Sólin Sólin Rís 03:40 • sest 23:12 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:00 • Síðdegis: 00:00 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:00 • Síðdegis: 00:00 í Reykjavík

Hverjar eru stærstu jarðir á Íslandi – nú á tímum eða fyrr á öldinni ef nýlegar upplýsingar eru ekki til?

Tryggvi Már Ingvarsson

Þessari spurningu er flókið og illmögulegt að svara af margvíslegum ástæðum. Í fyrsta lagi liggja ekki fyrir heildstæðar upplýsingar um afmörkun jarða til þess að byggja slíkan útreikning á. Í öðru lagi hefur skilgreining og notkun hugtaksins jörð þróast svo mikið á síðastliðinni öld að það er varla hæft til samanburðar. Að síðustu hafa úrskurðir óbyggðanefndar og tilurð þjóðlendna gert það að verkum að þær jarðir sem áður voru taldar afar víðfeðmar eru nú einungis skugginn af því sem áður var, auk þess sem samanburður á milli jarða á svæðum þar sem niðurstaða í þjólendumálum liggur fyrir og annarra, þar sem hann liggur ekki fyrir, yrði ávallt ósanngjarn.

Afmörkun landeigna

Jörð er líkt og lóð og þjóðlenda, viss tegund landeignar. Ólíkt nágrannalöndum okkar hefur uppmæling landeigna ekki tíðkast frá fornu fari. Helst það í hendur við hversu seint Ísland var kortlagt.

Árið 1096-97 voru sett tíundarlög á Íslandi af frumkvæði Gissurar Ísleifssonar, biskups í Skálholti. Þau kváðu á um eignaskatt og því þurfti að skrá allar landeignir á Íslandi og virða til fasteignamats. Raunveruleg stærð landeignanna skipti minna máli en möguleikar til beitar, heyöflunar og hlunninda – enda landgæði afar misjöfn milli jarða. Misræmi var einnig nokkuð á milli jarðamats eftir landshlutum. Með Grágás voru síðar sett lög um landamerki og gerð landamerkjagarða ef ekki væru sýnileg mörk að sjá í landslagi, svo sem vatnsföll eða vatnaskil.

Reykjahlíð í Skútustaðahreppi, ein stærsta jörð á Íslandi en um mörk hennar, og þar með stærð, hefur verið deilt.

Þessi skipan hélst næstu árhundruðin. Ekki var talin þörf að afmarka eða mæla upp landeignir með öðrum hætti en að áætla virði hennar út frá framleiðslu. Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns er því lítils virði til þess að draga ályktanir um stærð jarða þar sem þær kváðu einungis á um virði jarðanna – sumar gátu verið rýrar en landstórar á meðan aðrar gáfu mikið en voru landlitlar.

Um og eftir 1882 gaf Danakonungur út tilskipun um landamerki á Íslandi. Á þessum tíma var verið að breyta því hvernig landeignir voru virtar til mats og því þótti nauðsynlegt að tryggja enn betur afmörkun, fyrir landeigendur, en ekki síst til þess að tryggja viðskipti með landeignir. Enn var aldarfjórðungur í fyrstu kortlagningu landsins þannig að enn og aftur var notast við aldargamla aðferð við afmörkun landeigna, það er gerð landamerkjalýsinga. Í þeim er merkjum landeigna lýst með orðum með því að nota viðmið í garða, vörður og landslag til þess að lýsa afmörkun þeirra.

Þegar svo var loks ráðist í kortlagningu Ísland við upphaf 20. aldarinnar voru eignamörk ekki ofarlega í forgangsröðinni. Fyrstu lögin sem kváðu á um uppmælingu eignamarka voru sett með lögum um uppmælingu lóða Reykjavíkur og Akureyrar en í raun var sambærileg kvöð ekki sett á landeigendur og sveitarfélög fyrr en með setningu skipulags- og byggingalaga árið 1997. Í dag er engin skylda sett á landeigendur að mæla upp landeignir sínar – nema við uppskipti þeirra í tvær eða fleiri landeignir. Þetta gerir það að verkum að enn þann dag í dag eru flestar landeignir óafmarkaðar.

Upp úr aldamótunum 2000 var ráðist í verkefni sem bar heitið Nytjaland. Í því var reynt að draga upp afmörkun sem flestra jarða á Íslandi vegna gæðastýringar í sauðfjárrækt. Fjöldi jarða voru kortlagðar með misnákvæmum hætti, eftir mistraustum heimildum og í fæstum tilfellum gert ráð fyrir þeim spildum sem höfðu verið teknar frá jörðunum. Verkefnið sem slíkt getur því ekki gefið okkur heildstætt yfirlit yfir stærðir jarða á Íslandi.

Jörð er ekki bara jörð

Áður fyrr var jörð rekstrareining. Afmarkaður hluti lands sem talinn var nægjanlega stór til þess að framfleyta fjölskyldu og búaliði með þess tíma búskaparháttum og tækni. Vissulega voru jarðir misjafnar að landgæðum og hlunnindum, sem endurspeglaðist í ríkidæmi, nú eða örbirgð þeirra sem þar bjuggu. Við tæknibyltingu í landbúnaði á tuttugustu öldinni, riðlaðist þetta kerfi nokkuð. Jarðir sem áður voru kostrýrar urðu verðmætari þar sem nú var hægt að ræsta fram mýrar og nýta vatnsorku, á meðan miklar hlunnindajarðar féllu í verði þar sem hlunnindin voru ekki lengur mikils metin eða fjarlægð til næstu þjónustu of löng.

Einingunni jörð var riðlað með því að þeim var skipt upp, stundum vegna þess að minna land þurfti til að fullnægja hverri rekstrareiningu og stundum vegna eftirspurnar eftir sumarhúsalóðum og/eða annarrar starfsemi. Sem dæmi um þetta er landnámsjörðin Öndverðarnes í Grímsnesi. Tvær hjáleigur voru í landi jarðarinnar þegar henni var skipt í Öndverðarnes I og Öndverðarnes II, upp úr 1900. Síðan þá hefur á sjötta hundrað sumarhúslóða verið skipt út úr þessum fjórum einingum (Öndverðarnes I og II, Norðurkot og Suðurkot). Jörðin „Öndverðarnes“ hefur því í dag mjög takmarkaða þýðingu.

Jörðin Öndverðarnes í Grímsnesi. Um miðjan sjötta áratug 20. aldar var stór hluti jarðarinnar seldur í skiptum fyrir einbýli í Reykjavík. Í dag er heildarfasteignamat þeirra eigna sem eru á því svæði sem áður taldist vera innan jarðarinnar metið yfir sjö milljarða, þar af er landmat talið nema rúmum einum og hálfum milljarði. Heildarfasteignamat einbýlishússins í Reykjavík er í dag rétt rúmlega 40 milljónir. Þetta sýnir hvernig verðmætamatið er háð tíðaranda hverju sinni.

Þjóðlenduúrskurðir

Í lögum um þjóðlendur nr. 58/1998 kemur fram að íslenska ríkið sé eigandi lands og hvers konar landsréttinda og hlunninda í þjóðlendum sem ekki eru háð einkaeignarrétti. Til að skera úr um framangreint var sett á laggirnar sérstök nefnd, óbyggðanefnd sem hefur meðal annars það hlutverk að skera úr um hvaða land teljist þjóðlenda og hver séu mörk þeirra og eignarlanda. Nefndin hefur úrskurðað um mörk þessi á stórum hluta landsins og hafa margir þeirra úrskurða verið bornir undir dómstóla og þar með hefur fengist endanleg niðurstaða um mörk eignarlanda og þjóðlendna. Við þetta hafa, eins og þegar hefur komið fram, ýmsar stórar jarðir minnkað talsvert.

Niðurstaða

Af framansögðu er ljóst að það er ekki einfalt að ætla að týna saman stærstu jarðir á íslandi – þegar hugtakið er jafn óljóst, þjóðlendumál ófrágengin og afmörkun þeirra jafn ábótavant. Ofangreindri spurningu verður því ekki svarað að sinni með nokkurri vissu, jafnvel þó gripið sé til eldri heimilda.

Heimildir og myndir:

Höfundur

deildarstjóri landupplýsingadeildar, Þjóðskrá Íslands

Útgáfudagur

15.10.2013

Spyrjandi

Hallgrímur J. Ámundason, Andri Snær Ólafsson

Tilvísun

Tryggvi Már Ingvarsson. „Hverjar eru stærstu jarðir á Íslandi – nú á tímum eða fyrr á öldinni ef nýlegar upplýsingar eru ekki til?“ Vísindavefurinn, 15. október 2013. Sótt 25. maí 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=65910.

Tryggvi Már Ingvarsson. (2013, 15. október). Hverjar eru stærstu jarðir á Íslandi – nú á tímum eða fyrr á öldinni ef nýlegar upplýsingar eru ekki til? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=65910

Tryggvi Már Ingvarsson. „Hverjar eru stærstu jarðir á Íslandi – nú á tímum eða fyrr á öldinni ef nýlegar upplýsingar eru ekki til?“ Vísindavefurinn. 15. okt. 2013. Vefsíða. 25. maí. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=65910>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hverjar eru stærstu jarðir á Íslandi – nú á tímum eða fyrr á öldinni ef nýlegar upplýsingar eru ekki til?
Þessari spurningu er flókið og illmögulegt að svara af margvíslegum ástæðum. Í fyrsta lagi liggja ekki fyrir heildstæðar upplýsingar um afmörkun jarða til þess að byggja slíkan útreikning á. Í öðru lagi hefur skilgreining og notkun hugtaksins jörð þróast svo mikið á síðastliðinni öld að það er varla hæft til samanburðar. Að síðustu hafa úrskurðir óbyggðanefndar og tilurð þjóðlendna gert það að verkum að þær jarðir sem áður voru taldar afar víðfeðmar eru nú einungis skugginn af því sem áður var, auk þess sem samanburður á milli jarða á svæðum þar sem niðurstaða í þjólendumálum liggur fyrir og annarra, þar sem hann liggur ekki fyrir, yrði ávallt ósanngjarn.

Afmörkun landeigna

Jörð er líkt og lóð og þjóðlenda, viss tegund landeignar. Ólíkt nágrannalöndum okkar hefur uppmæling landeigna ekki tíðkast frá fornu fari. Helst það í hendur við hversu seint Ísland var kortlagt.

Árið 1096-97 voru sett tíundarlög á Íslandi af frumkvæði Gissurar Ísleifssonar, biskups í Skálholti. Þau kváðu á um eignaskatt og því þurfti að skrá allar landeignir á Íslandi og virða til fasteignamats. Raunveruleg stærð landeignanna skipti minna máli en möguleikar til beitar, heyöflunar og hlunninda – enda landgæði afar misjöfn milli jarða. Misræmi var einnig nokkuð á milli jarðamats eftir landshlutum. Með Grágás voru síðar sett lög um landamerki og gerð landamerkjagarða ef ekki væru sýnileg mörk að sjá í landslagi, svo sem vatnsföll eða vatnaskil.

Reykjahlíð í Skútustaðahreppi, ein stærsta jörð á Íslandi en um mörk hennar, og þar með stærð, hefur verið deilt.

Þessi skipan hélst næstu árhundruðin. Ekki var talin þörf að afmarka eða mæla upp landeignir með öðrum hætti en að áætla virði hennar út frá framleiðslu. Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns er því lítils virði til þess að draga ályktanir um stærð jarða þar sem þær kváðu einungis á um virði jarðanna – sumar gátu verið rýrar en landstórar á meðan aðrar gáfu mikið en voru landlitlar.

Um og eftir 1882 gaf Danakonungur út tilskipun um landamerki á Íslandi. Á þessum tíma var verið að breyta því hvernig landeignir voru virtar til mats og því þótti nauðsynlegt að tryggja enn betur afmörkun, fyrir landeigendur, en ekki síst til þess að tryggja viðskipti með landeignir. Enn var aldarfjórðungur í fyrstu kortlagningu landsins þannig að enn og aftur var notast við aldargamla aðferð við afmörkun landeigna, það er gerð landamerkjalýsinga. Í þeim er merkjum landeigna lýst með orðum með því að nota viðmið í garða, vörður og landslag til þess að lýsa afmörkun þeirra.

Þegar svo var loks ráðist í kortlagningu Ísland við upphaf 20. aldarinnar voru eignamörk ekki ofarlega í forgangsröðinni. Fyrstu lögin sem kváðu á um uppmælingu eignamarka voru sett með lögum um uppmælingu lóða Reykjavíkur og Akureyrar en í raun var sambærileg kvöð ekki sett á landeigendur og sveitarfélög fyrr en með setningu skipulags- og byggingalaga árið 1997. Í dag er engin skylda sett á landeigendur að mæla upp landeignir sínar – nema við uppskipti þeirra í tvær eða fleiri landeignir. Þetta gerir það að verkum að enn þann dag í dag eru flestar landeignir óafmarkaðar.

Upp úr aldamótunum 2000 var ráðist í verkefni sem bar heitið Nytjaland. Í því var reynt að draga upp afmörkun sem flestra jarða á Íslandi vegna gæðastýringar í sauðfjárrækt. Fjöldi jarða voru kortlagðar með misnákvæmum hætti, eftir mistraustum heimildum og í fæstum tilfellum gert ráð fyrir þeim spildum sem höfðu verið teknar frá jörðunum. Verkefnið sem slíkt getur því ekki gefið okkur heildstætt yfirlit yfir stærðir jarða á Íslandi.

Jörð er ekki bara jörð

Áður fyrr var jörð rekstrareining. Afmarkaður hluti lands sem talinn var nægjanlega stór til þess að framfleyta fjölskyldu og búaliði með þess tíma búskaparháttum og tækni. Vissulega voru jarðir misjafnar að landgæðum og hlunnindum, sem endurspeglaðist í ríkidæmi, nú eða örbirgð þeirra sem þar bjuggu. Við tæknibyltingu í landbúnaði á tuttugustu öldinni, riðlaðist þetta kerfi nokkuð. Jarðir sem áður voru kostrýrar urðu verðmætari þar sem nú var hægt að ræsta fram mýrar og nýta vatnsorku, á meðan miklar hlunnindajarðar féllu í verði þar sem hlunnindin voru ekki lengur mikils metin eða fjarlægð til næstu þjónustu of löng.

Einingunni jörð var riðlað með því að þeim var skipt upp, stundum vegna þess að minna land þurfti til að fullnægja hverri rekstrareiningu og stundum vegna eftirspurnar eftir sumarhúsalóðum og/eða annarrar starfsemi. Sem dæmi um þetta er landnámsjörðin Öndverðarnes í Grímsnesi. Tvær hjáleigur voru í landi jarðarinnar þegar henni var skipt í Öndverðarnes I og Öndverðarnes II, upp úr 1900. Síðan þá hefur á sjötta hundrað sumarhúslóða verið skipt út úr þessum fjórum einingum (Öndverðarnes I og II, Norðurkot og Suðurkot). Jörðin „Öndverðarnes“ hefur því í dag mjög takmarkaða þýðingu.

Jörðin Öndverðarnes í Grímsnesi. Um miðjan sjötta áratug 20. aldar var stór hluti jarðarinnar seldur í skiptum fyrir einbýli í Reykjavík. Í dag er heildarfasteignamat þeirra eigna sem eru á því svæði sem áður taldist vera innan jarðarinnar metið yfir sjö milljarða, þar af er landmat talið nema rúmum einum og hálfum milljarði. Heildarfasteignamat einbýlishússins í Reykjavík er í dag rétt rúmlega 40 milljónir. Þetta sýnir hvernig verðmætamatið er háð tíðaranda hverju sinni.

Þjóðlenduúrskurðir

Í lögum um þjóðlendur nr. 58/1998 kemur fram að íslenska ríkið sé eigandi lands og hvers konar landsréttinda og hlunninda í þjóðlendum sem ekki eru háð einkaeignarrétti. Til að skera úr um framangreint var sett á laggirnar sérstök nefnd, óbyggðanefnd sem hefur meðal annars það hlutverk að skera úr um hvaða land teljist þjóðlenda og hver séu mörk þeirra og eignarlanda. Nefndin hefur úrskurðað um mörk þessi á stórum hluta landsins og hafa margir þeirra úrskurða verið bornir undir dómstóla og þar með hefur fengist endanleg niðurstaða um mörk eignarlanda og þjóðlendna. Við þetta hafa, eins og þegar hefur komið fram, ýmsar stórar jarðir minnkað talsvert.

Niðurstaða

Af framansögðu er ljóst að það er ekki einfalt að ætla að týna saman stærstu jarðir á íslandi – þegar hugtakið er jafn óljóst, þjóðlendumál ófrágengin og afmörkun þeirra jafn ábótavant. Ofangreindri spurningu verður því ekki svarað að sinni með nokkurri vissu, jafnvel þó gripið sé til eldri heimilda.

Heimildir og myndir:

...