Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Hvenær var byrjað að halda 17. júní hátíðlegan?

Nanna Kristjánsdóttir

Í heild sinni hljóðaði spurningin svona:

Hvenær var byrjað að halda 17. júní hátíðlegan? Ef það er í fyrsta skipti 1944 á lýðveldishátíðinni var þá einhver fyrirrennari? 1. des er vissulega fullveldisdagurinn en var heimastjórninni fagnað á ákveðnum degi á hverju ári um tíma og ef við förum enn aftar í söguna; var einhverntímann haldið upp á konungsafmæli eða slíkt?

Þjóðhátíðardagur Íslendinga, 17. júní, er haldinn hátíðlegur ár hvert til þess að fagna lýðveldisstofnun hér á landi árið 1944. Fyrir þann tíma skipaði dagurinn þó einnig sess í hjörtum landsmanna, því að 17. júní var fæðingardagur Jóns Sigurðssonar (1811-1879), helstu sjálfstæðishetju Íslands. Dagurinn var valinn sem þjóðhátíðardagur til þess að heiðra framlag hans til baráttu Íslendinga fyrir sjálfstæði frá Dönum.

Nýstúdentar bera blómsveig á leiði Jóns Sigurðssonar, 17. júní 2020.

17. júní var í fyrsta skipti haldinn hátíðlegur í Reykjavík árið 1886. Þar var um að ræða einkaframtak Þorláks Ó. Johnson, kaupmanns í Reykjavík. Þau hátíðarhöld festust þó ekki í sessi og lítið fór fyrir deginum næstu árin. Á fyrstu árum 20. aldar tóku stúdentahreyfingar og ungmennafélög sig saman til að heiðra minningu Jóns á 17. júní, en þær skemmtanir voru þó yfirleitt fábrotnar. Fyrstu heimildir um vegleg hátíðarhöld á 17. júní eru frá árinu 1907, en þá var fæðingardegs Jóns minnst með lúðraþyt og ræðuhöldum á Austurvelli í Reykjavík; samkoman taldi 4-6 þúsund manns, eða um helming allra bæjarbúa. Sambærilegar samkomur voru haldnar á Ísafirði og Akureyri.

Árið 1911, á aldarafmæli Jóns Sigurðssonar, náðu hátíðarhöld á 17. júní svo nýjum hæðum. Í Reykjavík hófst dagurinn með samkomu á hátíðarsal Lærða skólans, svo var haldið til hátíðarguðsþjónustu í Dómkirkjunni. Eftir hana hófst skrúðganga sem endaði í Hólavallakirkjugarði, þar var blómsveigur lagður á leiði Jóns. Auk þess voru ræðuhöld á Austurvelli, tónlistaratriði og aðrar uppákomur. Ákveðinn hápunktur hátíðarhaldanna var þegar Háskóli Íslands var settur í fyrsta sinn með vígsluathöfn í Alþingishúsinu. Þá var hinum bláhvíta fána, sem var tillaga Einars Benediktssonar ljóðskálds að þjóðfána Íslendinga, flaggað af svölum Alþingishússins. Þetta vakti mikla athygli enda var staða íslenska fánans eitt af heitustu málefnum líðandi stundar. Sama dag hélt Ungmennasamband Íslands fyrsta allsherjaríþróttamótið á Melavelli, þar sem síðar reis Þjóðarbókhlaða, og tóku alls 70 íþróttamenn þátt.

Fimleikahópur leikur listir sínar fyrir áhorfendur á Melavelli, 17. júní 1911.

Sambærileg dagskrá fór fram víða á Vestfjörðum, á Akureyri og hjá Vestur-Íslendingum í Winnipeg. Mikil stemning var á þessum samkomum og víða var farið að tala um 17. júní sem þjóðhátíðardag í kjölfarið, þó að hann hafi ekki orðið yfirlýstur þjóðhátíðardagur Íslendinga fyrr en eftir lýðveldisstofnun. Ætla má að sú stigmögnun sem átti sér stað í fullveldisbaráttu Íslendinga á öðrum áratugnum hafi átt þátt í því að festa daginn í sessi sem hátíðisdag. Jón Sigurðsson var á þeim tíma orðinn ákveðin táknmynd fyrir sjálfstæðisbaráttu Íslendinga, eins konar þjóðhetja.

Áður en 17. júní varð að þeirri hátíð sem hann er í dag gegndu aðrir dagar hlutverki þjóðhátíðardags hjá Íslendingum. Ber þar fyrst að nefna fullveldisdaginn 1. desember, en þá er þess minnst þegar Ísland varð fullvalda ríki árið 1918.

Á millistríðsárunum var víða haldið uppá 17. júní og 1. desember, dagarnir höfðu báðir stöðu þjóðhátíðardags þó að fullveldisdagurinn hafi yfirleitt haft meira vægi í huga almennings. Þá var sautjándanum fagnað með útiskemmtun, skrúðgöngu, íþróttum og leikjum, og íþróttahreyfingin sá að mestu um skipulag. Fullveldisdeginum var yfirleitt fagnað innandyra, ýmist með samkomum, dansleikjum og samsöng, eða inná heimilum. Þar sem fullveldisdagurinn er um vetur var erfitt að fagna honum utandyra. Það setti mark sitt á hátíðarhöldin, og hafði áhrif á þá þróun að sautjándinn hafði betur í baráttunni um þjóðhátíðardagstitilinn. Fyrsti desember var þó afar þýðingarmikill dagur fyrir Íslendinga á fyrstu áratugunum eftir fullveldistökuna, en á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar féll deyfð yfir öll hátíðarhöld.

Fullveldi Íslands fagnað 1. desember 1918.

Segja má að hátíðarhöld á fullveldisdaginn hafi aldrei náð sér almennilega á strik eftir seinni heimsstyrjöldina, ekki síst vegna þess að árið 1945 lýsti Ólafur Thors forsætisráðherra því yfir að 17. júní væri þjóðhátíðardagur Íslendinga. Sautjándinn átti þannig að gegna sama hlutverki og fullveldisdagurinn áður, og var sú ákvörðun bundin í lög árið 1971 þegar dagurinn var lögskipaður sem almennur frídagur. Eftir lýðveldisstofnun varð 1. desember að hátíðar- og baráttudegi íslenskra stúdenta.

Hátíðarhöld af því tagi sem hér um ræðir voru í upphafi 20. aldar að töluverðu leyti bundin við þéttbýli. Fólk á sveitabæjum hafði sjaldnast tök á því að hverfa frá vinnu sinni þar sem huga þurfti að búinu. Það var ekki fyrr en útvarpseign varð almenn á 4. áratugnum sem ábúendur urðu varir við hátíðarhöldin með hátíðardagskrá útvarpsins.

Áður en Ísland varð fullvalda ríki var stærsti áfanginn í sjálfstæðisbaráttunni þegar komið var á heimastjórn 1. febrúar 1904. Dagurinn var haldinn hátíðlegur í nokkur ár í kjölfarið, en féll svo í skuggann af fullveldisdeginum og 17. júní.

Þar sem spyrjandi nefnir sérstaklega konungsafmæli má nefna að á tímum yfirráða Dana héldu Íslendingar þau vissulega hátíðleg. Um aldamótin 1900 var yfirleitt flaggað og boðið til veislu, jafnvel skotið upp flugeldum. Þau hátíðarhöld voru þó ekki mjög alþýðleg og oftar en ekki bundin við einkasamsæti valda- og áhrifamanna. Mesti hátíðarbragurinn var yfir heimsóknum konungs til landsins. Þá var oft talað um þjóðhátíðir og mikið um dýrðir, hús máluð, flaggstangir reistar og kvæði ort til heiðurs konungi. Má þar nefna hátíðarhöldin 1874, á þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar, og konungskomuna 1907.

Öllu tjaldað til fyrir heimsókn Friðriks 8. í ágúst 1907. Myndin er tekin á Lækjartorgi þegar konungur ásamt fylgdarliði var í þann mund að hefja ferðalag sitt austur á Þingvelli.

Þjóðhátíðardagurinn hefur verið haldinn hátíðlegur í rúma öld og yfirbragð hátíðarhaldanna breyst nokkuð. Áður fyrr var mikil andakt yfir deginum, sögulegur bakgrunnur hans í hávegum hafður, skemmtun hin siðsamlegasta og áfengisneysla í lágmarki. Í seinni tíð hefur dagurinn snúist um skemmtidagskrá, leiktæki og gasblöðrur fyrir börnin, og tónleika og heldur meiri drykkju en fyrr á tíð, fyrir þau sem eldri eru. Þó er ekki vafi á að dagurinn er og hefur verið mikill hátíðisdagur í hugum Íslendinga.

Heimildir:

Myndir:

Höfundur þakkar Ragnheiði Kristjánsdóttur, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, fyrir yfirlestur.

Höfundur

Útgáfudagur

16.6.2021

Spyrjandi

Freyr Snorrason

Tilvísun

Nanna Kristjánsdóttir. „Hvenær var byrjað að halda 17. júní hátíðlegan? “ Vísindavefurinn, 16. júní 2021. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=81924.

Nanna Kristjánsdóttir. (2021, 16. júní). Hvenær var byrjað að halda 17. júní hátíðlegan? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=81924

Nanna Kristjánsdóttir. „Hvenær var byrjað að halda 17. júní hátíðlegan? “ Vísindavefurinn. 16. jún. 2021. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=81924>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvenær var byrjað að halda 17. júní hátíðlegan?
Í heild sinni hljóðaði spurningin svona:

Hvenær var byrjað að halda 17. júní hátíðlegan? Ef það er í fyrsta skipti 1944 á lýðveldishátíðinni var þá einhver fyrirrennari? 1. des er vissulega fullveldisdagurinn en var heimastjórninni fagnað á ákveðnum degi á hverju ári um tíma og ef við förum enn aftar í söguna; var einhverntímann haldið upp á konungsafmæli eða slíkt?

Þjóðhátíðardagur Íslendinga, 17. júní, er haldinn hátíðlegur ár hvert til þess að fagna lýðveldisstofnun hér á landi árið 1944. Fyrir þann tíma skipaði dagurinn þó einnig sess í hjörtum landsmanna, því að 17. júní var fæðingardagur Jóns Sigurðssonar (1811-1879), helstu sjálfstæðishetju Íslands. Dagurinn var valinn sem þjóðhátíðardagur til þess að heiðra framlag hans til baráttu Íslendinga fyrir sjálfstæði frá Dönum.

Nýstúdentar bera blómsveig á leiði Jóns Sigurðssonar, 17. júní 2020.

17. júní var í fyrsta skipti haldinn hátíðlegur í Reykjavík árið 1886. Þar var um að ræða einkaframtak Þorláks Ó. Johnson, kaupmanns í Reykjavík. Þau hátíðarhöld festust þó ekki í sessi og lítið fór fyrir deginum næstu árin. Á fyrstu árum 20. aldar tóku stúdentahreyfingar og ungmennafélög sig saman til að heiðra minningu Jóns á 17. júní, en þær skemmtanir voru þó yfirleitt fábrotnar. Fyrstu heimildir um vegleg hátíðarhöld á 17. júní eru frá árinu 1907, en þá var fæðingardegs Jóns minnst með lúðraþyt og ræðuhöldum á Austurvelli í Reykjavík; samkoman taldi 4-6 þúsund manns, eða um helming allra bæjarbúa. Sambærilegar samkomur voru haldnar á Ísafirði og Akureyri.

Árið 1911, á aldarafmæli Jóns Sigurðssonar, náðu hátíðarhöld á 17. júní svo nýjum hæðum. Í Reykjavík hófst dagurinn með samkomu á hátíðarsal Lærða skólans, svo var haldið til hátíðarguðsþjónustu í Dómkirkjunni. Eftir hana hófst skrúðganga sem endaði í Hólavallakirkjugarði, þar var blómsveigur lagður á leiði Jóns. Auk þess voru ræðuhöld á Austurvelli, tónlistaratriði og aðrar uppákomur. Ákveðinn hápunktur hátíðarhaldanna var þegar Háskóli Íslands var settur í fyrsta sinn með vígsluathöfn í Alþingishúsinu. Þá var hinum bláhvíta fána, sem var tillaga Einars Benediktssonar ljóðskálds að þjóðfána Íslendinga, flaggað af svölum Alþingishússins. Þetta vakti mikla athygli enda var staða íslenska fánans eitt af heitustu málefnum líðandi stundar. Sama dag hélt Ungmennasamband Íslands fyrsta allsherjaríþróttamótið á Melavelli, þar sem síðar reis Þjóðarbókhlaða, og tóku alls 70 íþróttamenn þátt.

Fimleikahópur leikur listir sínar fyrir áhorfendur á Melavelli, 17. júní 1911.

Sambærileg dagskrá fór fram víða á Vestfjörðum, á Akureyri og hjá Vestur-Íslendingum í Winnipeg. Mikil stemning var á þessum samkomum og víða var farið að tala um 17. júní sem þjóðhátíðardag í kjölfarið, þó að hann hafi ekki orðið yfirlýstur þjóðhátíðardagur Íslendinga fyrr en eftir lýðveldisstofnun. Ætla má að sú stigmögnun sem átti sér stað í fullveldisbaráttu Íslendinga á öðrum áratugnum hafi átt þátt í því að festa daginn í sessi sem hátíðisdag. Jón Sigurðsson var á þeim tíma orðinn ákveðin táknmynd fyrir sjálfstæðisbaráttu Íslendinga, eins konar þjóðhetja.

Áður en 17. júní varð að þeirri hátíð sem hann er í dag gegndu aðrir dagar hlutverki þjóðhátíðardags hjá Íslendingum. Ber þar fyrst að nefna fullveldisdaginn 1. desember, en þá er þess minnst þegar Ísland varð fullvalda ríki árið 1918.

Á millistríðsárunum var víða haldið uppá 17. júní og 1. desember, dagarnir höfðu báðir stöðu þjóðhátíðardags þó að fullveldisdagurinn hafi yfirleitt haft meira vægi í huga almennings. Þá var sautjándanum fagnað með útiskemmtun, skrúðgöngu, íþróttum og leikjum, og íþróttahreyfingin sá að mestu um skipulag. Fullveldisdeginum var yfirleitt fagnað innandyra, ýmist með samkomum, dansleikjum og samsöng, eða inná heimilum. Þar sem fullveldisdagurinn er um vetur var erfitt að fagna honum utandyra. Það setti mark sitt á hátíðarhöldin, og hafði áhrif á þá þróun að sautjándinn hafði betur í baráttunni um þjóðhátíðardagstitilinn. Fyrsti desember var þó afar þýðingarmikill dagur fyrir Íslendinga á fyrstu áratugunum eftir fullveldistökuna, en á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar féll deyfð yfir öll hátíðarhöld.

Fullveldi Íslands fagnað 1. desember 1918.

Segja má að hátíðarhöld á fullveldisdaginn hafi aldrei náð sér almennilega á strik eftir seinni heimsstyrjöldina, ekki síst vegna þess að árið 1945 lýsti Ólafur Thors forsætisráðherra því yfir að 17. júní væri þjóðhátíðardagur Íslendinga. Sautjándinn átti þannig að gegna sama hlutverki og fullveldisdagurinn áður, og var sú ákvörðun bundin í lög árið 1971 þegar dagurinn var lögskipaður sem almennur frídagur. Eftir lýðveldisstofnun varð 1. desember að hátíðar- og baráttudegi íslenskra stúdenta.

Hátíðarhöld af því tagi sem hér um ræðir voru í upphafi 20. aldar að töluverðu leyti bundin við þéttbýli. Fólk á sveitabæjum hafði sjaldnast tök á því að hverfa frá vinnu sinni þar sem huga þurfti að búinu. Það var ekki fyrr en útvarpseign varð almenn á 4. áratugnum sem ábúendur urðu varir við hátíðarhöldin með hátíðardagskrá útvarpsins.

Áður en Ísland varð fullvalda ríki var stærsti áfanginn í sjálfstæðisbaráttunni þegar komið var á heimastjórn 1. febrúar 1904. Dagurinn var haldinn hátíðlegur í nokkur ár í kjölfarið, en féll svo í skuggann af fullveldisdeginum og 17. júní.

Þar sem spyrjandi nefnir sérstaklega konungsafmæli má nefna að á tímum yfirráða Dana héldu Íslendingar þau vissulega hátíðleg. Um aldamótin 1900 var yfirleitt flaggað og boðið til veislu, jafnvel skotið upp flugeldum. Þau hátíðarhöld voru þó ekki mjög alþýðleg og oftar en ekki bundin við einkasamsæti valda- og áhrifamanna. Mesti hátíðarbragurinn var yfir heimsóknum konungs til landsins. Þá var oft talað um þjóðhátíðir og mikið um dýrðir, hús máluð, flaggstangir reistar og kvæði ort til heiðurs konungi. Má þar nefna hátíðarhöldin 1874, á þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar, og konungskomuna 1907.

Öllu tjaldað til fyrir heimsókn Friðriks 8. í ágúst 1907. Myndin er tekin á Lækjartorgi þegar konungur ásamt fylgdarliði var í þann mund að hefja ferðalag sitt austur á Þingvelli.

Þjóðhátíðardagurinn hefur verið haldinn hátíðlegur í rúma öld og yfirbragð hátíðarhaldanna breyst nokkuð. Áður fyrr var mikil andakt yfir deginum, sögulegur bakgrunnur hans í hávegum hafður, skemmtun hin siðsamlegasta og áfengisneysla í lágmarki. Í seinni tíð hefur dagurinn snúist um skemmtidagskrá, leiktæki og gasblöðrur fyrir börnin, og tónleika og heldur meiri drykkju en fyrr á tíð, fyrir þau sem eldri eru. Þó er ekki vafi á að dagurinn er og hefur verið mikill hátíðisdagur í hugum Íslendinga.

Heimildir:

Myndir:

Höfundur þakkar Ragnheiði Kristjánsdóttur, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, fyrir yfirlestur....