Hér kemur í viðhengi tafla með úrkomu í Reykjavík 17. og 18. júní frá 1944 til 2014. Úrkoman er mæld 2x á sólarhring, kl. 9 og 18, og sú úrkoma sem mæld er kl. 18 reiknast með sólarhringsúrkomunni daginn eftir. Þess vegna sendi ég þér báða dagana.Skulu nú til fróðleiks nokkrir flokkar taldir. Níu ár kom ekki dropi úr lofti 17. júní. Það var á árunum 1950, 1951, 1952, 1958, 1971, 1982, 1986, 1991 og 2005. Átta ár gátu státað af hér um bil þurrum þjóðhátíðardegi, árin 1948, 1953, 1957, 1961, 1962, 1963, 1973 og 1981. Þurru árin dreifast yfirleitt á allt 70 ára tímabilið og engin regla sýnileg önnur en sú að 17. júní hefur reynst frekar vætusamur um dagana. Það bregður þó út af þessu á árunum 1948-1954, að undanteknu árinu 1949, þegar höfuðstaðarbúar hafa getað notið þurrviðris 17. júní allmörg ár í röð! Þá eru ótalin 53 ár þar sem einhver úrkoma mældist, stundum aðeins vottur, stundum talsverð og sum árin mikil eins og búast má við. Eftirtalin 10 ár rigndi mest í Reykjavík, raðað eftir úrkomumagni: 2014, 1988, 2000, 2006, 1984, 1979, 1945, 1995, 2001 og 1969. Greina má breytingu á tímabilinu: átta hinna tilgreindu ára eru frá síðara helmingi 70 ára lýðveldisskeiðsins. Niðurstaðan er því sú að líklegt sé að þörf verði á hlífðarfötum, regngallanum eða regnhlífinni þegar sungið verður næst „það er kominn 17. júní“! Mynd:
Útgáfudagur
20.11.2014
Síðast uppfært
6.5.2019
Spyrjandi
Sigurður Bergmann Svavarsson
Tilvísun
Þór Jakobsson. „Hversu oft hefur rignt á þjóðhátíðardaginn í Reykjavík síðastliðin 70 ár?“ Vísindavefurinn, 20. nóvember 2014, sótt 14. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=67684.
Þór Jakobsson. (2014, 20. nóvember). Hversu oft hefur rignt á þjóðhátíðardaginn í Reykjavík síðastliðin 70 ár? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=67684
Þór Jakobsson. „Hversu oft hefur rignt á þjóðhátíðardaginn í Reykjavík síðastliðin 70 ár?“ Vísindavefurinn. 20. nóv. 2014. Vefsíða. 14. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=67684>.