hátt. Til dæmis:

 • Af hverju fær maður hár á kynfærin?
 • Hvers vegna vaxa punghárin?
 • Fara stelpur í mútur?
 • Getur röddin í stelpum breyst?
 • Hvenær fara strákar í mútur?
 • Breytist hárvöxtur á leggjum ungra kvenna við kynþroska?
 • Hvenær hættir fólk að vaxa?


Kynþroski hefur í för með sér ýmsar líkamlegar breytingar sem verða vegna kynhormóna eins og fjallað er um í svari sama höfundar við spurningunni Hvað gerist við kynþroska? Þessar líkamlegu breytingar eru ekki eins hjá kynjunum tveimur, enda undirstrikar kynþroskinn enn frekar mismunandi útlit kvenna og karla. Það eru samt ýmis einkenni kynþroska sem koma bæði fram hjá stelpum og strákum. Þau geta þó verið misáberandi hjá kynjunum. Hér er um að ræða vaxtarkipp, aukna svitamyndun, aukna myndun húðfeiti með hættu á unglingabólum, aukinn hárvöxt og dýpkun raddar.

Í flestum tilvikum verður vaxtarkippur hjá bæði strákum og stelpum af völdum kynhormóna, aðallega testósteróns. Testósterón er karlkynhormón en myndast líka í stelpum, þó í mun minna mæli en í strákum. Vöxturinn kemur bæði fram í aukinni hæð og þyngd, þótt meira beri á lengdarvexti hjá báðum kynjum. Erfðir hafa áhrif á vaxtarlag einstaklings, það er hvort hann verður hávaxinn eða lágvaxinn, grannur eða þrekinn og svo framvegis.Á kynþroskaskeiðinu taka stákar vaxtarkipp þar sem líkaminn lengist allur, axlir og bringa breikkar, og vöðvamassi eykst.

Vaxtarkippur kynþroskaskeiðsins kemur fyrst fram í höndum og fótum, síðan hand- og fótleggjum, og svo hryggnum. Að lokum breikka axlir og bringa hjá strákum, en mjaðmir og mjaðmagrind hjá stelpum. Andlitið breytist einnig hjá báðum kynjum þannig að það verður síður kringlótt og meira sporöskjulaga. Þó er vissulega munur milli kynja, einkum hvað varðar kjálkabreidd.

Að meðaltali er vaxtarkippurinn hraðastur hjá strákum á milli 14 og 15 ára aldurs en á milli 12 og 13 ára hjá stelpum. Honum er lokið í kringum 18 ára aldur hjá stelpum en um tvítugt hjá strákum. Vaxtarkippur stráka er hæggengari og endist lengur en hjá stelpum. Þetta gerir að verkum að karlar eru að meðaltali hærri en konur sem nemur um 10 cm. Hámarksvaxtarhraði hjá strákum nemur um 8,5-12 cm á ári.

Heildarþyngd líkamans má skipta í fitu annars vegar og það sem ekki telst vera fita hins vegar (e. lean body mass), svo sem vöðvamassi. Karlkynhormón í strákum stuðla að auknum vöðvamassa en hann getur orðið tvöfalt meiri á kynþroskaskeiðinu en hann var áður en það hófst. Kvenkynhormón stelpna stuðla hins vegar að fitusöfnun undir húð, einkum á mjöðmum og í brjóstum. Þetta leiðir til þess að fituhlutfall af líkamsþyngd er tvöfalt hærra í konum en körlum. Hinn hlutinn, aðallega vöðvamassi, er þrefalt meiri í körlum en konum. Vaxtarkippur vöðvamassa kemur fram frekar seint, eða um það bil einu ári eftir að meginvaxtarkippurinn á sér stað og getur haldið áfram fram á fullorðinsár.Á kynþroskaskeiðinu fær líkami stelpna ávalari línur en áður þar sem mjaðmir breikka og brjóst stækka.

Aukinn hárvöxtur er meðal fyrstu og jafnframt mest áberandi einkenna kynþroskaskeiðsins. Hárvöxtur stafar af áhrifum karlkynhormónsins testósteróns. Þótt stelpur myndi lítið af því miðað við stráka dugar það til þess að gera þær svolítið loðnari en áður.

Fyrstu merki um aukinn hárvöxt er að hár á hand- og fótleggjum verður meira áberandi, þá sérstaklega hjá strákum. Síðan fer að vaxa hár við kynfæri og í handarkrikum og á það jafnt við um bæði kyn.

Kynfærahár er ólíkt öðru hári. Í stað þess að vera sívalningslaga er hvert hár sporöskjulaga. Það er stutt, gróft og liðað. Vaxtartími hvers kynfærahárs er stuttur eða um hálft ár. Þá deyr hársekkurinn og hárið dettur af.

Ekki er vitað með vissu hvers vegna hár vex við kynfæri og í handarkrikum. Ein kenning gerir ráð fyrir að hárin séu notuð til að auka yfirborðið sem dreifir svita, en í svita má finna efni sem margar dýrategundir nota til að laða að gagnstætt kyn.

Að lokum fer hár að vaxa á bringu og stundum á baki stráka. Einnig tekur skegg að vaxa í andliti þeirra.

Áður en kynþroskaskeiðið hefst er sviti framleiddur í þeim tilgangi að kæla líkamann. Á kynþroskaskeiðinu verða sumir svitakirtlar virkari og breytist efnasamsetning svita þeirra þannig að hann verður þykkari, fitumeiri og gráleitari. Þessi sviti hefur enga sérstaka lykt, að minnsta kosti ekki fyrr en bakteríur á húðinni brjóta hann niður. Þessi gerð af svita myndast eingöngu undir álagi og við kynörvun, og þá aðeins í handarkrikum, nafla, eyrum, nárum og á geirvörtum. Hárin sem eru á mörgum þessara staða auka yfirborðið sem svitinn getur dreifst yfir. Nánar er fjallað um svita og svitamyndun í svari sama höfundar við spurningunni Hvers vegna svitnar maður meira undir höndunum en annars staðar?

Fitukirtlar eru dreifðir um alla húð í þúsundatali. Þeir verða virkari á kynþroskaskeiðinu vegna áhrifa kynhormóna, einkum karlkynhormóna. Venjulega sjá þeir um að halda húð okkar mjúkri með því að seyta olíukenndri húðfeiti. Segja má að þeir verði ofvirkir á unglingsárunum og getur það leitt til myndunar unglingabóla. Unglingabólur stafa því ekki af skorti á hreinlæti eða af slæmu mataræði. Þvert á móti er orsökin olían sem kemur úr húðinni sjálfri og bakteríur sem lokast inni í hársekkjunum sem húðfitan stíflar.

Unglingabólur geta verið mjög miklar og valdið vanlíðan. Góðu fréttirnar eru þó að hægt er að meðhöndla bólur á ýmsa vegu, til dæmis með sýklalyfjum og ýmsum vörum sem innihalda bakteríudrepandi efni. Nánar er fjallað um bólur í svari sama höfundar við spurningunni Af hverju fær fólk bólur?

Karlkynhormón hafa einnig þau áhrif á unglinga að brjóskið í barkakýlinu stækkar og raddböndin lengjast þannig að grunntónn þeirra verður dýpri. Þetta kallast að fara í mútur. Raddbreytingin er meira áberandi hjá strákum en stelpum þar sem rödd þeirra dýpkar mun meir eða um eina áttund hjá strákum á móti einum eða tveimur tónum hjá stelpum. Raddbreytingin getur gerst mjög skyndilega og verið vandræðaleg þegar röddin „gefur sig“ á óþægilegum augnablikum. Mútur verða oftast á þeim tíma kynþroskaskeiðs þegar vöxtur er í hámarki og áður en skeggvöxtur hjá strákum hefst að ráði, eða í kringum 14 til 15 ára aldur.

Hér hefur verið fjallað um nokkur einkenni kynþroskaskeiðs sem koma fram hjá báðum kynjum. Ýmis önnur einkenni fylgja kynþroskanum sem aðeins koma fram hjá öðru kyninu og er fjallað um þau í svörum sama höfundar við spurningunum Hvernig breytist líkami stelpna við kynþroska? og Hvernig breytist líkami stráka við kynþroska?

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Heimildir og myndir:...