Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hvenær var íslenska stafrófinu breytt úr: (a, á) b c (d, ð) (e, é) f g h (i, í) j k l m n (o, ó) p q r s t (u, ú) (v, w) x (y, ý) z x þ æ ö -- yfir í: a, á, b, c, d, ð, e, é, f, g, h, i, í, j, k, l, m, n, o, ó, p, q, r, s, t, u, ú, v, w, x, y, ý, z, þ, æ, ö. Ég er með íslenska orðabók frá 1989 (íslensk - íslensk) þar sem fyrri stafrófsröðin er notuð.
Í íslenskum orðabókum á 20. öld þekktist bæði sú aðferð að raða a og á ellegar o og ó og svo framvegis saman (eins og um einn og sama bókstaf væri að ræða í þessum tilvikum) og sú leið að raða stöfunum sérstaklega þannig að a væri haft sér og á væri haft sér, o væri haft sér og ó væri haft sér og svo framvegis. Fyrri aðferðin er nefnd samröðun en hitt er kallað sérröðun.
Sérröðun ruddi sér sífellt meira til rúms þegar leið á öldina enda má kalla hana rökréttari og eðlilegri miðað við íslenskan framburð og íslenska stafrófið, samanber einnig þær stafsetningarreglur og stafsetningarorðabækur sem komið hafa út eftir að stjórnvöld hófu bein afskipti af stafsetningarmálum árið 1929.
Sérröðun ruddi sér sífellt meira til rúms þegar leið á 20. öldina enda má kalla hana rökréttari og eðlilegri miðað við íslenskan framburð og íslenska stafrófið.
Helstu þætti þessarar sögu má ráða af eftirfarandi samantekt.
Íslensk-dönsk orðabók Sigfúsar Blöndals kom út 1920-1924. Þar er ekki gerður greinarmunur á a og á, i og í og svo framvegis við röðun orða í bókinni heldur er orðum með þessum bókstöfum samraðað. Reyndar greindi orðabók Blöndals ekki heldur á milli i og y, né á milli í og ý að þessu leyti. Fyrir vikið eru til dæmis orð á sömu síðunni í þeirri orðabók sem hefjast á fjórum mismunandi bókstöfum, til dæmis birtast orðin ilskór, ylsæll, ýlukjói og ílöngun öll í sama dálkinum í bókinni.
Íslenzk orðabók (ritstj. Árni Böðvarsson) kom fyrst út árið 1963 en við gerð hennar var farið mjög eftir orðabók Blöndals. Fylgt var samröðunaraðferð eins og í Blöndalsorðabók. Stöfunum a og á, i og í og svo framvegis var því samraðað í Íslenzkri orðabók 1963. Önnur útgáfa orðabókarinnar kom út 1983 án þess að röðunaraðferðinni væri breytt. Þessi útgáfa var prentuð tólf sinnum, allt fram til ársins 2000.
Við þriðju útgáfu orðabókarinnar (ritstj. Mörður Árnason) árið 2002 var loks horfið frá samröðun og tekin upp sérröðun; orðum með a raðað sérstaklega, orðum með á sérstaklega og svo framvegis. Íslensk orðabók var þar með komin með sérröðun – eins og raunar hafði tíðkast í opinberum stafsetningarorðabókum allt frá 1930 eins og nú verður sagt frá.
Fyrsta auglýsingin frá íslenskum stjórnvöldum um íslenska stafsetningu var gefin út 1929. Í reglunum segir meðal annars að ríkisstjórnin muni sjá um að gerð verði stafsetningarorðabók. Það kom í hlut Freysteins Gunnarssonar að semja hana og kom hún út 1930 (Stafsetningarorðabók. Samið hefur Freysteinn Gunnarsson. Prentsmiðja Odds Björnssonar, Akureyri). Í stafsetningarorðabók Freysteins eru orð sem hefjast á a í sérkafla, þá koma orð með upphafsstafinn á í sérkafla; einnig eru í sérstökum kafla þau sem byrja á y, sama máli gegndi um orð með upphafsstafinn ý og svo framvegis. Sérröðun er síðan einnig viðhöfð í stafsetningarorðabókum sem gefnar voru út síðar á öldinni, samanber Stafsetningarorðabók eftir Árna Þórðarson og Gunnar Guðmundsson sem Ríkisútgáfa námsbóka gaf út 1957. Stjórnvöld gáfu út nýja auglýsingu um stafsetningu árið 1974 og fól menntamálaráðherra þá Halldóri Halldórssyni að semja bók um íslenska stafsetningu til að fylgja nýju reglunum eftir. Í bók Halldórs, Íslenskri réttritun (útg. Ríkisútgáfa námsbóka), er orðaskrá til glöggvunar og þar er notuð sérröðun líkt og gert var í stafsetningarorðabók Freysteins 1930 og fleiri hliðstæðum bókum. Sérröðun er einnig viðhöfð í Réttritunarorðabók handa grunnskólum eftir Baldur Jónsson sem Íslensk málnefnd gaf út 1989 og í Stafsetningarorðabókinni eftir Dóru Hafsteinsdóttur sem Íslensk málnefnd gaf út 2006.
Árið 2004 gekk í gildi staðall um íslenskar kröfur í upplýsingatækni, ÍST 130:2004, og þar eru skýr fyrirmæli um röðun íslenskra bókstafa, þar á meðal stafanna c, q, w og z (sem staðallinn skilgreinir raunar sem viðauka við íslenskt nútímastafróf). Röðin er þessi:
a, á, b, c, d, ð, e, é, f, g, h, i, í, j, k, l, m, n, o, ó, p, q, r, s, t, u, ú, v, w, x, y, ý, z, þ, æ, ö.
Ari Páll Kristinsson. „Hvenær var íslenska stafrófinu breytt?“ Vísindavefurinn, 2. apríl 2014, sótt 7. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=66906.
Ari Páll Kristinsson. (2014, 2. apríl). Hvenær var íslenska stafrófinu breytt? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=66906
Ari Páll Kristinsson. „Hvenær var íslenska stafrófinu breytt?“ Vísindavefurinn. 2. apr. 2014. Vefsíða. 7. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=66906>.