Sólin Sólin Rís 05:33 • sest 21:22 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 18:14 • Sest 05:41 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:11 • Síðdegis: 17:35 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:26 • Síðdegis: 23:41 í Reykjavík
Aldarafmæli sjálfstæðis og fullveldis Íslands

Af hverju vildu dönsk yfirvöld veita Íslendingum fullveldi?

Gunnar Þór Bjarnason

Stutta svarið hljómar svona: Danir höfðu blátt áfram engan áhuga lengur á því að ráða yfir Íslandi. Árið 1848 var einveldi afnumið í Danmörku og frá því að þingræði var innleitt árið 1901 höfðu frjálslyndir stjórnmálamenn setið að völdum, menn sem höfðu samúð með sjálfstæðiskröfum Íslendinga. Það getur aldrei þjónað hagsmunum smáþjóðar eins og Dana að undiroka aðra enn smærri þjóð, sagði Carl Theodor Zahle, forsætisráðherra Danmerkur, þegar sambandslögin voru rædd í danska þinginu í nóvember 1918: „Við hljótum að styðja eindregið rétt hverrar þjóðar að búa við frelsi og sjálfstæði.“

Lengra svarið er aðeins flóknara.

Frá því einveldi var afnumið í Danmörku um miðja 19. öld höfðu Íslendingar barist fyrir aukinni sjálfstjórn og öðlast hana í áföngum. Stærsta skrefið var stigið með heimastjórninni 1904 þegar framkvæmdavaldið fluttist inn í landið. Ráðherra Íslands varð íslenskur maður, búsettur í Reykjavík og bar ábyrgð gagnvart Alþingi. Þar með komst á þingræði. Íslendingar réðu nú sjálfir eigin málum án afskipta danskra stjórnvalda. Konungur greip þó tvívegis inn í ráðherraval á Íslandi á heimastjórnarárunum og hafði enn synjunarvald í íslenskum málum þótt hann hafi ekki beitt því nema einu sinni. Það var þegar hann í nóvember 1914 neitaði að staðfesta úrskurð um íslenskan fána (sem hann gerði svo hálfu ári seinna).

En Íslendingar voru enn danskir ríkisborgarar, Ísland partur af danska ríkinu. Danir fóru með utanríkismál Íslands og hæstiréttur í Danmörku hafði æðsta dómsvald í íslenskum málum. Eftir 1904 snerust deilur þjóðanna um að semja um samband landanna og þjóðréttarlega stöðu Íslands. Og það var þá en ekki fyrr sem krafan um fullveldi komst á dagskrá í íslenskum stjórnmálum. En hún stóð í Dönum og til voru þeir í Danmörku sem hæddust að fullveldisdraumum Íslendinga, sögðu að svo fámenn þjóð gæti aldrei rekið sjálfstætt ríki.

Sambandslaganefndin í Alþingisgarðinum sumarið 1918. Í nefndinni voru fjórir Íslendingar og fjórir Danir, auk fjögurra ritara. Myndina tók Sigríður Zoëga.

Eftir að heimsstyrjöldin fyrri skall á sumarið 1914 færðist íslenska þjóðin smátt og smátt nær sjálfstæði. Sambandið við Danmörku veiktist, viðskipti þjóðanna drógust saman og Íslendingar urðu að miklu leyti að treysta á sjálfa sig í samskiptum við umheiminn, til dæmis með því að gera viðskiptasamninga við Breta og bandalagsþjóðir þeirra. Einnig hófust viðskipti vestur um haf en fyrir 1914 voru engin bein viðskipti milli Íslands og Bandaríkjanna.

Danir fylgdu hlutleysi í styrjöldinni og höfðu að leiðarljósi að sogast ekki inn í ófriðinn. Danmörk lá á þýsku áhrifasvæði og Danir urðu að gæta þess að styggja ekki ráðamenn í Þýskalandi. Jafnframt urðu þeir að taka mið af hagsmunum Bretlands.

En Ísland lá á bresku valdsvæði. Bretar höfðu í krafti flotaveldis síns öll ráð íslensku þjóðarinnar í höndum sér og réðu í raun öllu um utanlandsverslunina á stríðsárunum. Danir höfðu áhyggjur af því hvernig breskt áhrifavald færðist út yfir Ísland, íslenska þjóðin virtist vera á fleygiferð í átt til sjálfstæðis og færast nær og nær Bretlandi án þess að Danir hefðu nokkuð um það að segja. Það kynni að grafa undan hlutleysi Danmerkur og kalla á hörð viðbrögð frá Þjóðverjum.

Þótt Danir hefðu ekki áhuga á pólitískum yfirráðum á Íslandi vildu þeir styrkja efnahagsleg og fjárhagsleg tengsl landanna tveggja. Í sambandslagaviðræðunum í Reykjavík sumarið 1918 lögðu þeir þess vegna áherslu á sameiginlegan ríkisborgararétt. Þannig gætu Danir óhindrað fjárfest og stundað atvinnu á Íslandi. Niðurstaðan var málamiðlun. Ríkisborgarrétturinn var aðgreindur, Íslendingar urðu íslenskir ríkiborgarar. En samkvæmt jafnréttisákvæði sambandslaganna (6. grein) skyldu Danir njóta sömu réttinda og Íslendingar á Íslandi – og gagnkvæmt. Það áttu ýmsir hér á landi erfitt með að sætta sig við.

Þann 2. desember 1918 var forsíða dagblaðsins Frétta undirlögð af tíðindum tengdum fullveldinu. Þar mátti meðal annars lesa skeyti frá Danakonungi þar sem hann færir Íslendingum hamingjuóskir.

Af þessum sökum vildu Danir semja við Íslendinga sumarið 1918. Þeir reyndust reiðubúnir til að viðurkenna fullveldi Íslands en vildu jafnframt viðhalda sambandi landanna. Og 1. desember 1918 varð Ísland fullvalda og sjálfstætt konungsríki. Kristján X. Danakonungur var þjóðhöfðingi Íslands og dönsk stjórnvöld fór áfram með utanríkismál landsins en í umboði Íslendinga.

Oft hefur því verið haldið fram að óskin um að endurheimta Suður-Jótland að stríði loknu hafi valdið því að Danir létu undan kröfum Íslendinga. Suður-Jótland kalla Danir norðurhluta Slésvíkur sem hafði, ásamt Holtsetalandi og Suður-Slésvík, komist undir stjórn Prússa 1864 og síðan runnið inn í Þýskaland við sameiningu þýsku ríkjanna nokkrum árum síðar. Meirihluti íbúanna í Norður-Slésvík var dönskumælandi. Með því að viðurkenna fullveldi Íslands hafi Danir talið sig standa betur að vígi við að krefjast endurskoðunar á landamærum Danmerkur og Þýskalands og leyfa íbúunum sjálfum að ákveða hvoru ríkinu þeir vildu tilheyra. Engar heimildir eru þó fyrir því að þetta hafi ráðið úrslitum um afstöðu Dana til Íslands í aðdraganda viðræðnanna við Íslendinga í júlímánuði 1918. Enda var þá enn allt í óvissu með úrslitin í heimsstyrjöldinni og ekki fyrirséð að Þjóðverjar myndu bíða ósigur í bráð.

Heimild og myndir:

Höfundur

Gunnar Þór Bjarnason

sagnfræðingur

Útgáfudagur

1.12.2018

Spyrjandi

Snorri Skúlason, Víkingur Ólfjörð Daníelsson, Sigríður Birta Skarphéðinsdóttir, Tinna Elísa Guðmundsdóttir

Tilvísun

Gunnar Þór Bjarnason. „Af hverju vildu dönsk yfirvöld veita Íslendingum fullveldi?“ Vísindavefurinn, 1. desember 2018. Sótt 21. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=73650.

Gunnar Þór Bjarnason. (2018, 1. desember). Af hverju vildu dönsk yfirvöld veita Íslendingum fullveldi? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=73650

Gunnar Þór Bjarnason. „Af hverju vildu dönsk yfirvöld veita Íslendingum fullveldi?“ Vísindavefurinn. 1. des. 2018. Vefsíða. 21. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=73650>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Af hverju vildu dönsk yfirvöld veita Íslendingum fullveldi?
Stutta svarið hljómar svona: Danir höfðu blátt áfram engan áhuga lengur á því að ráða yfir Íslandi. Árið 1848 var einveldi afnumið í Danmörku og frá því að þingræði var innleitt árið 1901 höfðu frjálslyndir stjórnmálamenn setið að völdum, menn sem höfðu samúð með sjálfstæðiskröfum Íslendinga. Það getur aldrei þjónað hagsmunum smáþjóðar eins og Dana að undiroka aðra enn smærri þjóð, sagði Carl Theodor Zahle, forsætisráðherra Danmerkur, þegar sambandslögin voru rædd í danska þinginu í nóvember 1918: „Við hljótum að styðja eindregið rétt hverrar þjóðar að búa við frelsi og sjálfstæði.“

Lengra svarið er aðeins flóknara.

Frá því einveldi var afnumið í Danmörku um miðja 19. öld höfðu Íslendingar barist fyrir aukinni sjálfstjórn og öðlast hana í áföngum. Stærsta skrefið var stigið með heimastjórninni 1904 þegar framkvæmdavaldið fluttist inn í landið. Ráðherra Íslands varð íslenskur maður, búsettur í Reykjavík og bar ábyrgð gagnvart Alþingi. Þar með komst á þingræði. Íslendingar réðu nú sjálfir eigin málum án afskipta danskra stjórnvalda. Konungur greip þó tvívegis inn í ráðherraval á Íslandi á heimastjórnarárunum og hafði enn synjunarvald í íslenskum málum þótt hann hafi ekki beitt því nema einu sinni. Það var þegar hann í nóvember 1914 neitaði að staðfesta úrskurð um íslenskan fána (sem hann gerði svo hálfu ári seinna).

En Íslendingar voru enn danskir ríkisborgarar, Ísland partur af danska ríkinu. Danir fóru með utanríkismál Íslands og hæstiréttur í Danmörku hafði æðsta dómsvald í íslenskum málum. Eftir 1904 snerust deilur þjóðanna um að semja um samband landanna og þjóðréttarlega stöðu Íslands. Og það var þá en ekki fyrr sem krafan um fullveldi komst á dagskrá í íslenskum stjórnmálum. En hún stóð í Dönum og til voru þeir í Danmörku sem hæddust að fullveldisdraumum Íslendinga, sögðu að svo fámenn þjóð gæti aldrei rekið sjálfstætt ríki.

Sambandslaganefndin í Alþingisgarðinum sumarið 1918. Í nefndinni voru fjórir Íslendingar og fjórir Danir, auk fjögurra ritara. Myndina tók Sigríður Zoëga.

Eftir að heimsstyrjöldin fyrri skall á sumarið 1914 færðist íslenska þjóðin smátt og smátt nær sjálfstæði. Sambandið við Danmörku veiktist, viðskipti þjóðanna drógust saman og Íslendingar urðu að miklu leyti að treysta á sjálfa sig í samskiptum við umheiminn, til dæmis með því að gera viðskiptasamninga við Breta og bandalagsþjóðir þeirra. Einnig hófust viðskipti vestur um haf en fyrir 1914 voru engin bein viðskipti milli Íslands og Bandaríkjanna.

Danir fylgdu hlutleysi í styrjöldinni og höfðu að leiðarljósi að sogast ekki inn í ófriðinn. Danmörk lá á þýsku áhrifasvæði og Danir urðu að gæta þess að styggja ekki ráðamenn í Þýskalandi. Jafnframt urðu þeir að taka mið af hagsmunum Bretlands.

En Ísland lá á bresku valdsvæði. Bretar höfðu í krafti flotaveldis síns öll ráð íslensku þjóðarinnar í höndum sér og réðu í raun öllu um utanlandsverslunina á stríðsárunum. Danir höfðu áhyggjur af því hvernig breskt áhrifavald færðist út yfir Ísland, íslenska þjóðin virtist vera á fleygiferð í átt til sjálfstæðis og færast nær og nær Bretlandi án þess að Danir hefðu nokkuð um það að segja. Það kynni að grafa undan hlutleysi Danmerkur og kalla á hörð viðbrögð frá Þjóðverjum.

Þótt Danir hefðu ekki áhuga á pólitískum yfirráðum á Íslandi vildu þeir styrkja efnahagsleg og fjárhagsleg tengsl landanna tveggja. Í sambandslagaviðræðunum í Reykjavík sumarið 1918 lögðu þeir þess vegna áherslu á sameiginlegan ríkisborgararétt. Þannig gætu Danir óhindrað fjárfest og stundað atvinnu á Íslandi. Niðurstaðan var málamiðlun. Ríkisborgarrétturinn var aðgreindur, Íslendingar urðu íslenskir ríkiborgarar. En samkvæmt jafnréttisákvæði sambandslaganna (6. grein) skyldu Danir njóta sömu réttinda og Íslendingar á Íslandi – og gagnkvæmt. Það áttu ýmsir hér á landi erfitt með að sætta sig við.

Þann 2. desember 1918 var forsíða dagblaðsins Frétta undirlögð af tíðindum tengdum fullveldinu. Þar mátti meðal annars lesa skeyti frá Danakonungi þar sem hann færir Íslendingum hamingjuóskir.

Af þessum sökum vildu Danir semja við Íslendinga sumarið 1918. Þeir reyndust reiðubúnir til að viðurkenna fullveldi Íslands en vildu jafnframt viðhalda sambandi landanna. Og 1. desember 1918 varð Ísland fullvalda og sjálfstætt konungsríki. Kristján X. Danakonungur var þjóðhöfðingi Íslands og dönsk stjórnvöld fór áfram með utanríkismál landsins en í umboði Íslendinga.

Oft hefur því verið haldið fram að óskin um að endurheimta Suður-Jótland að stríði loknu hafi valdið því að Danir létu undan kröfum Íslendinga. Suður-Jótland kalla Danir norðurhluta Slésvíkur sem hafði, ásamt Holtsetalandi og Suður-Slésvík, komist undir stjórn Prússa 1864 og síðan runnið inn í Þýskaland við sameiningu þýsku ríkjanna nokkrum árum síðar. Meirihluti íbúanna í Norður-Slésvík var dönskumælandi. Með því að viðurkenna fullveldi Íslands hafi Danir talið sig standa betur að vígi við að krefjast endurskoðunar á landamærum Danmerkur og Þýskalands og leyfa íbúunum sjálfum að ákveða hvoru ríkinu þeir vildu tilheyra. Engar heimildir eru þó fyrir því að þetta hafi ráðið úrslitum um afstöðu Dana til Íslands í aðdraganda viðræðnanna við Íslendinga í júlímánuði 1918. Enda var þá enn allt í óvissu með úrslitin í heimsstyrjöldinni og ekki fyrirséð að Þjóðverjar myndu bíða ósigur í bráð.

Heimild og myndir:

...