Sólin Sólin Rís 05:00 • sest 22:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:36 • Síðdegis: 16:19 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:54 • Síðdegis: 22:45 í Reykjavík

Hvenær var konum leyft að spila fótbolta?

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir

Á Vesturlöndum hefur konum ekki beinlínis verið bannað að spila fótbolta en á síðustu öld var þeim lengi vel gert það mjög erfitt fyrir.

Eins og fram kemur í svari Unnars Árnasonar við spurningunni Hver fann upp fótboltann? hefur einhvers konar leikur tveggja liða sem gengur út á að koma knetti í mark verið þekktur í þúsundir ára. Karlar einokuðu ekki leikinn, til dæmis er vitað að seint á 18. öld var árlega spilaður kvennaleikur í Skotlandi þar sem við áttust lið giftra og ógiftra kvenna. Á seinni hluta 19. aldar voru leikreglur markvisst samræmdar og þá fyrst varð fótbolti að skipulagðri íþrótt. Þetta átti sér stað á Englandi og þar eru hinar eiginlegu rætur nútíma fótbolta. Á síðasta áratug 19. aldar komu kvennalið í knattspyrnu fram á sjónarsviðið, fyrsti kvennaleikurinn sem er skráður hjá skoska knattspyrnusambandinu fór fram árið 1892 og fyrsti formlegi kvennaleikurinn á Englandi var 1895 þegar lið úr Norður- og Suður-London áttust við.

British Ladies' Football Club var eitt fyrsta kvennafótboltafélagið, stofnað árið 1894. Fyrsti opinberi leikur þess var í mars 1895 þegar tvö lið félagsins, annars vegar stúlkur úr Norður-London og hins vegar úr Suður-London áttust við fyrir framan um 11.000 áhorfendur. Norður-stúlkurnar sem sjást á þessari mynd unnu 7-0.

Þótt konur væru farnar að spila skipulagðan fótbolta undir lok 19. aldar þótti íþróttin ekki sérlega kvenleg og náði alls ekki sömu útbreiðslu og vinsældum og fótbolti karlmanna. En blómaskeið var rétt handan við hornið. Þegar breskir karlar voru kallaðir til herþjónustu í fyrri heimsstyrjöldinni þurftu konur að fylla ýmis skörð á vinnumarkaði, til dæmis í verksmiðjum. Rétt eins og karlar höfðu gjarnan nýtt kaffipásur og matartíma til þess að spila fótbolta spruttu nú upp kvennalið á ýmsum vinnustöðum og varla var sú hergagnaverksmiðja í Bretlandi sem ekki hafði sitt eigið fótboltalið. Kvennaliðin spiluðu í þágu góðra málefna og góðgerðarleikir þeirra drógu að sér fjölda áhorfenda. Talið er að um 1920 hafi verið um 150 kvennalið á Englandi, fyrir utan lið í Skotlandi og Wales.

Frægasta kvennalið þessa tíma var stofnað af starfskonum fyrirtækisins Dick, Kerr & Co í Preston og markmikð þess var að safna peningum fyrir særða hermenn sem voru til meðferðar á herspítala í bænum. Á jóladag 1917 fylgdust 10.000 áhorfendur með Dick, Kerr-stúlkunum vinna andstæðinga sína frá Arundel Coulthard-verksmiðjunni 4-0 og um leið tókst að safna 600 pundum fyrir særða hermenn (á verðlagi 2017 eru þetta næstum 50.000 pund eða tæpar sjö milljónir króna). Þetta var byrjunin á mikilli sigurgöngu liðsins sem meðal annars spilaði gegn liði frá París, en sá leikur er talinn fyrsti fótboltaleikur kvennaliða á milli landa. Hápunktinum var sjálfsagt náð á annan dag jóla 1920 þegar 53.000 áhorfendur fylgdust með Dick, Kerr-stúlkunum vinna St. Helen-stúlkurnar á Goodison Park í Liverpool 4-0. Yfir 10.000 áhorfendur þurftu frá að hverfa þar sem völlurinn tók ekki fleiri. Þetta er áhorfendamet á leik tveggja breskra kvennaliða og hefur enn ekki verið slegið.

Dick, Kerr-stúlkurnar frá Preston voru stórveldi í kvennaknattspyrnu snemma á 20. öldinni. Mörg þúsund áhorfendur mættu á leiki þeirra og ekkert lið safnaði eins miklu fé til góðgerðarmála.

Uppgangur kvennafótboltans á Bretlandi fékk þó snöggan endi því í desember 1921 lagði enska knattspyrnusambandið bann við því að konur spiluðu á völlum þeirra liða sem tilheyrðu sambandinu eða fengju dómara frá þessum liðum. Þessi gjörningur kippti í raun fótunum undan kvennaboltanum, konur máttu iðka fótbolta en höfðu ekki lengur almennilega velli til að spila og ekki aðstöðu fyrir áhorfendur. Bannið byggði meðal annars á þeirri skoðun að fótbolti væri ekki við hæfi kvenna og því ætti ekki að hvetja konur til að stunda íþróttina.

Því hefur verið haldið fram að knattspyrnusambandið hafi í raun aðeins umborið kvennaboltann á stríðsárunum af því að þá var lægð í karlaboltanum og eins af því að góðgerðarleikir kvennanna voru mikilvægur þáttur í fjáröflun fyrir særða hermenn. Þegar karlarnir snéru aftur mátti ekki eiga á hættu að konurnar skyggðu á þá og því var gripið til þessa ráðs. Konur héldu áfram að spila fótbolta en leikurinn náði ekki sömu hæðum og áður. Bannið stóð í um hálfa öld og því var ekki aflétt fyrr en snemma á 8. áratug síðustu aldar.

Eftir að banninu var aflétt fór kvennaknattspyrna aftur að sækja í sig veðrið á Bretlandseyjum. Á svipuðum tíma jókst áhugi á knattspyrnuiðkun kvenna annars staðar í Evrópu. Hægt og bítandi hefur það fengist viðurkennt að konur eigi fullt erindi inn á fótboltavelli þótt enn sé langt í land að þær búi við sömu aðstæður og karlar.

Þau sem vilja kynna sér nánar sögu kvennaknattspyrnunnar, bæði í Evrópu og á Íslandi, er bent á BS-ritgerð Bylgju Eybjargar Arnarsdóttur, Kvennaknattspyrna í Evrópu: Þróun og saga auk annarra heimilda hér fyrir neðan.

Heimildir og myndir:

Höfundur

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir

landfræðingur og starfsmaður Vísindavefsins

Útgáfudagur

31.8.2018

Spyrjandi

Guðrún Katrín Steinarsdóttir

Tilvísun

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hvenær var konum leyft að spila fótbolta?“ Vísindavefurinn, 31. ágúst 2018. Sótt 9. ágúst 2022. http://visindavefur.is/svar.php?id=67520.

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. (2018, 31. ágúst). Hvenær var konum leyft að spila fótbolta? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=67520

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hvenær var konum leyft að spila fótbolta?“ Vísindavefurinn. 31. ágú. 2018. Vefsíða. 9. ágú. 2022. <http://visindavefur.is/svar.php?id=67520>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvenær var konum leyft að spila fótbolta?
Á Vesturlöndum hefur konum ekki beinlínis verið bannað að spila fótbolta en á síðustu öld var þeim lengi vel gert það mjög erfitt fyrir.

Eins og fram kemur í svari Unnars Árnasonar við spurningunni Hver fann upp fótboltann? hefur einhvers konar leikur tveggja liða sem gengur út á að koma knetti í mark verið þekktur í þúsundir ára. Karlar einokuðu ekki leikinn, til dæmis er vitað að seint á 18. öld var árlega spilaður kvennaleikur í Skotlandi þar sem við áttust lið giftra og ógiftra kvenna. Á seinni hluta 19. aldar voru leikreglur markvisst samræmdar og þá fyrst varð fótbolti að skipulagðri íþrótt. Þetta átti sér stað á Englandi og þar eru hinar eiginlegu rætur nútíma fótbolta. Á síðasta áratug 19. aldar komu kvennalið í knattspyrnu fram á sjónarsviðið, fyrsti kvennaleikurinn sem er skráður hjá skoska knattspyrnusambandinu fór fram árið 1892 og fyrsti formlegi kvennaleikurinn á Englandi var 1895 þegar lið úr Norður- og Suður-London áttust við.

British Ladies' Football Club var eitt fyrsta kvennafótboltafélagið, stofnað árið 1894. Fyrsti opinberi leikur þess var í mars 1895 þegar tvö lið félagsins, annars vegar stúlkur úr Norður-London og hins vegar úr Suður-London áttust við fyrir framan um 11.000 áhorfendur. Norður-stúlkurnar sem sjást á þessari mynd unnu 7-0.

Þótt konur væru farnar að spila skipulagðan fótbolta undir lok 19. aldar þótti íþróttin ekki sérlega kvenleg og náði alls ekki sömu útbreiðslu og vinsældum og fótbolti karlmanna. En blómaskeið var rétt handan við hornið. Þegar breskir karlar voru kallaðir til herþjónustu í fyrri heimsstyrjöldinni þurftu konur að fylla ýmis skörð á vinnumarkaði, til dæmis í verksmiðjum. Rétt eins og karlar höfðu gjarnan nýtt kaffipásur og matartíma til þess að spila fótbolta spruttu nú upp kvennalið á ýmsum vinnustöðum og varla var sú hergagnaverksmiðja í Bretlandi sem ekki hafði sitt eigið fótboltalið. Kvennaliðin spiluðu í þágu góðra málefna og góðgerðarleikir þeirra drógu að sér fjölda áhorfenda. Talið er að um 1920 hafi verið um 150 kvennalið á Englandi, fyrir utan lið í Skotlandi og Wales.

Frægasta kvennalið þessa tíma var stofnað af starfskonum fyrirtækisins Dick, Kerr & Co í Preston og markmikð þess var að safna peningum fyrir særða hermenn sem voru til meðferðar á herspítala í bænum. Á jóladag 1917 fylgdust 10.000 áhorfendur með Dick, Kerr-stúlkunum vinna andstæðinga sína frá Arundel Coulthard-verksmiðjunni 4-0 og um leið tókst að safna 600 pundum fyrir særða hermenn (á verðlagi 2017 eru þetta næstum 50.000 pund eða tæpar sjö milljónir króna). Þetta var byrjunin á mikilli sigurgöngu liðsins sem meðal annars spilaði gegn liði frá París, en sá leikur er talinn fyrsti fótboltaleikur kvennaliða á milli landa. Hápunktinum var sjálfsagt náð á annan dag jóla 1920 þegar 53.000 áhorfendur fylgdust með Dick, Kerr-stúlkunum vinna St. Helen-stúlkurnar á Goodison Park í Liverpool 4-0. Yfir 10.000 áhorfendur þurftu frá að hverfa þar sem völlurinn tók ekki fleiri. Þetta er áhorfendamet á leik tveggja breskra kvennaliða og hefur enn ekki verið slegið.

Dick, Kerr-stúlkurnar frá Preston voru stórveldi í kvennaknattspyrnu snemma á 20. öldinni. Mörg þúsund áhorfendur mættu á leiki þeirra og ekkert lið safnaði eins miklu fé til góðgerðarmála.

Uppgangur kvennafótboltans á Bretlandi fékk þó snöggan endi því í desember 1921 lagði enska knattspyrnusambandið bann við því að konur spiluðu á völlum þeirra liða sem tilheyrðu sambandinu eða fengju dómara frá þessum liðum. Þessi gjörningur kippti í raun fótunum undan kvennaboltanum, konur máttu iðka fótbolta en höfðu ekki lengur almennilega velli til að spila og ekki aðstöðu fyrir áhorfendur. Bannið byggði meðal annars á þeirri skoðun að fótbolti væri ekki við hæfi kvenna og því ætti ekki að hvetja konur til að stunda íþróttina.

Því hefur verið haldið fram að knattspyrnusambandið hafi í raun aðeins umborið kvennaboltann á stríðsárunum af því að þá var lægð í karlaboltanum og eins af því að góðgerðarleikir kvennanna voru mikilvægur þáttur í fjáröflun fyrir særða hermenn. Þegar karlarnir snéru aftur mátti ekki eiga á hættu að konurnar skyggðu á þá og því var gripið til þessa ráðs. Konur héldu áfram að spila fótbolta en leikurinn náði ekki sömu hæðum og áður. Bannið stóð í um hálfa öld og því var ekki aflétt fyrr en snemma á 8. áratug síðustu aldar.

Eftir að banninu var aflétt fór kvennaknattspyrna aftur að sækja í sig veðrið á Bretlandseyjum. Á svipuðum tíma jókst áhugi á knattspyrnuiðkun kvenna annars staðar í Evrópu. Hægt og bítandi hefur það fengist viðurkennt að konur eigi fullt erindi inn á fótboltavelli þótt enn sé langt í land að þær búi við sömu aðstæður og karlar.

Þau sem vilja kynna sér nánar sögu kvennaknattspyrnunnar, bæði í Evrópu og á Íslandi, er bent á BS-ritgerð Bylgju Eybjargar Arnarsdóttur, Kvennaknattspyrna í Evrópu: Þróun og saga auk annarra heimilda hér fyrir neðan.

Heimildir og myndir:

...