Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Stærðfræðingurinn Ada King, greifynjan af Lovelace (1815-1852), er jafnan talin vera fyrsti forritari sögunnar. Eftir andlát hennar var lítið fjallað um hana lengi vel en það hefur breyst á undanförnum áratugum.
Augusta Ada Byron, síðar Lovelace, fæddist 10. desember 1815 í Piccadilly Terrace, nú í London. Foreldrar hennar voru stærðfræðingurinn Anne Isabella Noel Byron og skáldið George Gordon Byron, þekktur sem Byron lávarður, en hann var með fremstu skálda rómantíska tímabilsins í Evrópu.
Byron-hjónin, foreldrar Ödu Lovelace.
Foreldrar Lovelace áttu í afar stormasömu sambandi og slitu samvistum þegar dóttir þeirra var aðeins tveggja mánaða gömul. Lovelace sá föður sinn aldrei aftur en hann var engu að síður mikill áhrifavaldur í lífi hennar. Lafði Byron var af vel efnuðum ættum og hafði hlotið góða menntun, meðal annars í stærðfræði, sem var harla óvenjulegt fyrir konur á þeim tíma. Hún lagði mikið upp úr því að veita dóttur sinni sambærilega menntun í stærðfræði og að efla með henni rökhugsun, í stað þess að rækta sköpun, listhneigð og annað sem hún tengdi við föður hennar ljóðskáldið. Hún reyndi þannig að koma í veg fyrir að Ada myndi líkjast föður sínum, en lafði Byron taldi hann vera andlega veikan. Lovelace fékk fyrirtaksmenntun, meðal annars frá stærðfræðingnum Augustus De Morgan, sem síðar varð fyrstur prófessor í stærðfræði við Háskólann í London. Árið 1835 giftist hún William King, greifanum af Lovelace, og fékk þar með titilinn greifynjan af Lovelace.
Vatnslitamálverk af Lovelace frá því um 1840.
Lovelace kynntist stærðfræðingnum og uppfinningamanninum Charles Babbage árið 1833, þá rétt um 18 ára gömul. Hún heillaðist fljótt af vél sem hann hafði fundið upp, svokallaðri greiningarvél (e. analytical engine), sem var eins konar einföld útgáfa af tölvu. Lovelace og Babbage kom vel saman og hófu samstarf sín á milli. Viðbætur Lovelace við grein ítalska stærðfræðingsins Luigi Menabrea um greiningarvél Babbage sýndu hvernig hægt væri að forrita vélina til þess að reikna út svokallaðar Bernoulli-tölur, nefndar í höfuðið á stærðfræðingnum Jacob Bernoulli. Lovelace áttaði sig þannig á möguleikunum sem fólust í greiningarvélinni. Viðbætur hennar við grein Menabrea frá árinu 1843 eru taldar innihalda fyrsta reikniritið (e. algorithm) fyrir vél, og Lovelace því fyrsti forritarinn.
Hluti af viðbætum Lovelace við grein Menabrea frá árinu 1853.
Þessar byltingarkenndu hugmyndir Lovelace urðu þó aldrei að veruleika, þar sem greiningarvél Babbage var aldrei smíðuð. Skiptar skoðanir fræðimanna eru á því hvert framlag Lovelace var til vísindanna, og hefur verið bent á að Babbage hafi ritað uppdrátt að forriti áður en samstarf þeirra Lovelace hófst. Flestir fræðimenn hafa þó sammælst um að forrit Lovelace hafi verið fágaðra og ítarlegra en forrit Babbage, og að hún hafi verið fyrst til að átta sig á möguleikunum sem greiningarvélin hafði uppá að bjóða, umfram það að virka sem einföld reiknivél. Hún gerði sér þannig í hugarlund tilvist nútímatölvunnar, meira en 100 árum áður en hún varð að veruleika. Þessa skapandi nálgun kallaði Lovelace „poetic science,“ eða „ljóðræn vísindi.“
Ada Lovelace lést úr leghálskrabbameini árið 1852 aðeins 36 ára gömul, og var jarðsett við hlið föður síns að eigin ósk. Forritunarmálið Ada heitir í höfuðið á henni, og annar þriðjudagur októbermánaðar hefur verið tileinkaður Lovelace, en þá er framlags kvenna til vísindanna minnst.
Heimildir
Ada Lovelace. Encyclopedia Britannica. (Sótt 15. júlí 2021.)
National Portrait Gallery. Annabella Byron (1792-1860). Málverk eftir Charles Hayter. Myndin er fengin af Wikimedia Commons. (Sótt 15. júlí 2021.)
National Portrait Gallery. George Gordon Byron, 6th Baron Byron. Málverk eftir Richard Westall. Myndin er fengin af Wikimedia Commons. (Sótt 15. júlí 2021.)
Science Museum Group. Ada Lovelace Portrait. Myndin er líklega eftir Alfred Edward Chalon og er fengin af Wikimedia Commons. (Sótt 8. júlí 2021.)
Höfundur þakkar Hörn Halldórudóttur Heiðarsdóttur B.Sc. í iðnaðar- og hugbúnaðarverkfræði fyrir yfirlestur.
Nanna Kristjánsdóttir. „Hver var Ada Lovelace?“ Vísindavefurinn, 10. september 2021, sótt 14. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=66240.
Nanna Kristjánsdóttir. (2021, 10. september). Hver var Ada Lovelace? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=66240
Nanna Kristjánsdóttir. „Hver var Ada Lovelace?“ Vísindavefurinn. 10. sep. 2021. Vefsíða. 14. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=66240>.